PISTLAR


30

03 2006

Tækifærin sem enginn velur að sjá

Steinar Ólafsson skrifaði grein á Hugsjónir.is 27. mars sl. um áætlanir ríkisstjórnarinnar um að breytta námsskipan til stúdentsprófs. Ég get ekki setið hljóð hjá þegar hægri menn, félagar mínir, skrifa með þessum hætti. Mér þykir miður þegar að einstaklingar skrifa greinar án þess að kynna sér málin að minnsta kosti að einhverju leyti. Ég geri því hér tilraun til að upplýsa og leiðrétta félaga mína á þessu fína vefriti.

Sú grunnhugmyndafræði sem við hægri menn aðhyllumst er lögð til grundvallar í öllum verkefnum í menntamálaráðuneytinu undir styrkri stjórn ráðherrans, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Leiðarljós allra verkefna eru hugtökin valfrelsi, einkarekstur, fjölbreytni, árangur og sjálfstæðir skólar. Það er algjör firra að tala um forræðishyggju, ríkisrekstur og einsleitni þegar rætt er um verkefni menntamálaráðherra.

Ákvörðun um breytta námsskipan til stúdentsprófs á sér 10 ára aðdraganda. Nefnd um mótun menntastefnu lagði til 1994 að námsárum til stúdentsprófs yrði fækkað um eitt ár og árlegur kennslutími grunn- og framhaldsskóla lengdur. Nefndin taldi nauðsynlegt að lenging skólatíma grunnskólans yrði komin að fullu til framkvæmda og reynsla komin af nýrri aðalnámskrá (frá 1999) áður en að til styttingar kæmi. Í kjölfarið hafa margar skýrslur komið út og mikil umræða farið fram og mikið vatn runnið til sjávar. Næstum allir eru sammála um að nýta megi tímann betur í skólakerfinu. Nú sem fyrr er leitast við að nálgast verkefnið þannig að sjónarmið okkar hægri manna fái að njóta sín enda ráðuneytið búið að vera undir styrkri stjórn Sjálfstæðisflokksins frá 1991.

Tíminn. Af hverju þarf að nýta tímann betur, eru nemendur ekki sveittir við nám í öllum skólum landsins alla daga? Jú, aukning skólatíma bæði í grunn- og framhaldsskóla sem lögð var til 1994 er nú komin til framkvæmda og hefur kennslustundum fjölgað um 2.310 í grunnskóla og í framhaldsskóla um 400 frá árinu 1994. Þessi fjölgun kennslustunda er staðreynd og flestir eins og sagði áðan sammála um að þétta þurfi kerfið, þ.e. færa kennsluefni til að nýta þann tíma sem kominn er inn í kerfið. Þessi fjölgun gerir okkur Íslendinga líka methafa í kennslustundum hjá OECD en alls ekki methafa hvað varðar gæði kerfisins.

Þá situr eftir spurningin um hvernig eigi að framkvæma verkefnið að breyta námstímanum. Það er eðilegt að skiptar skoðanir séu um aðferðina. Sumir segja styttum grunnskólann. Aðrir segja styttum framhaldsskólann. Enn aðrir segja búum til gamla landsprófið og röðum í bekki og flýtum þannig sumum en öðrum ekki. Allir hafa eitthvað til málana að leggja og hægt er að samþykkja rök í öllum tillögum. Margir fagmenn hafa komið að málinu undanfarin 10 ár og þegar fyrir lá að breyta námstíma til stúdentspróf úr 14 árum í 13 var ákveðið út frá sterkum rökum að betra væri að breyta framhaldsskólanum en grunnskólanum.

Nú veit ég ekki hvort ég hafi tapað lesendum frá skjánum við þessa tæknilegu útlistun en því miður er málið umfangsmikið og það tekur töluvert á að sýna fram á markmiðin í málinu. Ég vil þó núna víkja að fullyrðingum Steinars sem segir að Þorgerður Katrín sé að ráðskast með framhaldsskóla landsins. Ég bið hann um að byrja á því að kíkja á lög um framhaldsskóla, lög um grunnskóla, lög um framhaldsskóla og aðalnámskrár þessara skólastiga og hefja umræðuna þar. Sem alvöru frjálshyggjumaður ætti hann fyrst og fremst miðað við skoðanir hans í umræddri grein að leggja til að þessi lög öll verði lögð niður. Er það ekki alvöru frjálshyggja? Er það ekki alvöru einkavæðing á menntakerfinu? Engar námskrár til að breyta, engin skilyrði til að uppfylla, ,,back to basics?.

Ef hann er sammála mér um að gott menntakerfi sé allri þjóðinni til heilla og að hann vilji ekki að foreldrar hans borgi himinhá skólagjöld frá leikskóla að framhaldsskóla þá verður hann að vera sammála því að löggjafinn hlýtur að setja skólakerfinu einhvern ramma. Og þá, ef breytingar eiga sér stað, þarf að breyta rammanum. Ramminn hins vegar er eitthvað sem við, hægri menn, vinnum að jafnt og þétt að losa sem mest án þess að víkja frá gildum um jafnan rétt til náms. Einkarekstur er til staðar í framhaldsskólakerfinu, skólameistarar hafa mikinn sveigjanleika og reka skólana eins og fyrirtæki, samkeppni er mikil á milli framhaldsskóla og kennsluaðferðir og menning skólanna ólík. Í breyttri námsskipan til stúdentsprófs felast mörg frábær tækifæri til að losa áfram ramma, auka fjölbreytni og bjóða nemendum upp á meira val.

Og að lokum. Ef skólakerfið í heild sinni væri einkavætt þá væri fyrst tryggt, kæri Steinar að nám yrði stytt!

Birt á vefritinu http://www.hugsjonir.is í dag 30. mars.

Lesa meira

29

03 2006

Hvar vil ég eldast?

Áherslur frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eftir vel heppnað prófkjör í haust voru skýrar. Frambjóðendur voru á einu máli um að vinna skuli af heilindum og af framkvæmdagleði við að bæta það umhverfi og þá þjónustu sem við bjóðum eldri Reykvíkingum. Þeir sem eldri eru eiga það skilið frá okkur sem yngri erum að tryggt sé að raunverulegt val um eigin búsetu og fjölbreytta valkosti í þjónustu, aðstöðu og umhverfi. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að gjörbreyta þjónustu Reykjavíkurborgar við eldri borgara og hefur nú kynnt áherslur sínar í málaflokknum.

Áhersla á valkosti
Sjálfstæðismenn standa fyrir hugmyndum um fjölbreytta valkosti og jafnan rétt einstaklinga að þjónustu þess opinbera. Þessi hugmyndafræði er grundvöllur ákvarðanatöku í öllum málaflokkum, jafnt í þjónustu við unga Reykvíkinga og við eldri Reykvíkinga. Í Reykjavík ætla Sjálfstæðismenn að leggja áherslu á að eldri borgurum verði gert kleift að búa á eigin heimili svo lengi sem þeir kjósa með því að efla og samræma heimaþjónustu og heimahjúkrun. Fyrir þá sem eru tilbúnir til að yfirgefa heimili sitt eða þurfa meiri aðstoð leggjum við áherslu á aukið val um búsetukosti fyrir eldri borgara við gerð skipulags. Mikilvægt er að hefjast strax handa við að því að tryggja einstaklingum með afar brýna þörf fyrir þjónustuíbúð eða hjúkrunarrými viðeigandi úrræði í góðri samvinnu við ríkið, sjálfseignarstofnanir, samök eldri borgara, sjúkrasjóði og lífeyrissjóði. Staðan í dag er hreinlega óviðunandi.

Áhersla á fjölbreytni
Eldri Reykvíkingar eiga að hafa sama val og aðrir Reykvíkingar um fjölbreytta búsetukosti. Hefja þarf undirbúning að því að hjúkrunarheimili, þjónustuíbúðir, leiguíbúðir og almennar íbúðir verði byggðar í hverfum og stuðla þannig að því að hjón og sambýlisfólk geti búið saman eða með börnum sínum. Draga þarf úr stofnanatilfinningu og falla frá hugmyndum um sérstök þorp fyrir aldraða. Fremur þarf að berjast gegn sundrung og einangrun einstaklinga og fjölskyldna með því að búsetukostir séu á ólíkum stöðum í hverfum. Samfara því þarf að efla félagsstarf og aðkomu einkaaðila að ýmissri þjónustu. Málshátturinn hvað ungur nemur gamall temur ætti að vera til hliðsjónar til að ýta undir aukin samskipti kynslóðanna.

Horfum til framtíðar og vinnum að úrbótum
Íslendingar þurfa að hugsa til framtíðar og ímynda sér framtíð sína sem eldri borgarar. Þeir sem eldri eru eiga skilið að þessi framtíðarsýn sé sett í framkvæmd strax í dag. Reykjavík hefur sem sveitarfélag lagaskyldu um að eiga frumkvæði að uppbyggingu stofnana eða því hvaða aðili skuli vera ábyrgur fyrir því að þessi þjónusta sé fyrir hendi. Stefnumótun með hagsmunaaðilum er tímabær og nauðsynleg til þess að hefja áætlanagerð um búsetukosti fyrir eldri borgara. Við stefnumótun þarf að taka mið af ólíkum fjárhagslegum, félagslegum og heilsufarslegum þörfum og aðstæðum aldraðra. Öll úrræði á hverju þessara sviða skulu saman miða að því að aldraðir geti búið sem lengst á eigin heimili. Tryggjum öldruðum frelsi til að velja í Reykjavík.

Greinin birtist í dag í Morgunblaðinu

Lesa meira

28

03 2006

Condi í Meet the Press

Uppáhaldsspjallþátturinn minn er Meet the Press á NBC með Tim Russert. Hann er einstaklega hæfur spyrill og er alltaf búinn að kynna sér málin mjög vel. Hann er ávallt með einn gest í lengri eða skemmri tíma og er birtir alltaf staðreyndir til að leiða umræðuna. Stjórnmálamenn komast að auki ekki upp með að svara óskýrt því Tim spyr alltaf aftur þar til hann er sáttur við svarið eða sér að hann kemst alls ekki lengra (gerist mjög sjaldan).

Á sunnudaginn var utanríkisráðherra Bandaríkjanna Condoleezza Rice í viðtali hjá honum. Viðtalið er sérstaklega áhugavert fyrir þá sem fylgjast vel með Íraksstríðinu. Það segir mikið hversu mikill tími fer hjá Rice að réttlæta stríðið nú þegar að fjórða árið er að hefjast og Bandaríkjamenn hafa sett í stríðið 350 billjónir dollara.

Rice says Iran cannot have nukes

Lesa meira

27

03 2006

Stofnfundur AFA

Ég og Atli sonur minn skunduðum í Hafnarfjörðinn í gær til að vera viðstödd stofnfund AFA, aðstaðdendafélags aldraðra. Ég skráði mig stolt í félagið og ber miklar vonir til þess að þetta félag sinni af heilindum og krafti stefnumálum sínum sem öll miða að því að fara að framkvæma og koma úrræðum í framkvæmd fyrir eldri borgarana okkar.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti okkar í Reykjavík á glæsta sögu að baki þegar þessi málaflokkur er skoðaður því hann hefur verið drifkraftur í málefnum eldri Reykvíkinga öll þau ár sem hann hefur verið í borgarstjórn. Hann hefur líka þekkingu á málaflokknum í gegnum stjórnarsetu sína á hjúkrunarheimilum eins og Eir. Ég heimsótti nokkur hjúkrunarheimili í prófkjörinu og varð sannfærðari við þær heimsóknir um nauðsyn þess að setja málefni eldri borgara á oddinn. Hann Atli minn sem er nýorðinn 6 ára kom með mér á Hrafnistu í heimsókn í haust. Það situr í mér margt úr þeirri heimsókn sem ég mun geta nýtt í málefnavinnu en sérstaklega sá ég hvað gladdi marga að sjá litla strákinn valhoppandi þarna um. Auðvitað er gaman fyrir alla að sjá börnin glöð og saklaus. Af hverju erum við ekki meira að hugsa í samfélögum frekar en stofnunum?

Lesa meira

27

03 2006

Felum ekki byggðamarkmið í nýsköpunarorðinu

Ég verð að segja eins og er að ég hélt að þetta hefði bara verið hugdetta hjá Valgerði Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra að sameina þessar stofnanir þrjár eins og lesa má hér. Mér finnst byggðastefnupólitík Framsóknarflokksins hafa fengið allt of mikið vægi undanfarin ár og síðan kemur þetta. Ég er ættuð af Sjávarborg í Skagafirði þarna rétt fyrir utan Sauðárkrók þannig að erfitt er að saka borgarpólitíkusinn um eitthvað. En þetta er bara of mikið og ég hef bara því miður ekki trú á að þessar stofnanir muni blómstra á Sauðárkróki frekar en í Reykjavík. Í fréttatilkynningunni segir:

,,Hér er mörkuð framsækin nýsköpunar-, atvinnu- og byggðaþróunarstefna og jafnframt stuðlað að hagræðingu í ríkisrekstri með því að fækka opinberum stofnunum og sjóðum sem í mörgum tilvikum eru að fást við svipuð verkefni."

Gott og vel, Sjálfstæðismenn kaupa þetta. Stærri spurningar sitja þó eftir, t.d. hvernig hagræðing á sér stað þegar ekki á að segja neinum upp? Og hvernig nýsköpunarhlutverk hinnar nýju stofnunar á að vera uppfyllt 4 klukkustunda ökufjarlægð frá öflugri háskólum landsins og framtíðar vísindaþorpi í Vatnsmýrinni? Og hvað með höfðuborgina, á alltaf endalaust að sitja hjá og segja pass í svona málum. Eru allir í félagslegri rétthugsun og enginn segir neitt þegar stórar stofnanir eru fluttar úr höfðuborginni? Ég mótmæli sem Reykvíkingur.

Lesa meira

23

03 2006

Er Össur hnakki?

Össur hvatti okkur tíkarpenna til að segja skoðun okkar á því sem hann kallar flatneskju ómengaðar kvenfyrirlitningar. Þarna er Össur að vísa í brandara sem að Geir sagði á opnum fundi í Valhöll um varnarmálin. Á heimasíðu Össurar er eftirfarandi spurning sett fram:

Hvað ætli vinkonur mínar í Tíkunum segi um þetta framlag formanns síns til umræðunnar um stöðu konunnar í Sjálfstæðisflokknum sem stundum geisar einsog eldgos á síðum þeirra? Hvað ætli þær hefðu skrifað marga álnarlanga dálka um mig ef ég hefði látið jafn ótrúleg ummæli um munn fara á opnum stjórnmálafundi?

Í fyrsta lagi finnst mér mjög fyndið að hann Össur setji sig á sama stall og formaður Sjálfstæðisflokksins varðandi ummæli Tíkarpennar um menn og málefni. Össur, þú verður að fara að átta þig á því að þú ert hvorki formaður né varaformaður flokksins þíns.

Í öðru lagi er Geir sá maður sem hefur hvað ötulast talað fyrir framgöngu kvenna í Sjálfstæðisflokknum. Geir er sá karlmaður í Sjálfstæðisflokknum sem hefur sýnt samstarfi kvenna í flokknum hvað mesta athygli enda framsýnn maður með eindæmum. Ég held að allar þær konur sem starfa í flokknum viti þetta af eigin reynslu eða samtölum við Geir.

Í þriðja lagi eru brandarar misvel heppnaðir. Það er alveg eins hægt að vísa í sárindi Össurar yfir yfirlýsingum Hallgríms Helgasonar um aldur Styrmirs Gunnarssonar í Morgunblaðsgrein í dag og segja að það sé ekki fair play að taka brandara úr samhengi eins og gert er við orð Geirs í þessari varnarmálaumræðu. Maður leggst bara ekki svona lágt.

Í fjórða lagi eru Tíkur ekki sammála því að ekki megi gera grín af konum eins og konur gera grín af körlum. Að minnsta kosti er ég orðin dauðleið á þeim pólitíska réttrúnaði að ekki megi gera grín af konum. Ég tel það ala á ójafnræði kynjanna sem fyrirsláttur um að konum þurfi að sýna einhverja vægð. Ef kona hefði sagt þennan brandara hefði hún líklega aldrei fengið þessa umfjöllun.

Það væri til dæmis lítið mál fyrir hvern og einn að fara að rýna í öll misheppnuðu kommentin hjá Össuri eftir að hann tapaði formannsslagnum. Þau mættu jafnvel teljast sem einn allsherjar brandari.

Lesa meira

23

03 2006

Skýr munur á afstöðu til Evrópusambandsins

Ný skoðanakönnun Gallup (sem var kynnt í fréttum NFS kl. 12.00) sýnir að skýr munur er á milli stjórnmálaflokka gagnvart mögulegri aðild Íslands að Evrópusambandinu og Evrunni. Næstum 60-70% Samfylkingarinnar er hlynntur aðild að Evrópusambandinu, 50% framsóknarmanna og 30% af fylgismönnum VG og Sjálfstæðisflokksins.

Þetta er dálítið fyndin niðurstaða í ljósi þess að formaður Samfylkingarinnar og Jón Baldvin Hannibalsson voru nýlega með blaðamannafund þar sem þau kynntu hugtakið Sjálfstæða utanríkisstefnu. Ég tek undir mikilvægi þess að umræða þurfi að hefjast um hvaða varnir Íslendingar telji mikilvægar en sjálfstæð utanríkisstefna verður hún ekki samfara aðild að Evrópusambandinu. Langt í frá.

Lesa meira

22

03 2006

Ágreiningurinn hefur alltaf verið til staðar

Eftirfarandi fréttir sýna skýrt hversu ósammála R-listinn er í orkumálum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem að þessi staða kemur upp en nýjasta dæmið er uppákoman um rannsóknir á orkuöflun í Kerlingarfjöllum. Vinstri grænir hafa hingað til verið lempaðir í umræðunni en nú virðist vera komið annað hljóð í fólkið. Það verður áhugavert að fylgjast með þessu næstu daga.

20.3.2006 NFS Fréttir
Stjórnvöld máttu vita í byrjun febrúar að herinn færi. Nú er atvinnulífið á Suðurnesjum í uppnámi, en álversframkvæmdir gætu samt hafist í Helguvík þegar á næsta ári. Stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur hefur tilkynnt forsætisráðherra að Orkuveitan geti komið að orkusölu til stóriðju á Suðurnesjum mun fyrr en áður var talið. Í umræðum síðustu daga um atvinnumál á Suðurnesjum hefur komið fram að Norðurál treystir sér strax á næsta ári til að hefja framkvæmdir við álver í Helguvík sem hæfi rekstur eftir 3 ár. Til þess þurfi þó 200 Megavött af raforku, þar af geti Hitaveita Suðurnesja útvegað 100 megavött fyrir þann tíma, en leita þurfi Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar um það sem á vantar. Í viljayfirlýsingu Landsvirkjunar og Alcan fyrir 2 mánuðum skuldbatt Landsvirkjun sig hins vegar til þess að ræða ekki við aðra aðila um orkusölu til stóriðju fyrr en séð yrði hvort samningar tækjust um Straumsvík. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar: Við hófum samningaviðræður við Alcan í Straumsvík og ég á ekki von á því að þeim ljúki fyrr en seint á þessu ári og á meðan við ræðum við þá, getum við ekki talað við aðra. Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur: Ja, ég vil nú geta þess að Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, hefur leitað til Orkuveitu Reykjavíkur og spurst fyrir um það hvort að Orkuveitan gæti útvegað viðbótarraforku til stóriðju í Helguvík. Ég hef tjáð forsætisráðherra að við séum jákvæðir og munum skoða það vandlega hvort að við getum ekki gert þetta og svona í fljótu bragði þá virðist mér ekkert standa í vegi fyrir því að svo geti orðið. Orkuveitan hefur einnig ritað undir viljayfirlýsingu gagnvart Straumsvík, en Alfreð telur að fyrirtækið geti samhliða þjónað Helguvík. Alfreð Þorsteinsson: En svona almennt séð, þá held ég að við ættum að geta bæði útvegað orku til Alcans og til Helguvíkur. Ekki eru nema 10 mánuðir frá því að stjórn Orkuveitunnar hætti við að skrifa upp á viljayfirlýsingu um orkusölu til álvers í Helguvík vegna andstöðu Vinstri-grænna í borgarstjórn Reykjavíkur. En gæti slík mótstaða truflað þessi áform? Alfreð Þorsteinsson: Ja, ég tel nú að forsenda séu mjög breyttar. Þetta er náttúrulega mjög sérstök staða sem er komin upp á Suðurnesjum og menn hljóti nú að vera tilbúnir til þess að ræða málið á þeim grundvelli. Ég trúi því ekki að nein stjórnmálaöfl hér í landinu standi gegn því að fólk, hvort sem það er á Suðurnesjum eða annars staðar geti stundað atvinnu.

NFS, 21. Mars 2006 12:30
Gagnrýna stjórnarformann OR Stjórn Vinstri grænna í Reykjavík telur fráleitt að Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, vilji að Orkuveitan hafi forgöngu um frekari skuldbindingar um orkusölu til álvers í Helguvík, án samráðs við stjórn Orkuveitunnar og borgarstjórn. Í fréttum NFS í gær sagði Alfreð að til greina kæmi að Orkuveitan kæmi að slíkri orkuöflun. Stjórn Vinstri grænna minnir á að fyrir fáum mánuðum hafi stjórn Orkuveitunnar ákveðið að taka ekki þátt í orkuöflun fyrir Helguvík og sú ákvörðun standi enn óhögguð.


Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
thorbjorg.vigfusdottir@mi.is
www.thorbjorg.isÚr skjali

Lesa meira

16

03 2006

Blair í bobba

Jón Baldvin Hannibalsson var ansi kindarlegur þegar Egill Helgason spurði hann um sl. helgi hvort að hugmyndafræði Alþýðuflokksins væri ekki liðin undir lok. Egill vísaði í Tony Blair sér til stuðnings og nefndi þau miðju og hægri mál sem hann hefur ýtt úr farvegi. Jón vildi nú ekki tengja sína hugmyndafræði eða Samfylkingarinnar við Blair og gaf til kynna að hann væri ekki raunverulegur jafnaðarmaður. Ingibjörg Sólrún og Össur hafa hins vegar oft vísað í þennan slungna stjórnmálamanns sem fulltrúa jafnaðarmennskunnar,

Í valdatíð Tony Blair (sem hófst 1997) hefur Blair leyft kröftum einkaframtaksins að njóta sín í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu þegar hann á sama tíma innheimtir meiri gjöld fyrir þjónustuna. Þessi tvö mál hafa aldrei verið á dagskrá vinstri flokka á Íslandi. Hann hefur að auki þurft að afsaka sig fyrir þjóðinni að hafa óafvitandi blekkt almenning þegar ráðist var inn í Írak og tekið rangar ákvarðanir í því ferli öllu. Samfylkingin hefur fordæmt innrásina í Írak!

Í gær átti Tony erfiðan dag. Umbótaáætlunin hans í menntamálum var samþykkt í dag með stuðningi stjórnarandstöðunnar. Áætlun Blairs er að veita skólum aukið sjálfræði til að efla skóla landsins. 52 samflokksmenn Blair greiddu atkvæði gegn þessum áætlunum því þeir töldu þessar aðgerðir búa til tvöfalt menntakerfi í landinu. Þó að segja megi að Blair hafi fengið meginefni áætlunarinnar í gegn er ljóst að breytingarnar eru það margar að umbæturnar eru ekki fugl eða fiskur lengur. Til dæmis er búið er að henda út ákvæði sem leyfði skólum að búa til inntökunefndir á grundvelli árangurs eða viðtala til að velja inn í skólana.

Þessi niðurstaða hlýtur að vera neikvæð fyrir Blair sem í enn eitt skipti er harðlega gagnrýndur af mörgum í Verkamannaflokknum. Þó eru aðrir sem segja þetta aðeins vera eitt lítið verkefni af svo mörgum að þetta falli fljótt í skuggann á öllum þeim góðu málum sem Blair hefur sannarlega komið í gegn í þinginu. Það breytir því þó ekki að nú sem áður bíða margir eftir því að hann víki því það er töluverður tími síðan að hann gaf út þau skilaboð að hann myndi ekki leiða Verkamannaflokkinn í næstu kosningum. Blair er því fljótlega á leið úr pólitík. Samfylkingin þarf þá á ný að stilla sig saman við nýjan leiðtoga Verkamannaflokksins.

Lesa meira

16

03 2006

Íslenski grunnskólinn einn af 5 bestu?

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um það háleita markmið rektors HÍ að koma Háskóla Íslands í röð 100 bestu háskóla heims. Þetta markmið er góð leið til að ræða stöðu háskóla landsins sem hafa undanfarin 10 ár stækkað hratt og orðið miðstöðvar grósku og nýsköpunar. Auðskiljanlegt markmið sem þetta hefur sárlega vantað í umræðu um skólamál og þá sérstaklega er varðar grunnskólastigið.

Grunnskólinn á Íslandi hefur farið í gegnum miklar breytingar á síðustu 10 árum og kennarar átt fullt í fangi með að taka við hinum ýmsu verkefnum. Grunnskólinn var færður frá ríki til sveitarfélaga, skólar urðu einsetnir, rúmlega 2.300 kennslustundir hafa bæst við, nýjar námskrár hafa verið innleiddar og ýmis forvarnarverkefni og hugmyndafræði hafa fest sig í sessi. Á sama tíma hefur grunnskólunum verið gert að innleiða sjálfsmat og að setja sér markmið fram í tímann. Allir þessir þættir eru breytingar sem við teljum hafa leitt til betra skólakerfis. Þó er þetta mat okkar að mestu byggt á tilfinningu og minnst á rannsóknum eða mati á árangri.

Alþjóðlegt mat til staðar
Efnahags og framfarastofnunin (OECD) er sú stofnun sem veitir ítarlegastar upplýsingar um stöðu landsins miðað við önnur aðildarlönd í efnhagsmálum og skólamálum. Á vettvangi OECD er að finna PISA könnunina en niðurstöður hennar gera okkur kleift að bera saman árangur íslenskra grunnskólabarna við önnur börn í aðildarríkjum OECD í lestri, stærðfræði og vísindalæsi. Ísland er og verður þátttakandi í könnuninni og skólafólk og stjórnvöld hafa litið á niðurstöður PISA sem greinargóðar og nýtilegar upplýsingar. Ekki er vitað til þess að sveitarfélög hafi nýtt sér með formlegum hætti þessar upplýsingar til umbóta.

Ísland tekur á þessu ári þátt í PISA rannsókninni í þriðja sinn. Taflan sýnir hvernig árangur Íslands hefur verið í samanburði við önnur OECD ríki. Af henni er hægt að lesa að árangur Íslands er í meðaltali OECD ríkjanna og að litlar framfarir hafi átt sér stað á milli mælinga.. Hins vegar er hægt út frá þessum niðurstöðum að setja fram markmið um betri árangur í framtíðarkönnunum PISA og nýta þannig dýrmætar upplýsingar sem fást úr þessum rannsóknum til umbóta. Til dæmis er hægt að sjá í skýrslum PISA að íslenskir nemendur standa sig afar vel í tölfræðihluta stærðfræðinnar og að hlutfallslega fáir nemendur eru í besta námsmannahópnum miðað við önnur OECD ríki. Skýr markmið um betri árangur í þeim þáttum sem verið er að kanna hverju sinni er góð leið til þess að nýta jafn ítarlegar upplýsingar og PISA könnunin gefur.

Mikil aukning fjármagns til grunnskólans
OECD setur fram mikilvægar athugasemdir í nýjustu skýrslu stofnunarinnar á stöðu efnahags- og framfaramála á Íslandi. Þar er meðal annars bent á að íslenska menntakerfið allt og þá sérstaklega að grunnskólinn fái hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en næstum öll önnur OECD löndin. Í skýrslunni er bent á að enn eigi þetta aukna fjármagn í skólakerfinu eftir að skila betri árangri í alþjóðlegum samanburðarkönnunum en að árangur Íslands í PISA sé ekki sem stendur í samhengi við fjárframlög til menntamála. Einnig varpa þeir fram þeirri spurningu hvort að tilfærsla grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga hafi bætt gæði skólastarfs.

Ísland
Pisa 2000 (29 lönd) Pisa 2003 (27 lönd)
Meðaltal Staða Meðaltal Staða
lestur 507 11.-16. sæti 492 14.-20. sæti
stærðfræði 514 11.-16. sæti 515 10.-13. sæti
vísindalæsi 496 14.-20.sæti 495 16.-19. sæti


Setjum háleit markmið
Umræðan um árangur íslenska grunnskólans má ekki vera meira feimnismál en árangur annarra skólastiga. Stjórnvöld og skólafólk þurfa að vera samstíga og óhrædd við að að setja viðmið um árangur skólastarfs til viðbótar við hefðbundin próf, sjálfsmat og samræmd próf. . Markmiðin verða að vera skýr og endurspegla raunhæf skref að settu marki. Íslenska grunnskólakerfið á að vera á heimsmælikvarða og Íslendingar eiga að sameinast um það markmið að Ísland raði sér meðal fimm efstu þjóða OECD í náinni framtíð.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. mars 2006

Lesa meira

08

03 2006

Fóstureyðingar og Bandaríkin

Ég bara trúði ekki mínum eigin eyrum í gærmorgun þegar ég lá mjög syfjuð uppi í rúmi og hlustaði á Björn Malmquist segja frá afleiðingum nýrra laga gegn fóstureyðingum í Suður-Dakota sem taka gildi í sumar. Það hefði eðlilega verið hægt að segja, ,,æ þessir suðurríkjamenn þarna í Bandaríkjunum" og þrýsta á snooze takkann. En Björn hélt áfram að segja frá umræðunni í Bandaríkjum á skýran og skilmerkilegan hátt og sagði að tilgangur laganna væri lögsóknir svo að hnekkja mættir Roe vs. Wade dómnum sem að mínu mati er einn sögulegasti hæstaréttardómur Bandaríkjanna.

Sá dómur varð til þess að konur áttu rétt á fóstureyðingum og þessi dómur hefur haldið í 33 ár. Ríkisstjórinn sagði þegar hann skrifaði undir að þau væru bein árás á úrskurðinn um Roe vs. Wade. Bendi á heita umræðu á vefritinu www.tikin.is um ummæli ungra frjálshyggjumanna í tilefni þessa máls. Ef málaferli er það sem stuðningsmennirnir biðja um er þetta einhver leikflétta sem tengist breytingum í hæstarétti Bandaríkjanna undanfarið ár. Bush hefur skipað John Roberts sem Chief Justices og núna í janúar Samuel Alito sem Associate Justices. Þetta verður verulega heitt og umdeilt mál og alls ekki ljóst hvorum flokki þetta mál hjálpar yfirleitt.

Þeir sem hafa búið í Bandaríkjunum vita að það er ótrúlegur munur á þankagangi eftir búsetu eins og kemur svo vel fram eftir kosningabaráttur um forsetastólinn. Eins og sést á þessu korti eru rauðu fylkin (Repúblikanar) með afgerandi aðra landfræðilega stöðu en þau bláu (Demókratar). Þetta breytist ekkert strax og þeir sem halda að Hillary Clinton sigri næstu kosningar ættu að liggja aðeins yfir þessu korti. Á meðan að kortið er svona rautt er líklegt að umræðan um fóstureyðingar verði á jafnmiklum villigötum og hún er í Bandaríkjunum í dag.

Lesa meira

06

03 2006

Breytingar á ríkisstjórn

Nú þegar þjóðin hefur melt þessi ráðherraskipti eru fjórar spurningar sem sitja eftir að mínu mati.

  1. Er þetta breytingin á ríkisstjórn sem að Halldór boðaði þegar hann tók við forsætisráðherrastólnum 2004?
  2. Er glundroðinn í Framsóknarflokknum það mikill að Árni Magnússon yfirgefur sviðið áður en það brotnar?
  3. Er viturlegt fyrir Framsóknarflokkinn sem missti frá sér framtíðargæðing í dag að skipta um í heilbrigðisráðuneytinu sem er heitasti málaflokkurinn í dag. Siv er óneitanlega mjög kokhraust og sagði hér ?Ég er að taka við mjög góðu búi hjá Jóni Kristjánssyni. Ég er full tilhlökkunar og veit að þetta mun takast mjög vel til hjá okkur?. [Myndir af blómasendingum til Sivjar og umfjöllun Össurar um starfshætti Sivjar í þessu samhengi eru skemmtilegar. ]
  4. Er álagið á ráðherrum og stjórnmálamönnum orðið of mikið samanber brotthvarf þó nokkuð margra yngri stjórnmálamanna á undanförnum árum (Árni Magnússon, Bryndís Hlöðversdóttir, Ásdís Halla Bragadóttir) eða er spennandi hluti stjórnmálanna horfinn til viðskiptalífsins?

Ef að bleiku skæruliðarnir eru samkvæmir sjálfum sér hljóta þeir að fagna þessum breytingum á ríkisstjórn Íslands. Líklega heyrist þó ekkert frá þeim í þetta sinn þar sem fagna ætti fleiri konum í ríkisstjórn sem Samfylkingin stendur ekki að. Ekki frekar en að feministar hafi sagt neitt þegar Samfylkingin hafnaði konu í prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningar í nýliðnum mánuði.

Það er í raun alveg magnað hvernig fjölmiðlar kynna Feministafélag Íslands sem ópólitískt félag. Af hverju ætli félagið hafi farið í spurningakönnun og kynningu á frambjóðendum Samfylkingarinnar í miðju prófkjöri? Sérstaklega ber að lesa eftirfarandi fullyrðingu vel og vandlega sem finnst á vefsíðu feministafélagsins. Bendi lesendum á að orðið feministi þýðir jafnréttissinni en er ekki lýsandi fyrir aðferðir þær sem notaðar eru til að ná jafnrétti.


Jafnrétti er ekki bara að jafna höfðatölu kvenna og karla heldur að taka tillit til sjónarmiða og veruleika beggja kynja, viðmiða þeirra og gilda, í allri ákvarðanatöku og stefnumótun. Einkavæðing, markaðsvæðing, útboðsstefna og hagræðingar eru t.d. þættir sem geta haft kynbundnar afleiðingar þótt þær virðist kynhlutlausar á yfirborðinu. Oft eru lægstu störfin boðin út fyrst (ræsting, þvottar), gjarna með kynbundnum afleiðingum. Þá geta markaðsvæðing eða hlutafélagavæðing borgarfyrirtækja gert erfiðara að fylgjast með launum kynjanna og bregðast við honum. Hver er þín afstaða í þessum málum í rekstri borgarinnar?

Lesa meira