PISTLAR


30

04 2010

Hrósum

Nú er tækifæri fyrir þig sem foreldri, starfsmaður, afi, amma eða borgarbúi til að hrósa leikskólastarfsfólki fyrir framúrskarandi starf. Á fyrsta fundi leikskólaráðs Reykjavíkurborgar haustið 2006 var samþykkt tillaga þess efnis að stofna til hvatningaverðlauna leikskóla. Markmið þeirra er að veita leikskólum borgarinnar, starfsfólki þess og öðrum sem koma að starfi þeirra hvatningu, vekja athygli á því gróskumiklu fagstarfi sem fram fer í leikskólunum og stuðla að aukinni nýbreytni og framþróun í uppeldisstarfi. Hvatningarverðlaunin snerta því hag og framtíð yngstu borgarbúanna, hafa mikla þýðingu fyrir reykvískt menntaumhverfi og verða nú í maí veitt í fjórða sinn.

Ólíkir skólar og ólík verkefni
Fyrstu verðlaun voru afhent í Höfða í maí 2007 af þáverandi borgarstjóra Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni. Þá fengu sex leikskólar viðurkenningu fyrir gróskumikið fagstarf. Það voru Dvergasteinn fyrir verkefnin Ótrúleg eru ævintýrin og samstarf við Myndlistaskólann í Reykjavík um myndmennt yngri barna, leikskólinn Fellaborg fyrir verkefnið Mannauður í margbreytileika, leikskólinn Hamraborg fyrir Vísindaverkefni, leikskólinn Nóaborg fyrir áhugavert stærðfræðiverkefni, leikskólinn Sólborg fyrir þróunarverkefni um sameiginlegt nám fatlaðra og ófatlaðra barna og síðast en ekki síst leikskólinn Steinahlíð fyrir mikilvæga umhverfismenntun. Tólf aðrir leikskólar hafa síðan fengið hvatningarverðlaunin fyrir margvísleg nýbreytni- og þróunarverkefni, s.s. í sögugerð, einstakt starf starfsmanns, umhverfismennt, listsköpun og upplýsingatækni. Miklu fleiri skólar hafa fengið tilnefningar frá ólíkum aðilum og fyrir ólík verkefni. Í borginni eru starfræktir tæplega 100 leikskólar og öruggt að hægt er að hrósa hverjum og einum fyrir margt.

Þitt tækifæri til að hrósa
Leikskólar borgarinnar eru suðupottur hugmynda, frjórrar umræðu og verkefni sem byggja á reynslu, fagstarfi og tilfinningu starfsfólks fyrir breytingum í samfélaginu hverju sinni. Hvatningarverðlaunin eiga að vera hvatning inn í þessa deiglu, viðurkenning okkar borgarbúa fyrir hugmyndauðgi og framkvæmdagleði þeirra sem sinna mikilvægu uppeldisstarfi, rós í hnappagat þeirra sem láta hugmyndir sínar um umbætur verða að veruleika og bæta þannig gæði skólastarfsins. Allir geta sent inn tilnefningar til hvatningarverðlauna leikskólaráðs; foreldrar, kennarar, skólar, starfsmenn og aðrar borgarstofnanir. Skilafrestur er til 10. maí og hægt er að finna allar upplýsingar á heimasíðu Leikskólasviðs, www.leikskolar.is. Við val á verðlaunahöfum verður haft til hliðsjónar að verkefnið sé öðrum til eftirbreytni, hvatning til góðra verka og fyrir góð verk, svo og að fjölbreytt verkefni fái viðurkenningu. Tökum höndum saman og hrósum leikskólunum fyrir gott fagstarf sem skiptir máli fyrir yngstu borgarbúana!

Lesa meira

21

04 2010

Barnamenningarhátíð í Reykjavík

Fyrsta barnamenningarhátíðin í Reykjavík byrjaði af krafti á mánudag. Það var kominn tími til enda orðið ansi langt síðan að tillaga um barnahátíð var samþykkt í borgarstjórn á síðasta kjörtímabili. 

Það eru yfir 100 viðburðir í boði á hátíðinni. Heimasíða hátíðarinnar er á www.barnamenningarhatid.is en hátíðin er skipulögð af menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar. Við höfðum nokkrir borgarfulltrúar og starfsmenn borgarinnar kynnt okkur barnahátíðir víðsvegar um heiminn í gegnum netið og heimsóttum að auki nokkrar barnahátíðir á Bretlandseyjum.  Fullt af hugmyndum komu þaðan en að auki komum við ekki að tómum kofanum hjá okkar fólki á Íslandi.

Hátíðin hófst eins og áður segir á mánudaginn þegar 1300 10 ára börn í grunnskólum Reykjavíkur fóru með rútum niður í miðbæ og gengu fylktu liði í Hljómskálagarðinn, skrýdd mismunandi höfuðfötum í öllum regnbogans litum (sjá nokkrar myndir hérna).  Skrúðgangan var litrík og hressandi í samt aðeins of miklum kulda. Næstu daga verða um alla borg uppákomur sem að skólar og foreldrar geta mætt á með börnin sín. 

Meðal annars verður mikið að gerast í Ævintýrahöllinni við Fríkirkjuveg 11 en þar verður starfrækt barnamenningarhús sem hluti hátíðarinnar.  Þetta er menningarstarf fyrir börn, með börnum og skapað af börnum. Listsýningar, tónleikar, dans- og leiksýningar og fjölbreyttar smiðjur svo sem Legosmiðja, Erró listsmiðja, sirkussmiðja, brúðugerðarsmiðja o.fl. 

Í stuttu máli eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á þessari viðamiklu barnamenningarhátið.

Lesa meira