PISTLAR


31

03 2010

Mikilvægir styrkir

Nýlega fengu 16 leikskólar Reykjavíkurborgar afhenta þróunarstyrki leikskólaráðs. Mikil sátt er í leikskólaráði um að skera ekki niður þessa mikilvægu styrki sem veita skólunum tækifæri til að vinna með nýjar hugmyndir, auka samstarf á milli leikskóla, hefja samstarfsverkefni og stunda rannsóknir. Sumir telja að slíkir sjóðir geti beðið á meðan það versta gengur yfir í efnahagslífinu en það getur verið afar dýrkeypt. Ekki þarf alltaf fjármagn til að skólaþróun eigi sér stað en í mörgum tilfellum er nauðsynlegt að veita starfsfólki stuðning til að hittast, gera tilraunir og tengjast.

Á síðastliðnum tveimur árum hefur umhverfi leikskóla, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, gengið í gegnum miklar öfgar. Fyrir hrun beindust öll spjót að leikskólum vegna manneklu, lokana og biðlista. Vegna manneklu var lítill tími til þróunar skólastarfs því öll orkan fór í að leita að starfsfólki. Atvinnulífið lét í sér heyra og foreldrar voru undir miklum þrýstingi og unnu mikið frá börnum sínum. Nokkrum vikum eftir hrun bankanna fylltust leikskólarnir af starfsfólki, ró færðist yfir starfsemina og foreldrar áttu fleiri samverustundir með börnum sínum. Starfsfólk á auðveldara með að vinna verkefni fyrir skólastigið þegar starfsmannahald er stöðugt og gott. Við tóku annars konar krefjandi verkefni sem fólu í sér samstarf og samvinnu foreldra, starfsmanna og borgaryfirvalda til að stuðla að hagræðingu í 10 milljarða króna leikskólakerfi.

Á þessu kjörtímabili hafa leikskólar þannig þurft að glíma við afar ólíkt ytra umhverfi. Alltaf er umhverfi barnsins, nám þess og umönnun, það sem allir leitast við að tryggja að sé til fyrirmyndar. Samkvæmt skoðanakönnunum eru foreldrar himinlifandi með leikskólana og börnin læra meira en við fullorðna fólkið getum ímyndað okkur. Þessi þjónusta og námsþróun leikskólabarna er aðeins tryggð til framtíðar með öflugu faglegu starfi í skólunum. Slíkt er nauðsynlegt að styðja við. Skólarnir þurfa tækifæri og tíma til að skoða og endurskoða og prófa eitthvað nýtt - allt með það að markmiði að hvert og eitt leikskólabarn blómstri.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 31. mars 2010

Lesa meira

29

03 2010

„Það er skýr krafa um heilindi“

Það var sorglegt að hlusta á ræðu Dags. B. Eggertssonar á fundi flokkráðsfulltrúa Samfylkingarinnar. Það var ekki að hann réðist á Sjálfstæðisflokkinn og störf okkar í borginni sem kom á óvart enda varaformaðurinn eflaust stressaður í kjölfar síðustu skoðanakönnunar sem spyr um traust kjósenda til leiðtoga flokkana í borginni.

Það sem kom á óvart var ósamræmið í málflutningi varaformannsins. Hann dregur fram máli sínu til stuðnings dæmi sem í mörgum tilfellum eru annað hvort ósönn eða sett fram á afar villandi hátt. Þó byrjar varaformaðurinn sína ræðu á að segja að ,,víða ríki vantraust í samfélaginu” og að “uppi sé skýr krafa um heilindi”. Of langt mál væri að elta ólar við allar rangfærslur Dags en eftirfarandi þrír punktar nægja til að draga fram skort á heilindum svo ekki sé meira sagt.


Að hagræða sannleikanum
Dagur segir í ræðu sinni: ,,Einhverjum finnst sjálfsagt fyndin tilhugsun að (Sjálfstæðis)flokkurinn hafi verið á fullu fyrir hrun í viðræðum við að afhenda Kaupþingi og Glitni leikskóla með stofnun fyrirtækjaleikskóla. Það hefur þó ekki formlega verið slegið af - heldur er í frestun”.

Það sem helst er fyndið við fullyrðingu Dags er að hún er alröng. Engar viðræður hafa farið fram við Kaupþing eða Glitni, eða nokkurt annað fyrirtæki, um stofnun eða rekstur fyrirtækjaleikskóla. Ekki einu sinni óformlegar viðræður.  Af því leiðir að engum slíkum tillögum hefur verið slegið á frest, hvað þá slegnar af. Engar slíkar tillögur hafa nokkurn tímann verið settar fram í borgarstjórn. Allt tal Dags um einhvers konar “afhendingu” á leikskólum er hreinn uppspuni eða misskilningur.

Það sem Dagur vísar í og gerir óheiðarlega grein fyrir er umræða sem fram fór í mesta góðærinu um hugmyndir í
grein eftir mig. Greinin var sett fram í kjölfar háværar umræðu atvinnulífsins um skort á starfsfólki í leikskólum, lokunum deilda og skorti á dagforeldrum. Þá fór fram mikil umræða um að borgin stæði ekki undir þjónustukröfum fyrirtækjanna sem þyrftu svo nauðsynlega alla sína starfsmenn í mikla vinnu fyrir land og þjóð. Greinin lagði fram hugleiðingar um að við þyrftum kannski í þessari stöðu að hugsa út fyrir kassann og að atvinnulífið væri alls ekki ábyrgðarlaust í þessu samspili vinnu og heimilis.  Þar setti ég fram hugleiðingu um að kannski þyrftu, samfara svona þenslu, fyrirtækin að taka þátt í að styðja sitt starfsfólk í auknu mæli. 

Á þessum tíma fékk ég sem formaður leikskólaráðs miklar ákúrur fyrir að hafa engar lausnir, meðal annars frá varaformanninum og hans
fólki
Umræðan varð snörp og heit og kostir og gallar beggja forma ræddir. Mikið var rætt um endurupptöku leikskóla Ríkisspítala þar sem hjúkrunarfræðingar, sem mikill skortur var á, komust ekki til starfa vegna skorts á plássum. Vitandi þetta (hann hlýtur að hafa kynnt sér málið vel) kýs Dagur B. Eggertsson að hagræða sannleikanum mjög með því að tala um viðræður og stofnun einhverra bankaleikskóla. Á fullyrðingum Dags og umræðunni sem fór fram er reginmunur. En varaformaðurinn kýs að velja hagræðingu á sannleikanum frekar en ,,heilindi”.

Án ábyrgðar
Dagur dregur líka fram kaup borgarinnar á Laugavegi 4 til 6, sem nú er verið að gera upp, og segir að fyrir þann pening sem greiddur var fyrir þessi hús (600 milljónir 2008) væri hægt að eyða öllum biðlistum á leikskólum í Reykjavík. Fyrir það fyrsta er biðlistavandamál hjá leikskólum borgarinnar úr sögunni og samanburðurinn því vægast sagt furðulegur. Með þessu ert reynt að draga upp þá röngu mynd að borgin glími við biðlista í leikskólum borgarinnar. Dagur sleppir að auki að taka fram að nettó kostnaður borgarinnar verður að öllum líkindum umtalsvert minni en sem nemur kaupverði borgarinnar því stefnt er að því að selja eða leigja húsin þegar þau hafa verið endurbyggð. Mjög gegnsær og heilsteyptur málflutningur ekki satt?

Í þriðja lagi dregur Dagur fram skuldsetningu Orkuveitu Reykjavíkur og setur hana í þann búning að hún hafi öll orðið til á þessu kjörtímabili. Dagur talar um “upphaf darraðardans Orkuveitunnar” og lætur eins og Samfylkingin hafi verið víðsfjarri ákvarðanatökum sem voru undanfarar núverandi stöðu OR.

Hið rétta er að Dagur, Samfylkingin, og R-listinn allur, voru við völd þegar ákvarðanir voru teknar um virkjanakosti, rannsóknir sem nú eru í fjárfestingarferli, fjárfestingar í ljósleiðara, fjárfestingar í byggingu skrifstofuhúsnæðis OR, ákvörðunum um fjármögnun fjárfestinga og fjárfestingar í REI. Þeir voru í stuttu máli við völd þegar svo til allar þær ákvarðanir voru teknar sem leiddu af sér núverandi skuldastöðu Orkuveitunnar.

Staða OR í dag er á ábyrgð allra flokka í Reykjavík. Kjósendur í Reykjavík eru vel meðvitaðir um þessa staðreynd. Heldur er því aumt að sjá Dag reyna að víkja sér undan sinni ábyrgð í málinu. Við þessu er að bæta að ríkisstjórn sú sem Dagur styður hefur að auki átt sinn þátt í að stöðva framkvæmdir sem gert var ráð fyrir að sköpuðu tekjur í erlendri mynt út á stóran hluta fjárfestinga Orkuveitunnar sl. 2-3 ár. Dagur minnist að sjálfsögðu ekki á þessa staðreynd í ræðu sinni. Honum finnst ekki nógu skýr krafa um heilindi hjá sér – bara hjá öðrum.

Morfísræðurnar eru úreltar
Lítið traust og skortur á heilindum er vandamál í íslenskum stjórnmálum. Þar hittir Dagur naglann á höfuðið. Ástæða þess er að Íslendingar vilja ekki útúrsnúning og leikaraskap sem hefur fylgt stjórnmálunum of lengi. Ræður í anda Morfís, þar sem undirliggjandi staðreyndir skipta skipta litlu, en orðagjálfur, sniðugheit og leikræn tjáning skipta miklu, bæta ekki ástandið. Slík framsetning á að heyra sögunni til og er besta leiðin til að auka heilindin í íslenskum stjórnmálum.  Dagur er líklega sammála þessu - nema að þetta á ekki við um hann sjálfan. 

Lesa meira

10

03 2010

Fyrir nemendur í Úlfarsárdal

Nýstárlegur skóli í Úlfarsárdal tekur til starfa í haust. Í ágúst verður flutt inn í leikskólabyggingu sem er ætlað að þjónusta börn frá eins árs til tólf ára og bjóða metnaðarfulla leikskólamenntun og umönnun, grunnskólamenntun og frístundastarf undir einu þaki. Einn skólastjóri verður ráðinn að skólanum, sem skipuleggur daglegt starf grunnskóla, leikskóla og frístundastastarfs. Nýi skólinn mun strax bjóða 35 leikskólabarna og 30 grunnskólabarna velkomin en í dag eru 65 börn úr hverfinu í leik- og grunnskólum í öðrum hverfum. Byggingin er hönnuð sem 5-6 deilda leikskóli á stórri lóð og hentar vel fyrir starfsemi yngstu bekkja grunnskóla.

Samrekstur leik- og grunnskóla
Ekki einungis er skólastarfsemi tryggð í Úlfarsárdal með þessum spennandi skóla heldur verður hann fyrirmynd að aukinni samfellu á þjónustu við börnin í borginni. Ný lög um grunnskóla og leikskóla opna rekstraraðilum skóla ný tækifæri auk aukinnar samfellu á milli skólastiga. Þessi tilraun í Úlfarsárdal, að reka saman leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili undir einu þaki, miðar að því að auka sveigjanleika í skólastarfi og það sem er ekki síst mikilvægt; skóladagurinn verður heildstæðari hjá börnunum. Skólinn er spennandi áskorun fyrir stjórnendur, stjórnkerfi og starfsfólk skólans enda þarf að leysa fjölda hnúta til að börn og foreldrar upplifi samfellu á milli skólastiga og frístundastarfs. Skólinn er að sama skapi afar spennandi og mikilvæg tilraun fyrir nemendur og foreldra sem kalla eftir auknum samskiptum við kennara og stjórnendur og heildstæðum skóladegi hjá börnum sínum.

Íbúar hafa áhrif
Foreldrar í Úlfarsárdal og foreldrar barna sem eru að byggja í Úlfarsárdal eiga stóran þátt í að þessi spennandi skóli er að verða að veruleika. Hópur foreldra hefur í kjölfarið unnið þétt með mennta-, leikskóla- og íþrótta- og tómstundasviði að útfærslum. Í stað þess að fresta byggingu tveggja skólabygginga var tekin ákvörðun um að setja fjármuni í aðra bygginguna, tryggja þjónustu í hverfinu og nýta fjármagn til uppbyggingar. Leikskólinn fer strax í endanlegt húsnæði á sama svæði og fyrirhugaður grunnskóli og íþróttasvæði. Skólinn verður, líkt og Norðlingaholtsskóli, miðja hverfisins og mun búa til tengsl á milli íbúa og skólans. Þetta nýja skólaumhverfi, sem vonandi mætir þörfum barna betur en áður, getur mögulega aukið hagkvæmni í rekstri og mun nýtast borgaryfirvöldum vel við að móta framtíðarskipulag í skólastarfi í Reykjavík. Áhersla verður áfram sem hingað til lögð á að íbúar, fullorðnir jafnt sem börn, hafi aðkomu að undirbúningi nýja skólans.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. mars 2010

Lesa meira