PISTLAR


25

10 2010

Vigdís, fífldjarfa framboðið

Vigdís, fífldjarfa framboðið var afar innilegt innlegg inn í kvennafrídaginn og sýndi daglegar áskoranir kosningabaráttu Vigdísar glögglega. Ég var ekki nema 8 ára þegar Vigdís var kjörin en ég man vel eftir miklu stolti, ég vissi að þetta voru sérstök tímamót. Ég veit betur núna hversu mikil fyrirmynd Vigdís var mér og er, en ekki síður hversu marga múra hún braut í jafnréttisbaráttunni. Múrar sem við munum stundum ekki eftir að hafi verið til staðar.

,,Ég kynni því betur að þar [á Bessastöðum] mætti gestum höfðinglegur karl, húsbóndi heimilisins á bæjarhellu, hann byði til stofu, þar gengi fram virðuleg íslenzk kona, sem byði gesti velkomna og veitti þeim góðgerðir, gegndi sem ætið sínu göfuga húsmóðurhlutverki" skrifaði Valgarð L. Jónsson fyrir forsetakosningar 1980.  Umræðan um hlutverk maka á Bessastöðum var á allra vörum eftir að Vigdís bauð sig fram og opinberaði skoðanir margra á hlutverki kvenna í samfélaginu.  Íslendingar ræddu þetta bæði opinberlega í ræðu og riti en ekki síður í samtölum sín á milli og líklega hafa jafnvel stuðningsmenn Vigdísar haft sínar efasemdir.  Á síðustu dögum baráttunnar hittust svo frambjóðendur í sjónvarpssal.  Þar sögðu mótframbjóðendur Vigdísar Pétur, Guðlaugur og Albert sínar skoðanir og töldu allir að starfið væri vissulega fyrir tvo einstaklinga, að stjórnarskráin talaði um maka forseta, að makinn þyrfti að hugsa um öll samkvæmin, þyrfti að sinna embættiserindum sem forseti kæmist ekki í og að þeim myndi leiðast ef ekki væri maki á Bessastöðum. Á þessum mætu herrum sást að vel var búið að undirbúa hvað mátti segja og hvað ekki.

Nú þrjátíu árum síðar finnst okkur þessi umræða vera kjánaleg.  Hún var samt sannarlega ekki kjánaleg þá og var hluti af þeim múrum jafnréttisbaráttunnar sem Vigdís braut niður fyrir okkur hinar.  Hægt er að segja að umræða sem þessi sé nánast horfin - að minnsta kosti opinberlega.

Eftir 30 ár sjáum við vonandi skýrt hvaða múrar hafa hrunið sem eru ósýnilegir nú.  Vonandi verða þeir þeir síðustu sem brjóta þarf niður og hægt verði að segja að jafnrétti hafi náðst fyrir "dætur þessa lands".

Lesa meira