PISTLAR


23

10 2007

Siglfirðingar framhald

Ég fékk tölvupóst í gegnum föður minn frá áhugamanni um ættfræði Siglfirðinga.   Það hefur einhver tekið að sér að skoða borgarfulltrúana líka, kannski vegna færslu minnar um daginn.  Birti tölvupóstinn hér að neðan en enn vantar upplýsingar um Sóleyju Tómasdóttur.

Pabbi er að vísu fæddur í Reykjavík en flutti nokkurra vikna norður.  Afi er ættaður úr Fljótunum en amma var frá Vestmannaeyjum og hitti afa fyrir norðan.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og borgarstjóri, er sonur Eggerts Gunnarssonar dýralæknis og Bergþóru Jónsdóttur lífefnafræðings. Bergþóra er fædd á Siglufirði, dóttir Jóns Hjaltalíns Gunnlaugssonar, sem var heimilislæknir þar frá 1947 til 1955.

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er dóttir Þórunnar Jensen og Frímanns Gústafssonar trésmiðs, sem er fæddur og uppalinn á Siglufirði, sonur Gústafs Guðnasonar olíubifreiðastjóra og Jórunnar Frímannsdóttur sem býr á Siglufirði.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er dóttir Vigfúsar Árnasonar endurskoðanda, sem er fæddur og uppalinn á Siglufirði, sonur Helgu Hjálmarsdóttur og Árna Friðjónssonar síldarsaltanda (bróður Vigfúsar Friðjónssonar). Móðir Þorbjargar Helgu er Ólöf G. Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur. Afi hennar var Sveinbjörn Jónsson byggingameistari, framkvæmdastjóri Ofnasmiðjunnar, en hann var oft á Siglufirði á fyrri hluta tuttugustu aldar.

 

Þá má geta þess að Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, á mikið af skyldfólki á Siglufirði. Afi hennar í móðurætt er Benedikt Kristinn Franklínsson, bróðir Guðbjargar, Guðborgar, Margrétar og Nönnu Franklínsdætra. Afabróðir Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, var Ólafur Ragnars síldarsaltandi á Siglufirði.

Lesa meira

20

10 2007

Nýjar útfærslur

Það er nú ekki nema rétt rúm vika síðan að áhugasamir Fossvogsbúar áttu viðtal hjá fyrrverandi borgarstjóra, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, um þetta mál.   Þessir nágrannar mínir eru með mjög skemmtilegar hugmyndir um laug í dalinn og nokkrar nýstárlegar útfærslur.  Ég fagna því að þetta mál fari á hreyfingu hjá nýjum borgarstjóra enda teljum við Fossvogsbúar að dalurinn verði enn eftirsóttara útivistarsvæði ef laug kemur hingað.   Fossvogsskóla sárlega skortir laug til að kenna í en börnin eru að fara í rútum eftir skólatíma í Breiðholtslaug.

Ég verð samt að segja að mér finnst nýr meirihluti ekki mikið vera að horfa til þess að borgarsjóður stendur höllum fæti.   Að mínu mati eru laugar ekki forgangsverkefni þó ég styðji málið.   Við tókum við borgarsjóði í 7 milljarða króna halla eftir kosningar og tókum ærlega til hendinni.   Áætlanir voru um að gatið yrði 4 milljarðar um næstu áramót en stefndi í 1 milljarð.   Þessi lína heyrist ekki hjá hinum nýja meirihluta, þ.e. að spara eigi í rekstri og ná niður skuldahalanum.

Lesa meira

14

10 2007

Betri í dag en í gær

Það þýðir samt ekki að ég hafi jafnað mig á þessum jarðskjálfta sem reið yfir þessa síðustu viku. 

Mér finnst alveg ömurlegt að þurfa að víkja frá verkefnunum sem voru á góðri leið að verða að veruleika.  Ég hlakkaði til að kynna fyrir borgarbúum hugmyndirnar okkar um yngri barna deildir og samninga við dagforeldra.  Ég hlakkaði til að innleiða milljón litlar hugmyndir um Strætó.  Ég hlakkaði til að skipuleggja kaffihús í Hljómskálagarðinum.  Og fleira og fleira.  Ég er að sama skapi glöð yfir að hafa komið í gegn mörgum hlutum þrátt fyrir stuttan tíma.

Nú hefst eitthvað nýtt.  Ég hef ekki verið í minnihluta og ég læri án vafa fullt á þeirri reynslu. Ég vil hérna þakka starfsfólki Reykjavíkurborgar fyrir að starfa með mér af heilindum og þola lætin og óþolinmæðina í okkur í Sjálfstæðisflokknum.

Lesa meira

14

10 2007

Orkuveitan er í raun seld!

Þegar þjónustusamningur milli REI og OR er rýndur er ljóst að búið er að selja stærri part úr Orkuveitu Reykjavíkur en nokkurn óraði fyrir.  Borgarfulltrúar fengu kynningu á að verið væri að selja útrásarfélögin inn í hið nýja REI (sameinað félag gamla REI og Geysir Green Invest).  Það sem reynd var verið að gera nær miklum mun lengra en það.  Kíkjum aðeins á hvernig málin standa núna m.v. það sem hefur komið fram til þessa:

  1.  OR afsalar til REI öllum erlendum verkefnum sem OR vinnur að í dag og öllum erlendum verkefnum sem OR mun hugsanlega vinna að næstu 20 árin.
  2. Í gegnum "Services Agreement" er búið að tryggja REI fullkomið aðgengi að starfsmönnum Orkuveitunnar. Þetta "aðgengi" felur í sér að OR afsalar sér með einkarétti til REI allri þjónustu sérfræðinga OR á sviði háhitatækni, kerfis- og rekstrarsérfræðiþekkingu, áætlanagerðar, fjármálasérþekkingar, markaðsþekkingu o.s.frv. Þetta tekur til REI og allra félaga sem REI fjárfestir í í háhitatækni utan Íslands næstu 20 árin.
  3. OR lofar aðgengi að eftirfarandi þekkingu sem OR býr yfir eða kann að komast yfir næstu 20 árin á sviði háhitatækni: know-how, "aðferðir", viðskiptaferla, uppfinningar með eða án einkaleyfa, höfundaréttir, hönnun, einkaleyfi, vörumerki, og allar aðrar óáþreifanlegar eignir sem OR mun finna upp eða kaupa næstu 20 árin.
  4. REI hefur ótakmarkaðan aðgang að starfsmönnum OR.
  5. Svæðið sem samningurinn tekur til er heimurinn allur utan Íslands.
  6. REI þarf að láta vita með 3 mánaða fyrirvara hvaða þjónustu þeir þarfnast frá OR. OR þarf að verða við því.
  7. OR skaffar stjórnarmann fyrir REI ef REI óskar þess (en annars ekki).
  8. Samningurinn er óuppsegjanlegur.
  9. REI má nota orðin "Orkuveita Reykjavíkur" og "Reykjavík Energy" að vild.

Hið nýja REI er eftir samruna og aukahlutafjáraukningu í meirihlutaeigu FL Group, Atorku og Glitnis (samtals um 53%). Þar sem þessir aðilar eru nátengdir (eiga hver í öðrum) ráða þeir félaginu alfarið utan þess að geta ekki breytt samþykktum félagsins án samþykkis OR. Áhættufjárfestar geta því í kjölfar samrunans notað nafn Orkuveitu Reykjavíkur á erlendum vetvangi.Í stuttu máli er verið með þessu að selja allt sem OR gerir og getur gert næstu 20 árin utan Íslands til REI, þar með talið nafn félagsins, "Reykjavík Energy".  Þetta jafngildir því að búið sé að selja til fárra útvaldra Orkuveitu Reykjavíkur utan vatns- og rafmagns hlutans hér heima, þar með talið Hitaveitu Suðurnesja. Hreint ótrúlegt.Í síðustu viku lögðum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að lausnin væri sú að selja REI sem fyrst. M.v. nýjustu upplýsingar er ljóst að það er ekki lengur lausn sem mér fyndist ásættanleg. Úr því sem komið er er ljóst að lausnin verður að vera sú að beita öllum tiltækum ráðum til að vinda ofan af þessum fáránlega gjörningi. Að auki:Að mínu mati er þessi samningur til 20 ára við Orkuveituna algjört grundvallaratriði varðandi framhaldið á málinu.  Fjölmiðlar verða að spyrja alla kjörna fulltrúa hins nýja meirihluta hvað þeim finnist.  Skiptar skoðanir virðast vera hjá stjórnarmönnumsem fengu hann til afgreiðslu.  Samningurinn rýrir verðmat á viðskiptavildinni sem Björn Ingi segir vera svo hátt metna.  Ef samningurinn er framreiknaður til 20 ára er þá verið að ræða um 500 milljónir á ári fyrir allt það sem ég nefni hér að ofan?  Að mínu mati er þetta það mikið grundvallaratriði í umræðunni að ég held að best væri að ógilda samninga og byrja upp á nýtt.   Að minnsta kosti þarf að spyrja sig um afleiðingar þessa samnings.  Þýðir þetta að starfsmenn OR sem voru mögulega að kaupa sér í hlut í REI séu bakdyramegin orðnir þrælar REI?   Ætli starfsmenn OR viti almennt af þessu máli? Þetta eru alvarlegt tíðindi í þessu ótrúlega máli. 

Ég vona að það fari ekki að berast fleiri upplýsingar um svona ,,aukaatriði" í samningnum sem skipta öllu máli í samrunanum.  Nóg er um að framsóknarmenn sigli undir fölsku flaggi í þessum samruna.   Ég geri ekki upp á milli fjárfesta en mér líkar afar illa þegar einstakir fjárfestar (í þessu tilfelli Kristinn Hallgrímsson, Helgi S. Guðmundssonog Finnur Ingólfsson) reyna að fela aðkomu sína með óþekktum félaganöfnum (Þeta, Landvar).   Og að Björn Ingi skuli neita því að hann vissi af þeim þarna er náttúrulega með ólíkindum.  Það hljóta allir að sjá að hann gengur erinda þessara manna og mögulega fleiri manna í þessum samruna. 

Nú reynir á Svandísi og Vinstri græna.  Kyngja þau öllum þessum ósköpum og endurtaka eigendafundinn eins og Björn Ingi krafðist af Sjálfstæðisflokknum?

Lesa meira