PISTLAR


06

01 2009

Hvers vegna þessi hraði?

Ég og félagi minni í borgarstjórnarflokknum fórum á fundinn í Valhöll í gær þar sem Evrópumálin voru rædd. Bjarni Benediktsson var frummælandi ásamt Styrmi Gunnarssyni. Fundurinn var afar vel sóttur og komust færri í salinn en vildu. Bjarni skýrði frá sínum skoðunum og sagði að peningamálastefnan og breytt Evrópusamband frá síðustu ákvörðun flokksins væru þættir sem skiptu mestu máli í Evrópuumræðunni. Hann er talsmaður þess að á landsfundi verði ræddar tillögur sem gefa kost á að ganga lengra í umræðunni, jafnvel fara í þjóðaratkvæði um aðild.??

Styrmir Gunnarsson er andvígur Evrópusambandsaðild. Hann einfaldar hlutina kannski helst til mikið, sem þó er mikilvægt því umræðan er talsvert óskýr. Styrmir hefur skrifað nokkrar greinar á vef Evrópunefndar flokksins (http://www.evropunefnd.is). Í stuttu máli telur hann engar líkur á að ESB gefi okkur neinar undanþágur vegna auðlinda landsins og því ætti málið ekki að vera til umræðu.??

Fundurinn var talsvert heitur og margir miklir andstæðingar Evrópusambandsaðildar sögðu álit sitt. Starfsfólk Valhallar og trúnaðarmenn flokksins egia hrós skilið fyrir alla þá vinnu sem hefur farið fram og fer fram fram að landsfundi í lok mánaðarins.

Það sem truflar mig einna mest í umræðunni er þrýstingur á að þetta gerist strax - sérstaklega hjá hinum stjórnarflokknum. Í grunninn er þetta mun mikilvægara mál en svo að við höfum efni á því að ana að niðurstöðu. Útrásarvíkingar töldu helsta kost okkar Íslendinga vera hraða í ákvörðunum en þegar á reyndi var það einn af okkar stærstu löstum. Í augnablikinu er mikilvægast fyrir okkur Íslendinga að vinna okkur út úr þeirra úlfakreppu sem við erum í. Áður en okkur tekst það erum við augljóslega í afleitri samningsstöðu um aðild okkar að myntbandalagi Evrópu. Og þar sem lykilrök fyrir samningum við Evrópusambandið er myntin þá getur ekki legið svona mikið á.??

Ég vona að þrýstingurinn um pólitískar breytingar og afleiðingar kreppunnar leiði okkur ekki út í að fara skríðandi til Brussel með lélega samningsstöðu. Ég er talsmaður breytinga til lengri tíma, ég vil nýja mynt og ég vil vita meira um hvað Evrópusambandið býður okkur. Niðurstaðan á hins vegar ekki að ráðast af þrýstingi frá hinum stjórnarflokknum í ríkisstjórn eða neinna annara.??

Stjórnmálamenn eiga að setja fram langtímamarkmið. Þá gildir einu hvort við erum í góðæri eða kreppu. Þegar það er gert má alls ekki ana að hlutunum.

e.s. kl. 19.00 - þessi umræða er áhugaverð í þessu samhengi

Lesa meira