PISTLAR


21

04 2011

Heyrnarleysi meirihlutans

Foreldrar barna í Reykjavík eru steinhissa. Þeir lögðu á sig mikla vinnu við gerð umsagna um tillögur meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins um samrekstur leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Niðurstaða foreldra er afgerandi en 90% umsagna þeirra voru neikvæðar. 12.000 foreldrar skrifuðu undir mótmæli við tillögunum. Foreldrar gerðu ráð fyrir að mark yrði á þeim tekið og að á þá yrði hlustað. Besti flokkurinn og Samfylkingin í borginni kunna hins vegar ekki að hlusta. Sjónarmið foreldra voru einfaldlega virt að vettugi.

 

Líklegt má telja að traust foreldra á stjórnun skólamála í Reykjavík hafi dvínað við slíka framkomu. Skeytingarleysi meirihlutans gagnvart vel ígrunduðum rökum foreldra er algjört og tilfinningin sú að rök séu ekki tekin gild eftir að málin eru komin á skrið.

 

Þeir sem leggjast yfir áform meirihlutans sjá fljótt að ætlunin er að ráðast í flókið verkefni sem ólíklegt verður til að skila áþreifanlegum árangri. Miðað við umfang verkefnisins er ljóst að vonir meirihlutans um áætlaða hagræðingu eru hverfandi, en verkefnið er sannarlega ekki lítið.

 

Ákveðið hefur verið að 24 leikskólar sameinist frá og með 1. júlí og úr verði 11 skólar. Í einu hverfi, sem ekki hefur enn verið upplýst um hvar er, mun yfirstjórn grunnskóla og starfsfólk frístundaheimila sameinast. Á næstu tveimur árum verða auk þess 14 grunnskólar staddir í ferli sameiningar auk þess sem öll frístundaheimili sameinast grunnskólum. Meirihlutinn taldi einnig rétt í síðustu viku, líkast til til að lágmarka líkur á árangri, að segja upp fræðslustjóra og sviðsstjóra leikskólasviðs án fyrirvara og án samráðs við nokkurn hlutaðeigandi. Auk þessa verður farið í sameiningar á tómstunda-, mennta- og leikskólasviði. Sem sagt; baklandið sem þyrfti að styðja sameiningarvinnuna hefur verið sett í uppnám.

 

Og hver er svo áætlaður árangur af allri þessari umstöflun og raski? Allir eru sammála um, að slepptum borgarfulltrúum meirihlutans, að faglegur ávinningur sé enginn. Það er því ástæðulaust að fjalla frekar um þann þátt. Fjárhagslegi ávinningurinn sem liggur til grundvallar ákvörðuninni er áætlaður hálft prósent af heildarútgjöldum leikskóla-, mennta-, íþrótta- og tómstundasviðs. Hálft prósent. Þetta er það lítið að líkast til verður ógerlegt að svo mikið sem mæla ávinninginn eftir 2-3 ár þegar horft verður til baka.

 

Sem dæmi má nefna að fjárhagslegur ávinningur af sameiningu frístundar, grunn- og leikskóla er áætlaður 18 milljónir á ársgrundvelli. Einnig má nefna að hagræðing af sameiningu frístundaheimila og grunnskóla er enn óstaðfest þar sem forsendur liggja ekki fyrir. Líklegast verður sú hagræðing engin. Rúsínan í þessum myglaða pylsuenda er síðan að nauðsynlegt var talið að grípa til blekkinga þar sem um 35% af þessu hálfa prósenti er til komið vegna “sparnaðar” á innri leigu bygginga sem aldrei stóð til að byggja.

 

Sérkapítuli í þessu máli öllu er sá mikli greinarmunur sem gerður er á leikskólum og grunnskólum og faglegu starfi þessara ólíku skólastiga, en leikskólarnir bera hitann og þungann af breytingunum. Leikskólarnir fá enginn rök fyrir því hvers vegna þeirra hugmyndafræði er talin eiga samleið innbyrðis sem geri skólana hæfa til sameiningar. Samt er “eitt parið” undanskilið á þeim forsendum að þeirra hugmyndafræði sé innbyrðis ólík. Skilaboðin eru að hugmyndafræði leikskóla sé léttvægari en grunnskóla og frístundaheimila. Og ekki er á bætandi að mitt í þessu mikla breytingarferli keppast leikskólastjórar við að bjóða stærsta árgang Íslandssögunnar velkominn í haust með tilheyrandi viðbyggingum og breytingum.

 

Allir skilja að það þarf að spara. Færa má sterk rök fyrir því að skólakerfið sé sá þáttur starfsemi Reykjavíkurborgar sem hvað best þurfi að verja á tímum kreppu og samdráttar. Nauðsynlegt er að forgangsraða öðrum verkefnum til að slíkt sé gerlegt. Íbúum borgarinnar finnst að það hljóti að vera mögulegt að skoða málin upp á nýtt þar sem þeirra sjónarmið fái notið sín.

 

Hlutverk okkar borgarfulltrúa er að hlusta á þessi sjónarmið og vinna með foreldrum við að ákveða hvaða verkefni eigi að njóta forgangs í rekstri borgarinnar á krepputímum og hver ekki. Meirihluta Samfylkingar og Besta flokks hefur því miður mistekist hrapalega í þessu hlutverki sínu. Þeir skella skollaeyrunum við skoðunum foreldra í Reykjavík.

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. apríl 2011.

Lesa meira

01

04 2011

Um Orkuveitu Reykjavíkur

Ræða á aukafundi borgarstjórnar vegna fjárhagsstöðu OR 31. mars 2011
Forseti, ágæta borgarstjórn,

 

Við erum hér saman komin á aukafund til að ræða málefni Orkuveitu Reykjavíkur og skuldir félagsins sérstaklega. Þessi umræða er ekki komin til af góðu eins og við þekkjum en félagið hefur siglt í einhvers konar strand eins og forráðamenn félagsins hafa lýst í fjölmiðlum undanfarna daga.  Það er ýmislegt sem þarf að skýra betur og því miður er ekki hægt að segja að allar upplýsingar liggi fyrir og þá sérstaklega hvað gerðist í janúar.  Að mínu mati vantar eitthvað í skýringarnar hér í dag sem segja hvað það var sem breytti stöðunni svona snögglega.  Ég óska eftir nákvæmari upplýsingum hér í dag á því hvað það er sem gerðist á milli haustmánaða og hækkana haustsins þar til fyrir nokkrum vikum síðan.

 

Ég vil hér nýta þetta tækifæri og þakka starfsmönnum OR og Reykjavíkurborgar fyrir mikla vinnu undanfarnar vikur og fagna samstöðu borgarstjórnar um tillögu borgarstjórnar um úttekt á félaginu frá stofnun þess að deginum í dag.

 

Vandamálið sem Orkuveitan, og þar með Reykjavíkurborg, stendur frammi fyrir er grafalvarlegt. Í mínum huga er alls ekki ljóst hvað er best að gera í stöðunni því það er fyrir okkur komið eins og mörgum öðrum að kostirnir í stöðunni eru nokkrir en þeir eru allir vondir.

 

Hluti af því að ég á erfitt með velja skynsamlegustu leiðina fram á við er að umræða um Orkuveituna innan borgarstjórnar hefur verið of takmörkuð í allt of mörg ár á öllu því sem sagt er og gert er opinbert. Að vissu marki er það skiljanlegt þegar alvarleg staða er komin upp, þá þarf að vara sig og hefur lítið breyst þegar að við neyðumst til að fjalla um nú berskjaldað fyrirtækið. Nú liggur hins vegar fyrir ógrynni af upplýsingum sem engin leið er að komast að fullu inn í á svo skömmum tíma. En einnig hafa fulltrúar allra flokka, og eru fulltrúar Sjálfstæðismanna þar engin undantekning, ekki staðið sig nægilega vel í því að halda borgarstjórn upplýstri um stöðu mála.

 

Ég hef haft mikinn áhuga á Orkuveitunni frá því ég byrjaði að taka þátt í sveitastjórnarmálum en í raun má segja að stjórnmálaþátttaka mín hafi hafist þegar ég varð annar af tveimur fulltrúum þáverandi minnihluta í stjórn OR 2004-2006 þegar R-listinn fór með völd í fyrirtækinu.

 

Frá fyrsta degi var ég ósammála stjórnun og áherslum fyrirtækisins að nánast öllu leyti. Ég var vissulega grænjaxl og hafði litla reynslu, en ég trúði því aldrei að þessi leyndarhyggja og þessi almenni, ég vil segja hroki, gagnvart spurningum og efasemdum gæti þrifist nokkurs staðar annars staðar.  Listinn yfir það sem ég undraðist og var ósammála er raunar það langur að það tæki mig meiri tíma en ég hef hér að gera honum fullnægjandi skil.

 

Bygging höfuðstöðva OR fannst mér fáránleg og óþörf. Uppbygging Línu.net fannst mér fáránleg eins og yfirlýsingar R-lista manna á þeim tíma að í verkefnið færu ekki meira en 200 milljónir. Í dag, næstum 10 árum síðar, hefur Orkuveitan líkast til sett meira en 10 milljarða í verkefnið og skuldar líkast til yfir 20 milljarða vegna þessa óarðbæra verkefnis.  Allir útreikningar, ákvarðnir um framtíðarsýn og útreikningar sem lágu að baki fjárfestingarákvörðunum voru illa fram settar og illa rökstuddar. Gagnrýnum fyrirspurnum í stjórn var svarað með tilvísunum í að fyrirtækið væri gullkálfur með frábær lánskjör og “Nesjavallavirkjun” var oft tekin sem dæmi um hvernig fjárfestingar félagsins væru til fyrirmyndar.  Ekki tóku við minni fjárfestingar í framtíðinni sem ég kann minni skil á.  Því miður eru tekjur af þessum fjárfestingum öllum afar litlar og óljóst um að sumar tekjur komi nokkru sinni.  Tekjur félagsins koma fyrst og fremst frá grunnstarfseminni þrátt fyrir allar þessar fjárfestingar.

 

Allur andi fyrirtækisins hefur jafnframt verið í ólagi í mörg ár. Stjórnendur hafa alltaf flogið á fyrsta farrými og alltaf gistu þeir á flottustu hótelunum. Þjónar með hvíta hanska á fundum og í boðum.  Kaup á dýrustu húsgögnum sem völ er á í höfuðstöðvarnar voru af sama meiði sem og bygging höfuðstöðva fyrirtækisins.  Planið eitt og sér kostaði mörg hundruð milljónir. Menningarstefna OR var önnur en borgarinnar. Endalaust var rætt um fyrirtækið sem “gullkistu”, “gullkálf” eða “mjólkurkú”.  Ég átta mig ekki alveg á tengingunum við bændasamfélagið í þessum tilvísunum við íslensku kúna í þessu samhengi.  

 

Frá stofnun félagsins hefur með öðrum orðum verið gengið fram af hirðuleysi um fjármuni fyrirtækisins, og þar með fjármuni borgarbúa.

 

Forseti, ég þreyti ekki borgarfulltrúa hér á meiri sagnfræði í þessum efnum enda fagna ég því að gera eigi sjálfstæða úttekt á því hvað hefur farið fram frá því að fyrirtækið var stofnað og allt til dagsins í dag. Ég lít svo á að borgarstjórn öll fagni því og aðstoði við þá úttekt.

 

Ég ætla hins vegar í dag að skýra frá afstöðu minni varðandi nokkra þætti í rekstri OR, afstöðu sem ég hef ekki fjallað um til þessa nema á lokuðum fundum í nokkuð mörg ár. Einnig ætla ég að reifa mínar skoðanir á því hvernig stendur á því að Orkuveitan er stödd á þeim stað sem hún er nú niðurkomin. Ég kem svo að aðalmálinu í lokin sem er umræddur björgunarpakki og helstu ástæðu þess af hverju ég ætla að sitja hjá við afgreiðslu hans. 

 

Niðurstaða mín varðandi afgreiðsluna er ekki gagnrýni á aðgerðarpakkann í heild sinni.  Þvert á móti finnst mér margt í þessum aðgerðarpakka góðra gjalda vert en það eru nokkrar veigamiklar ástæður fyrir því að ég tel óráð velja þá leið sem á að fara án þess að láta reyna á aðra kosti sem ég ætla að fjalla um.  Ég er heldur ekki að segja tillögurnar séu alslæmar í þessum aðgerðum, heldur að línan sem verður lögð með þessum aðgerðum sé vegferð sem sé ekki fullrædd. 

 

Í stuttu máli er ég er annars vegar ekki viss um að við getum sannfært borgarbúa um að það sé ekki hægt að ganga lengra gagnvart lánadrottnum Orkuveitu Reykjavíkur. Verið er að setja miklar skuldir  á borgarbúa – án þess að kröfuhafar komi að því verkefni á einhvern hátt.  Kröfuhafar eiga að mínu mati að taka högg með skattgreiðendum.  Hins vegar hef ég alvarlegar efasemdir um þann hluta er tengist eignasölu og bendi mínu máli til stuðnings niðurstöðu PWC sem greindi þessa þætti vegna fjármögnunarinnar sem við ræðum í dag.

 

Þeir segja með leyfi forseta: “Ef áætluð eignasala að fjárhæð 10 ma. kr. á tímabilinu 2011 til 2016 gengur ekki eftir, en aðrar forsendur í aðgerðaráætlun OR haldast óbreyttar, munu eigendur þurfa að leggja fram viðbótarframlag í stað áætlaðarar eignasölu.  Ekki ljóst hvernig eigendur fjármagna viðbótarframlag til OR ef eignasala gengur ekki eftir.”

 

Ég er heldur ekki sannfærð um að björgunarpakkinn bjargi félaginu og séu ófullnægjandi – og jafnvel aðeins frestun á vandamálinu sem við er að etja.

 

Nauðsynlegt er að horfa á Orkuveituna og Reykjavíkurborg sem eina heild, því skuldavandi OR er jú einnig skuldavandi Reykjavíkurborgar. Þetta hefur ekki verið gert sem skyldi og er nauðsynlegt að viðurkenna.  Að einhverju leyti er þetta sama umræða og við sjálfstæðismenn áttum í kosningabaráttu okkar við R-listann árið 2006 þar sem við reyndum að benda á að það væri tómt mál að tala um lágar skuldir A-hluta borgarsjóðs þegar skuldasöfnun í B-hlutanum var gengdarlaus.

 

Aðgerðirnar sem hafa verið kynntar virðast fela það í sér að um einhvers konar lausafjárvanda sé að ræða hjá Orkuveitunni.  Borgarfulltrúi Dagur B. Eggertsson ítrekaði það hér áðan í ræðu sinni.  Með aðgerðunum er verið að segja að um lausafjárvanda sé að ræða og að það takist að bjarga fyrirtækinu fyrir horn með fjárframlögum frá borginni og auknum tekjum frá borgarbúum með hækkun gjaldskrár – og að þá verði allt í lagi. Það felst í orðinu “björgun”.  Að lánalínur muni þá opnast og fyrirtækið sjá fram úr sínum vandamálum eftir 2-3 ár.

 

Þetta er að mínu mati mjög ólíkleg atburðarrás. Vandi OR er nefnilega ekki lausafjárvandi heldur eigna- og skuldavandi. Það er eins gott að sem flestir átti sig á þeirri staðreynd.

 

Þó að stærðin sé allt önnur er þetta svipað vandamál í eðli sínu og þegar írska ríkisstjórnin ákvað að bjarga bönkum í Írlandi með því að gangast í ábyrgð fyrir öllum þeirra skuldum. Írska ríkið hélt að um lausafjárvanda væri að ræða og með því að tryggja bönkunum fjármögnun í nokkra mánuði myndi allt lagast. Þetta reyndust reginmistök og sitja írskir skattgreiðendur nú uppi með risavaxið vandamál þar sem bankarnir áttu einfaldlega ekki fyrir skuldum sínum; vandamálið var skuldavandamál en ekki lausafjárvandamál.


Við erum með tillögu meirihlutans að leggja út í nokkurs konar “írska leið”. Við erum að samþykkja að borgarbúar taki óbeint yfir 230 milljarða skuldir sem hvíla á OR með því að færa þær yfir á borgarsjóð annars vegar og viðskiptavini OR hins vegar – sem eru aftur að megninu til borgarbúar. Það er kjarninn í aðgerðunum sem hafa verið kynntar.

 

Aftur, það er eins gott að við áttum okkur á þessari staðreynd.  Það er ekki víst að öllum sé ljóst að lítil sem engin skil eru á milli skulda OR og Reykjavíkurborgar.


Sameignarform

 

Að sumu leyti er meirihlutanum vorkunn í þessum efnum því hugsanlegt er að við höfum ekkert val, og að þessi “írska leið” hafi verið valin strax árið 2002. Ástæðan er sú að þegar Orkuveitan var stofnuð í janúar 2002 var félagið sett upp sem sameignarfyrirtæki. Ástæðan var líklega vegna auðlindanna en auðvelt hefði verið að setja þær í sérstakt sameignarfélag á hvaða tímapunkti sem er. Það þýðir að eigendur Orkuveitunnar hafa verið í beinni ábyrgð fyrir skuldbindingum fyrirtækisins frá stofnun þess.  Reykjavíkurborg er í einfaldri ábyrgð fyrir skuldum OR eins og kom fram hjá borgarstjóra áðan í ræðu hans.

 

Félagið hefur því aldrei þurft að standa á eigin fótum varðandi gæði verkefna sem lánað hefur verið út á. Þetta form gerði stjórnendum kleyft að hugsa mun stærra en skynsamlegt var og ganga af meira hirðuleysi um eigur félagsins en staða þess gaf tilefni til.  Hirðuleysið fólst í þeirri leyndarhyggju sem alltaf var til staðar fram að REI málinu.  Það fól í sér að fundargerðir væru ekki opinberar og að mikil skil væru á milli fyrirtækisins og borgarinnar. Borgarfulltrúi Kjartan Magnússon breytti þessu 2008 og síðan þá hafa borgarfulltrúar geta fylgst aðeins betur með – þó enn mætti gera betur.  Þetta er eitthvað sem átti ekki að eiga sér stað þegar allar ábyrgðir eru svona miklar eins og raun ber vitni.  Flottræfilsháttur og hugmyndir um útrás frá Hvítar til Hvítar og tala nú ekki um REI málið sjálft eru líka dæmi um ábyrgðarleysi og að enginn hafi bent reglulega á að skattgreiðendur Reykjavíkurborgar væru ábyrgir fyrir öllum ákvörðunum og skuldsetningu á endanum.

 

Fyrirkomulag rekstrarformsins, sameignarfélagið, leiddi jafnframt til þess að lánshæfismat OR hefur alla tíð verið gott og aðgengi fyrirtækisins að fjármagni of mikið. Stjórnendur OR “lentu í því”, svo það skemmtilega orðalag sé notað, að ofmeta eigið ágæti og styrk Orkuveitunnar. 

Sem smá hliðarsögu við þetta má benda á að Garðabær seldi sinn hlut í OR 2003 vegna þess að þeir mátu stöðuna þannig að stækkunaráform og lántökur væru hreint ekki í lagi fyrir svona lítið sveitarfélag að taka ábyrgð á.  Á þeim tíma, þegar Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri, seldi fékk hún gagnrýni fyrir frá ýmsum, m.a. fulltrúum Samfylkingarinnar í Garðabæ.  Að selja hlut í Gullkálfinum þótti hreinlega óðs manns æði. 

 

Ef um hlutafélagaform hefði verið að ræða væri staðan allt önnur í dag. Það má færa fyrir því rök að ef svo hefði verið hefðu lánakjör OR sl. 10 ár verið hærri, þar sem ábyrgð eigenda hefði ekki verið til að dreifa. Væntanlega hefði félaginu þar með gengið ver í þeirri gegndarlausu skuldasöfnun sem átti sér stað á tímabilinu.

 

Að auki, jafnvel þó skuldastaðan væri vond hefði hlutafélagaformið tryggt að Reykjavíkurborg gæti ekki tapað meiru en því eigið fé sem borgin ætti í OR. Því er því miður ekki að heilsa eins og staðan er nú.

 

Þetta tengist beint kjarnanum í því sem mér finnst ókannað eða ekki að fullu kynnt eða greint.

 

Spurningin mín, háttvirtur borgarstjóri, er sú hvort staðan sé raunverulega sú að lánadrottnar OR, sem hafa lánað OR á mjög óábyrgan hátt, geti hallað sér aftur í sætinu vitandi það að þeir muni undir öllum kringumstæðum fá kröfur sínar að fullu greiddar. Þetta finnst mér skylda okkar að skoða að fullu áður en ráðist er í aðgerðirnar sem eru til umræðu í dag.  Borgarstjóri, er búið að reyna til þrautar að lánadrottnar leggi sitt af mörkum í þennan aðgerðarpakka?  Ég óska eftir ítarlegum svörum á fundinum um viðræður af þessum toga.

 

Ræðum aðeins skuldavandann betur.

 

Ef við tölum hreint út þá skuldar Orkuveitan í dag um 230 milljarða af vaxtaberandi skuldum. Reykjavíkurborg skuldar þar fyrir utan ekki mikið, sem betur fer. Í raun má færa rök fyrir því að borgin sé skuldlaus því hún á svipað reiðufé og hún skuldar, eða um 18 milljarða.

 

Samkvæmt þessu eru vaxtaberandi skuldir OR og borgarinnar 230 milljarðar. Til samanburðar eru tekjur þessara tveggja aðila um 50 (Rvík) + 30 (OR) milljarðar = 80 milljarðar. Skuldirnar eru því um 230/80 = 2,9 sinnum tekjur.

 

Það er ekki alveg sanngjarnt að nota þennan mælikvarða á þennan hátt, þ.e. að blanda saman tekjum borgarinnar og OR og leggja þær að jöfnu, en þetta gefur samt vísbendingu um heildarskuldastöðu borgarinnar og Orkuveitunnar.

 

Þetta er ansi hátt og nauðsynlegt að hafa í huga þegar gert er ráð fyrir því að borgarbúar standi undir öllum skuldum Orkuveitunnar.


Og hver er uppruni þessara skulda?

 

Mikið ósamræmi er milli reksturs Orkuveitunnar og skuldsetningar. Með öðrum orðum er það mín skoðun og mín greining að rekstur OR standi ekki undir skuldum félagsins.  Aðgerðarpakkinn meira að segja, að mínu mati, sé það tilgangurinn að láta kúnna fyrirtækisins standa undir skuldunum, gengur ekki nægilega langt til að rekstur OR standi undir skuldum félagsins.

 

OR skilaði 6 milljarða rekstrarhagnaði í fyrra og blasir við að slíkur rekstur stendur ekki undir skuldum upp á 230 milljarða. Það ber að nefna hér að ég nota ekki tölur um rekstrarhagnað án afskrifta enda er Orkuveitan fyrirtæki sem þarfnast mikilla fjárfestinga á hverju ári til að viðhalda eignum sínum.

 

Einnig nota ég skuldastöðu á vaxtaberandi lánum upp á 230 milljarða en það er sú tala sem fyrirtækið skuldaði um sl. áramót. Síðan þá hefur krónan veikst um c.a. 5% og skuldirnar því eflaust hækkað í samræmi við það.

 

Ég hreinlega skil ekki að það þurfi umræðu við hvort skuldastaða Orkvuveitunnar sé í lagi eða ekki.  Eins og borgarfulltrúi Hanna Birna Kristjánsdóttir fór vel yfir hér áðan hefur þetta legið fyrir frá 2008 og miklar aðgerðir framkvæmdar í því samhengi. Ég skil jafnframt ekki af hverju stjórnendur OR lýsa því yfir í fjölmiðlum í gær að þeir hafi gert sér fyrst ljóst hvernig staðan var í janúar síðastliðnum. Ég spyr aftur, borgarstjóri, og óska svara á fundinum, hvað var það sem gerðist í upphafi ársins eða lok þess síðasta sem leiðir til þess að stjórnendum OR finnst staðan vera allt önnur en sú sem stjórnendur kynntu í haust? Í annars ágætri ræðu borgarstjóra var skautað vel framhjá upphæðum sem breyttumst um milljarða til hins verra frá áramótum í áhættugreiningum.

Þeir sem hafa fylgst með félaginu og skoðað ársskýrslur þess hafa í raun haft allar þær upplýsingar sem þarf til að draga þá augljósu ályktun að Orkuveitan er í miklum vandræðum.

 

Ástæðan er því miður einföld hvernig komið er fyrir OR.

 

Meginvandamálið er að á hverju ári, 10 ár í röð - í heil 10 ár – alveg frá stofnun félagsins hefur verið fjárfest fyrir mun meiri fjármuni en reksturinn skilar. Sem dæmi um þetta sýna reikningar Orkuveitunnar að:

 

  • rekstur OR skilaði reiðufé upp á 4 milljarða árið 2002 en fjárfest var fyrir 7 milljarða.
  • Árið 2005: rekstur skilar reiðufé upp á 5 milljarða. Fjárfest fyrir 12.
  • Árið 2006: rekstur skilar reiðufé upp á tæpa 7 milljarða. Fjárfest fyrir tæpa 19.
  • 2008 skilaði reksturinn 8 milljörðum en fjárfest var fyrir 32 milljarða.

 

Í þessum dúr eru öll árin síðastliðin 10 ár.

 

Þetta eru í raun ótrúlegar tölur. Það má öllum ljóst vera að slíkur rekstur gengur ekki upp svona lengi. Þeir sem stýrðu félaginu sl. 10 ár þyrftu að útskýra hvernig þetta átti að ganga fyrir sig.

 

Héldum við að fyrirtæki sem skilar tíkalli geti stöðugt, árum saman, fjárfest fyrir tuttugukall? Af hverju var borgarstjórn ekki meira vakandi má líka spyrja?

 

Annað sem vert er að minnast á er að nánast allar skuldir félagsins voru í erlendum myntum á meðan stærstur hluti tekna fyrirtækisins var í íslenskum krónum. Slíkt fyrirkomulag er hreinlega til þess fallið að veðja á þróun gjaldmiðla og hefur lítið með rekstur OR að gera. Það vita allir hvernig það veðmál fór.

 

Í þessu ljósi olli það mér vonbrigðum seinni hluta árs 2006, þegar við Sjálfstæðismenn tókum við völdum í borginni með Framsóknarmönnum, að hafa ekki sagt upp þáverandi stjórnendum Orkuveitunnar. Þeir höfðu jú staðið fyrir ofangreindan rekstur og fjárfestingar. Þarna var tækifæri til að snúa við blaðinu og leggja af stað í nýja vegferð. 

 

Að sama skapi fannst mér rétt ákvörðun að segja upp bæði forstjóra og fjármálastjóra  í byrjun þessa árs. Það á ekki að vera neitt annað en eðlilegt að skipta um stjórnendur þegar stefnubreyting á að eiga sér stað í fyrirtæki eins og Orkuveitunni.  Há laun stjórnenda í svona stöðum fela það í sér að ef illa tekst til geti menn þurft að taka pokann sinn.

 

Mér finnst margt af því sem nýr forstjóri hefur látið hafa eftir sér vera gott. Hann ræðir tæpitungulaust um að Orkuveitan hafi verið komin langt út fyrir sitt verksvið og hafi fengist við verkefni sem áttu engan veginn heima á borði Orkuveitunnar. Stefna hans er samhljóma minni, að framtíðin sé að fara aftur til fortíðar.  Í grunnþjónustu.  Og í átt að öflugu þjónustufyritæki sem tryggir grunnlífsgæði. Ég gæti ekki verið meira sammála þessu sjónarmiði og óska honum og stjórn góðs gengis og vona að sátt verði um eigenedastefnu við gerð hennar í stjórn á komandi mánuðum.

 

Einnig var ég sammála því sem forstjórinn sagði í Kastljósinu í fyrrakvöld að nær hefði verið að virkjanaverkefni Orkuveitunnar hefðu verið í sér félagi. Að einhverju leyti er auðvelt að vera vitur eftirá en það er augljóst að staða mála væri önnur og betri í dag ef þetta hefði verið gert.


Um eignir OR

 

Á sama hátt og rekstur OR stendur ekki undir skuldum félagsins, gera eignir OR það ekki heldur. Útilokað er að selja eignir fyrir verulega upphæðir upp í þessa 230 milljarða sem félagið skuldar. Mikið af eignum OR eru eignir sem við viljum alls ekki sjá í höndum annara en okkar sjálfra, eins og t.d. Gvendarbrunnavatnið og aðrar auðlindir sem OR á. Þessir hlutir eru ekki til sölu og verða aldrei.

 

Eignasala er góðra gjalda verð, og sjálfsagt að losa okkur við eignir sem skila ekki tekjum fyrir OR. Þennan hluta aðgerðaráætlunar meirihlutans styð ég.

 

Það þarf hins vegar að vera á hreinu að slíka sölur séu til þriðja aðila en ekki til t.d. borgarinnar. Það þarf líka að vera á hreinu að fyrir þessar eignir þarf að fást reiðufé.  Við getum ekki lánað fyrir þessum eignum, hvorki OR né Reykjavíkurborg.  Sem dæmi um það er gagnslaust að selja til dæmis höfuðstöðvar OR til borgarinnar sem þá þyrfti að endurleigja húsnæðið til OR. Slíkir leikir eru gagnslaus sýndarmennska sem skila engu.   Ég vona innilega að meirihlutanum sé ekki alvara þegar þau segia að kannnaður verði fýsileiki þess að eigendur kaupi hús OR að Bæjarhálsi. Ég óska eftir upplýsingum hvort það sé raunverulegur vilji borgarstjóra og hvernig hann sjái fyrir sér að borgin greiði fyrir þessa byggingu ef svo er.

 

Einnig er ekki ljóst hversu mikið fengist fyrir eignir eins og þær sem fjárfest var fyrir í gegnum Línu.net. Mér finnst sjálfsagt að skoða slíkar sölur enda hefur mér aldrei fundist að Orkuveitan ætti að vasast í þess háttar rekstri. Ég bendi þó á að líklega hafa farið um 10 ma. í þetta ævintýri og lánin sem tekin voru fyrir þeim fjárfestingum líkast til tvöföld sú upphæð.  Á síðasta ári fjárfesti Gagnaveitan fyrir milljarð króna, eða sem nemur sömu upphæð og Gagnaveitan hafði í tekjur á síðasta ári. Ég vil fá skýr svör um áætlun meirihlutans gagnvart Gagnaveitunni – hvað telja þeir verðmat félagsins vera, og hverjir verða hugsanlegir kaupendur?


Um lánadrottna

 

Ef ég gef mér að það sé rétt sem að þetta svartsýnisraus sem ég hef haldið fram hér að ofan að fyrirtækið og núverandi rekstur þess standi ekki undir skuldum eru ekki margar lausnir í boði. Í stuttu máli er einungis um 4 leiðir fyrir fyrirtæki að minnka skuldir:

 

  1. Borga þær niður með því reiðufé sem reksturinn skilar
  2. Borga þær niður með eignasölu – eins og áætlanir eru um
  3. Auka hagnað þannig að hann standi undir skuldunum – að minnka rekstrarumfang og hækka tekjur.
  4. Semja við lánadrottna um lækkun skulda

 

Annað er ekki í boði, því miður.

 

Ástæða þess að leið 3 er yfir höfuð fær fyrir Orkuveituna, þ.e. að auka hagnaðinn eins og þarf til að standa undir skuldunum með því að hækka tekjur, er að Orkuveitan er einokunarfyriræki.

 

Það leiðir til þess að þó fyrirtækið hækki gjöld fara kúnnarnir seint yfir til samkeppnisaðila. Kúnnarnir geta reynt að bregðast við með því að minnka notkun á vörum OR en aðra kosti hafa þeir ekki.  Og það er ekki einu sinni hægt með þennan hræðilega nefskatt sem fráveitugjöldin eru. Þetta er því fær leið þótt hún sé ekki góð. Það er þó vert að benda á að hækkanir á gjaldskrám Orkuveitunnar hafa ekki fylgt verðlagi og eru með þeim lægstu á landinu. Mjög líklegt er að fyrirtækið hafi hreinlega verið of hægfara í því að hækka gjöld til að standa undir að minnsta kosti hluta þeirra fjárfestinga sem farið hefur verið út í.

 

Hækkun gjaldskráa felur hins vegar í sér ákvörðun um að færa skuldir OR yfir á kúnna fyrirtækisins, þ.e. að láta kúnna OR borga upp skuldirnar með aukinni gjaldtöku.  Þetta er mjög erfitt fyrir kjörna fulltrúa að gera en við verðum að muna að lánadrottnar sem geta að mér skilst tekið yfir reksturinn myndu byrja á því að hækka öll gjöld upp í tölur sem við getum ekki ímyndað okkur.

 

Og þá er ég aftur komin að því sem truflar mig mest við þessa að gerðaráætlun.  Er búið að láta að fullu reyna á hvort ekki sé nokkur leið að pína kröfuhafa Orkuveitunnar til að taka þátt í vandamálinu?

 

Mér finnst það skylda okkar að skoða fyrst leið 4 til hins ítrasta, þ.e. að lánadrottnar OR taki á einhvern þátt í að leysa skuldavanda fyrirtækisins. 

 

Að því leytinu er ég ósammála því sem t.d. stjórnarformaður Orkuveitunnar lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu í fyrradag, þ.e. að “áfram yrði reynt að leita fjármögnunar erlendis þrátt fyrir þessa aðgerðaráætlun”.

 

Mér finnst að við eigum einmitt að snúa þessu á haus og skoða hvort ekki er hægt að þvinga fram samstarf lánadrottna samhliða – ekki þrátt fyrir -björgunaráætlun sem nú er til umræðu. Það er augljóst að borgarbúar og eigendur OR þurfa að taka á sig verulegar búsifjar til björgunar fyrirtækinu en lánadrottnar standa hjá stikkfríir og fá allt sitt. Ég er ekki nægilega sannfærð í dag um að á þetta hafi verið reynt.

 

Eins og ég sagði að ofan má vera að ómögulegt sé að fá lánadrottna með í lið að lækka skuldir félagsins. Það hefur hins vegar ekki verið útskýrt fyrir mér hvað nákvæmlega gerist ef OR getur ekki greitt af skuldum sínum. Hvað er það sem gerist, skref fyrir skref?  Ef OR myndi ekki greiða lánagreiðslur, hvaða ferli fer í gang?  Hvaða inngrip hafa lánadrottnar fyrst?  Ég hef ekki séð eitt einasta minnisblað eða greiningu um þá vegferð.  Og þetta er mikilvægt fyrir samninga við lánadrottna.  Mér finnst leiðinlegt að fjalla um málið á þessm nótum en sé mér ekki fært að ræða þetta án þess að reifa þessa skoðun mína.  Og vel getur verið að allt vinni á móti okkur í samræðum við lánadrottna og þeirra fyrsta verk eins og áður sagði er að taka við fyrirtækinu og hækka öll gjöld upp fyrir öll velsæmismörk.  En ég hef engar upplýsingar um þetta og þessi umræða hefur ekki farið fram í borgarstjórn til þessa.

 

Lánadrottnar bera nefnilega sína ábyrgð eins og stjórnendur og eigendur OR. Þeir tóku þátt í því að lána fyrirtækinu peninga sem voru ekki í neinu samræmi við undirliggjandi rekstur eða arðsemi þeirra verkefna sem ráðist var í. Þetta liggur fyrir. Dæmi eru um að OR hafi þurft lán fyrir 12 milljörðum í eitthvert verkefnið en bankinn sem fjármagnaði hafi lánað 15 milljarða – hafi bókstaflega otað peningum að Orkuveitunni. Einnig má telja í hæsta máta skrýtið að lánastofnun hafi lánað fyrir túrbínum og virkjunum sem voru ekki með tryggðan sölusamning fyrir rafmagninu sem átti að framleiða. Ég fæ ekki betur séð en slíkir hlutir hafi átt sér stað. Þetta voru mistök hjá þeim sem stýrðu OR en ekki síður mistök af hálfu kröfuhafa.

 

Lánadrottnarnir hafa eflaust talið sig hafa fullar tryggingar fyrir sínum lánum í gegnum borgarsjóð. Þeir hefðu hins vegar átt að gera sér grein fyrir því, ekki síður en við sem sitjum hinum megin við borðið, að óábyrgt væri að treysta alfarið á borgarbúa til að standa undir þessum miklu skuldbindingum.

 

Hefur til dæmis verið reynt að tengja saman yfirstandandi björgunaraðgerð og það að festa vexti sem eru og verða í boði á næstu árum? Það væri hluti af því að fá lánadrottna með sér í lið en leyfa þeim ekki að sitja stikkfrí á hliðarlínunni.

 

Vaxtaumhverfi Orkuveitunnar er í sögulegu lágmarki núna. Það er óhjákvæmilegt að vextir á markaði hækki á næstu árum sem mun gjörbreyta stöðu OR til hins verra. Ef um einhverja endurfjármögnun verður að ræða munu vextir hækka verulega og krefst aftur aukinna tekna fyrir félagið.  Hirðuleysi stjórnenda í umgengni um félagið olli því að lánshæfismat Orkuveitunnar hefur fallið sem leiðir til hærri vaxtakjara þegar ný lán verða tekin. Stjórnendur áttu nefnilega að tryggja stefnu og vinnulag sem tryggði hátt lánshæfismat til lengri tíma. Er ekki eðlilegt að spyrja hvort að aðgerðirnar nú og vaxtakjör á næstu misserum séu skoðuð í samhengi í samningum við lánadrottna? 

 

Borgarstjóri, ég óska svara við þessari spurningu.

 

Þetta er hlutur sem mér finnst ekki að fullu ræddur, þ.e. hvort staðan sé raunverulega sú að við neyðumst til að færa skuldir OR yfir á borgarbúa beint, annað hvort í gegnum hækkun á gjöldum eða með því að lána OR peninga eða með því að kaupa af fyrirtækinu eignir. Írska leiðin er hugtak sem kemur aftur óhjákvæmilega upp í hugann í þessu samhengi.


Eins og ég sagði í upphafi sit ég hjá við afgreiðslu “björgunarpakkans” svo kallaða. Mér finnst eins og ég hef fært rök fyrir ábyrgðarleysi að kanna ekki að fullu hvort, og þá hvernig, hægt er að tryggja betur aðkomu lánadrottna fyrirtækisins. Þeir bera sína ábyrgð og ótækt að þeir komist upp með að þurfa ekki að taka neina ábyrgð á sínum lánveitingum.

 

Jafnframt er ég hrædd um að björgun lausafjárvanda Orkuveitunnar leysi ekki undirliggjandi vandamál, sem eru of miklar skuldir. Þetta er því frestun á vandamálinu en ekki lausn. Og ég er hrædd um að stjórnendur og meirihlutinn taki allt of stórt upp í sig þegar þeir nota orðið björgun.  Allt of mikið er óljóst enn til að láta svona stór orð falla.  Og það í annað sinn!  Ég vona að engum hafi hvarflað í hug að bjarga þessu aðeins fram yfir næstu kosningar eins og allt of oft hefur verið hugsunin í stjórnmálum.  Og oftast held ég að það sé betra að viðurkenna staðreyndir sem slíkar fyrr en seinna og taka á vandamálinu strax.

 

Að hluta til hefði átt að gera þetta fyrir einhverju síðan en einnig má segja að slíkt hafi ekki verið hægt fyrr en fullreynt var með aðkomu erlendra lánastofnana og fyrirgreiðslu þeirra. Á það hefur nú verið reynt og ljóst að aðkoma þeirra virðist lítil sem engin önnur en sú að ætlast til þess að borgarbúar standi að fullu undir skuldur Orkuveitunnar.

 

Ef ég væri þess fullviss að ómögulegt væri annað en að færa skuldir sem hvíla á Orkuveitunni yfir á borgarbúa og viðskiptavini Orkuveitunnar fyndist mér sú leið sem á að fara sú illskásta. Málið er bara að skv. því sem ég best veit hefur þessi leið ekki verið könnuð í þaula og mun ég því ekki greiða aðgerðunum atkvæði mitt.

 

Að lokum vil ég segja eitt.  Ég vona innilega að svartsýni mín og bölmóður sé orðum aukinn og ýktur.  Ég vona að þetta góða fyrirtæki sem borgarbúar eiga verði aftur það sem það var, tryggt og öruggt, og verði stolt okkar allra fyrir þessa grunnþætti sem hún var upphaflega stofnuð um árið 2002.

Lesa meira