Áherslur

Í starfi mínu sem borgarfulltrúi síðustu átta ár, hef ég komið að mörgum og fjölbreyttum verkefnum. Í störfum mínum hef ég einkum lagt áherslu á mikilvægi þess að efla grunnskólakerfið og auka gegnsæi og aðhald í rekstri borgarinnar.


Helstu barráttumálin mín eru að forgangsraða í fjármálum borgarinnar og að breyta skólakerfinu. Ég vil setja fram skýra langtímastefnu um helstu málefni borgarinnar. Stefna borgarinnar getur ekki verið bara "alls konar", hún þarf að vera skýr og raunsæ. Helsta verkefnið í dag er að bæta skólakerfið. Ef við gerum það ekki og flatur niðurskurður verður áfram staðreynd, gætum við endað með skólakerfið í sömu stöðu og heilbrigðiskerfið. Það er nauðsynlegt að auka gegnsæi og aðhald í fjármálum borgarinnar enda er skuldasöfnun A-hluta óviðunandi.

Ég vil lifandi og heilbrigða borg sem er full af valkostum í húsnæðismálum, samgöngukostum og skólamálum. Jafnframt vil ég setja málefni eldri borgara í forgrunn en sá málaflokkur mun verða stærri þáttur í rekstri borgarinnar næstu árin.

Bæta þarf skólakerfið

Skólakerfið, grundvöllur jafnra tækifæra og framþróunar, er á viðkvæmum stað. Kennarar eru að undirbúa aðgerðir, bæði í grunn- og framhaldsskóla og ég held að launamál kennara verði eitt erfiðasta verkefni stjórnmálamanna í vetur. Ég er ekki ein um það að vilja sjá kennara fá hærri laun. Það verður hins vegar aðeins gert með breytingu á kerfum og þjóðarsátt.

Ég vil að foreldrar sjái í auknum mæli árangur nemandans og skólans þannig að gegnsæi ríki.  Með því sköpum við miklu sterkari tengsl heimilis og skóla. Til að krafa um betri árangur sé til staðar þurfa að liggja fyrir upplýsingar og aukið gegnsæi.  Foreldrar eiga að geta nálgast allar upplýsingar um skóla barnsins og alla mælikvarða á einfaldan hátt á heimasíðu borgarinnar. Við getum ekki lagfært kerfið ef við mælum ekki og við getum ekki réttlætt viðbótarfé til skóla í vandræðum ef mælingar eru ekki opinberar.

Samfélagið okkar á það til að gagnrýna grunnskólann og segja að hann eigi að kenna þetta og hitt. Við segjum að þar eigi að kenna fjármálalæsi, umhverfisfræðslu, lýðheilsu og ýmislegt annað. Við verðum að líta í eigin barm og spyrja okkur hvort þetta sé allt í alvöru verkefni grunnskólans? Þurfum við ekki að bakka aðeins og tryggja að öll börn verði vel læs, skrifandi og geti reiknað svo þau geti örugglega lært allt hitt. Lestrarkunnáttu barna hefur hnignað og nú er svo búið að 16% barna getur ekki lesið sér til gagns 15 ára, þar af næstum 25% drengja. Með því að setja okkur þetta markmið,  fer strax af stað starf til að tryggja að öll úrræði séu til staðar fyrir þá nemendur sem eiga við málþroska og lestararerfiðleika að stríða. Þegar öll börn eru læs verður kennsla í öðrum fögum mun markvissari. Setjum markmið um að öll börn séu læs 10 ára.

Ég vil að við léttum verulega á verkefnaálagi til kennara, aukum upplýsingaflæði til foreldra um árangur barna, skóla og jafnvel kennara og breytum stjórnskipulagi þannig að skólastjórinn fái að reka skólann eins og fyrirtæki. Ég treysti kennurum. Þeir vinna frábæra vinnu alla daga og gera sitt allra besta. Skipulagið er til trafala og kennarar geta ekki fullnýtt sýna möguleika. Við þurfum að skapa rými og tíma og frelsi fyrir þá og skólastjórnendur til að skapa sér raunverulega sérstöðu og metnað.

Fjármál borgarinnar

Borgin glímir enn við talsverðan rekstrarvanda í grunnþjónustu. Skatttekjur eru áætlaðar á þessu ári um 62 milljarðar en útgjöld til málaflokka eru rúmir 70 milljarðar. Þetta þýðir mínus upp á 8 milljarða. Á næsta fjárhagsári er meiri halli áætlaður. Borgin eyðir langt um efni fram.  Ég vil breyta þessu. Við eigum ekki að eyða umfram efni. Stefnuleysi meirihlutans endurspeglast einmitt í endalausum flötum niðurskurði þegar löngu er komið að því að ræða um hvaða verkefni þarf að setja ofar öðrum.  Ef við ætlum að takast á við að bæta skólakerfið og á sama tíma taka við fleiri krefjandi verkefnum í öldrunarmálum og félagsþjónustu verður eitthvað að láta undan. Það verður að skoða hvort miðlæg þjónusta sé ekki orðin of umfangsmikil, hvort ekki sé hægt að selja eignir því viðhald er orðið þungbært og við verðum að skoða alvarlega hvort félagslega kerfið þurfi aukið aðhald.

Ég hef lagt mikla áherslu á aukna kostnaðarvitund í borginni. Kostnaðarvitund stjórnmálamanna, starfsmanna og borgarbúa sjálfra er mikilvæg af þeirri einföldu ástæðu að einungis er hægt að forgangsraða þegar ljóst er hvað hlutirnir kosta. Að auki skiptir kostnaðarvitund máli svo virðing sé borin fyrir þjónustu borgarinnar. Ég kom því í framkvæmd í borgarstjórn að reiknað var út hvað leikskólapláss kostar á hvert barn. Það kemur líklega mörgum á óvart að hvert leikskólapláss kostar samtals um 110 -160.000 kr. á mánuði. Skattgreiðendur Reykjavíkurborgar greiða hins vegar að jafnaði niður 87-95% af kostnaði leikskólavistunar hvers barns en foreldrar greiða afganginn. Hlutur foreldra í heildarkostnaði leikskólabarns er því ekki nema 5-13% af raunkostnaði.

 


Sambærilegri kostnaðargreiningu þarf að halda áfram á fleiri sviðum. Borgarstarfsmenn þurfa að vita virði þeirrar þjónustu sem þeir veita og borgarbúar þurfa að geta áttað sig á því hversu hátt hlutfall þeir greiða beint úr eigin vasa og hversu mikið er greitt með skattpeningum. Góð dæmi um þetta eru sundstaðir borgarinnar og listasöfn. Þessar vinsælu en ólíku afþreyingar eru greiddar niður með skattfé en aðeins fáir gera sér grein fyrir hversu mikið. Liður í aukinni kostnaðarvitund er að gefa borgarbúum aukið val um það hvernig þeir nýta greiðslur borgarinnar. Lauslega áætlað eru niðurgreiðslur skattgreiðenda til sundlauga 75% og listasafna 80%.

Við sjáum æ fleiri ferðamenn í Reykjavík. Þeir nýta þjónustu borgarinnar líkt og borgarbúar sem eru þegar búnir að greiða skatt fyrir. Þarna getum við aukið tekjur borgarinnar. Við getum skoðað þann möguleika að innleiða íbúakort. Útfærslan og innleiðing á slíku korti þarf að vinnast með ríkinu, ferðaþjónustunni og öðrum sveitafélögum.

Húsnæðis- og leiguverð hefur hækkað mikið í borginni. Sú hækkun skýrist að hluta til af leigu húsnæðis til ferðamanna og vegna aukinnar fjárfestingar almennt á húsnæði. Það þarf vissulega að efla eftirlit en líka losa kröfur. Ég vil vinna að því að lækka fasteignaskatta í Reykjavík, í fyrstu á eldri borgara og til lengri tíma almenna lækkun fyrir alla borgarbúa.


Skipulagsmál

Í skipulagsmálum stend ég fyrir valkosti og grænar áherslur. Ég vil að fólk hafi val. Ég keyri bíl alla daga, ég er með fjögur börn sem þarf að koma á mismunandi staði nokkrum sinnum í viku. Mér finnst gaman að keyra en mér finnst líka gaman að hjóla. Það er ekki langt síðan að það var ekki raunverulegur valkostur að fara á milli staða öðruvísi en í bíl. Græn skref sem sett voru í borgarstjórn af Sjálfstæðismönnum og Framsóknarmönnum 2006 höfðu mjög mikil áhrif á þá þróun sem nú er.

Það hefur átt sér stað jákvæð viðhorfsbreyting hjá borgarbúum í samgöngumálum. Fólk hjólar meira og notar strætó. Hjólastígar eru nú orðnir samfelldir og þras um rekstur Strætó heyrir sögunni til. Þetta er jákvæð þróun en ég hef áhyggjur af loftlagsmálum á þessari hreinu eyju okkar. Það er óásættanlegt að börn þurfi að vera inni dögum saman í leikskólum vegna svifryks.

Ég tel það ekki raunhæft að tala um flutning núna á flugvellinum en ég er sammála rökum um að hann fari einn daginn. Ég held að margir átti sig á því að það kemur sá dagur að rétti valkosturinn við Vatnsmýrarsvæðið verður valinn og flugvöllur verður byggður annars staðar. Það er hins vegar óásættanlegt að setja í aðalskipulag að brautir fari 2016 þegar í raun liggur enginn valkostur fyrir. Ég fagna því að sátt náðist milli ríki og borgar í þessu mikilvæga máli og snertir alla landsmenn. Á meðan getum við fært uppbyggingu t.d. Elliðárvogsins framar í forgangsröð og klárað uppbyggingu Úlfarsárdals í heildstætt hverfi með íþróttamannvirkjum Fram.


Ný vinnubrögð


Ég vil sjá stjórnmálin breytast áfram í átt að auknu samstarfi til að tryggja sem besta niðurstöðu. Ágreiningur er og verður á milli stjórnmálaflokka en ef öll sjónarmið eru virt, er líklegt að verkefnin og ákvarðanirnar verði almennt betri. Kjósendur og íbúar bera ekki virðingu fyrir vinnubrögðum sem einkennast af átökum. Ég er mjög ánægð með þau breyttu vinnubrögð sem Hanna Birna Kristjánsdóttir fyrrverandi borgarstjóri lagði grunninn að í borgarstjórn. Þau vinnubrögð snúast ekki síst um að gengið sé til verks með samstarf og samvinnu að leiðarljósi í því skyni að ná sem bestum árangri fyrir borgarbúa. Felur þetta í sér mun eðlilegri samskipti kjörinna fulltrúa og gagnlegar umræður um hugmyndir áður en þeim er hrint í framkvæmd eða ákveðið hvað um þær verður.