PISTLAR


14

12 2010

Sérkennsla skorin niður

Sérkennsla er viðkvæmasta þjónusta sem Reykjavíkurborg veitir í leik- og grunnskólum og fjárhagsáætlun Besta flokksins og Samfylkingarinnar sýnir 9% niðurskurð.  Svona mikil hagræðing mun ekki nást með einhverjum skipulagsbreytingum enda er umræddur fjárhagsliður samsettur úr úthlutunum fjár til barna með greiningar eftir skýrum flokkunum og svo vegna launa til sérkennara.  Ég fullyrði að 9% hagræðing mun bitna beint á þjónustu við börn.

 

Í tillögum að fjárhagsáætlun borgarinnar sem lögð er fram í dag verður þetta staðfest. Áætlað er að kostnaður vegna sérkennslu í leik- og grunnskólum borgarinnar fer um 185 milljónir fram úr áætlun á 2010 og nemur í lok árs 1290 milljónum. Í nýrri fjárhagsáætlun er reiknað með að verja litlu minna til sérkennslu á næsta ári eða 1255 milljónum. Þetta segir þó ekki alla söguna því kostnaður fer að fram úr áætlun (sem skýrist af miklu fleiri greiningum og aukinni fagþekkingu og menntun starfsfólks) á næsta ári líka ef núverandi kerfi greininga og úthlutana helst óbreytt. Ef miða ætti við áætlanir að öllu óbreyttu ætti kostnaður við sérkennslu að vera 125 milljón krónum hærri eða 1375 milljónir. Það er því ljóst að úthlutunarkerfi greininga mun breytast á nýju ári. Það er líka mikilvægt að benda á að þessi hagræðing næst einungis að hluta seinna hluta árs vegna þess að í fyrsta lagi eru hagræðingartillögurekki komnar fram og alfarið óræddar og í öðru lagi vegna skipulags grunnskóla sem hefur það að verkum að reglur breytast að hausti.  Þetta hefur í för með sér að hagræðingin skellur enn harðar á ársgrundvelli.

 

Þetta hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna ítrekað gagnrýnt í menntaráði á óformlegum og formlegum fundum, nú síðast þegar 9 mánaða uppgjör var lagt fram. Við bentum á að búist sé við að nemendum með greiningu fjölgi um áfram níu prósent á milli ára og taka ætti tillit til þess í fjárhagáætlun. Það sé ekki gert og því sé þetta falinn niðurskurður. 

 

Það lítur því út fyrir að hart sé vegið að sérkennslu í leik- og grunnskólum í nýrri fjárhagsáætlun borgarinnar. Niðurskurðinn er hvergi sýnilegur því framúrkeyrslan er svo mikil á milli ára. Það er mjög gagnrýnivert að þessar upplýsingar séu ekki uppi á borðum. Foreldrar og sérfræðingar hafa í gegnum árin barist fyrir því að fá stuðninginn aukinn en nú stefnir í niðurskurð. Nú verða foreldrar og sérfræðingar að fylgjast vel með hvar hagræðingin skellur.

 

Lesa meira

04

12 2010

Heilbrigð skynsemi

 

Tillögur að reglum mannréttindaráðs um samskipti skóla og trúfélaga eru í heild sinni hið furðulegasta mál og kemur öllum er fjallað hafa um á óvart. Í fyrsta lagi endurspeglar tillaga meirihluta mannréttindaráðs ekki umburðarlyndi eða jafnræði heldur einkennist hún af miðstýringu og boðvaldi. Í öðru lagi eru þessar róttæku reglur aðeins unnar á grundvelli 22 kvartana sem hafa borist mannréttindaskrifstofu úr skólakerfi sem þjónar rúmlega 20.000 nemendum. Í þriðja lagi er samvinna og samstarf við skóla og trúfélög engin. Á auðveldan hátt hefði verið hægt að vanda betur til verka með því að ná fram víðtækri samstöðu við foreldra, kennara og starfsmenn skóla, nemendur, fræðimenn, þjóðkirkju og trúar- og lífsskoðunarfélög með það að markmiði að leggja mat á hvort ástæða sé til þess að endurmeta samstarf trúar- og lífsskoðunarfélaga við grunnskóla og leikskóla í Reykjavík. Í fjórða lagi gengur sú hugsun í tillögunni um boð og bönn gegn þeirri hugmyndafræði sem búið er að innleiða í skólasamfélagið í mörg ár, að skólinn hafi mikið sjálfstæði og að stofnanir, félög og fyrirtæki í hverju hverfi vinni náið með skólasamfélaginu. Tillögurnar nú útiloka einn lykilþátttakanda í þessu mikilvæga samstarfi og fela í sér vantraust á starfsfólk skólanna, sem hingað til hefur verið treyst til að virða mörk skóla og samstarfsaðila.

 

Dæmin um samstarf stofnana og starfsemi trúar- og lífsskoðunarhópa á skólatíma eru fjölmörg og uppbyggileg og fela ekki í sér trúboð. Dæmi eru um að skólar brautskrái elstu nemendur við hátíðlega athöfn í kirkju sem er í næsta húsi, að starfsmenn kirkju kynni fyrir leikskólabörnum hvað er að gerast í kirkjunni á daginn þar sem börnin sjá reglulega líkfylgd frá leiksvæði sínu og samstarf kirkju og skóla um nafnlaus framlög til að greiða niður matargjöld barna sem eiga um sárt að binda.

 

Með tillögum meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins verður allt slíkt samstarf bannað. Fjölmörg önnur dæmi eru um persónuleg, vinaleg og félagsleg tengsl kirkju og skóla auk þess sem tengsl kristinnar trúar og íslenskrar menningar hafa um aldir verið svo samofin að erfitt er og óæskilegt að draga línu þar á milli.

 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lýst yfir andstöðu við fram komna tillögu mannréttindaráðs og telja skýrslu mennta- og leikskólasviðs frá 2007 um samstarf kirkju og skóla vera afar góðan ramma um samstarf þessara aðila. Þar er gengið út frá því að starfsfólk beggja aðila noti heilbrigða skynsemi og að „samskipti leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa einkennist af skilningi og virðingu fyrir hlutverki hvorir annarra. Stofnanir eru meðvitaðar um ólíkar forsendur fyrir starfi hvorar annarrar og virða þau lög, reglur og samþykktir sem í gildi eru fyrir þessar stofnanir og samfélagið í heild.“

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2010

 

Lesa meira

03

12 2010

Alls konar áætlunin

Það er vont þegar stefnu vantar í stefnumótandi plögg.  Fjárhagsáætlun borgarinnar er dæmi um slíkt plagg. Áætlunin gefur borgarbúum engin skýr skilaboð um stefnu meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar næstu árin.  Skilaboðin eru óútfærð, óskýr og hreint út sagt út og suður.

 

Langtímastefnan kemur hvergi fram.  Enginn veit, hvorki kjörnir fulltrúar né starfsmenn, hvaða rekstrarþætti á að verja umfram aðra.  Ekkert er fjallað um atvinnu eða atvinnuleysi. Engar útfærslur sjást varðandi framkvæmdir sem Dagur B. Eggertsson þó gagnrýndi hvað harðast að vantaði í síðustu fjárhagsáætlun. Dagur talaði þá um “framkvæmdastopp” þó framkvæmt væri fyrir 10 milljarða. “Hagvöxtur í Reykjavík” hefur jafnvel ekki verið skilgreindur en Dagur fjallaði ótæpilega um það óskýra fyrirbæri í kosningabaráttunni. Ekki er metið hvað hækkaðir skattar og gjöld á fjölskyldur komi til með að kosta samtals þótt nánast allt sé hækkað sem hægt er að hækka. Engin skýr lína kemur fram um hvort eigi að verja störf eða ekki og starfsmenn sitja uppi með ógrynni af óútfærðum hagræðingartillögum sem samtals nema u.þ.b. einum milljarði króna á ársgrundvelli. Það eina sem er útfært í þaula er hvernig seilast eigi dýpra í tóma vasa borgarbúa.

 

Meirihlutinn setur ekki fram leiðbeinandi línur í fjárhagsáætlanagerðinni um hvernig skuli haga samrekstri í þjónustu eins og t.d. skóla. Ekki er heldur búið að ákveða hvernig á að hagræða í sérkennslu, forföllum eða langtímaveikindum í leik- og grunnskólum.  Ekkert er enn ákveðið um hvernig eigi að skipuleggja hagræðingu í ráðhúsinu.

 

Í stuttu máli er fjárhagsáætlun meirihlutans fullkomlega ókláruð. Rúsínan í pylsuendanum er síðan að hið svokallaða gat sem Besti flokkurinn og Samfylking ætla sér að loka hefur stækkað á ótrúlegan hátt með útgjaldaliðnum “ófyrirséð fé” sem stækkar nú í tæpan milljarð. “Ófyrirséð fé” er óbundinn liður í áætluninni og er til að mæta ýmsum uppákomum, dekurverkefnum eða verkefnum sem meirihlutinn vill takast á við á nýju ári.  Sannarlega alls konar.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. desember 2010

Lesa meira

01

12 2010

Allskonar gjöld og skattar

Meirihluti borgarstjórnar, meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar, leggur nú fram sitt fyrsta stefnuplagg í formi fjárhagsáætlunar. Tíðindin eru töluverð. Allskonar fyrir aumingja og frítt sund hefur vikið fyrir allskonar gjöldum, gjaldskrárhækkunum og skattahækkunum.

Allir skattar hækka og að ég held næstum allar mögulegar gjaldskrár. Þetta þýðir að barnafjölskyldur þurfa að taka á sig 100 til 150 þúsund á ári í útgjaldaaukningu sem þýðir í raun einn heill mánuður í vinnu fyrir annað foreldrið. Meðfylgjandi eru 2 dæmi með nákvæmum útreikningum.

Því miður velur meirihlutinn þá leið að senda reikninginn á borgarbúa í stað þess að fara nýjar leiðir eins og Besti flokkurinn lofaði í kosningabaráttu sinni. Stuðst er við gamaldags aðferðir kerfisins á kostnað íbúa. Það lítur út fyrir að meirihlutann skortir yfirsýn yfir verkefnið, enda eru meginlínur óskýrar og framtíðarsýn og forgangsröðun ábótavant. Jafnvel tölurnar breytast á hverjum degi. Gat sem í haust var 3 milljarðar er nú orðið 5 milljarðar sem sýnir glögglega að ekki er verið að takast á við raunverulegt gat heldur einungis verið að auka rekstrarkostnað.

Skortur á framtíðarsýn víkur fyrir tilviljanakenndum gjaldskrárhækkunum og vannýttum tækifærum til samráðs við hagræðingu.?Gjaldskrárhækkanir eru að jafnaði 5-40% á meðan hagræðing í miðlægri stjórnsýslu er eingöngu 4,5%. Kerfinu er því hlíft en borgarbúar látnir gjalda fyrir það. Ekki má gleyma hækkunum Orkuveitu Reykjavíkur í haust þar sem reikningur meðalfjölskyldu í Reykjavík hækkaði um 30.000 kr. á ári. Systkinaafsláttur á leikskólum er nú lækkaður úr 100% í 75% sem hefur veruleg áhrif á barnafjölskyldur og frístundagjöld eru hækkuð um 20% svo eitthvað sé nefnt. Fyrir barnafjölskyldu í Reykjavík geta því aukin útgjöld 2011 numið allt frá 100 til 150 þúsund kr. á ári eins og dæmin sýna.

Svo miklar hækkanir munu leiða til þess að enn meira þrengir að hjá fjölskyldufólki og einkaneysla og atvinnulíf í borginni dregst saman. Það er margsannað að við aukna skattheimtu breytir fólk neyslumynstri og lifnaðarháttum til þess að laga sig að breyttu umhverfi. Sú fjárhæð, sem áætlað er að ná með því að fara þá leið, næst því aldrei. Þær miklu hækkanir sem frumvarpinu fylgja fyrir fjölskyldur og barnafólk í Reykjavík munu því miður hafa veruleg áhrif á lífsgæði þeirra sem hér búa, samhliða því sem frumvarpið hvorki nýtir sér reynslu liðinna ára né lítur til nýrra lausna. Betra hefði verið að halda áfram með skýra forgangsröðun í þágu borgarbúa, draga enn frekar saman í miðlægri stjórnsýslu, fresta nýjum útgjaldaliðum og nýta reynslu og þekkingu starfsfólk og íbúa - tillögur þeirra spöruðu á síðasta ári umtalsvert meira fé en skattahækkanir meirihlutans nú. Slík forgangsröðun hefði verið fyrir fólkið en ekki kerfið.
Lesa meira