PISTLAR


10

02 2010

Úr vasa sömu skattgreiðenda

Mikilvæg breyting varð á lögum um grunnskóla 2008. Þar var staðfest að nemendur í 8., 9. og 10. bekk ættu aðgengi að fjölbreyttu vali í námi sínu bæði innan grunnskólans og hjá framhaldsskólum landsins. Þetta leiddi ekki eingöngu af sér fjölbreyttara námsval fyrir nemendur heldur gætu sterkir nemendur flýtt framtíðar námi sínu í framhaldsskóla með því að stunda fjarnám eða taka áfanga við framhaldsskóla samfara námi í grunnskóla. Verið var að mæta þörfum námshesta og um leið spara þeim og skattgreiðendum fé þar sem þessir nemendur væru líklegir til að taka framhaldsskólann á þremur árum í stað fjögurra.

Í lok síðasta árs tilkynnti ríkisstjórn Íslands að hún myndi hætta fjárveitingum til framhaldsskóla vegna þessara áfanga grunnskólanemenda. Þetta kom flatt upp á fræðsluskrifstofur landsins enda segir í lögum um grunnskóla í 26. grein, 4. málsgrein:

 

“Grunnskólanemendur eiga rétt á að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi meðan þeir eru í grunnskóla enda hafi þeir sýnt fullnægjandi færni. Skólastjóri í grunnskóla veitir nemanda heimild til slíks náms utan skólans samkvæmt viðmiðum sem sett skulu í aðalnámskrá. Ákvörðun skólastjóra samkvæmt þessari málsgrein lýtur ákvæðum stjórnsýslulaga”.


Að mínu mati og sveitarfélaga er þessi málsgrein afar skýr. Talsvert af grunnskólum landsins hafa nýtt sér þjónustu framsækinna framhaldsskóla sem bjóða grunnskólanemendur velkomna. Þetta hefur að mati allra verið mikilvæg þjónusta sem mætir þörfum nemenda sem skara framúr.


Fulltrúar skólamála í sveitarfélögum landsins fengu sl. föstudag svör menntamálaráðuneytisins við fyrirspurnum um málið. Ráðuneytið svarar spurningunum í löngu máli með því að vísa fram og til baka í greinargerðir og í frumvarpið sem lá að baki núgildandi laga. Ráðuneytið segir meðal annars að ,,fyrirfram má þó ætla að þau sjónarmið að skerða möguleika á vali í námi á grundvelli samdráttar í ríkisútgjöldum og takmörkuðum möguleikum til innritunar nemenda í framhaldsskóla séu málefnaleg”.


Það væri fróðlegt að heyra mat lögfróðra manna á þessum fullyrðingum. Er hægt, á grundvelli samdráttar, að brjóta á rétti nemenda eins og menntamálaráðuneytið gerir? Ef svo er, geta þá t.d. sveitarfélög með sömu réttlætingu, þ.e.a.s. með rökum um samdrátt í rekstri sveitarfélaga, brotið á rétti nemenda til skyldunáms?


Ríkið telur sig spara 70 milljónir með því að loka fyrir nám grunnskólanemenda í framhaldsskólaáföngum (sveitarfélög greiða námsbækur og skráningargjöld þessara nemenda). Hægt er að færa rök fyrir því að niðurskurðurinn þýði einmitt aukinn kostnað til lengri tíma þar sem þessir nemendur spari ríkinu fjármuni með því að fara hraðar í gegnum framhaldsskólakerfið. Að auki er mjög líklegt að enn eina ferðina sé skorinn niður kostnaður hjá ríkinu sem fellur á sveitarfélögin í staðinn (stytting fæðingarorlofs eykur á sama hátt kostnað sveitarfélaga). Sveitarfélög eru nefnilega líkleg til að bjóða upp á framhaldsskólaáfanga fyrir nemendur í grunnskólum sínum í staðinn.


Þessi niðurskurður, sé hann löglegur, er þannig einungis tilfærsla útgjalda.  Verið er að færa kostnað frá ríki til sveitarfélaga án þess að gefa því gaum að það eru sömu launþegarnir sem greiða skattinn hjá báðum.

Lesa meira