PISTLAR


30

07 2008

Vonbrigði

Það eru mikil vonbrigði að Doha viðræðurnar fóru út um þúfur.  Ég var farin að hlakka til að sjá styrkjakerfi landbúnaðarins breytast.  Nú þurfum við líklega að bíða í fjöldamörg ár í viðbót en þessi samningur sem rætt var um hefur verið í viðræðum í 7 ár.  Og þetta var ekki bara mikilvægt fyrir Ísland sem er með allt of háa landbúnaðarstyrki, í raun ekkert mikilvægt, miðað við öll þau vanþróuðu lönd sem þurfa á þessu að halda til að byggja upp nauðsynlega þjónustu í löndum sínum.

 
Já, í mínum huga er niðurstaða Doha ægileg.  Þetta er sorgleg niðurstaða.
Lesa meira

28

07 2008

Langömmuafmæli


Foreldrar hennar voru hjónin Jakob Björnsson trésmiður, f. 14. ágúst 1864, drukknaði 26. maí 1910, og Guðríður Pétursdóttir, f. 14. júní 1863, d. 12. nóvember 1923.  Þau hjónin bjuggu í Vík í Mýrdal og eignuðust alls tíu börn sem öll eru látin. Elstur var Björn, f. 1893, sjómaður í Vestmannaeyjum, Eyjólfur Þórarinn, f. 1895, dó í bernsku, Sæmundur, f. 1896, drukknaði 1920, Pétur bóndi á Rauðhálsi í Mýrdal, f. 1897, Eyjólfur Þórarinn, smiður í Reykjavík, f. 1899, Kári, f. 1901, drukknaði ásamt Sæmundi bróður sínum 1920, Magnús Þorbergur, smiður í Vestmannaeyjum, f. 1903, Halldóra, f. 1905, dó í frumbernsku, og Ólöf Guðfinna, saumakona í Reykjavík, f. 1908, d. 1995, Jakobína Guðríður, f. 1910, d. 1997.

Lesa meira

25

07 2008

Schwarzenegger bannar transfitusýrur

Það eiga sér stað harðar aðgerðir í Bandaríkjunum í stríðinu við offitu. Annars vegar lög sem sett voru 2006 í New York fylki (og fóru í framkvæmd á þessu ári) og kveða á um að á öllum matseðlum keðjuveitingastaða séu upplýsingar um hitaeiningar (sjá hitaeiningar í Starbucks latte) og hins vegar ný lög sem Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri í Kalíforníu í gær sem bannar transfitu hjá 88000 veitingastöðum í fylkinu. (Til upplýsinga er transfita talin mjög óholl og er mest í steiktum mat, kökum og kexi).

Offita í Bandaríkjunum er staðreynd og spár benda til að í fyrsta sinn geti kynslóð barna átt styttri lífdaga en foreldrarnir vegna afleiddra sjúkdóma. Það er því ekki skrýtið að farið sé út í svona harðar aðgerðir því stjórnmálamenn eru fljótir að reikna út hreina kostnaðaraukningu í heilbrigðisþjónustu til næstu áratuga. En aðgerðir sem þessar geta ekki verið mjög markvissar og afar erfitt að sjá hver afraksturinn raunverulega verður.

Í tengslum við hreyfingu og fitu eru Bandaríkjamenn alveg sérstakir. Þeir taka svona einstaka mál fyrir, einu sinni mátti enginn borða egg, svo mátti enginn borða kolvetni (carbohydrates), og svo var það smjör. Núna er það transfita sem er „sökudólgurinn“ og ónægar upplýsingar um orkumagn í hverri einingu af mat! Transfitan er hættuleg en hafa verður í huga að þeir sem borða franskar, kökur og kex í miklu magni eru almennt ekki að hugsa vel um heilsu sína - og fólk er talið borða það u.þ.b. 10 sinnum meira af mettaðri fitu en transfitu sem er ekki síður óholl.

Þessi boð og bönn og þessi endalausa tíska um matarræði eru ekki af hinu góða.
Á sama tíma og mikill kostnaður fer í að slást lögfræðilega um heimildir fylkjana og þessar aðgerðir allar af hálfu opinbera aðila og fyrirtækja er pottur brotinn á svo ótrúlega mörgum sviðum sem skipta raunverulegu máli. Hreyfing í skólum í Bandaríkjunum er algjörlega í lágmarki, í leikskóla eru börn inni og við 3 ára aldur eru áhyggjur af kynferðislegu ofbeldi orðnar svo miklar að skólinn hefur áhyggjur af lögsóknum ef snerting (sem jú fylgir hreyfingu) er of mikil. 97% unglingsstúlkna eru áskrifendur af glamúrtímaritum sem hafa óbein áhrif á vonleysi þeirra um að verða í vextinum eins og barbídúkkur í vextinum. Ýmis og óteljandi megrunarlyf eru leyfð og meira er fjallað um fitusog og önnur inngrip heldur en hollt matarræði og næringarráðgjöf.

Hér heima er offita ekki síður áhyggjuefni. Leikskólarnir standa sig vel í að bjóða börnum upp á fjölbreytt og hollt matarræði í flestum tilfellum en í grunnskólunum gengur þróunin hægar að hluta út af sérvisku eldri barna. Hreyfing og næring eiga að vera samhangandi og í raun á hreyfingin að vera hluti af fæðupíramídanum (ef hann er þá enn við lýði).

Það er samt með þetta eins og önnur mál sem þarfnast athygli. Það þarf að byrja heima. Við berum sjálf ábyrgð á að hámarka velferð okkar. Ekki ríkið.

Lesa meira

02

07 2008

Nú skiptir OR máli

Í Morgunblaðinu í dag er ágæt úttekt á stöðu Reykjavíkurborgar í núverandi efnahagsástandi.   Nú þegar kreppir að og mögulega þarf að grípa til aðgerða til að borgarsjóður standi af sér niðursveiflu kemur í ljós að Orkuveitan er ekki eyland.   Öll lán OR eru í ábyrgð hjá borgarsjóði, þ.e. skattgreiðendum í Reykjavík (og að litlu leyti annara sveitarfélaga).  Þegar á fyrsta ársfjórðingi þessa árs var tap OR 17 milljarðar.  Tölur sem þessar munu sjást á meðan að krónan veikist eins og undanfarna mánuði.

 
Það er mikilvægt að minna á að REI eins og það var hugsað í lok síðasta árs hefði krafist mikilla fjárskuldbindinga Orkuveitunnar í verkefnum á erlendri grundu.   OR hefði þannig verið búin að binda enn hærri upphæðir í áhættusöm verkefni um leið og þeir væru að takast á við núverandi ástand í efnahagsumhverfinu.  Óhætt er að segja að fyrirtækið hefði staðið afar illa og hefði þurft að ganga mjög á eigið fé félagsins sem er að mínu mati of lágt nú þegar.
 
Orkuveitan er mikilvæg fyrir okkur.  Á uppgangstímum eins og sl. 8 ár höfum við séð ótrúlegustu verkefni verða að veruleika í gegnum félagið en þegar kreppir að skiptir fyrirtækið okkur enn meira máli.   Ef skuldir félagsins eru of háar hefur það áhrif á lánshæfi Reykjavíkurborgar.   Lánshæfi Reykjavíkurborgar er mjög gott núna en ef eigið fé Orkuveitu lækkar mikið til viðbótar er hætta á að það smitist yfir á lánakjör borgarsjóðs. 
Lesa meira