PISTLAR


24

01 2010

Kærar þakkir!

Kæru stuðningsmenn nær og fjær.

Ég vil þakka ykkur af heilum hug það traust sem þið sýnduð mér í prófkjörinu. Þrátt fyrir að hafa stefnt hærra er ég mjög sátt við niðurstöðuna sem fékkst. Baráttan var drengileg um 2. sætið. Samtals í efstu níu sætin hlaut ég næst flest atkvæði þeirra sem tóku þátt í prófkjörinu. Þetta lýsir breiðum stuðningi sem ég er ákaflega stolt af.

Hönnu Birnu Kristjánsdóttur óska ég sérstaklega til hamingju með frábæra kosningu í fyrsta sætið og félögum mínum öllum til hamingju með þeirra árangur. 

Nú fer í hönd sá tími sem við sameinumst á ný, stuðningsmenn og frambjóðendur, og vinnum að því verðuga verkefni að tryggja og bæta um betur stöðu sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. Það er tilhlökkunarefni en áður þurfum við öll að hvílast svolítið og ná vopnum okkar á ný. 

Stuðningsmenn, sjálfboðaliðar, elskuleg fjölskylda, vinir og ættingjar. Án ykkar væri prófkjör af þessu tagi óframkvæmanleg. 

Kærar þakkir,

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.

Lesa meira

23

01 2010

Taktu þátt

Í dag verður skorið úr um hvaða einstaklingar skipa lista sjálfstæðismanna í kosningum til borgarstjórnar í vor. Það er afar mikilvægt að sem flestir sjálfstæðismenn taki þátt í prófkjörinu og stilli upp sterkum lista fyrir vorið. Sjálfstæðisflokkurinn er í sérflokki stjórnmálaflokka á Íslandi hvað þátttöku varðar. Rúmlega 20.000 einstaklingar eru skráðir í flokkinn í Reykjavík. Þetta eru miklu fleiri en hjá flokkum sem oft vilja bera sig saman við Sjálfstæðisflokkinn að stærð.

Erfiðara en oft áður er að ná eyrum þessa mikla fjölda vegna háværrar landsmálaumræðu. Fréttir af stöðu ríkissjóðs, fyrirtækja og heimila í landinu ásamt umræðu um Icesave hafa skiljanlega tekið völdin. Borgarbúar vita að ný vinnubrögð samráðs og samvinnu eru forsenda þess að borginni verði áfram stýrt af festu í því erfiða árferði sem við blasir. Þrætur og ræðukeppnir í fjölmiðlum skila engu þegar máli skiptir að hugsa skýrt og forgangsraða verkefnum. Stjórnmálaflokkar í Reykjavík hafa ólíka sýn á hvaða leiðir skila mestu í þeirri stöðu sem upp er komin. Nærtækt er að benda á leiðir ríkisstjórnarinnar sem treystir á skattahækkanir sem lausn vandans. Vinstri grænir í borgarstjórn hafa lagt til sömu leið fyrir hönd borgarbúa.

Sjálfstæðismenn í borginni vilja takast á við núverandi ástand með ráðdeild í rekstri og forgangsröðun. Þannig ætlum við að verja skóla- og velferðarmál sem eru þeir málaflokkar sem mest ríður á að verja þegar herðir að. Þessu verður að ná án skattahækkana sem myndu gera annars erfiða stöðu ómögulega fyrir heimilin í borginni.

Það skiptir því máli hverjir veljast til forustu í borgarmálum í vor. Sjálfstæðismenn eiga að taka þátt í prófkjörinu í dag og kjósa þá frambjóðendur sem þeir treysta best til að fylgja eftir áherslum okkar í borginni. Með því kjósa þeir með breyttum vinnubrögðum, áherslu á að verja skóla- og velferðarmál og á móti skattahækkunum.

Lesa meira

22

01 2010

Verkfærakistur

Þekkt er sú brotalöm íslenska menntakerfisins að ekki hefur tekist að beina nemendum í nægum mæli í iðn- og starfsnám. Afleiðingar þessa eru skortur á faglærðu fólki í ýmsum iðngreinum og lægra hlutfall ungs fólks sem lokið hefur formlegu prófi úr framhaldsskóla með þjálfun sem nýtist atvinnulífinu. Skortur á fagmenntun er atvinnulífinu dýr því tími, efni og tæki fara í að þjálfa upp starfsfólk. Einnig aukast líkur á að óþjálfað starfsfólk finni sig illa í starfi og hverfi því fljótt annað. Mikið hefur verið rætt um ástæður þessa og oftast beinast spjótin að framhaldsskólum landsins. Það er ómaklegt því rannsóknir sýna að náms- og starfsáhugi barna mótast mun fyrr. Það er því líklega of seint að gefa unglingum ekki kost á að kynnast iðn- og starfsnámi að neinu marki fyrr en þeir eru 16 ára.

Í ljósi þessa lagði ég fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í borgarstjórn vorið 2008 um hugmyndir til að kynna starfs- og iðnnám fyrir leik- og grunnskóla. Í kjölfarið var sett á laggirnar nefnd til að setja hugmyndirnar í framkvæmd. Sumar hugmyndanna eru kostnaðarsamar og verða að bíða. Hugmynd sem verður að veruleika í haust felur í sér að útbúnar verða verkfærakistur sem verða í förum milli leik- og grunnskóla borgarinnar. Í kistunum verða raunveruleg tæki og tól ýmissa iðngreina og er innihaldið ákveðið í samstarfi kennara og fagfólks. Fagfólk kemur síðan í heimsókn í skólana til að sýna meðferð verkfæranna, spjalla við krakkana og leyfa þeim að skoða, prófa og spyrja. Með kistunum fylgir fræðsluefni ásamt hugmyndum að verkefnum og leikjum.

Verkfærakisturnar eru gott dæmi um farsæla samvinnu stjórnvalda, skóla og atvinnulífs til að ná fram sameiginlegu markmiði sem er að tryggja að hæfir og duglegir nemendur veljist í þau fög þar sem áhugi þeirra liggur. Aukin iðnmenntun snýst ekki bara um að hjálpa nemendum að finna sér farveg í lífinu heldur einnig um að hjálpa samfélaginu á tímum þar sem nýsköpun og frumkvöðlastarf er nauðsyn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2010.

Lesa meira

21

01 2010

Skömm minnihlutans

Vantrauststillaga Ólafs F. Magnússonar á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag væri ekki í frásögur færandi ef ræða ætti innihald hennar eingöngu. Ólafur auglýsti málflutning sinn í Fréttablaðinu á þriðjudag með fordæmalausum texta þar sem var dylgjað og sagt ósatt til skiptis. Orðræðan sem þar átti sér stað var höfundi til skammar og dæmir sig sjálf. Það er því óþarfi að svara innihaldinu efnislega.

Vantrauststillögu Ólafs F. var mætt á borgarstjórnarfundi á þann hátt að meirihluti borgarstjórnar bar upp frávísunartillögu. Lagt var til að tillögunni yrði vísað frá á þeim forsendum að málflutningur Ólafs væri ósæmilegur með öllu. Allir, sem lásu auglýsingu Ólafs í Fréttablaðinu og bera málefnalega umræðu fyrir brjósti í stjórnmálum á Íslandi, hefðu getað tekið undir þá málsmeðferð.

Minnihluti borgarstjórnar ákvað hins vegar að sitja hjá við afgreiðslu frávísunartillögunnar. Með því tók minnihlutinn óbeint undir ómálefnalegan rógburð Ólafs og datt þar með ofan í sama forarpytt. Það að sitja hjá felur nefnilega í sér þegandi samþykki yfir vinnubrögðum Ólafs.

Eina orðið sem mér kemur í hug yfir slík vinnubrögð minnihlutans er skömm.

Ég fullyrði að ef Ólafur F. hefði viðhaft samskonar aðdróttanir í garð einstaklings í minnihluta hefði ég og aðrir fulltrúar meirihlutans skilyrðislaust lýst yfir vanþóknun á slíkum vinnubrögðum með því að styðja frávísunartillögu eins og þá sem meirihlutinn bar upp í þessu máli.

Hanna Birna á allan stuðning sjálfstæðismanna í málinu. Ég hvet sjálfstæðismenn í Reykjavík til að ganga til prófkjörsins og sýna Hönnu Birnu þannig stuðning í verki með góðri þátttöku. Þannig stillum við upp sterkum lista fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.

Lesa meira

18

01 2010

Ekkert er ókeypis

Í góðærinu reyndu menn ýmislegt sem eftir á að hyggja lítur ekki vel út. Flest þessara uppátækja voru byggð á þeirri forsendu að við gætum gert hvað sem okkur kæmi til hugar af því að við værum svo rík. Dæmi um slíka ráðstöfun er loforð Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks í febrúar 2006 um gjaldfrjálsan leikskóla. Loforðið var gefið rétt fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Sjálfstæðisflokkurinn fylgdi á eftir, með nokkrum semingi, lofaði og efndi lækkun leikskólagjalda.

 

Í ljósi stöðu okkar í dag er lærdómsríkt að rýna örlítið í þessa ráðagerð. Gjaldfrjálst er annað orð yfir ókeypis, en eins og allir vita er engin vara eða þjónusta ókeypis. Einhver þarf að bera kostnaðinn af þjónustunni og í tilfelli leikskólanna gera borgarbúar það að mestu leyti. Upphrópunin „gjaldfrjáls leikskóli“ felur í sér hirðuleysi fyrir útgjöldum og fjármunum annarra. Eflaust hafa flokkarnir sem áttu hugmyndina ekki séð málin í þessu ljósi en þannig er þetta engu að síður.

 

Opinberir aðilar, bæði sveitarfélög og ríki, verða í dag að finna leiðir til að draga úr útgjöldum. Ríkisstjórnin segist ætla að fara blandaða leið með lækkun útgjalda og hækkun skatta. Enn sem komið er bólar lítið á niðurskurðarhugmyndum en skattahækkanir eru auglýstar með heilsíðuauglýsingum í blöðum landsins. Í borgarstjórn ríkir um það sterk samstaða meðal sjálfstæðismanna að kreppunni skuli frekar mætt með aðhaldi og lækkun útgjalda í stað þess að hækka skatta. Mikil vinna hefur nú þegar verið unnin við að draga úr útgjöldum og að forgangsraða verkefnum.

 

Eigi slík vinna að vera gerleg er nauðsynlegt að kostnaður við verkefni og þjónustu, sem boðið er upp á, sé þekktur. Hér er um að ræða andstæðu þess að kalla leikskóla gjaldfrjálsa sem í raun felur kostnaðinn við þjónustuna. Þvert á móti er þess krafist að kostnaðarvitund sé góð. Af þessari ástæðu lagði leikskólaráð mikla áherslu á að reikna út heildarkostnað við hvert leikskólabarn í borginni á þessu kjörtímabili. Í ljós kom að hvert leikskólapláss kostar um 110-160 þúsund krónur á mánuði fyrir átta tíma vistun á dag með fæðisgjaldi. Foreldrar leikskólabarna greiða á bilinu 4-14 þúsund króna námsgjald á mánuði fyrir hvert barn á leikskóla. Reykjavíkurborg greiðir afganginn eða sem nemur 87-95% af kostnaði við hvert leikskólabarn. Matarkostnaður er svo niðurgreiddur sérstaklega um 50%. Samkvæmt þessu koma leikskólagjöld ekki bara foreldrum við, heldur öllum Reykvíkingum. Upplýsingar um kostnað við þjónustu sem þessa eru nauðsynlegar til að hægt sé að forgangsraða verkefnum á skynsamlegan hátt. Með því er ljóst hvað sparast við þær ákvarðanir sem teknar eru. 

 

Kostnaðarvitund þarf að aukast á fleiri sviðum. Borgarstarfsmenn þurfa að vita hvað þjónustan sem þeir veita kostar og að sama skapi þurfa borgarbúar að geta áttað sig á því hversu mikið hlutfall þjónustu er greitt beint úr vasa notenda og hversu mikið er greitt með skattpeningum. Við þekkjum dæmi um þetta þegar við greiðum fyrir lyf en á kvittuninni má lesa hvernig heildarkostnaðurinn er brotinn niður í hlut sjúklings annars vegar og ríkis hins vegar. Slík ráðstöfun leiðir til meiri kostnaðarvitundar og virðingar fyrir þeim fjármunum sem við höfum úr að spila. Önnur góð dæmi um mögulega breytta upplýsingagjöf og gjaldtöku eru sundstaðir borgarinnar og Borgarleikhúsið. Þessir vinsælu en ólíku staðir afþreyingar eru greiddir niður af Reykjavíkurborg en fáir gera sér grein fyrir hversu mikið. Vel mætti hugsa sér að upplýsingum um heildarkostnað væri komið á framfæri við greiðslu aðgöngumiða. Í tilfelli sundlauganna mætti einnig skoða að íbúar, sem greiða fyrir stærsta hluta aðgöngumiðans í formi skatts, greiði annað gjald og lægra en t.d. ferðamenn sem borga ekki skatt til rekstrarins. Skynsamlegar ákvarðanir um ráðstafanir sem þessar verða ekki teknar nema heildarkostnaður við þjónustuna sé öllum ljós.

Kostnaðarvitund þeirra sem stýra borginni, sem og borgarbúa, er mikilvægur þáttur í að stuðla að vel reknu borgarkerfi og er lykilhugtak þegar huga þarf að því að draga úr útgjöldum á markvissan og sanngjarnan hátt. Vitaskuld hefur kostnaðarvitund alltaf verið mikilvæg en þó aldrei sem nú í opinberum rekstri.

Greinin birtist í styttri útgáfu í Morgunblaðinu í dag, 18. janúar.

Lesa meira

17

01 2010

Moggi, míla og Vinstri grænir

Það er í ótrúlegt að fylgjast með ályktunum flokkráðsfundar Vinstri grænna. Greinilegt er á yfirlýsingum þeirra að flokksráðið lítur á opinbera aðila sem þungamiðju alls og nauðsynlegt afl sem beita megi hvar og hvenær sem er. Ef ályktunin kæmi frá öðrum en flokkráðsfundi stjórnmálaflokks sem er við völd í landsmálum Íslendinga liti maður ekki tvisvar á innihald hennar. Yfirlýsingin lýsir hins vegar viðhorfum annars af tveimur valdamestu stjórnmálaflokkum á Íslandi. Það skiptir því máli hvað í henni stendur. 

Vinstri græn ráðast að fjölmiðlum í landinu, eins og þeir glími ekki við næg vandamál nú þegar. Þeir argast út í ráðningu ritstjóra Morgunblaðsins og lýsa yfir skilningsleysi á tilgangi reksturs 365 miðla. Bæði þessi fyrirtæki eru í einkaeigu. Það er ekki í verkahring stjórnmálaflokks að hlutast til um rekstur einkafyrirtækja. Það er fráleitt að stjórnmálamenn geti eða eigi að hafa áhrif á rekstur eða mannaráðningar fjölmiðla í einkaeigu á Íslandi. Líkast til sjá Vinstri grænir í hyllingum stöðuna sem upp er komin í landinu, þar sem bankar í ríkiseigu hafa verulega mikið um það að segja hvaða fyrirtæki lifa og hvaða fyrirtæki deyja eða hvaða menn stjórna mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins. Það er lífsnauðsynlegt fyrir okkur að draga úr þessum áhrifum hið fyrsta. Hugmyndir VG ganga þvert á þá staðreynd.

Míla er annað fyrirtæki í einkaeigu. Vinstri græn lýsa yfir að það skuli “beina því til ríkisstjórnarinnar að leitað verði leiða til að ríkið eignist Mílu, grunnnet Símans” eins og tekið er fram í frétt Morgunblaðsins. Hvað eru Vinstri græn að leggja til? Ein leið væri að ríkið setti fram tilboð og reyndi að kaupa Mílu. Önnur leið væri að beita áhrifum innan bankans sem á skuldir Mílu (ég tek fram að ég þekki ekki til fjármála Mílu) í því skyni að bankinn taki yfir fyrirtækið. Er þetta það sem VG leggur til? Eða að fram fari einföld eignaupptaka þar sem ríkið í krafti valds tæki hreinlega fyrirtækið af eigendum Mílu? Það væri sama háttalag og Steingrímur lagði til með Hitaveitu Suðurnesja á liðnu ári.

Þessar tillögur eru hver annarri verri. Sé haft í huga að tillögurnar koma frá stjórnmálaflokki sem ræður einna mestu um framþróun viðskiptalífs á Íslandi í dag setur að manni hroll við lesturinn. Kjósendur voru skiljanlega reiðir á haustmánuðum 2008 þegar í ljós kom hversu illa íslensk fyrirtæki, viðskiptajöfrar og eftirlitsstofnanir höfðu staðið að málum.

Yfirlýsing VG sýnir hins vegar svo ekki verður um villst að hugmyndir þeirra um íslensk fyrirtæki munu ekki leiða okkur út úr kreppunni, síður en svo.

Lesa meira

15

01 2010

Tímabært samstarfsverkefni

Félags- og tryggingarmálaráðherra hefur auglýst styrki til sveitarfélaga vegna þjónustu við langveik börn og börn með ofvirkni og athyglisbrest. Sveitarfélög geta sótt um styrkina en þeir eru veittir á grundvelli samstarfsamnings félags- og trygginamálaráðuneytis, mennta- og menningamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Það er afar brýnt að nú þegar kreppir að stjórnvöld hafi metnað og elju til þess að halda verkefnum sem þessum á lofti. Minnsta skerðing grunnþjónustunnar getur haft áhrif á líðan og tilvist barna í leik- og grunnskólum. Verkefni sem miða að því að bæta um betur í samvinnu við sveitarfélög varðandi sérfræðiþjónustu ber að fagna sérstaklega, jafnt fyrir hönd Reykjavíkurborgar sem og annarra smærri sveitarfélaga sem jafnvel þurfa enn frekara á stuðningi að halda.

Markmiðið með samstarfsverkefninu er að auka stuðnings- og nærþjónustu við langveik börn og börn sem greind hafa verið með ofvirkni og athyglisbrest (ADHD). Áttatíu milljónir króna renna til verkefnisins af fjárlögum ársins 2009. Á vef félagsmálaráðuneytisins eru nánari nákvæmar upplýsingar um samstarfsamninginn og hvaða verkefni geta hlotið styrki. Í stuttu máli geta þau verkefni hlotið styrki sem tengjast félagslegri stoðþjónustu, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og/eða talþjálfun. Verkefni sem fela í sér fræðslu/og eða stuðning vegna ADHD og verkefni sem almennt miða að bættri þjónsut leik- og grunnskóla við börn með ADHD.

Dæmi um vel heppnað tilraunaverkefni í þessum anda eru sumarbúðir sem KFUM og K hafa boðið upp á fyrir drengi með athyglisbrest. Þetta verkefni vakti athygli mína þegar ég heimsótti KFUM og K um daginn og ég ætla að styðja þau í að sækja í þennan sjóð núna til að þetta geti haldið áfram. Það er ómetanlegt það frumkvöðlastarf sem unnið er víða og mikilvægt fyrir okkur stjórnmálamennina að fá upplýsingar og sjá með eigin augum afrakstur metnaðarfullra verkefna sem þessa.

Að mínu frumkvæði var lokið við nýja sérkennslustefnu Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar þar sem sett er mjög skýr stefna um aukna þjónustu m.a. við langveik börn og börn með sérþarfir. Ég fagna því að félagsmálayfirvöld komi til móts við sveitarfélög með þeim hætti sem hér er stefnt að. Það er von mín að okkur takist með samstilltu átaki getum við haldið áfram að bæta við verkefnum sem hafa afgerandi áhrif á líðan barna sem þegar búa við skertari lífskjör eða þurfa meiri þjónustu en önnur börn.

Lesa meira

12

01 2010

Árétting

Ég sendi eftirfarandi athugasemd til Morgunblaðsins vegna fréttar blaðsins um mætingar á borgarstjórnarfundi. Áréttingin birtist í Morgunblaðinu í morgun og er eftirfarandi:

"Óhjákvæmilegt er að biðja Morgunblaðið um að leiðrétta ónákvæmni í nýlegri frétt sinni af mætingu borgarfulltrúa á borgarstjónarfundi. Mætingarhlutfall mitt er yfir 90% en í fréttinni segir að hlutfallið sé 57%.

Sé leitað til skrifstofu borgarstjórnar fæst staðfest að ég hef mætt á 60 af 68 fundum borgarstjórnar sem jafngildir 88% mætingu. Þessi skráning tekur mið af því að ég er um þessar mundir í fæðingarorlofi. Vegna veikinda á meðgöngu missti ég af tveimur fundum til viðbótar.

Sé tekið tillit til þeirrar fjarveru er mæting mín yfir 90%.

Með fyrirfram þökk fyrir birtingu þessarar leiðréttingar".

Lesa meira

09

01 2010

Grundvallaratriði

Á næstu misserum er líklegt að rekstur borgarinnar verði í járnum. Útsvarstekjur munu rýrna vegna lægri tekna íbúa og fasteignaskattar munu að öllum líkindum lækka. Borgin þarf að reyna hvað hún getur til að minnka útgjöld áfram enda hafa sjálfstæðismenn hagrætt á kjörtímabilinu samhliða því að forgangsraða verkefnum án þess að hækka skatta og álögur. Borgarstjórnarflokkurinn hefur einsett sér að verja þjónustu sem snýr að velferðarmálum og börnum í borginni.

Í dag renna um 60% af 60 milljarða króna tekjum borgarinnar til skóla- og velferðarmála eða í þá þætti sem flestir skynja að séu hluti af grunnþjónustu borgarinnar. Enn eru þá ótaldir mikilvægir málaflokkar eins og frístundaheimili, hreinsun og garðyrkja í borginni, sundlaugar og bókasöfn. Þessir málaflokkar eru álitnir nauðsynlegir af flestum en erfiðir tímar gætu kallað á ný viðmið, að minnsta kosti tímabundið. Sem dæmi var ákveðið í fyrra að þjónusta borgarinnar við hirðun garðúrgangs á sumrin væri ekki grunnþjónusta. Ýmis önnur þjónusta er á gráu svæði og getur verið talin nauðsynleg af sumum en ekki öðrum, enda kalla ólíkir einstaklingar á ólíka þjónustu.

Það er ljóst að skilgreining þjónustu er verkefni sem krefst útsjónarsemi og áræðni. Ég vil að slíkar ákvarðanir verði teknar í samvinnu við borgarbúa. Í þessu sambandi er mikilvægt að horfa út á við og læra af öðrum þjóðum sem gengið hafa í gegnum svipaðar þrengingar. Sérstaklega er gagnlegt að horfa til reynslu Finna. Þar sýndi reynslan að langtímaáhrif kreppu felast oft í því hvernig börnum reiðir af löngu eftir að samdráttarskeiði lýkur. Oft er dulið í fyrstu hvaða áhrif breytingar á þjónustu geta haft. Til dæmis getur einföld breyting eins og minni gæsla á leikvöllum í frímínútum haft áhrif á öryggistilfinningu barna sem aftur getur haft áhrif á margt í lífi grunnskólanemenda.

Mér finnst líklegt að kosningarnar í vor snúist um þessi grundvallaratriði, þ.e. hvaða málaflokka þarf að verja - hvað sem tautar og raular.

Sendu mér þína skoðun með því að smella hér eða senda mér póst á thorbjorghelga@thorbjorghelga.is .

Lesa meira

08

01 2010

Opnun vinnuaðstöðu

Á morgun, laugardag, kl. 11 mun ég opna vinnuaðstöðu framboðsins að Geirsgötu 11 (Gamla Fiskikaups húsið Sjá kort ) vegna prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík. Boðið verður upp á léttan hádegisverð.

Krakkahorn verður á staðnum fyrir yngri kynslóðina 

Byrjum helgina saman í góðra vina hópi.

Allir hjartanlega velkomnir.

Lesa meira

07

01 2010

Skyldulesning fyrir okkur öll

Financial Times, sem er virtasta viðskiptatímarit vesturlanda ásamt The Wall Street Journal, birti í morgun leiðara sem fjallar um Icesave og stöðu Íslendinga. Leiðaraskrif FT eru með virtustu viðskiptaskrifum sem koma út á prenti.

Textinn ætti að vera skyldulesning fyrir alla á Íslandi og tók ég mér því það bessaleyfi að þýða greinina og birta hér að neðan. (Mistök í þýðingu, ef einhver eru, eru mín.)

Skilaboðin í leiðaranum eru skýr: Evrópureglum verður ekki bjargað með því að þjösnast á Íslendingum og henda þeim í skuldafangelsi.

 

Ekki setja Ísland í skuldafangelsi

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafnaði í þessari viku lögum sem áttu að jafna ágreining lands hans við Bretland og Holland út af hinu auma Icesave máli. Í sannleika sagt átti hann lítið val: fjórðungur kosningabærra manna á Íslandi, sem er mjög svo sjálfstætt fólk, hafði undirritað áskorun til hans þess efnis að hafna lögunum. Þetta eru mótmæli af þeirri stærðargráðu sem enginn leiðtogi getur litið framhjá.

Lögin fara nú í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem þeim verður líklega hafnað. Þetta getur hugsanlega kennt hollenskum og breskum stjórnvöldum takmörk þess hversu langt er hægt að ganga fram með ofbeldi, en gerist þó of seint til að það komi raunverulega nokkrum að gagni.

Landsbankinn bauð upp á Icesave reikninga sína á grundvelli evrópskra „passporting? reglna, sem gera erlendum bönkum kleift að opna útibú að því gefnu að þeir uppfylli reglur eftirlitsaðila heima fyrir og taki þátt í tryggingakerfi innistæðueigenda heimalandsins. Hins vegar, eins og hrunið í október 2008 sýndi, var áhætta Landsbankns langtum meiri en sú upphæð sem íslenska innistæðutryggingakerfið gat mögulega ráðið við að greiða.

Í júní samþykktu Bretar og Hollendingar að veita innlánstryggingasjóðnum 15 ára lán til að endurgreiða innlánseigendum Icesave, en heimtuðu á móti að íslenska ríkið ábyrgðist lánið sem hefði skuldsett skattgreiðendur á Íslandi fyrir meira en einum þriðja af árlegum útflutningi landsins (endaleg upphæð yrði hugsanlega lægri, en það færi eftir þeirri upphæð sem kæmi út úr sölu eigna Landsbankans). Íslenski löggjafinn samþykkti ábyrgðina eftir að hafa takmarkað hana við hlutfall hagvaxtar á líftíma lánsins. Þegar bresk og hollensk yfirvöld sættust ekki á að ábyrgðin rynni út án þess að lánið væri mögulega greitt að fullu, var lögunum breytt í ásættanlegt form fyrir lánveitendur – en ekki fyrir herra Grímsson eða fyrir flesta Íslendinga.

Það er erfitt að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að taka Ísland sem dæmi. Fyrir lánveitendurna eru upphæðin hjákátleg: í heildina er hún 3,9 milljarðar punda, eða sem nemur einum hundraðshluta af því sem eingöngu Bretland mun taka að láni á þessu og næsta ári. Örlítill nágrannakærleikur væri nánast ókeypis fyrir Amsterdam og London.

Þeir (Bretar og Hollendingar, innskot) eru ekki heldur saklaus fórnarlömb. Breskir og Hollenskir bankar högnuðust gríðarlega á reglunum. Ef þeir hefðu  farið á höfuðið á sambærilegan máta (og gerðist fyrir Ísland, innskot) væri óðs manns æði að ímynda sér að ríkisstjórnir þeirra tækju á sig hundruð milljarða í skuldir til þess að bjarga erlendum innlánseigendum og það er aumkunarvert að krefjast þess hins sama af löskuðum nágranna.

Ísland hefur verið undir byssukjafti frá byrjun. Lán frá Póllandi, norrænum nágrönnum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) eru háð jákvæðri umfjöllun AGS sem aftur á móti eru háð jákvæðri lausn Icesave. Líflína, sem felst í Evrópusambandsumsókn, er því í gíslingu, háð velvild Breta og Hollendinga.

Landsbankinn sýndi að Evrópa verður að endurskoða eigin lög til að ná fram traustara jafnræði. Það mun ekki gerast með því að setja Ísland í skuldafangelsi.

Lesa meira

04

01 2010

Annáll borgarfulltrúa

Þegar litið er til baka finnst mér árið 2009 hafa verið lengra en önnur ár. Auðvitað er það vitleysa en líkt og tíminn flýgur þegar gleðin er við völd, er því öfugt farið um erfiðari stundir.

Árið 2009 einkenndist af átökum. Mér þótti erfitt að sjá reiðina sem braust út í byrjun ársins og endalausa neikvæðni streyma frá öllum fjölmiðlum. Það er ljóst að ástandið verður erfitt áfram og við munum þurfa að sýna samstöðu og hjálpa hvert öðru á árinu sem nú fer í hönd. En vonandi eru þeir skaflar, sem við brjótumst gegnum núna, þeir verstu og vonandi sjáum við brátt vísbendingar um viðsnúning.

Auðvitað sjáum við líka ýmislegt jákvætt gerast um þessar mundir. Ég var svo heppin á árinu að taka þátt í afar blómlegri starfsemi með borgarstarfsmönnum sem hafa áhrif á daglegt líf allra borgarbúa. Heimsóknir mínar í leikskóla borgarinnar standa þar upp úr og þegar þetta er ritað hef ég, sem formaður leikskólaráðs, heimsótt 60 skóla af þeim tæplega 100 sem eru í borginni. Ég hlakka til að ná að heimsækja þá alla nú í vetur.

Í þessum heimsóknum sést glöggt hvílíkt fjöregg skólarnir okkar eru. Allir eru þeir ólíkir og endurspegla mjög sterklega áherslur stjórnenda og starfsmanna hvers skóla. Það hefur verið gríðarlega gefandi að fá að heimsækja skólana og hvetjandi að hlusta á vangaveltur, framtíðarsýn og áhyggjur starfsmanna. Á kjörtímabilinu höfum við lagt áherslu á að fjölga faglærðu starfsfólki í leikskólum og á þessu ári náðist sá ánægjulegi árangur að um helmingur starfsmanna í skólum borgarinnar er með faglegan bakgrunn í leikskóla- og/eða uppeldistengdum fræðum.

Á árinu skilgreindi leikskólaráð, með stjórnendum leikskólasviðs, hversu mikið hlutfall er greitt fyrir hvert pláss, annars vegar af íbúum borgarinnar með útsvari og hins vegar af foreldrum. Var þetta unnið fyrir foreldra og aðra útsvarsgreiðendur. Sem dæmi má nefna að 8 klukkustunda leikskólapláss er niðurgreitt af skattfé um 87-95% . Þannig greiðir t.d. fjölskylda, þar sem annar maki er í námi, 10.597 kr. á mánuði fyrir leikskólavistun sem er 9,4% af raunkostnaði við plássið. Þetta er hluti af hugmyndum mínum um aukna kostnaðarvitund í kerfinu, bæði fyrir starfsfólk og þá sem þiggja þjónustu hjá borginni. Skýr kostnaðarvitund tryggir jafnan rétt að þjónustu og eykur virðingu fyrir notkun á skattfé.

Á árinu 2009 náðust mikilvæg skref í sérkennslumálum þegar samþykkt var metnaðarfull og skýr sérkennslustefna leikskólasviðs sem er afar aðgengileg fyrir foreldra. Hún var sett fram með það að markmiði að gera betur til lengri tíma og að foreldrar hefðu góðar upplýsingar um rétt barnsins sem og reglur um úthlutun sérkennslufjármagns. Að auki var byrjað á tilraunaverkefni sem menntamálaráðherra styrkti til eins árs í janúar 2009. Það tryggir að starfsmenn á Sólborg og Múlaborg hafi svigrúm til að styðja við foreldra og aðra skóla í að miðla þekkingu og upplýsingum þeirra á sérkennslumálum. Sólborg og Múlaborg eru leikskólar sem eru með sérstaka þjónustu fyrir börn.

Að sama skapi heimsótti ég, sem formaður umhverfis- og samgönguráðs, garðyrkjustöðvar borgarinnar og hitti þar metnaðarfullt starfsfólk sem sér um að hirða gróður og snyrta öll opnu svæðin okkar og umferðareyjur. Þar sem ég er mikil áhugakona um garðyrkju, þótti mér sérlega ánægjulegt að ræða við þetta virðingarverða fólk um sýn þess á nærumhverfi borgarhlutanna.

Tvö verkefni tengd íbúalýðræði eru mér einnig minnistæð. Það fyrra varðar breytt skipulag Miklatúns/Klambratúns sem varð til með aðkomu íbúa í gegnum Facebook síðu og vel heppnaðan íbúafund sem haldinn var í kjölfarið á Kjarvalsstöðum. Síðara verkefnið tengdist tilraun með kaupmönnum á Laugavegi til að loka götunni fyrir akandi umferð þann 5. september. Einstök stemning skapaðist á Laugavegi þennan dag og var sérstakt að taka eftir því hversu mikill hávaði fylgir bílum. Þarna sáust líka óvenju margir barnavagnar sem gæti bent til þess að jafnvel sé þörf á að breikka gangstéttar til að tryggja gott aðgengi fyrir fólk með börn.

Störf mín sem formaður leikskólaráðs og umhverfis- og samgönguráðs voru afskaplega gefandi á árinu. Mörg góð mál fengu farsælan endi og fleiri góð mál bíða.

Ég get ekki fjallað um árið 2009 án þess að minnast á það mikilvægasta, en það er í persónulegu samhengi. Þar stendur auðvitað hæst að við hjónin eignuðumst litla stúlku 1. október. Fjölskyldan öll er í skýjunum og ekki spillir fyrir að systir mín eignaðist líka stúlku stuttu áður. Fjölskyldan eyddi almennt miklum tíma saman í fríum og margar góðar minningar urðu til.

Í lok ársins tók ég þá stóru ákvörðun að sækjast eftir 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Nýtt ár hefst því með mikilli, en jafnframt skemmtilegri, vinnu við að heyra í sjálfstæðismönnum í borginni. Ég er viss um að þeir eru almennt ánægðir með þær mikilvægu breytingar á vinnubrögðum sem Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri hefur innleitt og ég tel að þurfi að festa í sessi.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og megi það færa okkur öllum gæfu og bjartari tíma.

Lesa meira