umræðu Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar sem felur í sér markmið vegna breytinga í fjármála- og atvinnuumhverfi.…" />

Öryggi fyrir fjölskyldur

Í borgarstjórn er nú til umræðu Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar sem felur í sér markmið vegna breytinga í fjármála- og atvinnuumhverfi. Starfshópur borgarstjórnar sem var skipaður um þetta verkefni hefur unnið mikla vinnu undanfarna vikur undir styrkri stjórn Óskars Bergssonar.

Sviðsstjórar, starfsmenn ráðhússins og fjármálastjórar sviða hafa lagt ómælda og óeigingjarna vinnu fram í þessu verkefni sem krefst þess að allir sem einn sinni meginmarkmiðum hópsins, að takast á við breytingar í fjármála- og atvinnuumhverfi til að tryggja að borgarbúar fái grunnþjónustu.

Og það er einmitt markmiðið, að ábyrg fjármálastjórn, stöðugleiki í rekstri og öflug grunnþjónusta fyrir íbúa verði staðreynd í gegnum þann ólgusjó sem við erum í nú.

Nú finna landsmenn allir fyrir eðlisbreytingu á efnahagsumhverfinu. Því fylgir mikið óöryggi og óvissa og þúsundir spurninga eru á lofti vegna aðgerða ríkisvaldsins síðustu daga. Einstaklingar hugsa fyrst og síðast um stöðu sína, heimilisins og sinna nánustu. Efst í huga fólks eru eigin innistæður og skuldir í bönkum og sjóðum. Næst leitar hugurinn til þeirra sem standa manni næst og eru nýbúnir að fjárfesta í dýru húsnæði, jafnvel með erlendri lántöku. Enn frekar er fólki hugsað til þeirra sem hafa misst starf og stöðu og þurfa að endurskipuleggja líf sitt frá grunni. Hugar okkar allra eru hjá þeim sem sjá ekki enn fyrir horn.

Í þessum glundroða er gott að vita að sveitarfélag eins og Reykjavíkurborg ætlar að tryggja að grunnþjónusta sé veitt, að leikskólarnir haldi áfram uppi þeirri gæðaþjónustu sem þar er, að grunnskólarnir blómstri og að félagsleg þjónusta sé tryggð. Þessi þjónusta er sú sem er hvað nálægust borgarbúum, sú þjónusta sem tengir í raun stjórnmál við íbúa.