PISTLAR


20

09 2007

Nýjar víddir (Morgunblaðið, 15. september 2007)

LEIKSKÓLAR í Reykjavík eru eftirsóttir af foreldrum fyrir börn sín. Þar fer fram menntun í gegnum leik, börn eru vistuð í öruggu umhverfi, fá umhyggju og hollan mat. Þeir eru eftirsóttir vegna gæðastarfs og skipulags og undanfarin ár hefur hver og einn leikskóli styrkt sérstöðu sína. Sextán sjálfstætt reknir skólar og dagforeldrakerfi er einnig rekið samhliða borgarrekna kerfinu af miklum metnaði. Reykjavíkurborg borgar nú jafnmikið með barni óháð rekstrarformi og foreldrar hafa val um hvaða skóla þeir velja fyrir börnin sín.

Foreldrar og konur sem vinnuafl
 
Leikskólarnir eru ekki síst mikilvægir til að tryggja það mikilvæga vinnuafl sem foreldrar, og konur þá sérstaklega eru. Þegar grunnþjónusta brestur fer mikill tími og álag í að raða niður pössun fyrir börn, taka þau með í vinnu eða taka frí til að mæta kröfum atvinnurekandans. Foreldrar sem eru efnaðri hafa sumir hverjir leyst þennan viðvarandi vanda með því að ráða sér starfsmann inn á heimilið. Aðrir redda hverjum degi fyrir sig og bæta þannig á álagið sem er til staðar við að púsla flókinni fjölskyldudagskrá saman. Konur, sem eru að jafnaði líklegri til að vera í hlutastarfi til að mæta þörfum heimilisins, eru því enn líklegri til að draga úr atvinnuþátttöku sinni þegar ekki býðst þjónusta. Að sama skapi er trygg og góð þjónusta fyrir yngstu börnin forsenda atvinnuþátttöku kvenna. Þetta sést glögglega á meðfylgjandi mynd sem sýnir aukningu atvinnuþátttöku samhliða fjölgun vistunarstunda barna í leikskólum Reykjavíkur frá 1992.

Þurfum að horfa á nýjar lausnir

Undanfarin ár hefur verið viðvarandi vandi að manna leikskóla og ekki sér fyrir að þessi vandi hverfi. Uppbygging þjónustu hefur verið gríðarlega hröð, leikskólakennurum fjölgar ekki nægilega hratt, mikill skortur hefur verið á starfsfólki í landinu og launakjör starfsmanna ekki haldið í við launaskrið. Þetta og fleiri ástæður hafa haft þau áhrif að undanfarin 4 til 5 ár hefur vantað starfsfólk á leikskóla borgarinnar og foreldrar þurft að búast við eða lifa með skerðingu á þjónustu. Í svona viðvarandi stöðu er komið að því að velta verður fyrir sér nýjum leiðum og hugsa út fyrir hinn hefðbundna ramma. Fjölmargt nýtt hefur verið reynt á þessu ári til að fá fólk til starfa hjá Leikskólum Reykjavíkur en vandinn er enn til staðar. Huga þarf að fleiri möguleikum í stöðunni og ýta undir einstaklingsframtakið og fleiri tegundir þjónustu. Sjálfstætt reknir skólar hafa meiri sveigjanleika og eru í minni mönnunarvanda í Reykjavík. Erlendis er vel þekkt að leikskólar séu reknir af fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum fyrir borgarsjóði. Félagasamtök, jafnvel íþróttalið, hafa tekið að sér að reka leikskóla með góðum árangri. Í Stokkhólmi er helmingur leikskóla einkarekinn og oft af leikskólastjórum sem voru áður í starfi hjá borginni. Með því hafa fleiri konur tekið þátt í sjálfstæðum rekstri og geta haft bein áhrif á umhverfi sitt og starfsmenn sína. Fyrirtæki geta séð sér hag í að bjóða þjónustu fyrir yngstu börn starfsmanna sinna og foreldrar gætu séð kost í því að vera meira með börnum sínum, jafnvel í hádeginu eða í langa bíltúrnum heim á leið eftir vinnu. Þorum að horfa á nýjar lausnir, lausnir sem geta mætt þörfum barna, foreldra og fyrirtækja.

 

Lesa meira

14

09 2007

Óheiðarleiki eða fáfræði? (grein Frbl.)

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í borgarstjórn liðka ekki fyrir lausnum í leikskólamálum. Grein mín um kerfisbreytingar á þjónustu leikskóla hefur fengið mikla umræðu og ýtt við hugmyndum að lausnum. Einu neikvæðu raddirnar hafa komið frá minnihlutanum en málflutningur þeirra lyktar af óskýrri hugmyndafræði og markmiðum um að færa umræðuna í pólitískt karp. Gagnrýnin einkennist af upphrópunum, sem væri ekki tiltökumál ef málflutningurinn væri ekki óheiðarlegur og misvísandi.

Aldrei hefur orðið einkavæðing verið notað í þessari umræðu nema af minnihlutanum. Vinstri menn virðast ekki geta skilið muninn á einkarekstri og einkavæðingu. Einkarekstur er þegar einstaklingar, félagasamtök eða fyrirtæki taka að sér rekstur að uppfylltum skilyrðum og kröfum um þjónustu fyrir opinberan aðila. Við einkavæðingu er rekstur seldur frá sveitarfélagi til einkaaðila. Tvennt gjörólíkt.

Oddný Sturludóttir vísar í minningar í menntó og að hugmyndir um einkavæðingu séu efni í skólaskemmtanir. Svona málflutningur dæmir sig sjálfur því ljóst er að borgarfulltrúinn er enn þá á skólaskemmtuninni. Skilur Oddný ekki muninn á einkarekstri og einkavæðingu? Svandís Svavarsdóttir talar um stéttaskiptingu ef bankar taka að sér rekstur leikskóla. Hvaða stéttaskipting er í bönkum umfram til dæmis mismun milli hverfa borgarinnar? Vinnur bara hástéttarfólk í bönkum? Síðast þegar ég vissi voru það konur í gjaldkerastörfum og bakvinnslu sem mynda flest störf í bönkum. Sigrún Elsa Smáradóttir heldur sér við sömu einföldun og talar um að rekstur eigi að vera samfélagsleg ábyrgð.

Það hefur alltaf verið skýr sýn meirihlutans að öll börn fái sama stuðning frá borgarsjóði, óháð vali á skóla. Það er einmitt það sem minnihlutinn gerði ekki á síðasta kjörtímabili og afleiðingin varð ósanngjörn skólastefna.

Meirihlutinn í borgarstjórn vill styrkja þjónustu við börn og foreldra og þorir að horfa á nýjar lausnir. Vonandi fer pólitískum skotgrafarhernaði minnihlutans að linna svo hægt verði að vinna að lausn vandans. Foreldrar eiga ekkert minna skilið.

Lesa meira

11

09 2007

Frábærar sýningar

Við hjónin fórum á tvær frábærar sýningar á sunnudaginn.  Önnur er í Þjóðminjasafninuog heitir Undrabörn.  Sýningin er safn mynda sem ljósmyndarinn Mary Ellen Mark tók af börnum í Safamýrarskóla, Öskjuhlíðarskóla og Lyngási.  Ég hvet alla foreldra til að fara á sýninguna með börnin sín.  Þarna eru frábærar myndir sem sýna daglegt líf fatlaðra barna.

Í rigningunni fórum við svo á yfirlitssýningu Eggert Péturssonará Kjarvalsstöðum.  Ég er búin að vera aðdáandi Eggerts í nokkur ár og er búin að bíða eftir mynd í tæp tvö ár.  Sýningin er alveg frábær fyrir áhugamenn um myndlist og sýnir vel hvernig hann hefur þróast undanfarin ár.   Ég er hrifnust af myndunum hans í kringum aldamót en þær eru hreint út sagt ótrúlegar.  Eggert hlýtur að hafa verið tugi mánaða með sumar myndirnar.  Uppáhaldsmyndin mín á sýningunni er í eigu Listasafns Íslands og er að mig minnir frá 1998

Lesa meira

06

09 2007

Fylgifiskar uppsveiflu (grein Fréttablaðið 5. september)

Íslenskt samfélag er með þeim framsæknustu í heimi. Íslendingar eru þakklátir fyrir þau lífsgæði sem við búum að og eru tilbúnir að vinna vel og mikið til að halda sér í flokki þeirra bestu. Þrátt fyrir bjartsýni og dug sjáum við vísbendingar um að hjól efnahagslífsins snúist of hratt. Atvinnuleysi er mjög lágt, var 0,9% í júlí, og hefur ekki verið svo lítið síðan í október 2000. Flestir telja þetta jákvætt merki en í raun er þetta ábending um að á Íslandi sé gríðarlegur skortur á vinnuafli.

Um 175.000 manns voru á vinnumarkaði 2006 en 165.000 árið 2005. Fjölgunin er nánast öll bundin við höfuðborgarsvæðið og mætt með erlendu vinnuafli. Fjöldi erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði jókst mjög á sama tíma og er talið að þeir hafi að jafnaði verið yfir 13 þúsund í fyrra eða um 7-8% af vinnuafli landsins. Fjöldi útgefinna atvinnuleyfa eykst enn og til viðbótar eru 1800 manns skráðir á atvinnuleigum frá í febrúar 2007. Í könnun Vinnumálastofnunar í desember sl. kemur fram að skortur væri fyrirsjáanlegur hjá um 39% fyrirtækja á þessu ári, mest í sérhæfðum þjónustufyrirtækjum og meiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Sýnilegur skortur
Fullyrða má að flestir atvinnurekendur finni fyrir starfsmannaskorti. Brauð er ekki í boði í Nóatúni vegna manneklu hjá bakaranum. Lögreglan fær ekki starfsmenn. Pizza-staðir vara við lengri bið vegna manneklu. Bónus flytur inn starfsfólk. Áætlað er að um 500 hjúkrunarfræðinga vanti í heilbrigðisstofnanir á landinu og tuttugu þúsund Reykvíkingar eru án heimilislæknis. Banki telur sig þurfa að ráða í um tvöhundruð stöðugildi. Mannekla leikskóla borgarinnar gerir það að verkum að rúmlega 300 pláss fyrir börn nýtast ekki og 1.300 börn bíða eftir lengdri viðveru. Skortur á vinnuafli snertir æ meira þá grunnþjónustu sem við krefjumst til að halda atvinnulífinu gangandi.

Ófáir afar og ömmur hjálpa börnum og barnabörnum við að púsla saman vikunni. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu standa ekki undir þeirri grunnþjónustu sem ætlast er til að þau veiti. Dæmi eru um að foreldrar tveggja barna fái ekki þjónustu leikskóla né frístundaheimilis vegna skorts á starfsfólki. Foreldrar hafa ekki orku til að vera raunverulegur þrýstihópur vegna álags.


Að óbreyttu er þessi vandi líklega kominn til að vera. Reykjavík, og önnur sveitarfélög leggja sig öll fram við að ráða gott og hæft starfsfólk til að tryggja foreldrum þjónustu. Allar leiðir eru reyndar til að fá gott fólk til starfa á þessum gefandi vinnustöðum þar sem börn dvelja og nema. Eitthvað gengur en skerðing þjónustu er staðreynd. Kjaramál eru að sjálfsögðu liður í að bæta stöðuna en kjörum starfsfólk er stýrt miðlægt þrátt fyrir að mun dýrara sé orðið að búa á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar, sem veldur því að erfiðara er að manna í stöður þar en ella. Að hækka laun miðlægt til að bæta ástandið er aðeins skammtímalausn þar sem það veldur keðjuverkandi áhrifum.

Lausnir krefjast kerfisbreytinga
Framtíðarlausn hlýtur að fela í sér kerfisbreytingu á þjónustuumhverfi barna og foreldra. Sveitarfélög verða að fá aukinn sveigjanleika í kjaramálum kennara, hverfa frá jafnlaunastefnu og veita þarf aukinn sveigjanleika til samninga, t.d. út frá leigukostnaði og samgöngukostnaði. Þjónusta við foreldra þarf að fara í auknu mæli til sjálfstæðra skóla. Fyrst þá getur samningaumhverfi kennara og starfsmanna opnast og samkeppni er innleidd á jákvæðan máta. Kosti einkareksturs þarf að nýta betur til að tengja saman mikilvægi þessara starfa og kjaraumhverfið. Miðstýrt kerfi hins opinbera keppir ekki til framtíðar í opnu markaðsumhverfi landsins. Atvinnurekendur verða að auki að huga að ábyrgð sinni, sérstaklega þegar svona mikið launaskrið á sér stað. Atvinnurekendur í öðrum löndum bjóða t.d. oft upp á þjónustu fyrir foreldra með góðum árangri því þeir vita er að fyrr eða síðar bitnar þjónstuskortur við foreldra á atvinnurekendum og hagkerfinu í heild.


Sú staða sem nú er uppi skapar hringrás sem erfitt er að komast úr, hringrás sem hefst þegar vinnandi einstaklingur hættir störfum vegna þess að grunnþjónustu er ekki að fá. Vandamálið er mikilvægt og aðkallandi og líklega viðvarandi. Sveitarfélag eins og Reykjavíkurborg þarf að huga að lausnum til framtíðar. Til þess þarf samvinnu ólíkra aðila í samfélaginu – og rétta forgangsröðun í þágu barna.

Lesa meira

04

09 2007

Af borgarstjórnarfundi

Borgarstjórnarfundur stendur enn yfir og búið er að ræða hlutafélagavæðingu Orkuveitunnar og húsafriðun á Laugaveginum.   Nú stendur hins vegar yfir umræða um starfsmannamál borgarinnar og grunnþjónustu við foreldra og börn.   Í ljós komu fram skýrar pólitískar línur þegar ég sem formaður leikskólaráðs lagði til að við þyrftum að ræða um kerfisbreytingar á umhverfi yngstu barna þar sem ekki væri hægt að reka miðstýrt kerfi leikskóla í markaðsdrifnu hagkerfi þar sem slegist er um fólk.  Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG kom með skýrar línur á móti og sagði skatta of lága og hækka þyrfti skatta til að búa betur að kennurum og starfsfólki skóla í landinu.  

Þarna eru skýrar pólitískar línur sem ber að virða sem slíkar.   Það er alltaf gaman að fá tækifæri til að velta upp ólíkum hugmyndafræðilegum forsendum úrræða sem gerist mun oftar með Vinstri grænum en með Samfylkingu sem oftar ræðir útfærslur eða málamiðlanir.

Lesa meira