PISTLAR


31

10 2008

Þær eru flottastar

... íslensku landsliðskonurnar í fótbolta.
 

Til hamingju kæru landsliðskonur með sigurinn og áfangann í gær.  Þetta var frábær leikur og í raun frábærlega flottur fótbolti miðað við að völlurinn var mjög erfiður.

 
Ég hlakka til að mæta á leik í Helsinki wink
Lesa meira

26

10 2008

Að segja satt og rétt frá (grein í Fréttablaði)

Að segja satt og rétt frá

Borgarfulltrúarnir Sigrún Elsa Smáradóttir og Svandís Svavarsdóttir fjalla um REI-málið í Fréttablaðinu á mánudaginn undir fyrirsögninni „Sannleikurinn er góður grunnur". Grein þeirra gengur út á að rengja ummæli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um að hinir svokölluðu sexmenningar hafi komið í veg fyrir kaup FL Group og Geysis Green Energy á REI. Í staðinn bjóða þær upp á söguskýringar sem ganga út á að eigna sjálfum sér það þarfaverk að hafa stöðvað málið.

Lykilatriði í málinu er að stjórn OR samþykkti söluna á REI til FL Group og Geysis Green á stjórnarfundi fyrir ári. Sigrún Elsa sat þennan örlagaríka stjórnarfund fyrir hönd Samfylkingarinnar og samþykkti söluna. Svandís sat einnig fundinn fyrir hönd Vinstri grænna og ákvað hún að sitja hjá við afgreiðslu málsins. Að sitja hjá er því miður fyrir Svandísi hreint ekki það sama og vera á móti málinu og segja nei.

Með þessar staðreyndir í huga er því frekar skondið að sjá borgarfulltrúana tvo segjast segja sannleikann í grein sinni þar sem þær reyna að eigna sér stöðvun málsins. Augljóst er af ofansögðu að sú túlkun er röng.

Enginn af okkur „sexmenningum" sat í stjórn OR sem samþykkti söluna. Þar sem við vorum hins vegar algerlega á móti málinu frá fyrstu mínútu upphófst atburðarás sem borgarbúar þekkja ágætlega. Sú atburðarás leiddi til þess að salan á REI og miklum verðmætum úr OR gekk ekki eftir. Þvert á það sem stjórn OR ákvað, með Sigrúnu Elsu og Svandísi innanborðs.

Við sex borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem vorum allan tímann á móti málinu upplifðum verulegt mótlæti í fyrra fyrir það að standa föst á sannfæringu okkar. Það er því fróðlegt í dag, þegar öllum er það ljóst að það hefði verið algert glapræði að selja REI og stóran hluta Orkuveitunnar til áhættufjárfesta eins og lagt var upp með, að sjá borgarfulltrúa sem kusu með málinu eða sátu hjá vilja eigna sér málið.

Birtist 23. október 2008

Lesa meira

21

10 2008

Ókeypis??

Friðjón skrifar mjög áhugaverða færslu í hvað skattfé okkar fer á Eyjunni.  Þetta eru mikilvægar upplýsingar sem ættu að vera að jafnaði aðgengilegar til að skattgreiðendur séu meðvitaðari um hvað skatturinn þeirra fer í.   Rannsóknir erlendis sýna að þegar fólk er spurt í hvað það heldur að skattfé þeirra fari í þá hafa þeir sem svara óskýra hugmynd bæði um verkefnin og stærðirnar í útgjöldum ríkis og sveitarfélaga.
 
Bandarískur almenningur á gott orð yfir fjármunina sem þeir greiða til ríkisins.  Þeir nota orðið taxdollars.  Orðið yrði staðfært og þýtt sem skattkrónur upp á íslensku.  Skattkrónuhugtakið er mjög þekkt hjá almenningi í Bandaríkjunum og fólk þar er ágætlega meðvitað um skattprósentur og ábyrgð stjórnvalda á þessu fé.   Þar er líka hefð fyrir því í sumum fylkjum að kjósa sérstaklega um hærri skatthlutföll, tímabundið og ótímabundið vegna ákveðinna verkefna.
 
Ég nefni þetta hér því á góðæristímanum sem nú er lokið með miklum hvelli var ótrúlegasta fólk farið að tala um ókeypis eða gjaldfrjálsa þjónustu hins opinbera.   Sjálfstæðismenn töluðu alltaf gegn þessu og sögðu ekkert vera ókeypis.  Skattgreiðendur fengju jú alltaf reikninginn.
 
Og það er komið á daginn.   Þegar harðnar á dalnum og skatttekjur lækka eru hugmyndir um ókeypis þjónustu mjög langsóttar og óvinsælar.   Þegar skatttekjur lækka hratt eins og nú til ríkis og sveitarfélaga lendum við í mikilli klemmu, því lág gjöld fyrir þjónustu og skatttekjur ná ekki að dekka raunverulegan kostnað við þjónustuna.
 
Borgarstjórn öll er sammála um að verja að svo stöddu alla grunnþjónustu og öll störf.   Vonandi nær þjóðarskútan hratt jafnvægi og við haldið þessu markmiði til streitu.  En það verður erfitt.
Lesa meira

20

10 2008

Lýðræði í leikskóla

Þetta endurspeglar hversu vel skólafólkið okkar tryggir að börnin læri á lýðræði og skoðanaskipti um mál er snerta þau sjálf og umhverfi þeirra.

 
Auk foreldra, starfsmanna, kennara, kjörinna fulltrúa og starfsfólks Leikskólasviðs fengu nokkur leikskólabörn að segja skoðun sína á því hvernig leikföng ættu að vera í skólanum, hverju þau ættu að ráða í leikskólanum og hvernig útisvæðið þeirra ætti að vera í tilefni starfsáætlunarvinnu sviðsins fyrir árið 2009.
 
Frábært framtak hjá Leikskólasviði.
Lesa meira

07

10 2008

Öryggi fyrir fjölskyldur

Í borgarstjórn er nú til umræðu Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar sem felur í sér markmið vegna breytinga í fjármála- og atvinnuumhverfi. Starfshópur borgarstjórnar sem var skipaður um þetta verkefni hefur unnið mikla vinnu undanfarna vikur undir styrkri stjórn Óskars Bergssonar.

Sviðsstjórar, starfsmenn ráðhússins og fjármálastjórar sviða hafa lagt ómælda og óeigingjarna vinnu fram í þessu verkefni sem krefst þess að allir sem einn sinni meginmarkmiðum hópsins, að takast á við breytingar í fjármála- og atvinnuumhverfi til að tryggja að borgarbúar fái grunnþjónustu.

Og það er einmitt markmiðið, að ábyrg fjármálastjórn, stöðugleiki í rekstri og öflug grunnþjónusta fyrir íbúa verði staðreynd í gegnum þann ólgusjó sem við erum í nú.

Nú finna landsmenn allir fyrir eðlisbreytingu á efnahagsumhverfinu. Því fylgir mikið óöryggi og óvissa og þúsundir spurninga eru á lofti vegna aðgerða ríkisvaldsins síðustu daga. Einstaklingar hugsa fyrst og síðast um stöðu sína, heimilisins og sinna nánustu. Efst í huga fólks eru eigin innistæður og skuldir í bönkum og sjóðum. Næst leitar hugurinn til þeirra sem standa manni næst og eru nýbúnir að fjárfesta í dýru húsnæði, jafnvel með erlendri lántöku. Enn frekar er fólki hugsað til þeirra sem hafa misst starf og stöðu og þurfa að endurskipuleggja líf sitt frá grunni. Hugar okkar allra eru hjá þeim sem sjá ekki enn fyrir horn.

Í þessum glundroða er gott að vita að sveitarfélag eins og Reykjavíkurborg ætlar að tryggja að grunnþjónusta sé veitt, að leikskólarnir haldi áfram uppi þeirri gæðaþjónustu sem þar er, að grunnskólarnir blómstri og að félagsleg þjónusta sé tryggð. Þessi þjónusta er sú sem er hvað nálægust borgarbúum, sú þjónusta sem tengir í raun stjórnmál við íbúa.

Lesa meira