PISTLAR


24

01 2007

Strætófargjöld

Í fjölmiðlum og á vettvangi umhverfisráðs borgarinnar hefur hækkun á fargjöldum Strætó bs. verið gagnrýnd. Ekkert hefur verið sagt um þá mikilvægu stefnubreytingu og lækkun sem átti sér stað á sama tíma sem felst í því að nú borga börn undir 16 ára aldri aðeins 100 kr. staðgreitt í vagnana. Í þessari aðgerð eru þrjú markmið, í fyrsta lagi að lækka svokallað ungmennagjald um 60%, í öðru lagi að einfalda gjaldskrá þannig að öll börn þurfi aðeins að greiða einn pening og í þriðja lagi sem grundvöllur markvissrar kynningar á nýju leiðakerfi á einfaldan hátt.

Ég skil vel að þeir sem tala fyrir því að frítt eigi að vera í Strætó séu ósáttir en það er hins vegar umræða sem verður að fara fram á ábyrgan hátt því rúmlega 800 milljónir af tekjum Strætó bs. koma frá fargjöldum. Ef að Strætó bs. ætti að gefa frítt í Strætó þarf töluvert hærri framlög frá sveitarfélögunum og þar með hærri skattheimtu. Miðað við síðustu fjárhagsáætlun er alveg skýrt að það er ekki til umræðu í neinu af þeim 7 sveitarfélögum sem eiga aðild að félaginu. Á meðan svo er og engar ákvarðanir teknar um annað fylgja strætófargjöld verðlagsþróun eins og allt annað. Benda má á að verðlag þeirra þátta er tengjast rekstri Strætó og bifreiða hafa hækkað mun meira en annað auk þess sem olíugjald leggst á fyrirtækið nú en ekki áður.

Það er mikilvægt í þessu samhengi að minna á að skólakort í Strætó bs. (sem dugar allan veturinn og er fyrir alla, ekki bara skólafólk) er jafndýrt og rekstur eins bíls í einn mánuð. Staðgreiðslufargjald í Strætó er jafnhátt gjald og tekið er fyrir einn cafe latte á kaffihúsum borgarinnar og Græna kortið (mánaðarkort) fyrir þann sem notar strætó daglega til og frá vinnu er sambærilegt í staðgreiðsluverði fyrir eina ferð sem nemur 112 kr.

Hér fylgir bókun Framsóknarmanna og Sjálfstæðsimanna í umhverfisráði sl. mánudag:

?Ný gjaldskrá tók gildi hjá Strætó mánudaginn 22. janúar 2007. Breytingin endurspeglar verðlagshækkanir sl. árs sem og spár um hækkanir á þessu ári sem koma að miklu leyti til vegna hækkana olíuverðs. Veruleg breyting verður á fargjöldum ungmenna frá 12 til 18 ára aldurs. Hingað til hafa 12 ? 18 ára ungmenni þurft að greiða 250 krónur fyrir stakt gjald en með tilkomu staðgreiðslufargjalds barna og ungmenna greiða þau nú aðeins 100 krónur fyrir farið, sem er 60% lækkun. Þessi breyting mun vonandi hafa þau áhrif að fleiri ungmenni nýti sér almenningssamgöngur og kynnist nýju og mikið breyttu leiðakerfi. Flestir viðskiptavina Strætó notfæra sér afsláttarkjör í formi miða og korta. Engin breyting verður á verði fargjaldakorts barna frá 6 til 11 ára aldri sem greiða sem fyrr 37,50 krónur fyrir farið. Þótt það sé alltaf vont að þurfa að hækka fargjöld í strætó, sýna kannanir erlendis frá að lítil fylgni sé milli þess hvað kostar í almenningssamgöngur og hversu margir nota þær. Miklu meiru ræður sú þjónusta sem veitt er og það viðmót sem notendur fá. Það er skýrt markmið meirihlutans í Reykjavík að bæta þjónustu strætó með öllum mögulegum aðgerðum. ?

Lesa meira

11

01 2007

Börn í fararbroddi í Reykjavík (Mbl. 08.01.07)

Í öllum áætlunum nýs meirihluta í borginni er stefnt að því að bæta hag fjölskyldna og barna í borginni. Börn sem njóta þjónustu dagforeldra fá nú 1. janúar auknar niðurgreiðslur frá borginni, annars vegar til þess að lækka álögur á foreldra sem einsýnt var að myndu hækka að óbreyttu á nýju ári og hins vegar til að tryggja þjónustu dagforeldra sem er lykilþáttur í lífi og starfi barnafjölskyldna. Greiðslur með börnum námsmanna og einstæðra foreldra hækka mikið. Dagforeldrakerfið er afar farsælt og mikilvægt og á áfram að vera skýr valkostur fyrir foreldra með ung börn. Því þarf að styrkja þennan valkost á sambærilegan máta og aðra valkosti sem foreldrar geta valið á milli. Það þarf að tryggja þjónustuna og gjöld foreldra þurfa að vera sambærileg á milli ólíkra valkosta dagvistunar. Nýr meirihluti mun áfram leita leiða til þess að tryggja valkosti fyrir foreldra yngstu barnanna í Reykjavík.

Samfylkingin gleymir skjótt
Samfylkingin í borgarstjórn er fljót að gleyma eins og sést á grein Oddnýjar Sturludóttir í Morgunblaðinu sl. mánudag. Hún er sérstaklega fljót að gleyma þeirri þróun sem átti sér stað og endurspeglaðist í því ástandi sem hér ríkti í dagvistarmálum ungra barna í borginni síðastliðin ár, en dagforeldrum hefur fækkað um 40% frá árinu 2000. Í verstu tilfellunum þurftu foreldrar að hætta í starfi eða taka launalaust leyfi til að sinna börnum sínum vegna smánarlegs framlags borgarinnar til dagforeldrakerfisins. Kerfið er afar gott enda eru yfir 90% foreldra mjög ánægðir með þjónustu dagforeldra. Samfylkingin er líka búin að gleyma því að fyrir réttu ári samþykkti hún, í samstarfi við Framsóknarflokkinn og Vinstrihreyfinguna grænt framboð, skilyrðislaust rúmlega 30% aukningu til dagforeldra. Í málefnaáherslum Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar komu heldur ekki fram neinar hugmyndir að breyttri þjónustu dagforeldra eða stofnanavæðingu þeirra. Hækkun fyrrverandi meirihluta var án allra skilyrða af hendi borgarinnar, nákvæmlega eins og Samfylkingin gagnrýnir núverandi meirihluta fyrir. Það er greinilega þægilegt að vera í minnihluta og leyfa sér að kannast ekki við eigin fortíð. Samt var um að ræða sögulega hækkun, því árið 2005 var ástandið orðið þannig að börn hjóna fengu niðurgreiðslu frá borginni að upphæð einungis kr. 13.000 á mánuði fyrir 8 tíma vistun! Eftir aukningu borgarstjórnar til málaflokksins nú 1. janúar 2007 fá hjón 32.000 kr. fyrir 8 tíma vistun og einstæðir foreldrar tæp 50.000 kr. fyrir 8 tíma vistun. Of snemmt er að meta hvernig þessi aukning skiptist á milli foreldra og dagforeldra en þar sem dagforeldrar eru sjálfstætt starfandi er þeim óheimilt með lögum að samræma gjaldskrá sína. Þó er ljóst að foreldrar eru ekki að fá hækkun á gjöldum hjá dagforeldrum og félag dagforeldra hefur gefið skýr tilmæli til dagforeldra að lækka gjöld á foreldra að einhverju marki.

Leikskólagjöldin í Reykjavík lægst allra
Í dag eru foreldrar í Reykjavík að greiða lægstu gjöldin á landinu og langlægstu gjöldin greiða foreldar sem eru með fleiri en eitt barn í leikskóla. Sérstaklega hefur verið komið til móts við einstæða foreldra og barnmargar fjölskyldur. Sem dæmi má nefna að foreldrar með tvö börn í leikskóla greiða nú rúmlega 20.000 kr. lægri upphæð á mánuði eða sem nemur 220.000 kr. á ársgrundvelli í leikskólagjöld, þrátt fyrir verðlagsbreytingar. Þetta hefur allt gerst á 6 mánuðum og áfram mun nýr meirihluti framkvæma gefin loforð og gott betur.

Lesa meira