PISTLAR


19

03 2009

Fíllinn í þinghúsinu

Meginverkefni ríkisins næstu mánuði og ár er að halda skuldum í lágmarki. Það hjálpar til að við hrun bankanna var ríkissjóður skuldlítill en síðan hefur sigið á ógæfuhliðina. Hluti af lausninni felst í að leita leiða til að halda arðbærum fyrirtækjum í rekstri og atvinnustigi sem hæstu og semja af fullri hörku um Icesave skuldbindingar.

Einn meginþáttur þessa verkefnis hlýtur að felast í leiðum til að draga úr útgjöldum ríkisins. Í því duga engin vettlingatök. Í bjartsýnu mati fjármálaráðherra eru skuldir ríkissjóðs áætlaðar 1.100 milljarðar í árslok 2009. Þetta er án skuldbindinga vegna Icesave og AGS sem samtals nema 1.200 milljörðum. Vaxtagreiðslur þessa árs áætlar ráðherrann tæpa 90 milljarða. Til samanburðar kom fram í vikunni að heildaraflaverðmæti íslendinga árið 2008 nam 99 milljörðum. Hallarekstur ríkisins á þessu ári er áætlaður 150 milljarðar. Tölurnar eru ógnvænlegar og ekki vil ég þurfa að velta fyrir mér stöðu mála ef niðurstaðan verður verri en Steingrímur áætlar.

Í þessu ljósi er furðulegt hversu lítið þingmenn, ólíkt sveitastjórnarmönnum, hafa rætt hvernig ríkissjóður geti sparað og minnkað útgjöld. Þetta á ekki síst við um þingmenn þeirra flokka sem nú sitja í minnihlutastjórn. Umræðan um hagræðingu og niðurskurð er fíll í þinghúsinu sem enginn þykist taka eftir.

Við stjórnvölinn sitja mestu eyðsluklær íslenskra stjórnmála. Núverandi forsætisráðherra einfaldlega neitaði að skera niður í sínu ráðuneyti í fyrri ríkisstjórn þar sem hún sat sem félagsmálaráðherra. Sömu flokkar mynduðu R-listann í Reykjavíkurborg. Á valdatíma þeirra jukust skuldir borgarinnar úr öllu hófi, á tíma þegar lag hefði verið að minnka skuldir. Undirrituð tók þátt í kosningabaráttu árið 2002 þar sem skuldasöfnun R-listans var meginefni baráttunnar. R-listinn vann þá baráttu þar sem fólki fannst þetta ekki skipta máli þá.??

Mánuður er í kosningar. Núverandi minnihluta ríkisstjórn og þingmenn allir verða að útskýra hvernig eigi að takast á við hagræðingu í kerfinu. Kjósendur eiga rétt á að vita hvort hækka eigi skatta, skera eigi niður (og þá á hvaða forsendum) eða hvort stinga eigi höfðinu í sandinn. Fílinn í þinghúsinu verður að fara að ræða.??

Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag, 19.3.2009.

Lesa meira

02

03 2009

Varhugaverðar tillögur Framsóknar

Enn virðist Framsóknarflokkurinn ætla að vekja á sér athygli með óábyrgum sölubrellum í aðdraganda kosninga. Fyrir alþingiskosningarnar 2003 lofaði Framsókn kjósendum 90% lán til íbúðarkaupa. Sú aðgerð átti sinn þátt í að koma íslenskum heimilum í skuldavandræði þar sem hún leiddi til hækkandi húsnæðisverðs, endurfjármögnunar og of mikillar skuldsetningar.??

Tillögur Framsóknar varðandi úrlausn skuldastöðu heimila voru kynntar sl. mánudag. Hvað heimilin varðar á að færa öll húsnæðislán til Íbúðalánasjóðs sem á síðan að veita flata 20% skuldaniðurfellingu vegna allra húsnæðislána. Vandi íslenskra heimila er vissulega brýnn hvað varðar húsnæðislán. Tillaga Framsóknar er hins vegar þannig að nauðsynlegt er að hafa um hana nokkur orð.??

Flatur niðurskurður í prósentum þýðir að sá sem skuldar mest fær hæstu krónutöluna eftirgefna. Þeir sem fóru óvarlegast í íbúðarkaupum síðustu árin fá því stærstu gjöfina frá skattgreiðendum. Jafnframt er óljóst hvort 20% sé það hlutfall sem dugi fyrir þann hóp sem skuldar mest. Þeir sem skulda hóflega í sínu húsnæði og eiga hugsanlega meiri eignir en skuldir fá eftirgefnar 20% af sínum skuldum þrátt fyrir að þeir þurfi þess ekki með.

Íbúðalán til íslenskra heimila námu 440 milljörðum í árslok 2007 skv. Hagstofunni. Ætla má að þessi tala sé í dag 500 milljarðar hið minnsta. 20% eftirgjöf kostar skattgreiðendur því a.m.k. eitt hundrað milljarða.??

Framsókn vill að auki gefa flatan tuttugu prósenta niðurskurð á lánum til fyrirtækja. Slík lán eru rúmir fimm þúsund milljarðar í dag og því er þetta eftirgjöf upp á rúma eitt þúsund milljarða. Hið sama á við um þessi lán og húsnæðislánin; þeir fá mestu eftirgjöfina sem skulda hæstu upphæðirnar. Óvíst er hvort tuttugu prósenta gjöf hjálpi nokkuð og að auki mun fjöldi fyrirtækja sem þarf ekki á neinni hjálp að halda einnig fá eftirgefnar skuldir upp á milljónir og milljarða. Óhagkvæmnin í þessu er mikil.??Framsóknarmenn virðast halda að niðurfelling skulda, hvort heldur sem er fyrirtækja eða heimila, verði fjármögnuð af erlendum kröfuhöfum. Svo er ekki. Niðurfelling skulda á þennan hátt mun á endanum alltaf greiðast af skattgreiðendum á einn eða annan hátt. Eins og Þórólfur Matthíasson hagfræðingur benti á í vikunni gerist það með hærri kröfum erlendra kröfuhafa á hendur íslenska ríkinu ef bankarnir verða teknir yfir af kröfuhöfum eða með lægra endursöluverði á bönkunum seinna þegar þeir verða seldir. Á endanum greiða skattgreiðendur fyrir slíkar tillögur, á því leikur enginn vafi.

Ef erlendir kröfuhafar borguðu brúsann værum við auk þess að gefa eitthvað sem við eigum ekki. Þá mætti einnig spyrja af hverju við færðum ekki einfaldlega öll lánin niður um 100%?

Það er engin auðveld leið út úr skuldavandræðum heimilanna. Þeir sem eru verst staddir munu að öllum líkindum ekki ná að bjarga sér frá gjaldþroti. Nauðsynlegt verður að aðstoða þá, t.d. með því að endurleigja þeim fasteign sína. Einnig er ágæt hugmynd að þeir sem standa illa en ráða við ákveðna greiðslubyrði á mánuði breyti hluta af sínum greiðslum í leigugreiðslur eftir að bankar eignast eignarhlut í þeirra fasteignum. Aðalatriðið er að leiðin sem farin verður kosti þjóðarbúið sem minnst og að sá kostnaður beinist á markvissan hátt að þeim hópum sem þurfa á aðstoð að halda.

Lesa meira