PISTLAR


29

08 2008

Klippt og skorið

Það er naumast að maður fær sendinguna frá Björgu Evu fréttastjóra í 24 stundum í dag vegna pistils gærdagsins (Frábær skipulagning hátíða). Þetta eru svona óþarfa ónot og útúrsnúningar sem maður býst ekki við af vönum blaðamanni.   Í þessum annars ágæta moladálki er ég sökuð á óþarflega kaldhæðinn hátt um „sjálfshól eða fölskvalausum aðdáun á félögum mínum í borgarstjórn“.  

Það er amalegt að sjá að blaðamenn viti ekki (eða vilji ekki vita) muninn á stjórnmálamönnum og starfsfólki borgar og ríkis.   Þegar talað er um ráðuneyti (ekki ráðherra), svið (ekki pólitískt ráð), ÍTR (sem er svið), lögreglu (embætti) og fjölmiðla (starfsmenn eins og Björg) þá er ekki verið að hæla stjórnmálamönnum.  Ég er í pistlinum að hæla öllum þeim starfsmönnum borgar og ríkis sem með samhentu átaki skipulögðu, framkvæmdu á þann hátt að meistaralega tókst til.
 
Annars finnst mér félagar mínir í borgarstjórn frábærir og ég get hælt þeim við ýmis tilefni.  En þau fá ekki hrós fyrir að skipuleggja og framkvæma umrædda viðburði.

?

Lesa meira

28

08 2008

Frábær skipulagning hátíða

Ég get ekki orða bundist yfir hátíðarbúningi þeim sem Reykjavíkurborg skartaði á Menningarnótt og í gær við móttöku landsliðsins í handbolta.  Þessu til viðbótar vil ég nefna Náttúrutónleika Bjarkar fyrr í sumar.

 
Menningarnótt sannaði sig í ár, rigning hindraði ekkert.  Allir eru sammála um að það var eitthvað fyrir alla og viðburðir sem voru innan dyra nutu sín sérstaklega vel í ár.  Frábærir viðburðir um alla borg og öryggismál í góðum farvegi.  Nýjungar, eins og þemað Torg í borg sannaði að ný verkefni urðu til í samstarfi listamanna.  Miðbæjarskólinn var stútfullur af fólki að skoða skólastarf fyrir 100 árum.  Frábær menningarnótt situr enn í huga borgarbúa.
 
Gærdagurinn var líka frábær.  Með samstilltu átaki menntamálaráðuneytis, menningar- og ferðamálasviðs borgarinnar, framkvæmdasviðs borgarinnar, ÍTR, lögreglunnar og fjölmiðla var hægt að taka á móti silfurdrengjunum á mjög eftirminnilegan hátt.
 
Ég vil þakka fyrir mig.   Það er magnað að hægt sé að búa til svona hátíð með næstum engum fyrirvara og sýnir vel hversu öflugt og metnaðarfullt fólk starfar að því að búa til minningar fyrir okkur öll.
Lesa meira

21

08 2008

Kvartett eða tríó

Ungir jafnaðarmenn ætla að bjóða okkur upp á sælgæti fyrir utan ráðhúsið á eftir.   Ég mun þiggja þetta sælgæti með þökkum enda er enginn borgarfulltrúi sammála því að síðustu 10 mánðuðir eigi að gleymast.   Allir flokkar hafa átt sinn þátt í þessu.  Þetta hefur verið erfiður tími og haft neikvæð áhrif á virðingu borgarstjórnar.  Við þurfum öll 15 að standa saman í að enduheimta traust borgarbúa.

 
Mér finnst hins vegar hjákátlegt að heyra Dag B. Eggertsson og annað samfylkingarfólk tala um að hafna ruglinu.   Enginn borgarfulltrúi hefur ekki tekið þátt í að mynda meirihluta þessa 10 mánuði og mér er til efs að minnihlutinn hefði hafnað því að mynda sjálf fjórða meirihlutann.  Í raun er það staðfest, Árni Þór alþingismaður hafði samband við Ólaf og Óskar af þessu tilefni.
 
En nú brennur líklega á fjölmiðlum að spyrja hvort að Tjarnarkvartettinn sé lifandi.  Er Ólafur F. Magnússon þátttakandi í Tjarnarkvartettinum, sameinuðum á ný gegn Sjálfstæðisflokknum? Það hlýtur að vera frétt að minnihlutasamstarfið hafi slitnað?   Eða er kvartettinn orðinn tríó?
Lesa meira

20

08 2008

„Eins og Morfeus“

Þessi leikur var ótrúlegur milli Íslands og Póllands.  Íslendingar voru betri allan leikinn og ef ekki væri fyrir endalausar brottvísanir hefði liðið haldið 4-5 marka mun.   Hreint út sagt frábær liðsheild, vörn, markfærsla og stemning.

 
Óli fékk að tala „óklipptur“ eftir leikinn eins og Sveppi krafðist um daginn og sagði okkur að liðið gæti allt.  Sumir segja að hann sé ekki að ná sér inni í leikinn en að mínu mati er hann í fullu starfi við að stýra leiknum og spila inn á línuna til allra þessara frábæru leikmanna.  Í kjölfarið er frábær breidd í liðinu og ég fæ trú á því að þeir komist alla leið.  
 
En við Óli fengum mikla kennslu hjá afa okkar Þóri í grísku goðafræðinni, og Óli mun meira en ég.  Óli hefur stúderað goðafræðina mikið í námi og leik síðan.  Áðan sagði Óli að honum liði eins og Morfeus sem er goð drauma.   Morfeus er eina goðið sem dreymir mannsformið og líklega er Óli þá farinn að dreyma alla leiki, sendingar og mörk.
 
Áfram Ísland, við styðjum ykkur strákar.
Lesa meira

15

08 2008

Lýðræði að störfum

Ég er ánægð með nýjan meirihluta í borgarstjórn enda taldi ég þennan sama meirihluta sem hóf þetta kjörtímabil vinna vel og gera mjög marga góða hluti. Í dag hefur verið rifjaður upp í fjölmiðlum sá góði árangur sem við náðum á þeim 16 mánuðum en eins og alþjóð veit var það eitt mál sem olli slitum þess samstarfs. Síðustu 200 daga gerðum við líka mjög margt og efst í mínum huga eru leikskólamálin og þá sérstaklega þjónustutryggingin sem verður að veruleika 1. september næstkomandi.

Ég skil að borgarbúar séu þreyttir, pirraðir og óánægðir með borgarstjórn í Reykjavík og það á eftir að taka langan tíma að byggja aftur upp traust og trúnað við kjósendur. Við borgarfulltrúar erum trúnaðarmenn kjósenda og höfum ekki staðið okkur sem slíkir síðustu 10 mánuði. Þessi 8 manna hópur endurnýjaðs samstarfs tekur við erfiðu verkefni til viðbótar við rekstur borgarinnar sem er að endurheimta traust borgarinnar á borgarkerfinu og stuðla að því að borgarstjórn öll endurheimti ímynd sína.

Hvað er það sem gerðist? Eitt stórt mál veltir af stað ósætti og óreiðu í borginni og starfsmenn borgarinnar finna heldur betur fyrir byltunum. Allir eru sekir á einn eða annan hátt. Sagnfræðingar eru líklega best fallnir til að draga þetta allt saman síðar meir þegar rykið sest.

Mikið er rætt um að kjósa þyrfti aftur, sem að mínu mati er óráð. Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði segir það sem segja þarf í því máli í dag. Ég leyfi mér samt að velta fyrir mér hvort að í raun kjósendur hafi ekki séð lýðræðið hafa sinn gang - þó að það hafi verið með of miklum látum. Miklar breytingar hafa átt sér stað síðan í upphafi þessa kjörtímabils því þrír flokkar hafa skipt um oddvita, af mismunandi ástæðum. Strax eftir kosningar fóru 3 borgarfulltrúar í þáverandi minnihluta úr sínum flokkum til annara starfa. Einn flokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn klofnaði fyrir alþingiskosningar. Þetta tvennt breytti röðun og eðli allra borgarstjórnarflokka. Sumar þessara breytinga hafa verið vegna mála sem meirihluti kjósenda hafa haft sterka skoðun á. Það er því líklegt að kjósendur hafi haft, án kosninga, afdrifarík áhrif á stöðu mála.

En það er ekki tími til að velta sér upp úr þessu, orsökum og afleiðingum, þó það væri gaman að fá álit stjórnmálafræðinga á þessu. Það er tími til að halda áfram svo að borgin blómstri sem aldrei fyrr.

Lesa meira