PISTLAR


28

02 2007

Naglar og börn (Fréttablaðið)

Hreint loft er einn af meginkostum Reykjavíkurborgar. Tuttugu og níu daga á ári er svifryksmengun yfir heilsuverndarmörkum. Þetta er 29 dögum of mikið og út frá niðurstöðum bandarískra rannsókna þarf sérstaklega að huga að svifryksmengun í ljósi umhverfis barna okkar. Í rannsókninni kom fram að lungnaþroski er seinni hjá börnum sem búa við menguð svæði. Því er um að ræða afar mikilvægt umhverfismál sem allir á höfuðborgarsvæðinu þurfa að vera meðvitaðir um enda getur hver og einn gert sitt til að minnka mengun í borginni.

Hvers vegna að negla bílinn?
Nagladekk er helsti orsakavaldur svifryks. Reykjavíkurborg hefur unnið markvisst starf til að brýna fyrir borgarbúum ábyrgð hvers og eins í þessu samhengi. Umhverfissvið borgarinnar er til dæmis í mjög markvissum leiðangri við mælingar á svifryki í borginni og hefur lagt mest allra sveitarfélaga á sig vinnu við herferðir gegn nagladekkjum. Þessi vinna hefur áhrif enda hefur bílum á negldum dekkjum fækkað frá 2003 úr 60% í 50%. Þetta bendir til þess að viðhorfsbreyting sé að eiga sér stað. Könnun sem framkvæmd var í fyrra sýndi að 75% borgarbúa töldu að nagladekkin hefðu verið öruggari en vetrardekk í 10 daga eða færri, og rúmur helmingur taldi að fjölda þessara daga mætti telja á fingrum annarrar handar. Bíleigendur ættu allir að hugleiða hvort að 10 dagar á ári réttlæti nelgd dekk undir bílinn.

Út að leika!
Foreldrar sem aðrir verðum að hafa í huga þau ótrúlegu lífsgæði sem felast í að geta hvatt börnin til útvistar allt árið um hring. Í aðalnámskrá leikskóla er mikið lagt upp úr útivist og umhverfi leikskólabarna og útivist og þroskavænlegt umhverfi í kringum skóla ávallt verið sérstök rós í hnappagatið í íslenskum leikskólum. Við megum ekki til þess hugsa að framtíðin beri í skauti sér reglur um takmarkaða útiveru leikskólabarna vegna svifryksmengunar. Allir, foreldrar, fyrirtækjaeigendur og almennir bifreiðaeigendur þurfa að tengja saman orskir og afleiðingar varðandi svifryk. Svifryk hefur áhrif á lungnaþroska yngstu Reykvíkinganna. Færri naglar, fagrir vetrarmorgnar og frískari börn ætti að vera leiðarljós borgarbúa.

Lesa meira

28

02 2007

Tillaga í leikskólaráði um svifryk

Á leikskólaráðsfundi var afgreidd tillaga meirihlutans vegna svifryksmála við góðar undirtektir. Undanfarið hefur umræðan um loftmengun verið mjög mikil en að mínu mati í aðeins of miklum véfréttastíl. Ég hvet áhugasama að fylgjast vel með vef Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar þar sem koma fram mjög gagnlegar upplýsingar um stöðu mála, um svifryk og orsakir þess og góðar leiðir til að bæta loftmengun.

Tillagan sem var samþykkt í leiksskólaráði er hér:

Lagt er til að fulltrúar Umhverfissvið og Leikskólasviðs verði í samstarfi vegna umfjöllunar um loftmengun við leikskóla. Þá er lagt til að fulltrúar sviðanna móti tillögur að aðgerðum og samstarfi til að fjölga loftgæðamælingum við leikskóla og auka upplýsingagjöf til leikskólastjóra þegar mengun fer yfir hættumörk. Jafnframt verði lagðar fram hugmyndir til að upplýsa og hvetja foreldra/forráðamenn barna og borgarbúa til ráðstafana sem draga úr loftmengun.

Greinargerð:

Reykjavíkurborg hefur verið í forystu um aðgerðir til að draga úr svifryki og svo mun verða áfram. Til að ná meiri árangri er nauðsynlegt að borg og ríki vinni sameiginlega að markmiðum um minnkun loftmengunar í þéttbýli, borgarbúum og öllum landsmönnum til heilla. Mikilvægt er að fá íbúa höfuðborgarsvæðisins til liðs við Reykjavíkurborg í þeirri viðleitni.

Nýjar rannsóknir sýna að svifryk hefur bein áhrif á lungnaþroska barna.
Þetta eru alvarlegar niðurstöður og gefa tilefni til þess að auka samstarf Leikskólasviðs og Umhverfissviðs. Mikilvægt er að skipuleggja reglulegar mælingar við leikskóla borgarinnar. Stefnt skal að viðameiri mælingum og aðgengilegri upplýsingum til almennings um loftgæði í Reykjavík. Brýnt er að leikskólastjórar og starfsfólk leikskóla fái greinargóðar upplýsingar um eðli loftmengunar og aðgerðir leikskóla þegar mengun fer yfir hættumörk. Þá er ekki síst er mikilvægt að upplýsa foreldra um loftmengun, orsakir hennar og afleiðingar sem og aðgerðir gegn henni.

Þess er óskað að fulltrúar Leikskólasviðs og Umhverfissviðs kynni leikskólaráði tillögur sínar svo leikskólar borgarinnar fái öfluga þjónustu og ítarlegar upplýsingar vegna loftmengunar.

Lesa meira

04

02 2007

Umræðustjórnmál og fylgistap

Ég er svo innilega sammála bloggi Þórarins Eldjárns (sem ég er nýfarin að lesa) þar sem hann ræðir um þingumræðu um málefni RÚV. Þar segir hann:

,,Á undanförnum árum hefur borið nokkuð á sérkennilegri lýðræðisumræðu sem gengur út á það að því meiru sem hinn allra minnsti minnihluti fái að ráða, þeim mun meira sé lýðræðið þar með orðið. Og svo á hinn bóginn: Því stærri meirihluti sem er fyrir einhverju tilteknu máli, þeim mun minna lýðræði. Samkvæmt þessum kokkabókum hlýtur td. stofnun lýðveldisins 1944 að hafa verið hrikalega ólýðræðisleg. Þetta er kallað meirihlutaofbeldi og þykir skelfilega ljótt. Ég get svo sem alveg tekið undir það að allt ofbeldi er slæmt. Af tvennu illu kýs ég þó frekar meirihlutaofbeldi en minnihlutaofbeldi."

Sú lýðræðisumræða sem Þórarinn er að vísa á sér rætur að rekja í málflutning Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Stefáns Jóns Hafstein og Dags B. Eggertssonar. Þessir aðilar hafa notað í gegnum árin frasa eins og umræðustjórnmál, sjálfstæð stjórnsýsla, lýðræðislegir stjórnunarhættir og fleiri þessum líkum. Íslendingar hafa tekið þessum frösum ágætlega en ekki greint nákvæmlega hvað þeir fela í sér. Þessir frasar hafa hins vegar hentað sérstaklega vel fyrir ofangreinda einstaklinga í meirihluta, þ.e. að láta þannig líta út að þeir taki lýðræðislegar ákvarðanir og að stjórnsýslan starfi án þess að stjórnmál hafi þar bein áhrif. Þetta hentar hins vegar alls ekki í stjórnarandstöðu eins og RÚV málið sannaði. Gísling minnihlutans á umræðu um hvort útvarp og sjónvarp eigi að vera sf., ehf. eða ohf. endurspeglar vel hversu innantómur frasi umræðustjórnmál eru. Fylgistap Samfylkingarinnar er án efa beintengt endalausum umræðustjórnmálum.

Lesa meira