PISTLAR


31

12 2008

Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Fyrir ári síðan stóð ég við eldavélina á gamlársdag og hlustaði á uppgjör ársins frá ýmsum álitsgjöfum.   Ég og félagar mínir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna lágum þá undir harðri gagnrýni fyrir að hafa staðið á sannfæringu okkar og komið í veg fyrir hið títtnefnda REI mál.   Við vorum kallaðir skúrkar, börn í pólitík og ýmsum verri nöfnum af álitsgjöfum í sjónvarpi og útvarpi allan daginn.    Í dag er flestum ljóst að þessi gagnrýni var óverðskulduð - að mestu eða öllu leyti.

 
Í stuttu máli sagt var sá gamlársdagur afar erfiður.  Synir mínir og eiginmaður og nærfjölskyldan öll fundu fyrir þessu og skynjuðu hvað mér leið illa.   Ég efast ekki um annað en að aðrir borgarfulltrúar hafi átt mjög erfiðan dag líka.
 
Nú er leikurinn að hefjast aftur og sl. tvö kvöld hafa birst ummæli um hina og þessa einstaklinga í samfélaginu.  Ég skil reiðina og ég skil líka fjölmiðlamenn sem eru að reyna að grípa tilfinningu fólks fyrir árinu.  En við verðum að muna að hvert tilfelli er einstakt og í hverju máli eru tvær hliðar og í kringum hvern einstakling eru heilar fjölskyldur.
 
Ég vona að álitsgjafar, fréttamenn og bloggarar hafi þetta í huga í dag í uppgjörum sínum við þetta erfiða ár 2008.
Lesa meira

20

12 2008

Áhugaverð yfirferð

Þetta ár sem er að líða hefur verið afar viðburðarríkt, sérstaklega í pólitík á Íslandi.   Og nú fer sá tími í hönd að maður geri upp árið og vonast eftir nýjum tækifærum og breyttum áherslum á nýju ári 2009.   

 

Miðlar eru að gera það sama og það er alltaf áhugavert að lesa um það merka fólk sem hefur fallið frá og hefur markað djúp spor í söguna.   Það væri gaman að fá sambærilegar úttektir og þessa fyrir Ísland, nærtækast er að nefna Rúnar Júlíusson og Sigurbjörn Einarsson.

 
En úttekt Boston Globe var fræðandi.  Ég vissi til dæmis ekki að Tim Russert (frábær sjónvarpsmaður) hefði fallið frá né Michael Crichton einn uppáhalds rithöfundurinn minn. Sorglegar fréttir að þessir menn hafi fallið frá langt fyrir aldur fram.
Lesa meira

16

12 2008

Duncan sem menntamálaráðherra

Obama ætlar að tilnefna Arne Duncan, núverandi fræðslustjóra Chicago, sem menntamálaráðherra sinn.   Duncan er þekktur fyrir gott starf í Chicago, sérstaklega við að hjálpa þeim börnum sem eru undir fátæktarmörkum og þeim sem hafa ekki náð árangri hingað til.   Frá 2001 hefur hann breytt tölunum, árið 2001 var 40% barna ekki að ná ,,standards" sem mælir árangur barna í landinu en í fyrr var hlutfallið komið í 33 %.

 
Hann hefur lagt áherslu  á að hlusta á foreldra, mæla gæði og hefur gengið svo langt að loka tugum skóla sem voru ekki að standa sig og skipt út öllu starfsfólki í öðrum.  Hann virðist hafa verið samþykkur No Child Left Behind verkefninu sem Bush kom á fyrsta kjörtímabili sínu. Obama, lofaði í kosningabaráttunni að halda því áfram í breyttri mynd.  
 
Ég hef oft sagt að íslenskt skólakerfi þurfi meira aðhald og mat á árangri.   Mér hefur þó alltaf fundist NCLB ansi hart kerfi.   Við ættum að fylgjast með hvernig Obama breytir þessu.
Lesa meira