PISTLAR


22

11 2012

Viðbótarskattur á velgengni

Mikið hefur gengið á hjá ríkisstjórn Íslands við að sameina ráðuneyti og skipta um ráðherra. Eitt nýju ráðuneytanna ber heitið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og þar situr Steingrímur J. Sigfússon. Nafngift ráðuneytisins bendir til að tilgangurinn sé að búa svo um hnútana að atvinnuvegum og nýsköpun á Íslandi gangi sem best. Nafngiftin á ráðuneytinu lofaði því góðu.

Tillögur þessa nýja ráðuneytis virðast hins vegar nánast alfarið felast í hækkun skatta, nýjum sköttum og að finna upp nýjar aðferðir við skattheimtu og innheimtu leyfisgjalda. Þetta er að sjálfsögðu hvorki gott fyrir atvinnuvegina né nýsköpun. Það sem ætti að auki að valda fólki áhyggjum, og er tilefni þessara skrifa, er sú hugarfarsbreyting, að gangi atvinnugrein vel myndist tækifæri til að skattleggja hana sérstaklega.
Afleit þróun

Í umræðum á Alþingi nýlega sagði Steingrímur að það væri rétt að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna úr 7% í 25,5%. Ferðaþjónustan gengi vel og myndi þola þessa hækkun. Þetta hefur hann einnig gert í umræðum um álagningu sérstaks gjalds á sjávarútveginn og var ræða Steingríms í síðasta mánuði á fundi LÍÚ með þessum formerkjum. Hann sagði framlegð sjávarútvegsins hafa batnað, greinin stæði styrkum fótum og væri mjólkurkýr okkar. Sams konar ástæður hafa verið bornar á borð þegar rætt hefur verið um álagningu gistináttaskatts og hækkun vörugjalda á bílaleigubíla.

Þetta er afleit þróun. Farin er sú leið að ráðast á heilu atvinnuvegina og skattleggja þá sérstaklega af því að þeir ganga svo vel, þeir séu búnir að „slíta barnsskónum", séu í vexti eða standi styrkum stoðum. Þarna lætur ríkið sér ekki nægja að njóta hækkandi skatttekna þegar vel gengur heldur seilist dýpra í vasa fyrirtækjanna þegar vel árar. Engin áform eru um léttari byrðar þegar illa árar.

Hæpin forsenda fyrir hækkun

Ferðaþjónustan er ágætt dæmi. Áætlað er að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna skili tæpum 3,5 milljörðum á ársgrundvelli. Skatthlutfallið yrði með þessu eitt það hæsta í heiminum á ferðaþjónustu og hefur bein áhrif á samkeppnishæfni Íslands í ferðaheiminum. Steingrímur færir fyrir því rök að þetta séu fjármunir sem munu koma í kassann, að því gefnu að eftirspurn eftir ferðaþjónustu minnki ekki þó að skatturinn hækki, og að þeir komi nánast alfarið úr vasa viðskiptavinarins. Þetta er hæpin forsenda svo ekki sé meira sagt. Auðvitað er líklegast að stór hluti af þessum viðbótarskatti komi úr vasa þeirra sem reka rútur, tjaldstæði og hótel á Íslandi. Skilaboðin til þeirra, og allra sem mögulega vilja fjárfesta í atvinnustarfsemi á Íslandi, eru skýr: Við ætlum að rukka þig um skatt og álögur eins og hægt er og þegar þér fer að ganga vel og þú getur staðið undir aukinni skattheimtu, tökum við enn meira af þér.

Eru slík skilaboð til þess fallin að fjárfesting aukist og fleiri atvinnugreinar dafni? Nei. Eru þau til þess fallin að auka nýsköpun? Nei, ekki heldur. Skilaboðin eru sérstaklega slæm því þau gefa til kynna að ríkið telji sig eiga sterkara tilkall til þeirra fjármuna sem myndast í atvinnugreininni þegar vel gengur. Fjárfestar vita að árferðið er stundum hagstætt og að stundum árar verr, en einnig að oftar en ekki eru það góðu árin sem bera uppi fjárfestinguna. Atvinnurekendur hafa því ekki endilega sérstaka burði til að borga hærri skatta þótt vel gangi á einhverjum tímapunkti. Þessi stefna vinstriflokka í skattheimtu er fyrirboði um að minni líkur séu á því að vænlegt verði að fjárfesta í atvinnustarfsemi á Íslandi.

Skilaboðin skýr 

Ákveðnir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna tala stundum eins og þeir skilji að þetta sé röng leið. Magnús Orri Schram gaf á dögunum út bók sem fjallar m.a. um nauðsyn þess að nýsköpun á Íslandi aukist. Össur Skarphéðinsson notaði heila grein til að tryggja að lesendur Morgunblaðsins áttuðu sig á því að það væri hann sem hefði staðið að lækkun kostnaðar við kvikmyndaframleiðslu á Íslandi og að koma Bens Stiller til Íslands væri honum að þakka. Formannsefni Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, segir að ríkisvaldið eigi að vinna með atvinnulífinu að aukinni verðmætasköpun svo traustari stoðir verði til fyrir velferðarútgjöld okkar. Það er stórundarlegt að þessir menn skuli láta sér það í léttu rúmi liggja að ríkisstjórnin sem þeir styðja þyngi skattbyrði atvinnugreinar ef hún gengur vel. 

Skilaboðin frá ríkisstjórninni eru skýr. Það er hreint og beint hættulegt fyrir atvinnugreinar að ná árangri og sýna fram á vöxt, því að um leið og það gerist sjá ráðherrar möguleika á frekari skattahækkunum. Þessi hugsun mun ekki flýta fyrir endurreisn í atvinnumálum á Íslandi.

Lesa meira

08

11 2012

Sykurhamfarir

Borgarstjóri New York-borgar hefur í nógu að snúast. Dag og nótt leitar hann lausna fyrir þá sem hafa misst heimili sín eða eru án rafmagns eftir storminn Sandy. Eyðileggingin er mikil og áríðandi að allir leggist á eitt við að byggja upp. En það liggja fleiri erfið mál á borgarstjóranum sem eru ekki eins áríðandi en ekki síður mikilvæg. Íbúar borgarinnar, líkt og á öðrum vestrænum slóðum, hafa nefnilega fitnað úr hófi fram og enginn sér fyrir endann á þeim fjölmörgu vandamálum sem offitan skapar. Margt bendir til þess að óhófleg sykurneysla sé mikilvægur orsakavaldur offitu, sérstaklega þegar kemur að börnum. Bloomberg borgarstjóri er meðvitaður um þetta og segir gosdrykki einn stærsta óvininn. Hann hefur nú þegar staðið fyrir birtingu á orkuinnihaldi á matseðlum og takmörkun á transfitusýru- og saltinnihaldi matvæla. Í mars 2013 verður innleitt nýtt bann þegar veitingastöðum í borginni verður óheimilt að selja gos og sæta drykki stærri en 500 ml.

Börn sem mælast of þung eða of feit eru mjög líkleg til að verða of þung á fullorðinsaldri. Í Bandaríkjunum er talað um að 77% barna sem eru of feit verði of feit sem fullorðnir einstaklingar. Offita getur valdið alvarlegum sjúkdómum á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki og krabbamein og aukið áhættu á þunglyndi, kvíða og félagslegum vandamálum. Vandamálið hefur fest sig í sessi og við sjáum beinan og óbeinan kostnað stóraukast og margir tala um offitufaraldur.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að sykur sé ávanabindandi. Sumir fullyrða að um svipaða fíkn sé að ræða og þá sem leiðir til áfengis- og vímuefnavanda. Flestum er ljóst að sykur, líkt og transfitusýrur, er vara sem í flestum tilfellum er komin langan veg frá því að vera náttúruleg. Saga sykurframleiðslu er í raun lyginni líkust. Okkar elstu íbúar muna eftir miklum skorti á sykri og einstökum viðburði ef hægt var að lauma kandísmola til barns. Kornsíróp leysti hefðbundinn sykur að miklu leyti af hólmi í kringum 1980 í matvæla- og gosframleiðslu en þetta sætuefni kostar einungis brot af því sem hefðbundinn sykur kostar. Það fer illa saman að sykur hafi svona slæm áhrif á líkama barna okkar, sé ávanabindandi og kosti nánast ekki neitt.

Einfaldar lausnir eins og að segja fólki að borða minna eða að hætta að borða ákveðnar matartegundir hafa ekki virkað vel. Hellt hefur verið yfir okkur skilaboðum um að t.d. brauðát, fitumagn, transfitusýrur eða okkar eigin gen séu vandinn. Það sem er hins vegar bölvanlegt er að nú snýst þetta ekki um okkur fullorðna fólkið, okkur sem getum ákveðið að gera eitthvað í málinu. Þetta snýst um börnin og hvort þau haldi áfram að fitna eða ekki. Boð og bönn frá hinu opinbera geta verið óþolandi og ákvörðun Bloombergs er óvinsæl. Margar spurningar vakna þegar bönn eru sett. Hvers vegna má kaupa lítra af ís en ekki lítra af gosi? Hvernig ætla þeir að fylgja þessu eftir? Er yfir höfuð raunhæft að setja löggjöf um sykurneyslu?

Hverjum og einum ber að taka ábyrgð á heilsu sinni og sinna nánustu. En er það að gerast? Eru íslensk börn hætt að fitna í kjölfar þeirrar umræðu sem sannarlega hefur farið fram af hendi fagfólks? Þurfa stjórnmálamenn ekki að hefjast handa?

Íslensk börn eru með þeim þyngstu í Evrópu. Þau borða mestan sykur barna á Norðurlöndum og er talið að íslenskt leikskólabarn innbyrði að meðaltali um 50 gr. af sykri á dag. Vísindin segja okkur að þetta geti skapað gífurleg vandamál til framtíðar. Einhvers staðar þarf að byrja og umræðan er tilviljanakennd. 

Stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, er ekki einu sinni með þetta stóra vandamál til umræðu. Það er ekki nóg að byggja upp þjónustu fyrir þá sem þegar kljást við vandann, heldur þarf að koma í veg fyrir hann með forvörnum. 

Sveitarfélög eiga að vera í fararbroddi með virkri lýðheilsustefnu og markmiðum til að fylgja henni eftir sem tekur til margra þátta; menntakerfis, fjölskyldna, íþróttafélaga, heilsugæslu og vísindamanna. 

Sveitarfélög hafa beinan aðgang að fjölskyldum í gegnum skóla og heilsugæslu þar sem hægt er að veita stuðning og fræðslu með aðkomu heilbrigðisyfirvalda. Fjölskyldan getur tekið höndum saman um að minnka sykurát, verslunareigendur geta dregið stórlega úr nammibaramenningu, framleiðendur geta upplýst um sykurinnihald á vörum sínum. Fjársvelt skólahjúkrun verður að mæla þyngd oftar og veita foreldrum stuðning ef barn er of þungt. Heilsugæslan þarf að veita verðandi foreldrum fræðslu. 

Skólarnir eru lykillinn að börnum og foreldrum þeirra; gætum við til dæmis skipt út kökum og gosi á bekkjarsamkomum fyrir ávexti og vatn? Verum hugrökk og göngum í málið núna: annars endar þetta með boðum og bönnum eða enn meiri ósköpum.

Lesa meira