PISTLAR


31

12 2009

Ólíkar leiðir

Undarlegt er hversu margir virðast ekki skilja mikilvægi þess að eyða minna en þeir afla. Fyrir hrun átti þetta t.d. við um alla helstu banka og fjárfestingafélög landsins en þeir sem að þeim stóðu höfðu lítinn áhuga á að halda kostnaði innan skynsamlegra marka. Þeir trúðu að hægt væri að auka tekjur endalaust og því skipti kostnaðurinn ekki máli. Þetta reyndist rangt og því fór sem fór.


Ríkisstjórn Íslands hefur að nokkru leyti tileinkað sér þetta viðhorf. Allt þetta ár hefur legið fyrir að mikill halli verður á rekstri ríkissjóðs. Líkt og bankarnir fyrir hrun treystir ríkisstjórnin á að tekjur vaxi en lætur útgjaldahliðina afskiptalitla. Þegar haft er í huga að tekjur ríkisins fást með sköttum frá einstaklingum og fyrirtækjum, og að geta þeirra til að greiða hærri skatta hefur snarminnkað, er nánast útilokað að slík lausn gangi upp.


Reykjavíkurborg horfir fram á sams konar verkefni. Tekjur borgarinnar fást með sköttum á laun og fasteignir Reykvíkinga. Báðir þessir liðir dragast nú saman og því munu tekjur borgarinnar minnka á næstu misserum. Leið ríkisstjórnarinnar, heimfærð á borgina, fælist í því að hækka útsvar og fasteignaskatta. Vinstri græn í borgarstjórn hafa nú þegar lagt þetta til. Þetta finnst okkur, sem stjórnum borginni, ófær leið á sama hátt og hún reyndist ófær hinum föllnu bönkum og mun reynast ófær í ríkisrekstrinum.


Að þessu sögðu verður borgin að reyna allt hvað hún getur til að minnka útgjöld. Þetta höfum við sjálfstæðismenn gert á kjörtímabilinu samhliða því að forgangsraða verkefnum. Við höfum einsett okkur að verja þjónustu sem snýr að velferðarmálum og börnum í borginni og horfum þá m.a. til reynslu Finna sem sýnir að langtímaáhrif kreppu felast oft í því hvernig börnum reiðir af löngu eftir að samdráttarskeiði lýkur. Velferðar- og skólamál taka til sín 60% af tekjum borgarinnar og því er ljóst að þetta er verkefni sem krefst útsjónarsemi og áræðni. Krafa borgarbúa hlýtur þó að vera sú að þetta takist án skattahækkana.

Greinin birtist í Fréttablaðinu á gamlársdag 2009.

Lesa meira

17

12 2009

Framboðsyfirlýsing

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2. sætið á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík.


„Metnaður minn er allur í þá átt að halda áfram störfum í þágu Reykvíkinga og það er mér mikil hvatning að geta gert það á þeim góða grunni sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, hefur lagt með nýjum vinnubrögðum í stjórn borgarinnar,“


Þorbjörg Helga hefur verið borgarfulltrúi frá 2006 en hún hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Reykjavíkurborg frá 2002. Hún er formaður leikskólaráðs, stýrði umhverfis- og samgönguráði 2008-2009 og menningar- og ferðamálaráði 2008. Þá situr Þorbjörg í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga og fyrr á kjörtímabilinu sat hún í stjórn Strætó bs.

„Það verður krefjandi verkefni næstu fjögur ár vinna með borgarbúum í að forgangsraða verkefnum því rekstur borgarinnar verður þungur. Ég er tilbúin að vera í forystuhópnum sem tekur þær ákvarðanir,“.

Þorbjörg Helga er 37 ára og lauk B.A.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ 1998. Þá lauk hún meistaranámi í námssálarfræði við University of Washington í Seattle 1999. Hún er gift Hallbirni Karlssyni verkfræðingi og saman eiga þau þrjú börn, tvo stráka 14 og 9 ára og 2 mánaða stúlku.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fer fram 23. janúar.

Lesa meira

14

12 2009

Til hvers kjósum við borgarfulltrúa?

Starfs- og launaumhverfi borgarfulltrúa er með þeim hætti að draga má í efa að þunginn í starfi borgarfulltrúa sé í eðlilegu samhengi við það sem þeir eru kjörnir til að gera. Í hnotskurn helgast þetta af því að greiðslur fyrir setu í fagráðum m.a. menntaráði eða velferðarráði, eru minni en greiðslur fyrir stjórnarsetu í fyrirtækjum borgarinnar. Í þessu felast alvarlegar brotalamir sem eiga rætur sínar að rekja til stjórnkerfisbreytinga R-listans sáluga og vekja upp spurningar um til hvaða verka borgarfulltrúar eru kjörnir, hvaða verkefnum þeir sinna og hvernig þeim eru greidd laun.

Fimmtán borgarfulltrúar stýra borginni með setu í ráðum borgarinnar auk setu í stjórnum þeirra fyrirtækja og stofnana sem borgin ber ábyrgð á. Fagráðin eru 10 talsins og mynda kjarna um vinnu borgarfulltrúa, þ.e.a.s. þau verkefni sem flestir borgarbúar hafa í huga þegar þeir velja sér borgarfulltrúa í kosningum. Undir fagráðin falla umhverfis- og samgöngumál, skólamál, velferðarmál ofl. Sjálf borgarstjórn tekur lokaákvarðanir og þar ræða borgarfulltrúar ákvarðanir í ráðum og fylgja málum úr hlaði. Þessu til viðbótar sitja borgarfulltrúar í ýmsum stjórnum fyrirtækja og stofnana borgarinnar. Þær eru fjölmargar, m.a. stjórnir Orkuveitunnar, Faxaflóahafna, Strætó, hjúkrunarheimila og skíðasvæða. Helsti munurinn á fagráðum og stjórnum er sá að skatttekjur borgarinnar fara beint í rekstur sem fellur undir fagráðin en starfsemi sem fellur undir stjórnir á að standa að mestu leyti undir sér.

Stjórnkerfi borgarinnar var umturnað 2005 undir forystu Dags B. Eggertssonar. Gamla skipulag borgarinnar var lagt af og heiti eins og borgarritari, borgarverkfræðingur og menningarstjóri voru aflögð. Á móti urðu til svið og sviðsstjórar sem mynda núverandi skipulag. Breytingin fól í sér að fjölga í fagráðum úr 3-5 fulltrúum í 7 fulltrúa. Þetta þýðir að 70 kjörnir fulltrúar og 70 til vara eru kjörnir í fagráð en einnig sitja hvern fund starfsmenn og áheyrnarfulltrúar og sitja þar af leiðandi allt upp í 20 manns fundi. Þá eru ótaldir fulltrúar í stjórnum.

Tilgangur breytinganna var m.a. betri nýting fjármuna og jafnari laun borgarfulltrúa. Því átti að ná fram með því að setja þak á fjölda fagráða sem borgarfulltrúi gat fengið greitt fyrir. Reglan er sú að borgarfulltrúar eiga að sitja í tveimur fagráðum til að halda fullum launum og hækka ekki ef þeir setjast í fleiri fagráð (t.d. í það þriðja). Eins er aðeins greitt álag fyrir formennsku í einu ráði. Þetta átti að tryggja að einstakir borgarfulltrúar gætu ekki raðað á sig nefndum og fengið greitt meira en aðrir. Reynslan sýnir að vandamálið hvarf ekki heldur færðist til. Í flestum stjórnum utan fagráða er nefnilega greitt sérstaklega fyrir stjórnarsetu og er í sumum tilfellum um umtalsverðar upphæðir að ræða. Breytingarnar hafa því haft þau áhrif að stjórnkerfið hvetur borgarfulltrúa til að sinna verkefnum að lágmarki í fagráðum en sækja viðbótarlaun í stjórnum utan ráðhússins.

Annað markmið með stjórnkerfisbreytingunum var að auka lýðræðislega stjórnunarhætti. Af framansögðu má ráða að þessu markmiði hafi heldur ekki verið náð. Þróunin hefur þau áhrif að inni í borgarstjórn eru afar fáir fulltrúar til að tala máli fagráða borgarinnar. Kjörnum fulltrúum í fagráðum hefur fækkað mjög hlutfallslega enda erfitt að raða 15 manna borgarstjórn í 70 sæti fagráða. Til dæmis var ég sem formaður í umhverfis- og samgönguráði eini borgarfulltrúinn í ráðinu. Þetta á við um fleiri fagráð. Í stjórn Faxaflóahafna eru hins vegar fjórir af fimm stjórnarmönnum borgarfulltrúar. Staðan er því sú að fagráðin sem eru grunnhluti þeirrar vinnu sem borgarfulltrúar eiga að inna af hendi, líða fyrir skipulagið. Þetta er afleitt og er ekki til að auka lýðræðislega umræðu eins og var markmiðið.

Það er mikilvægt að ræða ókosti stjórnkerfisbreytinga borgarinnar út frá siðferðislegu og fjárhagslegu sjónarmiði. Í núverandi fyrirkomulagi felst óhagræði sem verður að laga þar sem það getur ekki verið borgarbúum í hag að borgarfulltrúar hafi sterka fjárhagslega hagsmuni af því að leita í önnur verkefni en þau sem koma borgarbúum mest við. Núverandi fyrirkomulag leiðir til þess að margir borgarfulltrúar hafa of mikið af verkefnum á sinni könnu sem tengjast ekki fagráðunum og þeim verkefnum sem þeir voru kosnir til að sinna. Umræðan um fjölgun borgarfulltrúa er vissulega þörf í þessu samhengi en ekki fyrr en búið er að vinna markvisst að breytingum á núverandi stjórnkerfi þar sem lagt er upp með að kjörnir fulltrúar sinni sem best forgangsverkefnum borgarinnar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 14. desember 2009.

Lesa meira

11

12 2009

Sérkennsla er grunnþjónusta

Forgangsmál í leikskólum borgarinnar er að hvert barn fái þjónustu við sitt hæfi. Ef grunsemdir vakna um að sérkennslu sé þörf er strax sett af stað athugun í leikskólanum og starfsfólk hefur tafarlaust vinnu með barninu. Þetta er svokölluð snemmtæk íhlutun en hún miðar að því að skólinn grípi inn í strax og grunsemdir vakna um þroskafrávik. Í nýrri stefnu leikskólasviðs um sérkennslu, sem leikskólaráð samþykkti á fundi sínum í haust, er þetta markmið staðfest enda er það mikilvægt til að ná árangri með börnum sem þurfa stuðning.

Í stefnunni kemur fram að við hvern leikskóla borgarinnar verði ábyrgðarmaður sérkennslu og lögð áhersla á að einstaklingsnámskrá verði gerð fyrir öll börn sem þarfnast sérkennslu. Stefnt er að fjölgun leikskóla með sérhæfða þekkingu vegna þjónustu við börn með fötlun en þeir eru nú tveir í Reykjavík. Sérhæfðu leikskólarnir eiga að vera í fararbroddi við þekkingaröflun á sínu sérsviði og miðla þekkingu. Áhersla er lögð á að efla markvisst samstarf leik- og grunnskóla og stuðla þannig að meiri samfellu á milli þeirra. Þá er lagt til að settur verði á stofn upplýsingavefur sem haldi utan um og miðli hugmyndum og leiðum sem notaðar eru í sérkennslu og að sérhæft námsgagnasafn til útláns verði hjá sérkennsluráðgjöfum. Einnig er lagt til að hafið verði tilraunaverkefni vegna langveikra barna með heimsóknum barna og kennara heim til barns. Á næstu árum er stefnt að því að byggð verði upp breiðari þekking á þjónustumiðstöðvum og sérfræðingar fengnir úr fleiri faggreinum, s.s. talmeinafræðingar og iðjuþjálfar, svo börn með mikil þroskafrávik fái samþætta aðstoð.

Stefna leikskólasviðs um sérkennslu er aðgengileg á vef borgarinnar (http://www.leikskolar.is) og þar geta forráðamenn aflað sér upplýsinga um hver réttur barna þeirra er og hvernig fjármagni er úthlutað. Sérkennsla er hluti af þeirri grunnþjónustu sem borgarstjórn vill tryggja og því er mikilvægt að allar reglur séu skýrar og tryggi jafnræði í þjónustu milli barna.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. desember 2009.

Lesa meira