Æviágrip

Ættir og tengsl


Ég er fædd í Reykjavík, 5. september árið 1972. Móðir mín er Ólöf Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, fædd í Reykjavík, og faðir minn er Vigfús Árnason endurskoðandi, einnig fæddur í Reykjavík en alinn upp á Siglufirði. Ég á tvö yngri systkini, þau Árna Björn og Heiðbjörtu.


Eiginmaður minn er Hallbjörn Karlsson, verkfræðingur. Við búum í Fossvogi og eigum fjögur börn, Karl Ólaf 18 ára, Atla Frey 13 ára, Ólöfu Stefaníu 4 ára og Emblu 18 mánaða.


Menntun og reynsla


Ég er alin upp að mestu í smáíbúðahverfinu í Reykjavík eftir að hafa búið í Asparfelli og Bólstaðarhlíð. Ég var í leikskólanum Sólhlíð, gekk í Hvassaleitisskóla og útskrifaðist sem stúdent frá Verzlunarskóla Íslands 1992. Eftir það hélt ég til Palo Alto í Kaliforníu og vann þar sem au pair við að passa tvö börn og kynntist þar eiginmanni mínum sem var í námi. Þegar heim kom lærði ég líffræði í eitt ár en þá ætlaði ég mér að verða næringarfræðingur (sem var námsleið sem ekki var til við HÍ á þessum tíma). Ég fann fljótt að ýmislegt í líffræðinni, svo sem vinna með formalín o.fl. átti ekki við mig. Ég hef þó alltaf búið að góðum grunnhugmyndum um lífríkið eftir þetta skemmtilega ár.


Í kjölfarið hóf ég nám í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ og lauk B.A.-prófi 1998. Eitt árið í því námi, árið 1997, var ég skiptinemi í sálarfræði við University of Washington í Seattle. Lokaritgerðin mín fjallaði um huga ungbarna og hét ,,Children’s Theory of Belief“. Í kjölfarið fór ég í meistaranám við sama skóla í Seattle og lauk M.Ed.-prófi í námssálarfræði við University of Washington 1999. Rannsóknin mín fjallaði um áhugahvöt og ritgerðin hét ,,Motivation and Help-seeking in Adolescence“. Ég var að auki aðstoðarmaður prófessors, vann við rannsóknir hans á líkamsímynd unglinga og skrifaði með honum grein sem heitir ,,Body Image and the Appearance Culture among Adolescent Girls and Boys“. Hún birtist í Journal of Adolescent Research 2004.


Störf og stjórnmál


Áður en ég tók í fyrsta sinn þátt í prófkjöri árið 2005, og lenti í 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, starfaði ég sem ráðgjafi menntamálaráðherra í skólamálum. Það var alveg einstaklega lærdómsríkt starf. Þar á undan, frá 2000-2003, starfaði ég í Háskólanum í Reykjavík og hélt utan um verkefnið AUÐUR í krafti kvenna sem skilaði af sér frábærum fyrirtækjum í eigu kvenna og fjölmörgum tengslanetum og lærdómi til kvenna á ólíkum aldri. Í HR kenndi ég einnig aðferðafræði og ýmis námskeið í Stjórnendaskólanum. Samhliða þessu kenndi ég hluta af námskeiði um áhættuhegðun unglinga við Félagsvísindadeild HÍ.


Í Seattle vann ég við tvær stórar rannsóknir sem aðstoðarmaður prófessors. Þar kynntist ég skólakerfinu frá sjónarhorni rannsakandans en við lögðum mjög umfangsmikla könnun fyrir 1600 unglinga í 8 skólum í mjög ólíkum hverfum Seattle og nágrennis.


Áður hafði ég, utan hefðbundinna starfa við barnagæslu, hafið ferilinn í unglingavinnunni á Miklatúni. Sumarið þar á eftir starfaði ég í Gróðrastöðinni Mörk í Fossvogi og var þar í sjö sumur.


Trúnaðarstörf

 

Borgarfulltúi Sjálfstæðisflokksins (2006- )

Varamaður í borgarráði (2010- )

Í skóla - og frístundaráði (2010 - )

Í menningar- og ferðamálaráði (2006- )

Í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins (2005-2009)

Formaður Leikskólaráðs (2006-2010), með hléi

Formaður umhverfis- og samgönguráðs (2008-2009)

Í umhverfis- og samgönguráði (2006-2010)

Formaður menningar- og ferðamálaráðs (2008)

Í menningar- og ferðamálaráði (2004-2006)

Í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (2003-2006)

Háskólaráð Háskóla Íslands (2008-2010)

Háskólaráð Kennaraháskóla Íslands (2005-2008)

Formaður stjórnar Námsgagnasjóðs (2007-2010)

Stjórnarmaður í Lánasjóði sveitarfélaga (2009-2011)

Formaður Hverfaráði Háaleitis, Bústaða - og Fossvogshverfis (2006-2011)

Í stjórn Sorpu (2002-2004)

Í stjórn Strætó bs. (2006-2008)

Í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (2004-2006)

Varaformaður SUS (2003-2005)

Formaður Evrópuverkefnisins Ungt fólk í Evrópu (2004-2006)

Varaformaður Nýsköpunarsjóðs námsmanna (2002-2006)

 

 

Annað


Ég sat í ritstjórn og tók þátt í skrifum á vefritinu Tíkinni, www.tikin.is, og hef skrifað fjölmargar greinar (sem flestar er hægt að skoða hér á vefnum) í blöð, tímarit og á ýmsar vefsíður. Ég hef bæði kennt og setið ýmis námskeið í Stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík, hjá Endurmenntun HÍ og einnig sat ég eitt námskeið við INSEAD háskólann í Frakklandi þegar maðurinn minn var þar við nám.