Frétt úr Morgunblaðinu - viðvera leikskólabarna

Kannar viðveru á leikskólum
Börn dvelja að meðaltali í 7,4 klukkustundir í leikskólanum en foreldrar greiða fyrir 8,3

SAMKVÆMT könnun leikskólasviðs Reykjavíkur eru börn að meðaltali 7,4 klukkustundir á dag á leikskólum en foreldrar greiða á hinn bóginn að meðaltali fyrir 8,3 klukkustundir. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs, segir að skýringin á þessum mun sé væntanlega sú að foreldrar vilji hafa vaðið fyrir neðan sig. Þá sé ekki endilega víst að börn séu lengur í dagvistun nú en fyrir um 15?20 árum. Í samtali við Morgunblaðið sagði Þorbjörg að kveikjan að könnuninni hefði verið greinaflokkur í Morgunblaðinu þar sem spurt var hvort Ísland væri barnvænt samfélag en þar hefði verið rætt um að margir foreldrar væru of uppteknir og hefðu ekki nægan tíma fyrir börnin sín. Einn viðmælandi blaðsins í þessum greinaflokki vitnaði m.a. í tölur frá Hagstofu Íslands um að 71% barna dveldi í átta klukkustundir eða lengur á leikskóla á dag. Þorbjörg sagði að sér hefði fundist undarlegt ef það væri rétt að börn væru svo lengi í leikskóla því henni virtist sem foreldrar reyndu sitt besta til að sækja börnin sem fyrst á leikskóla. Í kjölfarið hefði hún látið gera könnun á raunverulegum dvalartíma leikskólabarna en þær upplýsingar er að finna í viðveruskrám skólanna. Könnunin náði til 11 leikskóla, af ýmsum stærðum, í öllum hverfum borgarinnar og alls til um 10% reykvískra leikskólabarna. Niðurstaðan var sú að á árunum 2001?2005 var dvalartíminn að meðaltali 7,4 klukkustundir. Foreldrar greiddu á hinn bóginn að meðaltali fyrir 8,3 klukkustundir. Þorbjörg telur að skýringin á þessum mun sé einkum tvíþætt, annars vegar geti verið að foreldrar þurfi endrum og sinnum að láta börnin sín vera lengur í skólanum en venjulega, hins vegar að foreldrar vilji hafa vaðið fyrir neðan sig ef þeim skyldi seinka, frekar en fara yfir tímann sem þeir hafa greitt fyrir en slíku mæti ekki velvild.

Voru áður á tveimur stöðum
Þorbjörg sagði að upplýsingar um raunverulegan dvalartíma væru mikilvægartil að hægt væri að ræða um dvöl barna á leikskólum á réttum forsendum. Hún bætti við að gjarnan væri talað um að stökkbreyting hefði orðið í þessum málum á undanförnum árum og að nú væru börnin miklu lengur í dagvistun en áður. Þorbjörg telur ekki víst að breytingin sé í raun svo mikil því á meðan leikskólavist hafi aðeins verið í boði hálfan daginn hafi börnin gjarnan verið í dagvistun á tveimur stöðum. Þá mætti heldur ekki gleyma því að leikskólar væru öflugar og faglegar menntastofnanir þar sem vel væri hugsað um börnin. Ennfremur yrði að nefna hlutverk leikskóla í jafnréttismálum en enn væri það þannig að konur drægju frekar úr vinnu en karlar til að annast börnin og gæfu frekar eftir í sínum störfum. Þetta væri ekki endilega neikvætt en það yrði á hinn bóginn að gefa konum kost á vali og þær ættu ekki að fá samviskubit þó þær yrðu að fá vistun fyrir börnin sín í átta eða átta og hálfan tíma. Hvergi væri atvinnuþátttaka kvenna meiri en hér á landi og það gengi ekki að tala leikskólana niður en hvetja um leið konur til að sækjast eftir meiri ábyrgð og vinnu.