PISTLAR


26

05 2006

Borgarstjóri breytir um stefnu

Í kvöld birtist á RÚV frétt um að borgarstjóri hefði áhyggjur af Úlfljótsvatnsmálinu svokallaða. Það er áhugavert að nú fyrst hafi Steinunn skoðun á málinu því að Samfylkingin í Reykjavík hefur samþykkt málið frá upphafi, síðast í síðustu viku á stjórnafundi OR. Í fréttinni kemur fram að Steinunn vilji byggð á þessu svæði en ekki svona þétt. Það sem hún veit líklega ekki er að 600 húsa byggð er akkúrat talan sem þarf af húsum til að verkefni beri arð. Hún veit líklega heldur ekki að nú þegar er búið að selja landið inn í einkahlutafélag og skv. samþykktum félagsins lækkar hlutur OR í félaginu ef að færri hús verða byggð.

Flott að kíkja á málið þegar það er of seint Steinunn!

Lesa meira

25

05 2006

Biðin styttist

Spennan eykst með hverjum deginum og biðin eftir laugardeginum er að verða búin. Ég hlakka mikið til kosninganæturinnar og mig grunar að spennan haldist langt fram eftir nóttu. Umræða oddvita listana á NFS var ágæt í kvöld þó að ég skólamanneskjan blóti því alltaf að ekki sé verið að ræða um önnur málefni en hús og flugvelli. Mér finnst óskiljanlegt að skólamál til dæmis séu aldrei á dagskrá. Fréttablaðið var með mýmargar spurningar til frambjóðenda í blaðinu í dag og ekki eina spurningu um skólamál. Samt er mest aðkallandi fyrir framtíð landsins að leik- og grunnskólar séu á heimsmælikvarða.

Er fólk svona hrætt við að hafa ólíkar skoðanir á skólamálum af því að allir eru pólitískt réttþenkjandi eða erum við enn í að byggja landið með steypu?

Ég er með margar spurningar um skólamál sem ég hefði viljað fá svar við frá R-listanum. Til dæmis hvort að menntasvið ætli áfram að stefna að því að gera skóla veggjalausa, hvaða úrræði þeir ætli að veita börnum með hegðunarvanda (og foreldrum þeirra), hvort að skólastjórar þurfi að hafa sérdeildir í skólunum sínum eður ei, hvort að bráðgerum börnum sé boðin sérstök þjónusta eins og þeim sem eru með sértæka erfiðleika í skólum, hvort ekki eigi að aðstoða sérstaklega skóla sem eru í erfiðari hverfum eða með hlutfallslega hátt hlutfall af börnum sem þurfa sérstaka aðstoð, hvernig mat á skólastarfi fer fram og hvort að foreldrar eigi áfram (sem ófaglærðir skólamenn) að stýra skólunum að ofan fremur en sem hjálparkokkur kennarans um betra skólastarf.

Allar þessar spurningar verða að verkefnum til að leysa ef vel gengur á laugardaginn. Ég vona að Reykvíkingar kjósi breytingar - því skólarnir eru grunnurinn að því samfélagi sem við byggjum.

Lesa meira

20

05 2006

Vika til stefnu

Skoðanakannanir fara að streyma inn og spennan er að magnast. Könnun á fimmtudaginn, könnun á morgun og svo á hverjum degi til kosninga. Ég viðurkenni að mér finnst ótrúlega gaman á þessum tímapunkti þó maður sé úrvinda. Ég er þreytt en er samt með tilhlökkun í maganum þannig að þreytan angrar ekkert. Í dag vorum við Sif og Áslaug og Hanna saman meirihluta dagsins. Fyrst fylltum við bílinn hennar Áslaugar af vatni, mintum, blöðrum og bæklingum. Þá var farið á fjölskylduhátíð í Fossvogsskóla þar sem synir mínir voru. Næst fórum við í Laugardalinn þar sem ekki var hægt að leggja fyrir ótrúlegum fjölda bifreiða. Við vorum nú ekkert að örvænta, fórum upp á kant og buðum M12 áskrifendum vatn og mintur inn um rúðurnar á bílunum. Það var ótrúlegur fjöldi þarna. Næst fórum við Sif í Réttó sem hélt upp á 50 ára afmælið sitt í dag. Svo var það fjölskylduhátíð flokksins í Grafarholti og síðan lá leiðin í Kringluna. Þokkaleg yfirferð og alls staðar var okkur vel tekið.

Á morgun förum við frambjóðendur að hringja. Sérstaklega þarf að minna fólk á utankjörstaðakosningar því að okkur grunar að margir ætli að taka sér frí á föstudaginn og skella sér út úr bænum. En, þar sem yfirvofandi er spennandi kosninganótt getur líka verið að margir velji að vera í bænum. Sjáum til. Ég minni þó þá sem eru óvissir að utankjörstaðakosning fer fram í Laugardalshöll frá 10-22 alla daga.

Lesa meira

20

05 2006

Mennta hvað?

Menntaskemmtigarður er nýja slagorðið hjá Samfylkingunni. Á heimasíðu Samfylkingarinnar (og á http://www.reykjavik.is) er frétt um samning sem borgarstjóri hefur gert um þróun Fjölskyldu- og húsdýragarðsins. Þar kemur fram að borgin hafi breytt deiliskipulagi í Laugardalnum svo hægt sé að byggja upp eins konar menntaskemmtigarð (vísindagarð, sjávardýrasafn, garða, IMAX sýningarhús, barnasali fyrir barnamyndir og leiksýningar, fræðsluaðstöðu, starfsmannaaðstöðu, sýningarsali, leiksvæði, húsnæði fyrir dýr og ýmsa aðra starfsemi.

Þetta lyktar svo af kosningabrellu að það er næstu hlægilegt. Það fyrsta sem maður tekur eftir að í ,,samningakeðjunni" eru auk borgarstjóra Dagur B. og framkvæmdastjóri ÍTR. Enginn úr Vinstri grænum eða Framsókn. Hvergi kemur fram að R-listinn hafi skrifað undir þetta samkomulag. Hvergi kemur fram hvað samningurinn kostar. Hvergi kemur fram hvað íbúar Laugardalsins segja um þessa risa uppbyggingu á það litla svæði sem er nú grænt í Laugardalnum. Hvergi kemur fram hver á að kosta eitt stykki vísindasafn, hvað þá annað. Hvað segja borgarbúar sem búa ekki eins og Steinunn Valdís, þ.e. í Laugardalnum? Er ekkert kominn tími á að laga skólalóðir og umhverfi skóla í Breiðholti frekar en að ganga í byggja menntaskemmtigarð? Þær hugmyndir sem nú liggja fyrir um vísindasafn kosta um 300 milljónir á ári - fyrir utan fasteignakostnað!

Og hvað gera fjölmiðlar við fréttina? Spyrja ekki að neinu sem gæti varpað ljósi á þessa kosningabrellu.

Lesa meira

17

05 2006

Samgöngur R-listans

Ég held ég hafi ekki verið eins hissa lengi eins og í gær þegar ég sá kjarna samgöngustefnu R-listans til næstu ára. Þar ætlar borgin að setja upp gjaldtöku á bílastæðum stofnana og skóla borgarinnar. Hvaða ótrúlega hugmynd er þetta hjá flokkum sem eru nýbúnir að státa sig af því að bæta kjör þeirra lægst launuðu.

Upp vakna spurningar um hvernig gjaldskyldan eigi sér stað. Líklegast er talið að borgin bjóði starfsfólki kjör sem eru sambærileg eða til jafns við sólarhringsgjöld í bílastæðahúsunum í Reykjavík (4000-9600 á mánuði). Líklegast er að þetta fari eftir framboði og eftirspurn. Þetta þýðir að í besta falli þurfi leikskólakennari sem velur að fara á bílnum sínum í vinnuna að greiða 48.000 kr. í bílastæðagjöld á ári vegna vinnu. Er þetta hægt?

Á stjórnarfundi OR í dag lögðum við Sjálfstæðismenn fram fyrirspurn um hvort að OR ætli að leggja bílastæðagjöld á eins og stefna borgarinnar gerir nú ráð fyrir. Uppi varð fótur og fit og greinilegt að stjórnarmenn í meirihluta og forstjóri voru ekki búnir að ráðfæra sig um þessa nýju stefnu. Ég hlakka til að heyra hvernig fyrirtæki borgarinnar hyggjast innleiða þessa gjaldskyldu.

Lesa meira

14

05 2006

Reykvískir kvenleiðtogar

Það var óneitanlega ánægjulegt að líta yfir fullan sal af konum á Grand hótel í dag á Leiðtoganámskeiði Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Þarna voru samankomnar hátt í 300 konur til að hlýða saman á frábæra fyrirlesara um leiðtogafræði, tengslanet, og aðferðir til að hugsa stórt og hugsa öðruvísi. Ásdís Halla reið á vaðið, síðan Sigríður Snævarr, þá Auður Eir, Hulda Dóra og Guðfinna rektor HR. Allar með frábæra fyrirlestra og það mun taka þó nokkurn tíma að melta allt það sem þarna kom fram.

Það er alveg magnað hvað konur eru miklar hópsálir. Við söfnumst saman í stórum hópum og þrífumst vel á svona fundum eins og sá sem haldinn var í dag. En stundum finnst mér eins og við séum bara frekar og ákveðnar á heimilunum. Þurfa konur ekki að taka þá ráðdeild og það skipulag sem flestar stjórna heima við og nýta betur á vinnumarkaðinum. Þurfum við ekki að gefa meira eftir heima við og hætta að vera með fullkomnunaráráttu um að allt þurfi að ganga upp. Eða gefa meira eftir á vinnumarkaði. Allir fyrirlesararnir voru að minnsta kosti sammála um eitt - að sú kona finnist ekki þar sem allt gengur fullkomnlega hjá. Hættum því að leika þann leik og gerum okkur grein fyrir að það er ekki hægt að vera alls staðar, með fínt heimili og fljúgandi flott djobb án þess að eitthvað bresti. Setjum okkur markmið í vinnu, leik og fjölskyldu og höfum þau raunhæf til að þau gangi saman.

Ánægjulegur dagur í dag. Nú er ég samt orðin frekar lúin og ætla snemma í háttinn. Góða nótt.

Lesa meira

11

05 2006

Ég skora á Dag

Dagur B. Eggertsson segir í dag á heimasíðu Samfylkingarinnar að hann skori á Vilhjálm að leggja fram þau skjöl sem hann hefur frá fjármálasviði um að ekki séu neinir peningar á biðreikningi borgarinnar vegna uppbyggingar hjúkrunarheimilis.

Ég skora á Dag að svara því þá á móti hvers vegna ekki er búið að deiluskipuleggja Lýsisreitinn og Sogamýrina til að byggja hjúkrunarheimili. Og ef það er í réttum farvegi að deiliskipuleggja og grafa grunna, af hverju fer borgin út í þá vinnu án þess að ríkið ætli að standa með þeim í uppbyggingunni?

Lesa meira

07

05 2006

Loforð handa öllum

Þrjár vikur í kosningar. Það er nú ekki mikill tími og þarf að nýta vel. Okkur frambjóðendum þykir vera nóg að gerast enda eru óskir um fundi með frambjóðendum óendanlegar þrátt fyrir að fjölmiðlafólk kvarti yfir rólegri baráttu. Ég held að fjölmiðlar á Íslandi séu alltof uppteknir af því að leita af rifrildi og einhverju subbulegu. Ólíkt því sem gerist t.d. í Danmörku og Bretlandi er umfjöllun um ýmis stór málefni ítarleg og tekur inn sjónarmið allra. Til dæmis hafa stjórnvöld í Danmörku lagt fram ítarlega skýrslu um alþjóðlega samkeppnisstöðu landsins og markmið út frá því í heilbrigðis-, atvinnu- og menntageiranum. Fjölmiðlar gerðu þessu ítarleg skil í margar vikur og Danir ræddu yfir kaffibollanum um markmiðin sem sett voru fram. Líklega erum við allt of skammsýn oft hér heima þegar við setjum fram stefnu okkar. Samt saknar maður þess að blöðin til dæmis taki ekki fyrir fjölskyldustefnu þeirra sem bjóða sig fram í borginni og greini þær. Hlutleysið og hlaupin eru svo mikil að þetta er allt tekið blint upp og ekki skoðað með gagnrýnum augum.

Lítum til dæmis á kosningaloforð Framsóknarflokksins. Af hverju hefur enginn fjölmiðill greint hvað loforðin þeirra kosta? Nú er ljóst að flugvöllur á Lönguskerjum kostar um 24 milljarða, Sundabraut í botngöngum/jarðgöngum líklega um 16 milljarða, ávísun til barnafjölskyldna 500 milljónir á ári, ávísun vegna íþróttaiðkunar barna 700 milljónir á ári, Öskjuhlíðargöng 1 milljarður, mislæg gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar 3-4 milljaðar, frítt í strætó fyrir unglinga og aldraðra 300 milljónir á ári, 3 hjúkrunarheimili 3 milljarðar, gjaldfrjáls leikskóli 1200 milljónir á ári, borgin borgi skólabúninga, yfirbygging í Laugardalnum, ókeypis í söfn í eigu borgarinnar, æfingasvæði fyrir skotmenn, sædýrasafn, skautasvell, gagnaveita, vatnsgarður.

Af hverju er þessi hlægilegi loforðalisti ekki reiknaður út svo skattgreiðendur viti hvað þeir eru að velja? Og af hverju segir enginn fjölmiðill frá því hversu marklaust plagg þetta er því ef svo ólíklega vill til að Ex-Bé listinn fái oddastöðu þá þarf ekki nema eitthvað brot af þessu að semjast inn í samkomulag um samstarf í borginni.

Lesa meira