PISTLAR


30

05 2009

Grunnþjónustan varin

Leikskólar og dagforeldrar í Reykjavík bjóða 7400 börnum nám og umönnun á hverjum degi. Faglegt starf er með því besta sem gerist og foreldrar koma börnum sínum í leikskóla á öðru aldursári. Þjónusta við foreldra er framúrskarandi, foreldrar sýna í þjónustukönnunum að þeir eru afar ánægðir og yngstu Reykvíkingarnir fá menntun og umönnun sem þeir búa að til framtíðar. 

Vegna nýrrar stöðu í efnahagslífinu lagði borgastjórn strax áherslu á að verja grunnþjónustuna. Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í janúar sl. var því einsýnt að standa vörð um grunnþjónustu leikskóla og dagforeldra, 8 stunda vistun, en draga frekar úr niðurgreiðslum fyrir þá viðbótarþjónustu sem veitt er. Þetta er sú tillaga sem talin er vera minnst íþyngjandi fyrir foreldra. 

Fyrsti hálftíminn hækkar minnst 


Gjaldskrá leikskóla Reykjavíkurborgar fyrir grunnþjónustu, 8 stunda vistun, mun haldast óbreytt. Áfram verður veittur 100% systkinaafsláttur en Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið sem veitir þannig afslátt fyrir barnmargar fjölskyldur. Allir aðrir afslættir fyrir einstæða foreldra, námsmenn og öryrkja haldast óbreyttir. Fæðisgjald er einnig óbreytt. 

Foreldrar í Reykjavík munu því áfram greiða lægstu leikskólagjöld á Íslandi fyrir 8 stunda dvöl eða skemur í leikskóla eða að meðaltali 5-13% af raunkostnaði. Líklegt er að einhverjir foreldrar þurfi að kaupa hálftíma umfram 8 stundir til að komast til og frá vinnu. Gjaldskráin endurspeglar það og hækkunin því minnst fyrir þennan hálftíma. Þannig hækkar gjaldskráin fyrir þessa foreldra aðeins frá 1077 kr. til 2.598 kr. eftir stöðu foreldra. Vakin er athygli á því að alls eru 7.400 börn í leikskólum borgarinnar og þar af eru aðeins tæplega 200 börn, eða minna en 3% í 9,5 stunda vistun. 

Dvelja rúmlega 7 tíma á dag 

Kannaður hefur verið raunverulegur dvalartími barna í leikskólum til samanburðar við þann tíma sem foreldrar greiða fyrir. Foreldrar hafa alltaf keypt lengri vistunartíma en þeir nýta í raun. Fram kom í könnun sem gerð var í febrúar á þessu ári að þessi munur er að verða enn meiri. Foreldrar greiða nú að jafnaði fyrir klukkustund lengur en börnin dvelja í leikskólanum, þ.e. þeir kaupa að meðaltali 8,4 klst. vistun fyrir börn sín en daglegur dvalartími þeirra er að meðaltali 7,14 klst. 

Foreldrar eru þannig að kaupa öryggisventil, tíma umfram það sem nýtt er, aðeins til öryggis. Mjög kostnaðarsamt er fyrir sveitarfélagið að niðurgreiða þjónustu sem ekki er nýtt. Sum sveitarfélög hafa kosið að veita ekki þjónustu eftir að grunnþjónustu lýkur en borgin vill fremur bjóða viðbótarþjónustuna áfram, en hækka kostnaðarhlutdeild foreldra í staðinn. 

Tími ákvarðana 
Það standa allir frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, hvort sem þeir er hjá hinu opinbera, í fyrirtækjum og á heimilum. Efnahagsástandið þrengir að. Einhverjir hafa gagnrýnt, þó sérstaklega fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í borgarstjórn, að þessi aðgerð bitni á þeim síst mega sín þrátt fyrir að 8 tímarnir séu lægst verðlagðir á landinu. Leikskólarnir í Reykjavík taka til sín um 9 milljarða af útsvarstekjum Reykvíkinga eða nærri 20%. 

Til að tryggja að grunnþjónusta sé varin verður að skoða allar mögulegar leiðir og stórir dýrir málaflokkar geta ekki verið undanskildir. Án skýrrar forgangsröðunar eða upplýsinga um heildarhugsun byrjar ríkisstjórn Íslands hins vegar á því að leggja álögur á neyslu allra Íslendinga sem leggjast á barnafjölskyldur ekki síður en aðra. Álögur sem hafa tvöföld áhrif enda hækkar vísitalan mjög við þessar fyrstu skattahækkanir. Ríkisstjórnin velur að hækka gjöld og skatta, byrjar á að leggja álögur áður en að skilgreint er hvort hægt sé að skera burt þjónustu eða umsvif hjá hinu opinbera. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er alls ekki í þágu þeirra sem minna mega sín.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. maí 2009.

Lesa meira

07

05 2009

Góð fjárfesting

Í heimskreppunni miklu á fjórða áratug aldarinnar fylgdi mikið atvinnuleysi á Íslandi. Þeir sem höfðu fyrir fjölskyldu að sjá gengu fyrir þeirri vinnu sem bauðst. Unglingarnir mættu afgangi og atvinnuleysi þeirra á meðal varð nánast algjört.??

Mörgum stóð ógn af hugsanlegum afdrifum ungdómsins og ráðamenn voru hvattir til aðgerða. Í kjölfarið setti bæjarstjórnin í Reykjavík í tilraunaskyni upp í vinnuskóla sem var fyrsti vísir Vinnuskólans eins og við þekkjum hann. Hann var þá starfræktur í skíðaskála Ármanns fyrir pilta og gert var ráð fyrir að piltarnir fengu 15 krónur að námskeiði loknu. Á stríðsárunum var mikið vinnuframboð og unglingar tóku þátt í ýmsum störfum en við lok fimmta áratugarins hafði aftur sótt í gamla farið fyrir stríð. Árið 1951 varð vinnuskólinn formlega til.??

Borgarstjórn Reykjavíkur er stolt af því að nú, þegar líklegt er að færri störf standi unglingum til boða en áður, að allir unglingar í 8.-10. bekk fái starf í Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar. Það er mikilvægt fyrir borgarbúa að unglingar geti gengið að starfi vísu hjá Vinnuskólanum og það er fagnaðarefni að borgarstjórn hafi tryggt þennan valkost.

Í vetur eru 4.500 nemendur skráðir í 8. -10. bekk grunnskóla í Reykjavík. Búist er við að 80-90% þeirra skrái sig í skólann sem er mun meira en 2008 en þá voru nemendur um 2.400. Það er því líklegt að unglingum í Vinnuskólanum fjölgi um tæplega 50% í sumar. Skráningu lýkur 24. maí.??

Verkefni nemenda Vinnuskóla Reykjavíkur lúta að viðhaldi, snyrtingu og fegrun umhverfisins. Leitast er við að ala með unglingunum ýmsar dyggðir svo sem skyldurækni, ábyrgðartilfinningu, reglusemi, stundvísi og góða umgengni. Þessi markmið hafa ekki mikið breyst, unglingarnir fá þjálfun við verkleg störf og þeir taka þátt í fræðslu sem eykur víðsýni.??

Vinna nemenda er góð langtímafjárfesting. Það hefur gríðarlega sterkt forvarnargildi fyrir allt samfélagið að geta veitt unglingum uppeldis- og félagslegt skjól í Vinnuskólunum. Það er góð fjárfesting að skapa unglingum vinnu.??

Höfundur er formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 7. maí 2009.

Lesa meira