PISTLAR


23

09 2010

Laun varaborgarfulltrúa

Varaborgarfulltrúar í borgarstjórn eru jafnmargir borgarfulltrúum. Til dæmis á Samfylkingin þrjá varaborgarfulltrúa þar sem flokkurinn á þrjá borgarfulltrúa. Til viðbótar borgar- og varaborgarfulltrúum starfa fleiri fulltrúar flokkanna í nefndum og ráðum. Þeir koma oftast neðar af listum eða úr grasrótarstarfi flokkanna. Þessi fjöldi trúnaðarmanna er mikilvægur fyrir lýðræðislega og faglega umræðu og svo hægt sé að manna fjölmargar nefndir og hópa.

Varaborgarfulltrúar hvers flokks leggja oftast á sig mikla vinnu, en stundum minni, allt eftir persónulegum aðstæðum hvers og eins. Dæmi eru um að fulltrúar úr grasrót flokka séu virkari en varaborgarfulltrúar eða að fyrsti varaborgarfulltrúi taki að sér færri verkefni en annar varafulltrúi. Meðal annars af þessum sökum var samþykkt í fjárhagsáætlun 2010 að lækka laun fyrsta varaborgarfulltrúa og að laun allra varaborgarfulltrúa væru þau sömu og færu eftir fundarsetu. Áður höfðu laun borgarstjóra og borgarfulltrúa verið lækkuð umtalsvert og var full samstaða um þessar aðgerðir.

Skýringin á því að Besti flokkurinn og Samfylking ákváðu fyrr í vikunni að hækka aftur laun fyrsta varaborgarfulltrúa, þvert á það sem eðlilegt er í núverandi ástandi, er einföld. Hækkunin hefur legið í loftinu frá því í ljós kom hvernig Besti flokkurinn og Samfylking skiptu með sér embættum. Fyrsti varaborgarfulltrúi Besta flokksins, Páll Hjaltason, var skipaður formaður skipulagsráðs. Það embætti skipar jafnan borgarfulltrúi úr einum af efstu sætum síns flokks, enda viðamikið embætti. Fyrsti varaborgarfulltrúi Samfylkingar, Hjálmar Sveinsson, sagði strax eftir að niðurstöður kosninga til borgarstjórnar lágu fyrir og ljóst var að hann næði ekki inn sem aðalmaður, að hann þyrfti frekari upplýsingar áður en hann ákvæði að taka sæti sitt um „til dæmis hvort þetta er launað, það skiptir fjölskyldumann miklu máli".

Launahækkanir Besta flokksins og Samfylkingar fyrir fyrstu varamenn svara spurningu Hjálmars og tryggja Páli Hjaltasyni betri laun fyrir sína vinnu. Þetta hækkar launakostnað borgar- og varaborgarfulltrúa á tíma þegar stíf krafa er um aðhald í kostnaði og launum. Slík vinnubrögð eru einfaldlega ekki boðleg.
Lesa meira

03

09 2010

Leikjastefna Reykjavíkur

Af hverju eru ekki fleiri ungbarnarólur á leikvöllum? Getur borgin ekki sett niður brettagarða fyrir unglinga? Hvar eru trimmtækin við hlaupaleiðir? Þurfa að vera eins leiktæki á öllum leikvöllum? Hvernig eiga eldri borgarar að geta sótt þjónustu gangandi ef þeir geta ekki hvílt sig á bekk á leiðinni? Mega hundarnir hvergi vera? Fjölmargir íbúar spyrja þessara réttmætu spurninga og borgarfulltrúar hafa til margra ára ekki getað svarað öðruvísi en að ganga í einstök mál. Úr verður óskipulögð borg opinna svæða sem tekur tillit til margra að litlu leyti, sumra að engu leyti, og á mismunandi hátt í ólíkum hverfum.

Tillaga um gerð leikjastefnu Reykjavíkur var samþykkt í umhverfis- og samgönguráði í júní 2009. Tillagan gerði ráð fyrir að unnið væri að breskri og hollenskri fyrirmynd. Samkvæmt henni er núverandi notkun svæða, gönguleiða og leiktækja í hverju hverfi skoðuð. Íbúafundir eru haldnir um hvað vantar og sérstök skoðun fer fram á þörfum hópa eins og til dæmis eldri borgara, unglinga og hundaeigenda. Nú þegar liggur fyrir fyrsta úttekt á Vesturbænum. Hún leiddi m.a. í ljós nauðsyn þess að tryggja öruggar gönguleiðir að vinsælum svæðum. Næsta verkefni er samtal við íbúa um þarfir ólíkra hópa og skráning á því hvernig íbúar nota eða nota ekki núverandi svæði.

Þegar illa stendur á í fjármálum eru líkur á að dýrmæt svæði borgarinnar drabbist niður. Viðhald er skorið við nögl og endurnýjun leiktækja í lágmarki. Þá er mikilvægara en áður að hafa skýra stefnu um hvernig eigi að verja því fé sem til er. Borgarstjórn Reykjavíkur og hverfisráðin þurfa að setja kraft í að vinna þessa leikjastefnu áfram. Forgangsröðun fjárfestinga munu þá grundvallast á vel útfærðri leikjastefnu. Slíkt getur til dæmis leitt til þess að íbúar sameinist um að efla verulega eitt opið leiksvæði á kostnað nokkurra lítilla svæða. Þannig vinnst fjármagn til fjárfestinga og viðhalds og betri sátt um leiksvæði borgarinnar. 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. september 2010

Lesa meira