Reykjavík heldur sínu striki

Það hefur verið mikið rætt um ýmsa þætti varðandi Strætó undanfarið, leiðakerfið, fjármál og verkefni borgarstjórnarmeirihlutans frítt í Strætó fyrir nemendur.   Stjórn Strætó hefur unnið þétt saman að ýmsum mjög erfiðum verkefnum til að ná endum saman vegna vanáætlaðra fjárhagsáætlana og ýmissra umbótaverkefna.   Stjórnarmenn hafa náð vel saman og verið sammála í flestum málum.

Ég sem fulltrúi borgarinnar hef upplýst stjórnina reglulega um stöðu verkefnisins ,,frítt í Strætó" og sagt þeim að um sé að ræða tilraun á grundvelli málefnasamnings nýs meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.  Um er að ræða verkefni þar sem nemendur í framhaldsskóla og háskóla fá á nemendaskirteini sín merki sem staðfestir að þau fái frítt í Strætó.  Yfirleitt er skólakortið á kr. 29.000 kr.  (Sjá nánar á www.bus.is).   Á sama tíma ætlar Reykjavíkurborg að telja hvort um verði að ræða fjölgun farþega og fækkun bíla því verkefnið er fyrst og fremst til að létta á umferðarþunga í borginni um leið og við kynnum fyrir nemendum að Strætó er raunverulegur valkostur.

Á síðustu stjórnarfundum hafa sveitarfélögin verið að fá upplýsingar um útfærslu málsins hjá Reykjavíkurborg og eðlilega sýnist sitt hverjum.   Sveitarfélögin vildu vita kostnaðinn við verkefnið og voru að velta fyrir sér hvort þeir ætluðu að taka þátt í verkefninu.  Það var hins vegar alltaf ljóst að Reykjavíkurborg greiðir fyrir það tekjutap sem verður þegar verkefnið hefst í ágúst.  Það kom mér sem stjórnarmanni hins vegar á óvart að Kópavogur skyldi ákveða að ganga enn lengra, sérstaklega þar sem gagnrýnin á verkefni Reykjavíkurborgar var hvað mest þaðan. 

Ég velti fyrir mér af hverju þessi ákvörðun sé tekin en mér sýnist hún fyrst og fremst varða peninga.   Mér finnst að svona ákvarðanir eigi fyrst og fremst að vera teknar út frá umhverfslegu sjónarmiði og útfrá þeirri staðreynd að Íslendingar eru að nálgast met í bílaeign.   Að auki þarf að leiðrétta tvennt.   Annars vegar hefur Reynir Jónsson framkvæmdastjóri Strætó sagt að það sé rangt að innheimta gjalda sé svona dýr eins og bæjarstjóri Kópavogs vill meina.   Hins vegar verður að benda á þá staðreynd að þrátt fyrir að nú sé ekki verið að innheimta miklar tekjur hjá Strætó þá er tekjustreymið í beinu samhengi við fjölda farþega.    Ýmislegt er hægt að gera í víðara samhengi til að fjölga farþegum og ef það gerist þá hækka tekjur í hlutfalli við gjöld.   Það heldur ekki einsýnt að frítt í Strætó þýði að útgjöldin standi í stað!

En hvað sem önnur sveitarfélög gera varðandi almenningssamgöngur þá veit ég að við í Reykjavík höldum okkar striki með verkefnið næsta haust.  Ég veit að verkefnið muni skila bættri meðvitund um almenningssamgöngur, vonandi munu fleiri ungmenni fresta kaupum á bíl og prófa að spara aurinn og annan vetur verður vonandi hægt að koma til móts við nemendur um lægri gjöld í vagninn ef verkefnið gengur vel.