Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Fyrir ári síðan stóð ég við eldavélina á gamlársdag og hlustaði á uppgjör ársins frá ýmsum álitsgjöfum.   Ég og félagar mínir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna lágum þá undir harðri gagnrýni fyrir að hafa staðið á sannfæringu okkar og komið í veg fyrir hið títtnefnda REI mál.   Við vorum kallaðir skúrkar, börn í pólitík og ýmsum verri nöfnum af álitsgjöfum í sjónvarpi og útvarpi allan daginn.    Í dag er flestum ljóst að þessi gagnrýni var óverðskulduð - að mestu eða öllu leyti.

 
Í stuttu máli sagt var sá gamlársdagur afar erfiður.  Synir mínir og eiginmaður og nærfjölskyldan öll fundu fyrir þessu og skynjuðu hvað mér leið illa.   Ég efast ekki um annað en að aðrir borgarfulltrúar hafi átt mjög erfiðan dag líka.
 
Nú er leikurinn að hefjast aftur og sl. tvö kvöld hafa birst ummæli um hina og þessa einstaklinga í samfélaginu.  Ég skil reiðina og ég skil líka fjölmiðlamenn sem eru að reyna að grípa tilfinningu fólks fyrir árinu.  En við verðum að muna að hvert tilfelli er einstakt og í hverju máli eru tvær hliðar og í kringum hvern einstakling eru heilar fjölskyldur.
 
Ég vona að álitsgjafar, fréttamenn og bloggarar hafi þetta í huga í dag í uppgjörum sínum við þetta erfiða ár 2008.