PISTLAR


29

03 2008

Svipóttir timburmenn

Það má með sanni segja að sviptingar sem hófust í borgarstjórn 4. október 2007 vegna ágreinings um REI málið hafi verið samhliða upphafi annara sviptinga, efnahagslegra sviptinga sem hafa nú áhrif á hvern einasta Íslending. Líklega erum við á leið inn í krepputíma, það má deila um hversu mikla, sem hafa áhrif á fjárfestingagetu einstaklinga og fyrirtækja til óskilgreinds tíma.

Ljóst er að bankar, ríkisvald og við hin erum öll hluti af orsök núverandi stöðu og þurfum að hjálpast að við að komast úr henni. Bankarnir hafa verið of grimmir við að fjármagna viðskipti sem hafa stuðlað að ofmati á verði fyrirtækja, við að veita almenningi lán og miðað við of hátt verðmat fasteigna og hvatt til lántöku einstaklinga. Ríkisstjórnin hefur ekki sett upp nægilega góð stjórntæki sem hafa áhrif á efnahagslegan stöðugleika. Hækkun stýrivaxta Seðlabankans hefur ekki skilað miklu til þessa og í þeirri stöðu sem við erum í nú hvetur hún fremur til kaupa á öðrum gjaldeyri en krónu. Almenningur hefur treyst á verðmat fasteignamarkaðarins og banka í of mikilli blindni og tekið of mikla áhættu í skuldsetningu sem nú svíður mörg heimili.

Að mínu mati er því komið að spurningunni hvernig við hjálpumst að út úr þessu. Möguleiki er á að lánastofnanir þurfi jafnvel einhvers konar aðstoð. Ef svo illa færi þá er ósanngjarnt að ríkisvaldið, við skattgreiðendur, komi þeim til hjálpar með sértækum aðgerðum (eins og gerðist í USA með Bear Sterns). Skattgreiðendur, hinn almenni launþegi, sem hefur horft á partýið ganga yfir með miklum látum og sýndarmennsku á ekki að þurfa að taka þátt í að bjarga áhættusæknum fjárfestum með skattfé. Er sanngirni er í því að ríkið aðstoði lánastofnanir sem hafa í mörg ár greitt feita bónusa til starfsmanna fyrir að búa til alla ,,dílana"? Tryggja þarf að skattgreiðendur séu ekki þeir sem taki endanlega ábyrgð á samningum sem jafnvel þola ekki fyrstu kröppu beygjuna. Að auki hafa bankarnir á óábyrgan hátt lánað starfsmönnum sínum fyrir kaupum á hlutum í bönkunum þrátt fyrir að regla númer 1 í hlutafjárkaupum eigi að vera sú að kaupa ekki hlutafé með lánsfé.

Það vakna milljón svona siðferðilegar spurningar þegar huga þarf að leiðum til stuðnings efnahagskerfinu á Íslandi. Að mínu mati verður ríkisvaldið að forðast sértækar aðgerðir og fara fremur í skattalækkanir, lækkanir á olíugjaldi og afnámi tolla og virðisauka sem eru meira almenns eðlis. Það góða í þessu öllu er að ríkissjóður stendur mjög vel og það á að hrósa fyrir það. Nú þarf að nýta þessa sterku stöðu ríkissjóðs mjög vel og passa að aðgerðir verði almennar svo að allur almenningur njóti þeirra og að þær smyrji þannig sem flest hjól efnahagskerfisins.

Lesa meira

12

03 2008

Flott hugmynd

Ég er ekki vön að setja svona hluti á síðuna mína en mér finnst svona litlar hugmyndir svo hrikalega skemmtilegar.  Ekki spillir þegar mögulega hugmyndin getur haft áhrif á líf fólks.  Ég veit að þetta er ekki einsdæmi um virðingu fólks fyrir grunnskólakennurum sínum, ég á nokkuð margar svona litlar sögur sem sitja eftir.  Engin þeirra er tengd verkefni í bók eða námsefni sem slíku heldur miklu frekar atviki sem var stýrt af kennara til að kenna okkur mikilvægan hluti eða hluti.

En þetta fékk ég sem sagt sent í dag frá æskuvinkonu minni:

Dag einn bað kennari nemendur sína að skrifa nöfn bekkjarfélaganna á blað.  Þeir áttu að skrifa eitt nafn í hverja línu og hafa auða línu á milli.  Síðan bað hún nemendur sína að hugsa um það besta um hvern og einn og skrifa það fyrir neðan nafnið. Þegar nemendur fóru úr tíma skiluðu þau blöðunum til kennarans sem fór með þetta heim og bjó til lista yfir hvern nemanda og safnaði saman því sem bekkjarfélagarnir höfðu skrifað. Síðan fengu nemendurnir þetta í hendurnar daginn eftir. Þegar þeir lásu þetta urðu þeir hissa á öllu því jákvæða sem bekkjarfélagarnir höfðu skrifað.

Þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir að þeir skiptu svona miklu máli. Kennarinn vissi ekki hve mikið nemendurnir ræddu þetta sín á milli eða við foreldrana en þetta hafði tilætlaðan árangur. Nemendurnir urðu ánægðari með sig og aðra í bekknum, þeim leið betur.
Lífið hélt áfram.

Mörgum árum seinna lést einn nemendanna sem hét Magnús og kennarinn ákvað að vera viðstaddur jarðarförina. Einn vinur hins látna gekk til hennar og spurði hvort hún hefði verið kennarinn hans og sagði að Magnús hefði talað mikið um hana. Foreldrar hins látna komu einnig til hennar og vildu sýna henni svolítið. Þau höfðu fundið samanbrotið blað í veski Magnúsar og var það listinn með öllu jákvæðu atriðunum frá bekkjarfélögunum sem kennarinn hafði fengið honum fyrir mörgum árum.

 "Þakka þér fyrir að gera þetta,því eins og þú sérð þá skipti þetta hann miklu máli" sagði móðir Magnúsar. Fyrrum bekkjarfélagar tóku undir það og sögðu að þessi listi hefði fylgt þeim öllum gegnum lífið og skipt þá mjög miklu máli. Þetta var eitt af því sem þeim þótti vænst um. Þegar gamli kennarinn heyrði þetta settist hún niður og grét, bæði syrgði hún Magnús og svo var hún hrærð yfir því að hafa snert nemendur sína með þessu uppátæki.

Lesa meira