PISTLAR


03

10 2009

Aukið lýðræði með persónukjöri

Á Alþingi liggur fyrir frumvarp um breytingar á lögum um kosningar í sveitastjórnum. Nefnd skipuð þingmönnum, en engum sveitastjórnarmönnum, hefur skilað af sér hugmyndum að aðferð sem hefur það að markmiði að auka lýðræði í kosningum með því að bjóða kjósendum að raða fulltrúum á listum flokkana. Meginbreytingin felur í sér að efstu fulltrúar allra flokka eru í persónukjöri. Kjósendur flokks geta þannig raðað efstu frambjóðendum í númeraröð, að lágmarki einum og hámarki 15 séu listar borgarstjórnarflokka notaðir sem dæmi. Áður þurfa flokkarnir að hafa valið 15 frambjóðendur sem kosið er á milli með persónukjöri en 15 neðstu frambjóðendunum raða flokkarnir í fasta röð sem kjósendur geta ekki breytt. Útstrikanir heyra sögunni til skv. frumvarpinu. Í stuttu máli er reglum breytt þannig að prófkjör fer fram samhliða sveitastjórnarkosningum.

Margt í frumvarpinu er ágætt og sérstaklega umræðan um nauðsyn breytinga á núverandi kerfi. Á hinn bóginn er ljóst að flestar þær breytingar sem frumvarpið, verði það að lögum, hefur í för með sér þurfa ítarlegri skoðun og umræðu til að sveitastjórnarmenn og kjósendur skilji og sjái ávinning af þeim. Að öðrum kosti er hætt við að breytingarnar leiði til minna lýðræðis. Minna þarf á að í núverandi lögum má kjósandi endurraða og strika út fulltrúa þess flokks sem viðkomandi kýs.


Nokkur atriði frumvarpsins þarf að skoða sérstaklega. Til þessa hafa stjórnmálaflokkarnir valið sér leiðtoga á einn eða annan máta vel fyrir kjördag. Með því móti er kosning milli einstaklinga útkljáð fyrir kjördag og baráttan milli flokka fram að kjördegi snýst því meira um málefni flokkanna en persónur, þótt persónur spili að sjálfsögðu alltaf stórt hlutverk. Nýja fyrirkomulagið snýr þessu á haus. Frambjóðendur flokkanna munu berjast innbyrðis fram að kjördegi. Afleiðingin verður sú að kjósendur munu heyra meira um einstaka frambjóðendur en þau málefni sem flokkarnir standa fyrir. Fyrir vikið gæti orðið erfiðara fyrir kjósendur að gera upp á milli stjórnmálaflokkanna og prófkjörsbragur tekur yfir málefnalega umfjöllun um sveitastjórnarmál.

Verði málefni ofarlega á baugi sem frambjóðendur flokks eru ósammála um, sbr. flugvallarmálið, verður enn erfiðara fyrir kjósendur að gera upp hug sinn. Röð frambjóðenda og skipan oddvitasætisins sérstaklega gæti fyrst þurft að liggja fyrir.

Fleiri vandamál munu hljótast af því að raða ekki á lista fyrir kjördag. Í kosningum mæta t.d. forsprakkar stjórnmálaflokka í umræðuþætti í sjónvarpi kvöldið fyrir kosningar. Nú verður slíkt ekki auðvelt í framkvæmd. Hvaða einstaklingar eiga að mæta fyrir flokkana? Ólýðræðislegasta leiðin væri sú að flokkarnir sjálfir veldu þá einstaklinga. Margir kjósendur kjósa stjórnmálaflokk eftir trausti þeirra á leiðtogaefni og því hverjir skipa framboðslistann. Dagur, Steinunn Valdís og Stefán Jón börðust t.d. fyrir fjórum árum um leiðtogasæti Samfylkingar í Reykjavík. Hvernig færi kosningabarátta flokksins fram ef óljóst væri hvert þeirra leiddi flokkinn á kjördag? Verða kjósendur sáttir þegar í ljós kemur mörgum dögum seinna að allt annar leiðtogi en þeir óskuðu sér leiði þann flokk sem þeir kusu?

Fleiri mikilvægir þættir þurfa ítarlegri skoðun. Talsverðar líkur eru á því að minnihluti kjósenda hvers flokks leggi sig fram við að raða fulltrúum og þeir sem velji, raði jafnvel ekki nema 3-4 fulltrúum af þeim sem eru í persónukjöri. Fullyrða má að afar fáir kjósendur muni til dæmis velja fleiri en 6-7 fulltrúa af þeim 15 sem yrðu í persónukjöri í borgarstjórnarkosningum. Þetta er ólíkt prófkjörsreglum þar sem sett er fram krafa um hámarks- og lágmarksfjölda til þess að ekki verði smölun fyrir fáa einstaklinga. Líkast til þýðir þetta að frambjóðendur sem lenda fyrir neðan efstu 3-4 sæti persónukjörsins hafi mun færri atkvæði á bak við sig en áður. Án lágmarksfjölda verður erfiðara fyrir ný og óþekkt andlit að kljást við sitjandi fulltrúa eða fræg andlit. Breyting laganna mun því draga úr endurnýjun á listum flokkana en frumvarpið ætti að miða að hinu gagnstæða.

Sveitastjórnir eru afar ólíkar og lúta öðrum lögmálum en þing. Hafa þarf í huga sveigjanleika til að mæta þeirri staðreynd. Sem dæmi fara minni flokkar oft fram með samsetta lista en lagabreytingin leiðir til þess að þeir muni ekki auðveldlega geta skipt með sér sætum þegar efstu mönnum er raðað upp af kjósendum.

Reiknireglur þær sem ráða úrslitum í persónukjörinu eru það flóknar að þær eru illskiljanlegar kjósendum. Það er ekki lýðræðislegt þegar lög eru það flókin að almennur kjósandi skilur þau ekki eða afleiðingar þeirra. Miklir stærðfræðiútreikningar liggja að baki persónukjörinu og mun taka marga daga að reikna út hvaða fulltrúi lendir í hvaða sæti.

Allir eru sammála um að breytinga sé þörf og að kjósendur eigi að hafa meiri aðkomu að vali sinna fulltrúa. Fyrst og síðast er mikilvægt að spyrja þeirrar lykilspurningar hvort þessi leið nálgist það sem kjósendur vilja og hvort raunverulega sé verið að auka lýðræði. Kjósendur hafa ekki verið spurðir. Eru kjósendur sáttir við afnám útstrikana? Óska þeir eftir einu allsherjar prófkjöri samhliða kosningum þar sem tugir einstaklinga leggja fram sig og sín málefni? Kjósendur fá yfir sig flókin skilaboð um menn og málefni í stað sjónarmiða flokka. Líklegt má telja að sumir kjósendur vilji breytingar sem færi okkur nær einmenningskjöri og að margir kjósendur sjái fyrir sér breytingar sem leyfi þeim að velja ,,sína sveitarstjórn” óháð flokkum.

Að lokum er afar mikilvægt fyrir grasrót hvers flokks að þingið fari að kveða upp úr um afdrif þessa frumvarps. Stjórnmálaflokkar í sumum sveitarfélögum hafa nú þegar ákveðið að bíða ekki lengur eftir niðurstöðu þings og hafa ákveðið að fara í prófkjör. Í öðrum sveitarfélögum er beðið eftir afgreiðslu eða frestun frumvarpsins. Það er alls ekki lýðræðislegt að framkvæma stórfelldar og lítt ræddar breytingar á kosningalögum með litlum sem engum fyrirvara.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. október.

Lesa meira