PISTLAR


30

09 2008

Leonardo

Ég er afar stolt af því að á föstudaginn opnar ný sýning, Da Vinci í dag, í gallerí 100° í Orkuveitu Reykjavíkur.  Reykjavíkurborg, Hagkaup og Orkuveitan standa að sýningunni.  Markmiðið með henni er fyrst og fremst að fá skólabörn í heimsókn til að skoða það sem Da Vinci fann upp á 15 öld, löngu áður en uppfinningar hans fóru í almenna notkun.  


Þetta er alveg einstök sýning að því leyti að hingað eru komnar nákvæmar eftirlíkingar af smiðshlutum Da Vinci sem eru í safni hans í heimabænum Vinci á Ítalíu.  Sýningin fjallar fyrst og fremst um uppfinningamanninn Leonardo sem var að auki margt annað, m.a. listamaður og vísindamaður. Þessi sýning á tæknigripum sem Leonardo da Vinci teiknaði og smíðaði á 15. öld er einstakt tækifæri til að efla og kveikja áhuga barna og unglinga á tækni og vísindum.
 
Höfuðborgarstofa hefur verið í marga mánuði að undirbúa heimasíðu til að styðja við áhugasama skóla og kennara sem vilja nýta sér þetta einstaka tækifæri til að kynna börnin fyrir hugmyndum og uppfinningum þessa einstaka manns.
Lesa meira

20

09 2008

Kennarasamningar opnaðir

Hér er hægt að horfa á og lesa um miklar og áhugaverðar breytingar sem fræðslustjóri Washington DC er að gera á skólakerfi borgarinnar.  Fylgst er með þessum breytingum af mörgum kennarafélögum því ef þessar breytingar fara í gegn gætu kennarar sem samþykkja minna starfsöryggi en mun hærri laun sem tengd eru við árangur barna orðið þeir hæstlaunuðustu í Bandaríkjunum.   Það væri gaman að fá nánari upplýsingar um þessa samninga og þá sérstaklega um hvernig árangur barna er metinn.

 
En þetta er áreiðanlega það sem koma skal fyrir kennara.  Við komumst ekkert áfram í jafnlaunastefnukerfi í kennarastétt frekar en öðrum stéttum.  Launanefnd sveitarfélaga hækkar laun og allir hinir hækka í kjölfarið.  Svona gengur þetta án mikilla breytinga.
 
Ísaksskóli og Norðlingaholtsskóli eru báðir með tilraunir í gangi þar sem kjarasamningar eru sveigjanlegri og laun hærri (grundvallað á bókun 5). Norðlingaskóli er með alla sína kennara í þessu umhverfi en Ísaksskóli gerði samningana valkvæða svo að eldri kennarar héldu sínum réttindum, aðallega starfslokaréttindum.  Við þurfum að fá umræðu um hvernig þessum kennurum líður með sín réttindi og kjör í þessum skólum.
Lesa meira

18

09 2008

Rafmagn, batterí, vistakstur og sólarflug

Ég fór bjartsýn á fund af ráðstefnunni „Driving Sustainability“ eftir að hafa hlustað á nokkra fyrirlesara sem eru fremstir á sínu sviði í að hanna og búa til umhverfi fyrir ólík farartæki sem öll eiga það sameiginlegt að menga ekkert.
 
Piccard sagði á skemmtilegan hátt frá sólarorkuflugvélinni sem hann er að hanna með góðum stuðningi framsækinna fyrirtækja og benti okkur um leið á að uppfinningamenn fyrir tíma hafi oft uppskorið hlátur viðstaddra og jafnvel dauðdaga fyrir að nefna hugmyndir sem eru alþekktar og notaðar af öllum í dag.    Fulltrúi Toyota sagði okkur frá metnaðarfullum plönum félagsins um að framleiða fleiri hybrid bíla, nýja rafmagnsbíla og tryggja að framleiðsluferli bíla sé líka umhverfisvænt.   Rétt fyrir hádegi kom svo afar áhugaverður en mjög tæknilegur fyrirlestur um batterí.   Það eru jú batteríin sem þurfa að breytast til að bílarnir komist áfram og þarna var sagt frá mögulegu framtíðarbatterí sem er knúið af vírusum.
 
Spennandi hugmyndir um framtíðina eftir hádegi og á morgun líka wink
Lesa meira

16

09 2008

Samgönguvika í Reykjavík

Í dag hefst í 6. sinn samgönguvika í Reykjavík. Margt skemmtilegt er á dagskrá og yfirskrift vikunnar er Hreint loft. Á morgun verður stofnfundur félags áhugamanna um bíllausan lífstíl í Ráðhúsi Reykjavíkur. Félagið ætlar að vinna að því að berjast fyrir að jafnræðis sé gætt á milli ólíkra samgöngukosta. Á fimmtudaginn hefst ráðstefnan Driving Sustainability og einnig er um kvöldið fundur um samgöngu og loftslagsmál í samvinnu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarbæjar og Mosfellsbæjar. Á föstudaginn verður opnuð ný akrein fyrir Strætó og fer þá að sjást greinlega raunverulegur akkur í að taka strætó í vinnu á morgnana þegar vagninn rennur framhjá allri umferðarsultunni á morgnana. Um helgina fá svo hjólin forgang og nýtt hjóla og göngukort gefið út.

Allir þessir viðburðir sýna hvað margt er að gerjast í samgöngumálum til viðbótar við hinar hefðbundnu aðgerðir borgarinnar við að bæta umferðarflæði og tryggja öryggi gangandi og hjólandi. Borgarstjórn hefur ítrekað bent á þverpólitíska samstöðu um Sundagöng og bíður nú eftir að samgönguráðherra gefi grænt ljós á hönnun og umhverfismat svo hægt sé að telja niður að upphafi framkvæmda. Eins er verið að ræða um umferðarlausnir við íbúa við Miklubraut og Kringlumýrarbraut og áætlað er að fara með niðurstöðuna í umhverfismat í haust.

Það er að miklu leyti skipulag borgarinnar sem grundvallar flæði fólks á milli staða og þess vegna er mikilvæg þessi umræða sem Gísli Marteinn nefnir í pistli sínum á Eyjunni. Því lengra í austur sem við byggjum því fleiri bílar þurfa að fljóta niður í bæ á morgnana og svo í austurátt á kvöldin. Þétting byggðar er því eitt mikilvægasta umhverfismálið. Þetta er ákvörðun sem við í borgarstjórn tökum í dag fyrir framtíðaríbúana, börnin mín og börnin þeirra!

Umræðan er mikilvæg um ólíka samgöngukosti, þó ég viti að rigningin sé nú ekki að hvetja marga út úr bílnum í dag, og ég treysti því að fjölskyldur spjalli um nýjar leiðir í samgöngumálum þessa viku.

Lesa meira

07

09 2008

Rök á brauðfótum

Eins og ég skrifaði hér á síðuna þá hófst aðgerðaráætlunin Borgarbörn í liðinni viku með svokallaðri þjónustutryggingu. Rafræn Reykjavík tók við skráningum á miðvikudaginn og á föstudagsmorgun höfðu 177 sótt um þjónustutryggingu.

Þjónustutrygging er fyrir foreldra sem fá ekki þjónustu í dag hjá borginni og er til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar/dagforeldravistunar. Markmiðið er að tryggja öllum börnum vistun við 12 mánaða aldur árið 2012 þannig að tryggingin verði óþörf. Það tekur á að byggja yfir öll þessi börn, t.d. kostar einn leikskóli um 250 milljónir í byggingu og milli 100-200 milljónir á ári í rekstri.

Þjónustutryggingin nemur 35.000 kr. á mánuði (jafnhátt og greitt er með barni hjá dagforeldri) og fellur niður um leið og barn fær þjónustu. Foreldrar geta fengið þessar greiðslur frá því að fæðingarorlofi sleppir og að 2 ára aldri. Ef foreldrar hafa ekki enn fengið pláss við 2 ára aldur við leikskóla heldur þjónustutryggingargreiðsla áfram þar til pláss er veitt. Foreldrar mega halda þjónustutryggingu að 2 ára aldri enda verða foreldrar að geta tryggt þá þjónustu sem þau velja (au-pair, frænkur, foreldrar að aðstoða hvort annað) fram í tímann. Foreldrar verða að skipta þjónustutryggingu á milli sín líkt og reglur um fæðingarorlof gera ráð fyrir.

Minnihlutinn í borgarstjórn hamast í þessu máli, er á móti því og kallar þjónustutryggingar heimgreiðslur og mömmugildrur. Rök þeirra eru tvíþætt. Annars vegar að konur velji að fara ekki á vinnumarkaðinn út af þessum þjónustutryggingum sem nú bjóðast og séu þannig afturför í jafnréttismálum. Hins vegar að upphæðin sé ekki nægilega há til að hún sé „sanngjörn framfærsla“. (Sjá bókun minnihluta í leikskólaráði hér). Mótsögnin er alger.

Bryndís Ísfold, varamaður í leikskólaráði, hefur farið mikinn á netinu um að ég þekki ekki stefnu meirihlutans. Ég held að hún þyrfti að byrja á því að skilja eigin rök gegn þjónustutryggingu og ákveða hvora stefnuna hún vill taka, hvort þetta sé mömmugildra þar sem þetta sé of lág upphæð eða að þetta sé mömmugildra þar sem þetta sé greitt heim.

Nokkrir punktar til viðbótar. Þjónustutrygging er ekki til að borga neinum fyrir að vera heima. Þess vegna er heimgreiðsla rangnefni. Þeir sem eru nú heima eru einmitt með þessu að fá stuðning til að geta hjálpað sér sjálfir, t.d. með að ráða au-pair, greiða fyrir hjálp fjölskyldumeðlima eða vinna með öðrum foreldrum í því að skiptast á að vera heima með ungabörnin. Foreldrar eru nefnilega snillingar í að púsla saman leiðum til að komast til vinnu og ég veit að eitt par gæti t.d. hugsað sér að skipta á milli mánuði með öðru pari þannig að allir komist í vinnu 3 vikur mánaðarins og eina viku heima. Eða til dæmis foreldi sem fær leyfi til að vinna hálfan daginn á móti hinu foreldrinu.

Minnihlutinn gerir jafnrétti kynjanna ekki greiða með því að tala þjónustutrygginguna niður. Frekar ættu þeir að hafa gagnrýnt harkalega biðlistana hjá þeim foreldrum sem hafa enga þjónustu fengið og sátu heima með engan stuðning þar sem þeir fengu ekki dagforeldrapláss eða leikskólapláss. Er það að fá ekki pláss ekki mömmugildra?

Þess ber að geta að minnihlutinn samþykkti ekki metnaðarfulla uppbyggingaráætlun leikskólaplássa í Borgarbörnum, ekki frekar en þjónustutrygginguna sjálfa.

Lesa meira