PISTLAR


22

12 2011

Meira um leikskóla

Opinber kerfi í Evrópu, þar með talið á Íslandi, eru orðin of stór og of dýr. Þau hafa stækkað á undanförnum árum að því er virðist án mikillar fyrirstöðu. Nú er svo komið að þjónusta hins opinbera kostar meira en samfélagið stendur undir. Verkefnið fram undan felst í forgangsröðun og hagræðingu en á sama tíma þarf að leita leiða til að auka vöxt efnahagslífsins. Þetta samþykkja ekki allir og síst af öllum íslenskir vinstriflokkar sem velja frekar þá leið að ná í enn meiri fjármuni hjá skattgreiðendum og fyrirtækjum. Þær leiðir endurspegla fælni við skilgreiningar og stefnumótun um þjónustustig og hagræðingu.

 

Í niðursveiflu er brýnt að stjórnmálamenn hafi framtíðarsýn sem gefur skýr skilaboð til starfsmanna og þeirra sem þiggja þjónustu hins opinbera. Skilgreina þarf grunnþjónustu og ákveða hvaða þjónustu á að greiða úr sameiginlegum sjóðum og hverja ekki. Ég hef áður gagnrýnt meirihlutann í Reykjavík fyrir stefnuleysi og illa ígrundaðar ákvarðanir í leikskólamálum. Stefnuleysið endurspeglast einna helst í ósvöruðum spurningum varðandi framtíðina. Þetta eru erfiðar spurningar sem þarfnast fordómalausrar umræðu stjórnmálamanna.

 

Leikskóli frá 9 mánaða?

 

Ein stærsta spurningin sem ekki hefur verið svarað er framtíðarsýn borgarinnar varðandi leikskólagöngu allra yngstu barnanna í borginni. Leikskólakerfið í Reykjavík kostar í dag meira en rekstur Háskóla Íslands, svo dæmi sé tekið. Vissulega dýrmætt kerfi sem við viljum standa vörð um en er þeim eiginleika búið að vistun mjög ungra barna er langsamlega dýrust. Ástæðan er sú að það þarf hlutfallslega fleiri starfsmenn eftir því sem börnin eru yngri.

 

Kostnaðurinn vex hratt við vistun fyrir börn innan við tveggja ára. Sem dæmi má nefna að raunkostnaður við yngsta barn á leikskóla er um 180.000 kr. á mánuði á meðan 5 ára barn kostar „ekki nema" 108.000 kr. á mánuði. Foreldrar greiða hins vegar ekki nema 18.000 kr. upp í þennan kostnað að meðaltali á mánuði. Þar sem skattgreiðendur greiða stærsta hluta þessa kostnaðar hækkar kostnaður borgarinnar hratt þegar sífellt yngri og yngri börn eru tekin inn í leikskólakerfið. Þetta er hugsanlega ágætt en kostar augljóslega mikla fjármuni. Að auki hefur þessi þróun átt sér stað án mikillar umræðu og nánast alfarið án stefnumótandi ákvarðana.

 

Á Reykjavíkurborg að bjóða börnum frá 9 mánaða aldri upp á leikskólapláss? Eiga börn frá eins árs aldri að fá skipulagt faglegt starf allan daginn hjá kennurum með meistarapróf? Ætlum við að byggja áfram opinberar byggingar yfir yngri og yngri börn? Ætti borgin frekar að leggja meiri áherslu á ólíka og ódýrari valkosti fyrir þau yngstu, eins og ungbarnaleikskóla, dagforeldra eða greiðslur til foreldra sem borga þriðja aðila?

 

Hvert stefnir með fagfólk?

 

Kostnaður leikskólakerfisins er 70-80% launakostnaður. Flestir eru sammála um að launin ættu að vera hærri en það er ógerningur að ræða hagræðingu án þess að ræða um starfsfólk. Hvernig vill borgin stefna að því að meta og greiða sanngjörn laun fyrir þetta mikilvæga starf í kerfi sem stækkar sjálfkrafa en fær samt ekki frið frá niðurskurði? Hvernig á að vinna að markmiðum um fjölgun fagfólks þegar ekki er vitað hvert stefnir í undirbúningstíma fagstarfs, sveigjanleika kjarasamninga eða hver framtíðin er varðandi fækkun leikskólastjóra vegna sameininga?

 

Er sanngjarnt að foreldrar með börn hjá dagforeldrum eða heima fái lítinn eða engan stuðning úr sameiginlegum sjóðum borgarinnar á meðan jafngamalt barn á leikskóla fær margfalt meiri stuðning? Eiga þjónustugjöld að endurspegla kostnað við reksturinn á skýrari hátt? Verður ekki að huga að leiðum sem minnka þrýstinginn á dýrasta kostinn, leikskólann, heldur en að auka hann?

 

Stefnuleysi leiðir af sér flatan niðurskurð

 

Ef menn þora ekki að ræða spurningarnar að ofan er ljóst að flatur niðurskurður er eina leiðin til að bregðast við kröfu um hagræðingu. Hagræðing án stefnu leiðir af sér endalausan flatan niðurskurð sem hefur lamandi áhrif á framþróun, faglegan vöxt og gæði skólastarfs. Stefnumörkun er því ekki bara mikilvæg heldur afar brýn. Það er ekki seinna vænna að fá fram framtíðarsýn borgarinnar í þessum efnum, að sjálfsögðu með virkri aðkomu fulltrúa kennara, starfsmanna og foreldra.

Lesa meira

15

12 2011

Á leikskóla

Á leikskólum er unnið öflugt starf til þess að auka samskiptahæfni barna. Þó gerir enginn kröfu um að börn séu alltaf málefnaleg. Þau hafa ekki náð þroska til að skilja að setning eins og „þú ert fitubolla" er ómálefnaleg á meðan „það er erfitt að framreiða hollan mat fyrir 232 kr. á dag" telst málefnaleg fullyrðing. Þetta er skýringin á því að leikskólabörn segja „pabbi minn er sterkari en pabbi þinn" til að útkljá deilumál.

Þegar tekist er á í borgarstjórn Reykjavíkur gerir maður ráð fyrir að samræður séu málefnalegar. Yfirlýsingar eins og „þú átt heima á asnalegum stað" eiga ekki að koma málum við á nokkurn hátt. Það kom því á óvart að sjá grein eftir Oddnýju Sturludóttur í síðustu viku þar sem hún byrjar og endar á því að hnýta í hvar ég rek heimili. Er það þannig sem yfirmaður leikskólamála í Reykjavík vill takast á um málefni? Vill Oddný að ég svari með hnútukasti um hennar persónulegu hagi þegar ég fjalla um skólamál í Reykjavík? Stjórnmálamenn eru dottnir á skrambi lágt plan þegar þetta eru svörin við gagnrýni á störf þeirra.

Lausn borgarstjórans á vandamálum leikskólanna var að foreldrar keyptu meira af smokkum. Hópurinn sem stýrir Reykjavík olli miklum usla og óánægju meðal foreldra og starfsmanna leikskóla með vinnubrögðum í sameiningum leikskóla sem leiddu til mótmæla sem eiga sér vart fordæmi í borgarpólitíkinni. Sú vegferð minnir á storm í vatnsglasi því eftir öll lætin náði meintur sparnaður ekki einu prósenti af heildarútgjöldum leikskóla.

Hugsanlega er of seint fyrir grínframboð Jóns Gnarrs, og Samfylkinguna sem tryggði honum starf borgarstjóra, að grípa til þroskaðri svara en „pabbi minn er sterkari en pabbi þinn". Hugsanlega er það niðurstaða Oddnýjar að Reykvíkingar geti ekki tekið hana alvarlega. Ef ekki, væri gott skref að leggja rökræðuhefð leikskólabarna til hliðar. Jafnvel þótt málstaðurinn sé flókinn eða illverjanlegur.

 

Greinin birtisti í Fréttablaðinu 15. desember og er svargrein við grein Oddnýjar Sturludóttur nokkrum dögum áður.  Hægt er að lesa grein Oddnýjar hér: http://www.visir.is/med-kvedju-til-barcelona/article/2011712109991

Lesa meira

08

12 2011

Lélegir brandarar

Besti flokkurinn og Samfylkingin hafa einbeitt sér sérstaklega að því að hræra í leikskólakerfi borgarinnar frá því þau tóku við stjórn í fyrra. Enginn málaflokkur á að vera undanskilinn hagræðingu, en reynslan hefur sýnt að hagræðing fylgir fáum aðgerðum meirihlutans. Þeim, sem þekkja til leikskólastarfs í borginni, ofbýður hvað stefnuleysið er algjört.

Stefnuleysið lýsir sér í ákvörðunum án markmiða og því að mikilvægum spurningum er ekki svarað. Spurningum eins og hvort foreldrar ættu að greiða sambærileg gjöld fyrir leikskólapláss og dagforeldrapláss. Í dag er allt að 300% munur á þessum tveimur þjónustuleiðum. Ekki fást heldur svör við því hvaða stefnu eigi að fylgja í matarmálum leikskólabarna en þess má geta að leikskólabörnum er gefið að borða fyrir 232 kr. á dag. Sá rétti upp hönd sem veit hvernig á að lækka þann kostnað.

 

Hagræðing sem engu skilar

Sjálfstætt leikskólasvið hefur verið bitbein á milli flokka í borgarstjórn en meirihlutinn varpaði orðinu leikskóli fyrir róða í sumar þegar leikskólasvið hvarf inn í nýtt skóla- og frístundasvið. Í kjölfarið létu af störfum öflugir fagmenn í yfirstjórn leikskóla borgarinnar. Nú hallar verulega á leikskólana og breytingarnar hafa reynst mikil blóðtaka fyrir þá. Með öllu er óljóst hvaða fjármunir sparast með þessari leikfimi.

 

Á sama tíma voru 24 leikskólar sameinaðir í ellefu, þrátt fyrir hörð mótmæli. Stjórn félags leikskólakennara fordæmdi vinnubrögðin og mótmælti harðlega. Vinnubrögðin voru hroðvirknisleg og sameiningar settar af stað án nokkurs fyrirvara. Sem betur fer eru stjórnendur sameinuðu skólanna með mikla reynslu og kalla ekki allt ömmu sína. Uppákomurnar í kjölfarið hafa verið flóknar og margir skólanna glíma við að sameina gjörólíkar áherslur og skipulag. Það hlýtur að vera þreytandi að vera leikskólakennari og heyra stjórnmálamenn hrósa starfi sínu í hástert en fá síðan vanhugsaðar breytingar yfir sig með offorsi.

 

Og hver er afraksturinn af þessum umbyltingum? Eftir að fagsviðið neyddist til að skila afkomuviðvörun var ljóst að niðurstaðan var sú sem varað hafði verið við. Hagræðingin reyndist engin fyrir grunnskóla og einungis 0,7% af rekstri leikskóla. Að auki verður að hafa í huga að ekki hafa verið gefnar upplýsingar um kostnaðinn sem fallið hefur til vegna breytinganna.

 

Getnaðarvarnir til bjargar?

Með réttu var mikill þungi settur í að koma öllum börnum fæddum 2009 inn á leikskóla á þessu ári en sá árgangur er stór. Þessu fylgdi mikið álag og þýddi að stækka þurfti marga leikskóla á sama tíma og verið var að sameina, hagræða og leggja niður leikskólasvið.

 

Þjónustutryggingin sem hjálpaði mörgum var lögð niður og ekkert gert til að lækka greiðslur foreldra fyrir dagforeldraþjónustu þrátt fyrir að kostnaður við hvert rými hjá dagforeldri sé mun minni en við leikskólapláss. Síðar kom í ljós að margir skólar höfðu bæði pláss og starfsfólk til að bjóða að auki yngri börnum, fæddum 2010, pláss á þessu ári. Meirihlutinn hafnaði að taka þau börn inn og enn hafa ekki fengist skýringar á þeim skrípaleik sem átti sér stað í fjölmiðlum í kjölfar frétta um þessi lausu pláss. Fulltrúar Besta flokksins komu fram og sögðu ranglega að alltaf væru geymdir tugir plássa til þess að mæta óvæntum uppákomum! Borgarstjóri sagði að börn fædd 2010 yrðu ekki innrituð fyrr en á næsta ári og nefndi í furðulegri ræðu að það væri mjög dýrt að eiga börn og benti „fólki á þann möguleika að nota smokkinn, getnaðarvarnir og ófrjósemisaðgerðir". Ég get fullvissað Jón Gnarr um að þessi málaflokkur er ekkert grín og að það er ekki tilviljun að málshátturinn „lengi býr að fyrstu gerð" varð til.

 

 

Meirihlutinn hækkar laun með því að lækka laun

Rúsínan í pylsuendanum er svo launalækkun leikskólakennara. Fyrir stuttu kom formaður borgarráðs fram og varði ákvörðun borgarinnar um að leggja af svokallað neysluhlé leikskólakennara en starfsmenn njóta ekki hefðbundins matarhlés frá vinnu. Dagur B. Eggertsson fór með rangt mál þegar hann sagði að kjarasamningar fælu í sér að greiðslur fyrir neysluhlé færðust inn í grunnlaun í áföngum. Ekkert slíkt er í nýjum kjarasamningi og með ólíkindum að einn æðsti stjórnandi borgarinnar segi að fjármagna þurfi betri kjör leikskólakennara með því að rýra kjör þeirra.

 

 

Skýrt stefnuleysi

Vandræðagangur meirihlutans í leikskólamálum kristallaðist í því að daginn eftir skýringar á launalækkunum sendi borgin frá sér yfirlýsingu um að innrita ætti á næstu dögum börn fædd 2010, réttum tveimur vikum eftir að borgarstjóri sagðist ekkert geta gert annað en að bjóða upp á smokka fyrir foreldra. Veit einhver hvert þessi meirihluti stefnir með leikskólastarf í borginni?

Lesa meira