Frítt í Strætó verkefnið hefur göngu sína

Ég bendi áhugasömum um samgöngumál á afrakstur sumarsins hjá okkur í borgarstjórn.   Um er að ræða eitt af grænu skrefunum sem er tilraunaverkefni með að gefa framhaldsskólanemendum og háskólanemendum frítt í strætó í eitt skólaár.

Verkefnið er vel undirbúið þó ég segi sjálf frá og ég vona að fleiri taki eftir því að Strætó er alvöru valkostur.  19. ágúst fer vetrarleiðakerfið í gang og þjónar nú þétt þeim leiðum sem mikið eru notaðar og minna þeim sem eru fámennari.   Þetta er eðlileg þróun fremur en að vera með sömu tíðni á öllum vögnum enda er það alþekkt í nágrannalöndum okkar að vagnar eru með þétta tímatöflu á annatímum og á helstu leiðum en aðrar eru með allt að klukkutíma tímatöflu.

Heimasíðan betri í Strætó er komin í loftið og þar verður að finna helstu upplýsingar um verkefnið en skólarnir hefjast um 20. ágúst og þá geta nemendur náð sér í kortið.