PISTLAR


28

09 2011

Drengir og námsárangur

 

Í menntaráði í dag voru kynntar niðurstöður starfshóps um drengi og námsárangur.  Skýrsla hópsins og skýrslur Námsmatsstofnunar og Skólapúlsins fyrir starfshópinn eru aðgengilegar á www.strakar.wordpress.com og stefnan er að sú síða verði lifandi samskiptavettvangur fyrir kennara, foreldra og fræðimenn um niðurstöðurnar.  Allar tillögur starfshópsins voru samþykktar og settar í farveg.

 

Reglulega hefur skotið upp kollinum umræða um stöðu drengja í skólum og ýmsar tilgátur og staðhæfingar settar fram. Allir hafa verið í skólum og því er fljótt litið til reynslu einstaklinganna sjálfra í skólaumhverfinu. Mikilvægast er í umræðu um skólamál og kynin að skoða vel hvaða gögn liggja þeim til grundvallar. Í vinnu þessa starfshóps var lögð áhersla á að finna gögn, greina þau og afla upplýsinga sem í ljós kom að töluvert var til af.

 

Eitt af því sem rætt er um er hvort raunverulega sé munur á strákum og stelpum þegar námsárangur er skoðaður. Af þeim gögnum sem starfshópurinn skoðaði má sjá að munur á námsárangri er vissulega til staðar í ákveðnum fögum. Sterkustu tengslin snúa að árangri í lestri og íslensku sem svo eru líklegir áhrifavaldar í öðrum fögum sem sýna kynjamun. Umræða um orsakir þessa eru hins vegar af mjög ólíkum toga og er reynt að gefa innsýn í ólíkar skýringar fræðimanna og fagfólks í skýrslunni. Það mikilvægasta er svo að finna leiðir til að auka námsárangur drengja án þess að draga úr hraða annarra drengja eða stúlkna og hefur starfshópurinn sett fram nokkrar tillögur að slíkum leiðum sem endurspegla þessi sterku tengsl lesskilnings og kynjamunar.


Mikilvægt er að hafa í huga að mælingar á gæðum skólastarfs og líðan nemenda eru margs konar og að verkefni þessa hóps var eingöngu að líta á afmarkaða þætti. Allt efni sem barst hópnum í vinnu hans, kynningar, tölfræði og rannsóknaniðurstöður er aðgengilegt á heimasíðu hópsins.


Fulltrúar starfshópsins vona að niðurstöður af vinnu þeirra nýtist kennurum og þeim sem starfa að menntun almennt til umræðu og til að bæta árangur drengja beint og óbeint í leik og starfi. Allar breytingar á skólastarfi sem innleiddar eru eiga að hagnast öllum nemendum. Stúlkur jafnt sem drengir eiga að njóta góðs af þeim leiðum sem farnar eru til að bæta stöðu drengja og öfugt. Stúlkur og drengir hljóta að hagnast jafnmikið á því að báðum kynjum líði vel í skólanum. 

 

Starfshópurinn var skipaður auk mín Óttarri Proppé, Nönnu K. Christiansen, Sigurlaugu Hrund Svavarsdóttur Jóni Páli Haraldsson, Bryndísi Jónsdóttur, Ingveldi Hrönn Björnsdóttur og Bergsteini Þór Jónssyni.

 

Lesa meira