PISTLAR


24

11 2008

Flokkurinn??

Mér finnst stórskemmtilegt að sjá hvernig Samfylkingarkonur nota nú orðið flokkurinn um Samfylkinguna. Ekki hefur þetta orð verið notað í jákvæðum tilgangi af þessum konum, eiginlega eingöngu þegar verið er að gera lítið úr Sjálfstæðisflokknum með kaldhæðnislegum hætti.

En nú eru þær (m.a. Oddný og Bryndís Ísfold) ósammála flokknum og formanninum sem styrkir kenningar mínar hér á Eyjubloggi um daginn um að armar í flokknum séu að skýrast. Ég hafði að vísu rangt fyrir mér um að þau myndu boða landsfund, en held því þó opnu enn um sinn.

En flokkurinn hefur líklega neikvæða merkingu hjá þeim stöllum. Ég hefði haldið að Samfylkingarfólk myndi passa sig vel á því að nota ekki þetta orð sem er hlaðið neikvæðri merkingu í þeirra hópi, og halda sér við orðið fylking. Ætli þær séu með þessu að segja að Ingibjörg sé að stjórna of mikið eins og formaður og of lítið eins og stjórnandi málfundar?

Lesa meira

20

11 2008

Heil fylking?

Mér finnst grein Hallgríms Helgasonar í Fréttablaðinu í dag benda til þess að valdabrölt sé í uppsiglingu í Samfylkingunni.   Í greininni er verið að toga í einn ráðherra flokksins umfram annan og líklegt að barist verði við Björgvin, sem talinn er Össurarmaður, um framgang í flokknum.  

 
Líklegt er að Samfylkingin ákveði um helgina á flokksráðsfundi að halda landsfund fljótt eftir áramót líkt og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur ákváðu fyrir skömmu.  Á landsfundi yrði kosið í ýmis valdaembætti og einhverjir hugsa sér gott til glóðarinnar. 
 
Ekki er líklegt að Össur reyni aftur við varaformannsembættið (enda búinn að tjá sig mjög frjálslega um bankana og REI eins og ég hef fjallað um) en það gæti mögulega orðið barátta um þann stól samt sem áður.  Forvitnilegt væri að vita í þessu ljósi af hverju Björgvin er svona ákveðinn í að fara þurfi fljótt í kosningar.
 
Æsingslega er rætt um valdabrölt og lið í Sjálfstæðisflokknum við ýmis tækifæri í fjölmiðlum.   Það fer töluvert hljóðlegar um bröltið í öðrum flokkum, en ljóst er að bröltið er síst minna hjá Samfylkingunni.
Lesa meira

19

11 2008

Grænar ferðir

Í gær var samþykkt einróma í borgarstjórn stefna borgarinnar í samgöngumálum starfsmanna og fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar. Grænar ferðir er stefna sem hefur áhrif á ferðamáta starfsmanna borgarinnar. Markmiðið er sett á að Reykjavíkurborg sé til fyrirmyndar og sýni fordæmi með því að innleiða vistvænar samgöngur í starfsemi sinni. Reykjavíkurborg stuðlar þannig að betra og umhverfisvænna samgöngumynstri til framtíðar.

Reykjavíkurborg sem stór vinnustaður sýnir með þessu gott fordæmi og er til fyrirmyndar á ferðum sínum um borgina. Við sýnum fordæmi með því að innleiða nýja hugsun varðandi ferðir starfsmanna, með því að stuðla að jöfnum tækifærum þeirra sem velja annað en einkabílinn og með því að innleiða vistvænar samgöngur sem notaðar eru í vinnuferðir hjá borginni. Undir vistvænar samgöngur flokkast meðal annars hjólreiðar, ganga, almenningssamgöngur og notkun visthæfra bíla.

Stefnan Grænar ferðir er hluti af grænum skrefum í Reykjavík og er liður í því heildarmarkmiði að draga úr bílastæðaþörf, umferðarmyndun á háannatíma í borginni og í því að bæta loftgæði í borginni. Bílum í Reykjavík hefur fjölgað umtalsvert undanfarin ár eða um 40% frá1999-2007 á meðan íbúum fjölgaði um 7%. Fjöldi bíla á hverja þúsund íbúa voru 676 árið 2007 sem er langt langt umfram þær borgir sem við viljum bera okkur saman við. Rúmlega fimmtungur gróðurhúsalofttegunda sem losaðar eru út í andrúmsloftið koma frá samgöngutækjum. Auknum bílafjölda fylgir aukin mengun og tafir í umferð og hefur neikvæð áhrif á umhverfi, heilsu og borgarbrag.

Innleiðing vistvænna samgöngumáta í starfsemi borgarinnar felur m.a. í sér að reiðhjól og visthæfar bifreiðar eigi að standa starfsmönnum Reykjavíkur til boða vegna vinnuferða í borginni, tryggja góða aðstöðu fyrir gangandi og hjólandi, fjárfesta skal í visthæfum farartækjum fyrir starfsemi borgarinnar þar sem kostur er og taka upp samgöngusamninga við nýtt starfsfólk þar sem það á við í stað aksturssamninga. Samgöngusamningar geta tekið til ólíkra farartækja og ferðamáta, s.s. gangandi, með strætisvagni, á bifreið eða hjólandi, en skulu ávallt hafa það að markmiði að auka hlut vistvænna ferðamáta í vinnuferðum á vegum borgarinnar.

 
Lesa meira

17

11 2008

Da Vinci vefur

Sýningin í Orkuveitunni, í Gallerí 100° á uppfinningum Leonardo Da Vinci hefur slegið í gegn.   Þeir sem hafa ekki enn kíkt á sýninguna minni ég á að einungis eru 10 sýningardagar eftir.  Sýningin er frábær samræðuvettvangur fyrir foreldra og börn um hvernig uppfinningar verða að veruleika og hversu langur tími getur liðið áður en að hugmynd verður að raunverulegu tæki eða verkefni.   

 
Í þessu árferði er þetta mikilvæg áminning fyrir okkur öll og ekki síst fyrir þá sem enn eiga einhvern aur - að fjárfesta ekki bara í skjótfengnum gróða heldur líka í verkefnum sem þurfa tíma og kannski langan tíma.   Á Íslandi eru margar litlar hugmyndir í vinnslu í nýsköpunarfyrirtækjum sem þurfa stuðning, aldrei meiri en nú.  
 
Bakki, frábær leikskóli innst í Grafarvogi er búinn að búa til afar metnaðarfullan vef um Leonardo.  Þarna er að finna myndir af heimsóknum barna á sýninguna, sjálfsmyndir af börnunum og tilraunir með flug.  Frábært framtak hjá kennurum á Bakka.
Lesa meira

11

11 2008

Hvað er kreppa?

Nú þegar það eru 6 vikur til jóla og skólastarf leikskólanna er komið í reglu og ró eftir að ný börn hafa bæst í hópinn í haust hefur líklega aldrei verið eins mörg óveðursský fyrir utan skólana. En starfsmenn skólanna passa upp á að kreppan komist ekki inn.

Það var yndislegt að vakna í gær og heyra gömlu góðu gufunna spyrja skólabörn á Austurlandi börn í 1-5 bekk hvort þau væru meðvituð um efnahagsástandið. Ekkert þeirra vissi hvað vextir væru og flest töldu þau að verðbólga væri sjúkdómur, bóla eða hálsbólga. Orðið kreppa vakti upp margar hugmyndir, einn sagði kreppu vera starfsmannafund, annar lýsti atriði úr Spaugsstofunni, en flest sögðu eðlilega að kreppa væri þegar maður beygði bakið, beyglaði bakið, færi í krumlu og ein stelpan sagði ,,svona” og sýndi svo fréttamanni leikfimisæfingar – og ég held að það hafi verið hægt að heyra hana hreyfa sig með miklum tilþrifum í útvarpinu.

En það var einn strákur sem lýsti kreppu betur en margir, hann sagði, ,,það er þegar krónan er að fyllast, eða tæmast”.

Lesa meira