PISTLAR


24

11 2011

Heimabrúkskenningar um hrun

Í marga mánuði hafa borist fréttir af síversnandi stöðu ríkja Evrópusambandsins. Ástandið hjá mörgum þeirra minnir ískyggilega á okkar eigin stöðu sumarið 2008, nokkrum mánuðum áður en íslensku bankarnir fóru í þrot. Bankar á meginlandi Evrópu eiga í miklum vandræðum með fjármögnun og fjölmörg ríki fá ekki lán nema á afarkjörum. Í ljósi þess hversu mörg ríki standa nú illa er vert að íhuga gegndarlausar yfirlýsingar um að hugmyndafræði stjórnmálaflokka sé um að kenna hvernig fór á Íslandi. Formenn núverandi stjórnarflokka hafa útskýrt í upphrópunarstíl ástæður hrunsins og ítrekað vísað til stefnu þeirra stjórnmálaflokka sem áður stýrðu landi og þjóð. Í lok árs 2008, þegar Ísland var eina landið sem hafði lent í verulegum vandræðum, hljómuðu þessar kenningar mögulega trúverðugar. Þremur árum seinna eru þær kjánalegar og þarfnast endurskoðunar. Ástæða þess að auðvelt er að afsanna kenningarnar er að fleiri sýni hafa litið dagsins ljós, svo notuð séu hugtök vísindamanna eins og jarðfræðinga.

Hver stjórnaði hvar?
Um síðustu helgi beið Sósíalistaflokkur Zapatero afhroð í kosningum á Spáni. Sá flokkur er til vinstri og réð ríkjum frá 2004. Vinstrimönnum er kennt um afleita stöðu Spánverja sem standa frammi fyrir miklum efnahagsþrengingum og atvinnuleysi. Miðjuflokkur, með stuðning frá hægri og vinstri til skiptis, réð ríkjum á Írlandi í tugi ára þar til kreppan skall formlega á. Sú ríkisstjórn ákvað að ríkið skyldi ábyrgjast allar skuldir írskra banka en Írar máttu í framhaldinu leita sér erlendrar aðstoðar. Í Grikklandi hefur Papandreou, formaður Sósíalistaflokksins, nýlega sagt af sér sem forsætisráðherra vegna skuldastöðu gríska ríkisins. Hann varð ekki forsætisráðherra fyrr en 2009 en frá 2004 hafði hægri miðjuflokkur stýrt ríkisstjórninni. Grískir stjórnmálaflokkar hafa aldrei tekist á við gegndarlausa spillingu sem þar hefur ríkt. Í Portúgal hafa sósíalistar verið við völd í áratugi. Einungis nokkrir mánuðir eru frá því að Portúgalar fetuðu í fótspor Íra og Grikkja og leituðu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hægrimenn í Portúgal nota nú sömu rök og vinstrimenn á Íslandi, en með öfugum formerkjum. Ítalía, hagkerfi sem er of stórt til að bjarga og of stórt til að falla, stendur frammi fyrir skelfilegum niðurskurði og endurskipulagningu. Hægrimenn, undir forystu Berlusconis, hafa stjórnað Ítalíu í áratug og ekki tekist á við mikla spillingu í viðskiptalífi og stjórnmálum.

Sökudólgar til hægri?
Það hljómar ekki gáfulega að útskýra hremmingar þessara landa með yfirlýsingum um hægri- eða vinstristefnu stjórnmálaflokka. Eina leiðin til að gera slíkt er að horfa einangrað á hvert land og láta eins og hin löndin séu ekki til. Það gera forystumenn ríkisstjórnar okkar við hvert tækifæri og telja vandræðin á Íslandi skýrast af hægri hugmyndafræði. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði fyrr á árinu að tími Samfylkingarinnar hefði komið þegar „óstjórn og sóun Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir gunnfána frjálshyggjunnar leið undir lok á Íslandi með skelfilegum afleiðingum". Á nýlegum landsfundi Samfylkingar sagði Jóhanna einnig að sömu flokkar væru ekki stjórntækir fyrr en þeir breyttu „um stefnu í þeim grundvallarmálum sem hruninu ollu". Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, var á svipuðum slóðum á landsfundi VG í haust og sagði VG hafa varað við „meðan íslensku þjóðarskútunni var siglt á fullri ferð á strandstað hægristefnunnar".

Þýskaland er landið sem á að bjarga öðrum evrulöndum úr skuldakreppunni. Í samhengi við upphrópanir Steingríms og Jóhönnu um að allt sé frjálshyggju að kenna mætti allt eins fullyrða, álíka gáfulega, að sterk staða Þýskalands sé tilkomin vegna þess að þar sé kona í forystu stjórnmálanna.

Ef ekki hægristefna, hvað þá?
Einfaldar skýringar á okkar stöðu og annarra Evrópuríkja eru ekki til. Vitlausar viðskiptahugmyndir og hegðun banka á Íslandi, spár manna á Írlandi og Spáni um þróun fasteignaverðs og spilling í Grikklandi og á Ítalíu eru sennilegar skýringar. Þó er eitt sem öll þessi lönd áttu sameiginlegt. Í þeim öllum hefur þjónusta hins opinbera vaxið úr hófi fram. Í góðærinu sem á undan gekk reyndist auðvelt að fjármagna vöxtinn með sköttum og aukinni skuldsetningu. Nú þegar kreppir að reynist illmögulegt hvort heldur sem er að vaxa út úr vandanum eða draga nógu hratt saman útgjöld til að laga skuldastöðuna.

Verkefnið fram undan er hið sama hjá öllum þessum löndum og mun felast í niðurskurði, hagræðingu og áherslu á vöxt efnahagslífsins. Forgangsröðunin verður unnin í pólitísku samhengi einstakra landa en mun reynast afar erfið stjórnmálamönnum sem þurfa að sækjast eftir endurkjöri. Ríkisstjórnir sem þora að taka erfiðar ákvarðanir og leggja áherslu á uppbyggingu efnahagslífsins eru þær sem munu sjá hvað skjótastan bata. Hugsanlega skiptir þá máli hvort menn hugsa til hægri eða vinstri.

Lesa meira

23

11 2011

„Smávægilegur munur á einkunnum“

Menntamálaráðherra breytti reglum um forgang í framhaldsskóla til hins verra árið 2010. Í stað þess að nemendur sem stóðu sig best nytu forgangs í óskaskóla nýtur nú sá hluti nemenda forgangs sem er heppnastur með lögheimili. Fyrir utan að vera líkast til brot á lögum leiðir breytingin til minni samkeppni milli nemenda og milli skóla. Minni samkeppni leiðir að öllu jöfnu af sér lélegra skólakerfi. Einna helst geta nemendur sem standa sig síður í skóla en búa á rétta staðnum hagnast á breytingunni auk þess sem starfsmenn ráðuneytis menntamála þurfa að leggja á sig mun minni vinnu við að raða niður í skólana. Nemendur sem að jafnaði gætu gert betur leggja minna á sig þegar rétt heimilisfang veitir þeim forgang.

 

Gegn fjölbreytileika og metnaði
Eðlilega hafa fá rök komið fram um kosti þess að heppilegt heimilisfang sé mikilvægari eiginleiki í fari nemenda við val skólanna á nemendum en árangur. Katrín Jakobsdóttir ráðherra skrifaði grein í vor þar sem hún sagði ljóst að stærri hópur nemenda sæki nú framhaldsskóla í nágrenni heimilis en áður, en að það hljóti að teljast „sanngjarnt, uppfylli þeir skilyrði til skólavistar" og spyr „af hverju ætti að vísa þessum nemendum í skóla fjarri heimili og jafnvel sæta óvissu um skólavist vegna smávægilegs munar á einkunnum".

 

Hvaða skilaboð eru þetta önnur en að litlu máli skipti hvernig þú stendur þig í skóla?

 

Svandís Svavarsdóttir, starfandi menntamálaráðherra undanfarna mánuði, opinberaði skýrt stefnu Vinstri grænna með breytingunni. Svandísi fannst einfaldlega ófært að ákveðnir skólar á Íslandi gætu valið úr bestu nemendunum. Hún segir í viðtali að það sé „forgangsatriði að tryggja öllum nýnemum skólavist og auka jafnframt fjölbreytni í námsframboði. Því marki verður tæpast náð ef skólar standa aðeins opnir nemendum sem náð hafa hæstum meðaleinkunnum við lok grunnskóla".

 

Þetta er misskilningur hjá Svandísi. Forgangur vegna búsetu tryggir ekki nemendum skólavist á betri hátt en áður. Forgangur vegna lögheimilis breytir hvorki fjölda nemenda né fjölda skólaplássa. Úthlutunin breytir einungis því að nemendum sem standa sig síður er gert auðveldara að velja sér skóla og skólar sem ekki eru eins eftirsóttir af grunnskólanemendum fylla öll sín pláss. Þetta þýðir einnig að fleiri nemendur vita fyrirfram að þeir þurfa að leggja minna á sig til að komast inn í skóla sem þá langar í. Það ýtir undir minni metnað meðal nemenda unglingadeilda og veitir minna aðhald þeim framhaldsskólum sem ekki eru eftirsóttir, hvaða ástæður sem kunna að vera þar að baki.

 

Jafnræðisregla brotin?
Alvarlegt er að með innleiðingu pólitískrar sýnar Vinstri grænna er jafnræðisregla stjórnarskrár líklega brotin. Forgangsreglurnar fela í sér mismunun á grundvelli búsetu. Nemendur innan hverfis fá forgang umfram nemendur utan hverfis þó þeir hafi slakari einkunnir. Þannig hefur nemandi úr Lækjarskóla í Hafnarfirði minni möguleika en nemandi úr Hlíðaskóla á að komast inn í MH, jafnvel þó að nemandinn úr Hafnarfirði hafi betra námsmat.

 

Afleiðingarnar
Svo óréttlátar reglur geta haft alvarlegar afleiðingar til skemmri og lengri tíma. Skilaboðin eru að nemendur þurfi að leggja minna á sig til að fá inni í hverfaskóla og þurfi lítið að kynna sér ólíkt framboð framhaldsskóla. Búið er að minnka það val sem var áður í boði en nú má aðeins velja um tvo skóla í stað fjögurra áður. Ráðuneytið hvetur auk þess skólastjóra eindregið til að ráðleggja nemendum að „hafa annan þeirra þann skóla sem á að veita þeim forgang". Unglingarnir hætta því ekki á að setja tvo óskaskóla utan hverfis sem fyrsta og annað val því þá aukast líkur á þeir komist hvergi að. Í þessu ljósi er hjákátlegt af menntamálaráðherra að birta tölur um að betur gangi að bjóða nemendum framhaldsskóla en áður því tölurnar eru með öllu ósambærilegar.

 

Margir framhaldsskólar falla þess heldur ekki inn í hugmyndir um hverfaskóla. Iðnskólinn í Reykjavík og Borgarholtsskóli hljóta að þurfa að sækja sér nemendur alls staðar að. Annað dæmi er Verzlunarskólinn, en Ingi Ólafsson skólameistari benti á að skólinn væri Verzlunarskóli Íslands en ekki Verzlunarskóli Kringluhverfis. Mjög líklegt er að reglan dragi úr sérhæfingarmöguleikum íslenskra framhaldsskóla.

 

Með forgangsreglum sem byggja á búsetu fremur en árangri draga Vinstri grænir úr metnaði nemenda og hafna um leið fjölbreytileika, sérstöðu og samkeppni milli framhaldsskóla landsins. Í stað þess að bjóða nemendum nám við hæfi eins og lög gera ráð fyrir verður niðurstaðan einsleitara framhaldsskólakerfi sem passar fáum öðrum en heimsmynd fullorðinna í Vinstri grænum.

Lesa meira

23

11 2011

Það geta ekki allir lesið þetta

Ráðuneyti menntamála er æðsta stjórn menntamála. Í 10 ár hafa legið fyrir greiningar um lestrarvandann, sem er vafalítið undirrót mikils brottfalls í framhaldsskólum og ýmissa félagslegra vandamála. Svandís Svavarsdóttir, sitjandi menntamálaráðherra, sagði í umræðum um skýrsluna á Alþingi að ráðuneytið hefði „óskað eftir því við Námsmatsstofnun að fá sambærilega greiningu unna fyrir alla grunnskóla í landinu". Þetta er óþarfi enda tími greininga löngu liðinn. Staðan liggur fyrir. Ráðuneytið verður að setja af stað markvissar aðgerðir til að fjölga verulega unglingum sem lesa sér til gagns, aðgerðir sem eru mælanlegar, vel skilgreindar og auðframkvæmanlegar í stað fleiri umræðufunda eða óskýrra skilaboða. Slíkar aðgerðir eru til og hafa skilað árangri. Næst skal nefna sveitarfélögin. Reykjavíkurborg hefur samþykkt allar tíu tillögur starfshópsins. Tillögurnar miða m.a. að markvissari eftirfylgni barna sem sem glíma við lestrarerfiðleika. Í dag eru mælingar í 2., 4., 7., og 10. bekk ekki nýttar til að tryggja að börn sem mælast slök í lestri nái sér upp úr hjólförunum. Hægt er að sjá strax í öðrum bekk hverjir þurfa aðstoð, en með inngripum þarf að tryggja að þeir hafi bætt sig í fjórða bekk og geti í síðasta lagi lesið sér til gagns í sjöunda bekk. Einnig var samþykkt að búa til fyrirlestra fyrir kennara á tölvutæku formi sem fjalla um tölvuheim ungmenna. Við verðum öll að skilja betur þann síbreytilega heim sem börnin okkar búa við og sækja fast í. Um 60-70% kennara telja sig þurfa mikla starfsþróun í færni í upplýsingatækni við kennslu en of lítil þekking á síbreytilegum tölvuheimi hefur áhrif á hugmyndir okkar um áhuga barna. Bókasöfn og bókakostur eru svo lykilþáttur í auknum árangri og ber að varast niðurskurð þar. Heldur ætti að hvetja börn til að heimsækja bókasöfnin, en 33% drengja og 67% stúlkna 18 ára og yngri eiga bókasafnsskírteini í Reykjavík.

Verkefni skóla og foreldra

Allir skólar í Reykjavík fá sérstaka kynjagreiningu á stöðu sinni út frá árangri. Þeir skólar sem dragast aftur úr geta með þessum upplýsingum breytt vinnubrögðum, fengið stuðning og bætt stöðu nemenda sinna út frá sinni stefnu. Skólar geta t.d. sett fleiri klukkustundir í lestur, unnið meira með hljóðfræði og aukið þjálfun líkt og Hermundur Sigmundsson, prófessor í sálfræði, bendir á. Að auki þarf skólafólk að ræða niðurstöður í samhengi við breytingar sl. ára frá stýrðum kennsluháttum í aukið uppgötvunarnám.


Foreldrar eru mikilvægasti hlekkurinn í lífi og árangri barna sinna. Best er að lesa fyrir börnin, lesa með þeim, ræða um hvað þau lesa og vera góð fyrirmynd. Setja þarf markmið í lestri með börnunum og fá stuðning hjá kennurum um hvað sé raunhæft. Foreldrar verða að fá ítarlegri upplýsingar um stöðu barna sinna. Mikilvægt er að gagnrýna ekki hvaða efni börn velja því ánægja af lestri er einn mikilvægasti áhrifaþátturinn í árangri. Andrés Önd, Skúli skelfir, íþróttasíður eða texti á netinu, allt dugar ef það vekur áhuga og hjálpar barni að kynnast töfraheimi bóka. Hafa þarf í huga að börn sem eiga erfitt með lestur bóka eiga erfitt með lestur alls texta, líka texta í tölvu.


Ráðherra grípi boltann

Sem formaður starfshópsins skora ég á menntamálaráðherra að grípa boltann. Menntamálaráðherra verður að leiða sókn gegn lélegri lestrarkunnáttu. Lestrarkunnátta er algjört grundvallaratriði, illa læs einstaklingur á erfitt uppdráttar í námi og möguleikar hans á vinnumarkaði takmarkast. Við verðum að ráðast í skýrar aðgerðir með mælanlegum markmiðum sem fjölgar þeim sem lesa sér til gagns og ánægju. Mikilvægast af öllu er að umræðan sofni ekki, eina ferðina enn, og að við vöknum ekki við næstu skýrslu sem sýnir óbreytta eða versnandi stöðu. Sýnum í verki að við viljum áfram vera í fremstu röð sem bókmenntaþjóð þar sem slagorð um læsi Íslendinga eru ekki einungis orðin tóm.

Lesa meira