PISTLAR


27

02 2011

Til hagsbóta fyrir nemandann?

 

Viðtal í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, 27. febrúar 2011 sem Kolbrún Bergþórsdóttir tók.

Viðtalið á PDF formi - smella hér.

 

Ný hugsun í skólamálum

Enginn veit hver heildarstefna skólastarfs í landinu er, segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Hún segir þörf á nýrri hugsun og fastmótaðri skólastefnu. 


Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að fastmótaða stefnu skorti í skólamálum og hagsmunir nemandans séu ekki hafðir að leiðarljósi.

 

„Meginvandinn er tvenns konar. Annars vegar sá að menntamálin njóta ekki nógu mikils forgangs þegar opinberu fé er úthlutað. Hins vegar er menntakerfið of dýrt,“ segir Þorbjörg Helga. „Ein meinsemdin felst að mínu mati í samningum við kennara, þar sem lögð hefur verið áhersla á ýmislegt annað en launahækkanir, eins og kennsluafslætti og meiri undirbúningstíma fyrir kennara. Þetta hefur gert að verkum að samningsaðilar hafa hvorugir fengið það sem þeir vilja, kennarar hafa lægri laun en ella og kerfið er mjög ósveigjanlegt. Önnur meinsemd felst í því að ólík öfl vinna ítrekað hvert gegn öðru. Til dæmis liggja nú fyrir drög að breytingum á grunnskólalögum sem ganga alveg á skjön við aðgerðir sveitarstjórna.

 

Stjórnmál, hagsmunaárekstrar innan stjórnkerfis og pólitík innan stéttarfélaga hafa áhrif á skólamál og hin endanlega ákvörðun er ekki tekin með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Enginn veit hver heildarstefna skólastarfs í landinu er. Ég myndi vilja sjá alla hagsmunaaðila leggjast á eitt og marka stefnu fyrir skólakerfið í heild og vinna leynt og ljóst eftir henni. Þetta er ekki gert og við sitjum uppi með mjög dýrt og ómarkvisst menntakerfi einfaldlega vegna þess að þessa fastmótuðu stefnu vantar.“

 

Hvað er til ráða? 

 

„Það gengur ekki að laga núverandi kerfi, það verður að hugsa það upp á nýtt og fyrst og fremst út frá þörfum nemandans. Í sameiginlegri skólastefnu fyrir landið þurfa að felast mælanleg markmið. Kerfið í heild sinni – ráðuneyti, stofnanir, fræðsluskrifstofur, sveitarstjórnir, stéttarfélög og foreldrar – einbeitir sér ekki að nemandanum eða hvernig honum er best borgið. Það kemur í hlut kennarans inni í skólastofunni að standa vaktina meðan allt kerfið er í innbyrðis reiptogi og vagninn hreyfist ekki. Ég er viss um að margir kennarar dæsa yfir endalausum stefnubreytingum sem ganga í berhögg hver við aðra.“

 

Pólitísk markmið en ekki hagsmunir nemenda

 

Þú segir að í menntamálum séu hagsmunir nemandans ekki hafðir að leiðarljósi. Af hverju segirðu það?

 

„Það er einfaldlega þannig að alltof sjaldan spyrja menn sig hvort þeir séu að taka ákvarðanir út frá hagsmunum nemandans. Mér finnst ég oft greina að pólitísk markmið, stofnanaleg markmið eða kjaraleg markmið ráði för fremur en hagsmunir nemandans. Og þar að auki er líklegt að þessir ólíku aðilar skilgreini hagsmuni nemandans á mismunandi hátt. Það er til dæmis engin skýr sönnun fyrir því að ákvörðun um fimm ára kennaranám leikog grunnskólakennara sé hagur nemandans. Varla er hverfaforgangur framhaldsskólans hagur nemandans því þar skiptir meira máli hvar nemandinn býr en að hann standi sig vel.

 

Afnám samræmdra prófa er annað dæmi sem nú endurspeglast í flóknum útreikningum framhaldsskólanna við inntöku nemenda. Sá niðurskurður sem nú á að ráðast í er enn eitt dæmi. Er verið að skera niður eða samreka skóla með miklum tilkostnaði og raski vegna þess að stjórnmálamenn hafa ekki dug til að takast á við erfiðari breytingar eins og ákvæði kjarasamninga eða laga? Lítil sem engin umræða fer fram um hvert við stefnum og því verður hagræðingin ómarkviss. Ég held að stjórnmálamenn séu oft á tíðum of skammsýnir og miði við kjörtímabil fremur en framtíðaráætlanir.“

 

Hver er þá mesti hagur nemandans?

 

„Hagsmunir nemandans felast í að eiga stuðning einstaklinga sem gæta þess að hann njóti þess besta í umhverfi og námi. Þessir einstaklingar eru foreldrarnir. Ég hef sagt við foreldra að þeir séu þrýstihópur barnsins síns. Nú stendur yfir mikill niðurskurður í menntamálum og foreldrar eru duglegir að fylgjast með því í hvað peningarnir fara. Foreldrar verða að standa þessa vakt, bæði í góðæri og kreppu.

 

Foreldrar láta sér vitanlega mjög annt um börn sín en það er ekki nóg að hugsa bara um eigið barn. Foreldrar þurfa að sameinast á öflugan hátt og miklu fleiri þurfa að huga að hag barnanna. Þegar kemur að menntamálum skortir hópa sem passa upp á börnin. Í íþróttafélögum og í menningarmálum eru sterkir hagsmunahópar. Til dæmis er til hagsmunahópur fyrir meistaraflokka í fótbolta. Samfok og Heimili og skóli hafa verið að eflast en hingað til hafa forsvarsmenn þeirra samtaka einbeitt sér að því að ná eyrum stjórnmálamanna með því að skrifa greinar. Þessir forsvarsmenn þurfa að sitja við hlið stjórnmálamanna þegar ákvarðanir um úthlutun peninga eru teknar og gæta þannig hagsmuna skjólstæðinga sinna.

 

Foreldrar eiga að skipta sér af forgangsröðuninni sjálfri, ekki bara hvernig eigi að skera niður heldur hvort.“

 

Einstaklingsmiðað nám ekki framkvæmanlegt

 

Nú er stöðugt talað um einstaklingsmiðað nám. En ef nemandinn er að verða útundan eins og þú segir þá er námið varla einstaklingsmiðað?

 

„Einstaklingsmiðað nám er óskýrt hugtak og ekki framkvæmanlegt í raun að mínu mati, nema þegar kemur að sérkennslu. Er það til dæmis vitnisburður um einstaklingsmiðað nám að 24 prósent drengja í tíunda bekk geti ekki lesið sér til gagns, eins og ný PISA-könnun leiðir í ljós? PISAkönnunin sýnir líka að við stöndum okkur illa í að styðja við góða nemendur. Nám verður hvorki einstaklingsmiðað né markvisst fyrr en allir eru að toga reipið í rétta átt og þegar allir sem koma að kennslu vita í hvaða átt skal halda.

 

Það kemur líka í ljós í könnun á vegum OECD að íslenskir kennarar og skólastjórnendur líta ekki á árangur nemenda á prófum sem nokkuð sem þeir geti nýtt til að þróa skólanámskrár og kennsluáætlanir. Þeim finnst próf ekki skipta mjög miklu máli. Við þurfum að huga að því hvort við séum að fara of mikið inn í kennslufræðilega pólitík í staðinn fyrir að hugsa um það hvernig börnunum líður og gengur. Við eigum ekki að vera hrædd við mælingar á því.“

 

Kannanir sýna að drengjum líður ekki nógu vel í skóla. Hvað er til ráða?

 

„Ég stýri hópi í borginni sem er að skoða stöðu drengja sérstaklega og mun skila skýrslu í mars eða apríl. Íslenskir kennarar eru yst á skalanum í OECD-löndunum í svonefndri hugsmíðahyggju, sem þýðir að þeir eru hlynntastir uppgötvunarnámi. Strákum finnst þetta mjög óþægilegt því þeir vilja hafa markmið, sjá tölur og árangur. Strákum leiðist meira í skóla og það þarf að rýna í það af hverju þeim leiðist strax þegar þeir byrja í sex ára bekk og af hverju leiðinn eykst eftir það. Stelpur eru svo mjög kvíðnar í skóla um unglingsaldur, sem er mikið áhyggjuefni. Í ljós kemur líka þegar einkunnir eru rýndar að þá skiptir ánægja af lestri miklu máli fyrir bæði kynin og hefur áhrif á heildarnámsárangur.

 

Annað sem við veltum fyrir okkur er tölvuheimur drengja. Við lifum á tölvuöld en upplýsingatæknin er ekki á jafnmiklum hraða inni í skólastofunni og hún er í samfélaginu. Þar af leiðandi upplifa strákar mikinn hraða heima hjá sér þegar þeir eru að spila í tölvu en finnst allt í skólastofunni ganga mjög hægt fyrir sig.“

 

Þarf ekki gríðarlega mikið samhent átak til að laga allt það sem þú hefur verið að ræða í þessu viðtali?

 

„Jú, draumur minn er að hópur hagsmunaaðila marki stefnu til tíu ára í senn og setji markmið sem hægt er að ná. Ég hef trú á að hægt sé að laga margt í kerfinu ef við náum sátt um sameiginlega sýn. Ef við samþykkjum forgangsröðun til menntamála og nokkuð dýrt menntakerfi þá verðum við að samþykkja mælingu á því og hver ávinningurinn er.“

 

En hvað með árangur skóla, skiptir máli hvaða skólar eru bestir?

 

„Að mínu mati skiptir það máli. Ekki bara til að segja foreldrum að þeir hafi valið góða skóla fyrir börnin sín heldur líka til að styrkja þá skóla sem eru ekki jafngóðir. Ef við opinberum ekki hvernig staðan er í lélegu skólunum getum við ekki réttlætt aukið fjármagn til þeirra. Ég er til dæmis bundin trúnaði um það hvaða skólar eru bestir í Reykjavík og hverjir eru verstir. Það hjálpar ekki lökustu skólunum. Og það er ekki til hagsbóta fyrir nemandann.“

 

Stolt af Hönnu Birnu

 

Hvaðan sprettur áhugi þinn á menntamálum?

 

„Ég hef alltaf haft skoðanir á þeim en varð ekki pólitísk fyrr en ég kom heim úr meistaranámi í námssálarfræði. Þá áttaði ég mig á því að hér voru menntamálin svo til eingöngu á hendi hins opinbera. Valdið var hjá stjórnmálamönnum sem þýddi að ég þurfti að taka þátt í pólitík til að hafa áhrif. Ég fann að í skólamálum átti ég samleið með Sjálfstæðisflokknum vegna stefnu flokksins um valfrelsi einstaklingsins. Ég held reyndar að skólapólitík Sjálfstæðisflokksins hafi verið föst í viðjum umræðu um einkarekna skóla of lengi, en sem betur fer er það að breytast. Og ég hellti mér út í pólitíkina, vann fyrst í Háskólanum í Reykjavík, svo í menntamálaráðuneytinu og samhliða fór ég að skipta mér af málefnastarfinu. Eitt leiddi af öðru og nú er ég að klára mitt fimmta ár sem borgarfulltrúi.“

 

Nú er Sjálfstæðisflokkurinn í minnihluta í borgarstjórn. Hvernig gengur samstarfið við Besta flokkinn og Samfylkinguna?

 

„Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þennan meirihluta. Ég hélt sannast sagna að Besti flokkurinn myndi koma með nýjar hugmyndir eða halda áfram að þróa stefnu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um samvinnu allra flokka. Það varð ekki. Ég er stolt af þeim breytingum á stjórnmálum sem Hanna Birna leiddi og ég er viss um að sagan mun dæma þær sem stór skref í átt að nýjum vinnubrögðum.

 

Meirihlutinn talar um að breyta stjórnkerfinu og sameina skóla en hefur enga stefnu að leiðarljósi. Þar af leiðandi gengur það verkefni illa. Meirihlutinn nýtir sér ekki að við í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins erum tilbúin til samstarfs. Við fáum að koma að einstökum verkefnum en fáum ekki að leggja okkar af mörkum til að skapa nauðsynlega heildarmynd. Meirihlutinn er í fastur í gömlum hjólförum. Ég er sannfærð um að borgarmálin gengju betur ef allir flokkar ynnu í sameiningu, sátt ríkti um það hvaða skref ætti að taka og stefnan væri ljós. Þá myndum við öll verða að slaka á vissum pólitískum markmiðum og gera málamiðlanir, en í staðinn fengju borgarbúar rólegri og átakaminni stjórnmál og sýnilegur árangur yrði meiri. Á erfiðum tímum eigum við einmitt að vinna á þennan hátt.“

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2011.

 

Lesa meira