Minnka þarf ábyrgð Reykjavíkur

Eitt mikilvægasta verkefni Reykjavíkurborgar á næstu árum verður að draga úr þeirri áhættu sem borgin ber vegna reksturs Orkuveitu Reykjavíkur. Í dag bera Reykvíkingar einfalda ábyrgð á skuldum fyrirtækisins. Það þýðir að við sem búum í Reykjavík berum ábyrgð á yfir 90% skulda OR þar sem borgin á yfir 90% í OR. Og þar sem skuldirnar eru ríflega 200 milljarðar er eins gott að rekstur félagsins batni og standi á endanum undir skuldafjallinu.

Rekstur Orkuveitunnar hefur batnað undanfarin ár og skuldir sem hlutfall af tekjum og rekstrarhagnaði hafa lækkað, fyrst og fremst vegna gjaldskrárhækkana og fækkunar viðhaldsverkefna. Ég hef verið sammála flestum þeim ákvörðunum sem þurfti til að ná þessu fram. Annað hefur ekki gengið vel eins og eignasala sem var fyrirhuguð til að grynnka á skuldunum. Aðgerð eins og sala Perlunnar frá Orkuveitunni til Reykjavíkurborgar sjálfrar skilar að sjálfsögðu ekki neinu. Hvorki höfuðstöðvar OR né Magma-bréfið svokallaða hafa raunverulega verið seld.

Einföld ábyrgð áhættusöm

Í framtíðinni mun eitt stærsta verkefnið felast í því að borga niður skuldir og bæta reksturinn enn frekar. Nauðsynlegt verður að tryggja að frekari fjármögnun Orkuveitunnar fari fram án ábyrgðar borgarbúa. Þetta þýðir að ný verkefni sem ráðist verður í verði fjármögnuð í dótturfyrirtækjum þar sem notast verður við verkefnafjármögnun í stað þess að lánskjör Orkuveitunnar séu óeðlilega lág vegna ábyrgðar borgarbúa. Lánskjörin munu þá ráðast beint af gæðum þeirra verkefna sem fyrirtækið ræðst í en ekki getu borgarbúa til að borga brúsann ef illa fer. Þetta mun ekki gerast í einu vetfangi heldur verður nauðsynlegt að horfa til slíks fyrirkomulags eftir því sem tækifæri gefast. Að auki þarf að tryggja að tekjur séu ekki eins tengdar þáttum sem við höfum ekki stjórn á eins og nú er. Til dæmis er umtalsverður hluti tekna OR tengdur álverði. Fari svo að álverð lækki verulega gæti það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það er því mikilvægt að þessi áhættuþáttur minnki þegar fram líða stundir.

Skipan stjórnar og ný tækifæri

Af reynslu síðustu ára væri auk þess reynandi að skipa fólk í stjórn Orkuveitunnar ótengt stjórnmálum. Slíkt fyrirkomulag er sýnd veiði en ekki gefin þar sem það eru jú stjórnmálamenn sem á endanum bera ábyrgð á Orkuveitunni. Að auki hafa ýmsir flokksgæðingar ráðist í slík störf þegar þetta hefur verið reynt sem er jafnvel enn verra fyrirkomulag en að stjórnmálamennirnir sjái um þetta sjálfir. Það þyrfti því að hanna ferlið þannig að reynsla og kunnátta ráði för fremur en pólitísk tengsl.

Sala Gagnaveitunnar er verkefni sem þarf að ráðast í sem fyrst. Uppbygging hennar hefur kostað ógrynni fjár og nauðsynlegt að láta á það reyna hvort eitthvað af því fjármagni náist til baka með sölu þeirrar eignar. Sala á rafmagni fyrir rafmagnsbíla er að auki tækifæri sem gæti komið Orkuveitunni vel á næstu árum. Orkuveitan gæti þannig nýtt núverandi kerfi og fjárfestingar til sölu á meira rafmagni. Þessi möguleiki hefði verið óhugsandi fyrir örfáum misserum. Þróunin sem hefur átt sér stað í framleiðslu rafmagnsbíla breytir þessu hins vegar hratt. Að auki er bílaflotinn okkar orðinn 13 ára gamall. Hann mun endurnýjast með tímanum sem gæti skapað ágætis tækifæri fyrir Orkuveituna til frekari tekjuöflunar.

Staða Orkuveitunnar er enn varhugaverð. Það verður mikilvægt á næstu misserum að vinna að frekari hagræðingu, grynnka á skuldum fyrirtækisins og vinna markvisst að því að minnka ábyrgð borgarbúa á skuldum fyrirtækisins. Takist það geta borgarbúar loks sofið rólegir vegna vandamála Orkuveitunnar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. október 2013