PISTLAR


16

09 2009

Sérkenni höfð að leiðarljósi

Á mikilvægri ráðstefnu um orkumál sem lauk í gær voru ræddar tegundir orkugjafa fyrir bifreiðar. Umræðan hefur færst frá því að ræða einungis hvaða eini orkugjafi taki við af bensíni í þágu umhverfisins í að ræða marga ólíka orkugjafa (t.d. metan og rafmagn).

Mikilvægt er að muna í þessari umræðu að hver borg þarf að nálgast sínar umhverfislausnir út frá sínum sérkennum. Þannig er til dæmis Kaupmannahöfn vel í stakk búin til að leggja meiri áherslu á hjólreiðar en nú þegar nýta 39% íbúar þar hjól sem ferðamáta til og frá vinnu. Í Reykjavík er þessu öfugt farið þar sem einkabíllinn varð sífellt meira áberandi undanfarin ár. Frá 1990 hefur fólksbílum í borginni fjölgað um ríflega 70% til ársins 2007 og 75% allra ferða á eru farnar á einkabíl. Reykvíkingar fara 6% ferða sinna með almenningssamgöngum og 12% gangandi eða hjólandi.

Þrátt fyrir að stór hluti ferða sé farin á einkabíl eru vegalengdir innan borgarinnar stuttar og því tækifæri í að nýta aðra orkugjafa en bensín. Um 60% allra ferða sem farnar voru innan höfuðborgarsvæðisins árið 2002 voru styttri en 3 km. Í þessu felst mikið tækifæri fyrir Reykvíkinga að breyta um orkugjafa á bílum sínum.

Samgöngur í Reykjavík eru ein af aðaluppsprettum losunar gróðurhúsalofttegunda og tækifærin til umbóta hafa ekki farið framhjá borgarfulltrúum. Borgarstjórn hefur markvisst unnið að því síðustu þrjú ár að bjóða upp á aðra valkosti í samgönguháttum með metnaðarfullum grænum skrefum, samgöngustefnu borgarinnar og loftlags- og loftgæðastefnu. Fjölgun hjólastíga, fjölgun forgangsreina fyrir Strætó, bætt umhverfi fyrir gangandi, stæði til að hlaða rafmagnsbíla, frí stæði fyrir eyðslugranna bíla og setningu orkustöðvastefnu í stað bensínstöðvastefnu eru bara nokkur dæmi um aðgerðir. En það þarf meira til – nú af hendi ríkisstjórnarinnar – sem talar og talar um umhverfismál, nýjar leiðir í samgöngum og rafmagnsvæðingu en gerir ekkert. Þvert á móti er raunin sú að höfuðborgarsvæðið fær nær engar samgöngubætur, ekkert er gert í að breyta skattaumhverfi umhverfisvænna bíla og ríkið viðurkennir ekki að göngu- og hjólastígar séu hluti af samgöngukerfi.

Ríkisstjórnin stundar umræðustjórnmál í þessu sem öðru.

Birtist í Fréttablaðinu 16. september 2009.

Lesa meira