Hirðuleysi í rekstri

Yfirstandandi kjörtímabil ætlar að reynast Reykvíkingum afar dýrt. Fjármálastjórn Besta flokksins og Samfylkingar er slök, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Þrátt fyrir það hefur Besti flokkurinn sannfært stóran hluta borgarbúa um að fjármál borgarinnar séu traust. Og hugsanlega sjálfan sig í leiðinni. Þeir virðast farnir að trúa eigin leikriti sé tekið mið af tali Jóns Gnarr um að fjármálastjórn Besta „einkennist af ábyrgð, aðhaldi og stefnufestu“. Þessir frasar reynast hins vegar innantómir þegar tölurnar eru skoðaðar.

Sautján milljarðar. Sú er hækkunin á vaxtaberandi skuldum Reykjavíkurborgar á fyrsta kjörtímabili Besta flokksins. Þegar þeir tóku við skuldaði A-hluti borgarinnar 5 milljarða. Áætlunin sem var rædd í borgarstjórn í gær gerir ráð fyrir að vaxtaberandi skuldir borgarinnar í lok næsta árs verði 22 milljarðar. Hér er átt við vaxtaberandi skuldir að frádregnu reiðufé borgarinnar. Viðbótarskuldir á kjörtímabilinu hljóða upp á 350 þúsund krónur á hverja einustu fjölskyldu í Reykjavík. Þetta er útfært með því að ganga stöðugt á reiðufé borgarinnar ásamt því að bæta á skuldafjallið.

Mínus tíu milljarðar. Þetta er áætlun meirihlutans í borginni um rekstur grunnþjónustu borgarinnar á næsta ári. Það á að sækja sjötíu milljarða í skatttekjur frá borgarbúum og það á að eyða áttatíu milljörðum til málaflokka borgarinnar. Hér er eytt um efni fram svo um munar. Reksturinn hefur verið í ólagi frá hruni, en nú er svo komið að þeim sem til þekkja líst orðið ekkert á blikuna. Aldrei í sögu Reykjavíkurborgar hefur verið lögð fram áætlun með þvílíku gapi milli skatttekna og útgjalda til grunnþjónustu. Hér hefði þurft að setja í gang yfirgripsmikla vinnu til að stemma stigu við þessari óheillaþróun. Hagræðing er hins vegar orð sem virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá Besta flokknum og Samfylkingu.

Stefna um stefnuleysi er grundvallarvandamál fjármálavanda borgarinnar. Stefnuleysið felur í sér hirðuleysi í fjármálum sem skilar sér í hallarekstri Aðalsjóðs og mikilli skuldaaukningu. Samtímis óheillaþróuninni sem talin er upp hér að ofan hafa skattar og álögur á borgarbúa hækkað jafnt og þétt. Meðalfjölskylda í Reykjavík mun á næsta ári greiða rúmlega 440 þúsund krónum meira í skatta og gjöld á hverju ári til Reykjavíkurborgar en hún gerði í upphafi yfirstandandi kjörtímabils. Útsvar er fullnýtt og gjaldskrár hækka umfram spár um verðlagshækkanir.

Árferðið sem við búum við í dag er ekki auðvelt. Þetta vita allir sem búa í Reykjavík. Fjármálastjórn Reykjavíkur er því ekki auðvelt verkefni. Það fellur greinilega ekki vel að því að spranga um í Star Wars búningi eða slíta vinasambandi við Moskvuborg. Verkefnið krefst einbeitingar og mikillar vinnu allra sem koma að rekstri borgarinnar. Þetta vita æðstu embættismenn borgarinnar. Þeir vita þetta mæta vel. Það er bara ekki þeirra verkefni að sjá um að rekstur borgarinnar sé í lagi. Það verkefni er í höndum borgarstjóra og meirihluta borgarstjórnar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. október 2013