PISTLAR


30

10 2013

Hirðuleysi í rekstri

Yfirstandandi kjörtímabil ætlar að reynast Reykvíkingum afar dýrt. Fjármálastjórn Besta flokksins og Samfylkingar er slök, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Þrátt fyrir það hefur Besti flokkurinn sannfært stóran hluta borgarbúa um að fjármál borgarinnar séu traust. Og hugsanlega sjálfan sig í leiðinni. Þeir virðast farnir að trúa eigin leikriti sé tekið mið af tali Jóns Gnarr um að fjármálastjórn Besta „einkennist af ábyrgð, aðhaldi og stefnufestu“. Þessir frasar reynast hins vegar innantómir þegar tölurnar eru skoðaðar.

Sautján milljarðar. Sú er hækkunin á vaxtaberandi skuldum Reykjavíkurborgar á fyrsta kjörtímabili Besta flokksins. Þegar þeir tóku við skuldaði A-hluti borgarinnar 5 milljarða. Áætlunin sem var rædd í borgarstjórn í gær gerir ráð fyrir að vaxtaberandi skuldir borgarinnar í lok næsta árs verði 22 milljarðar. Hér er átt við vaxtaberandi skuldir að frádregnu reiðufé borgarinnar. Viðbótarskuldir á kjörtímabilinu hljóða upp á 350 þúsund krónur á hverja einustu fjölskyldu í Reykjavík. Þetta er útfært með því að ganga stöðugt á reiðufé borgarinnar ásamt því að bæta á skuldafjallið.

Mínus tíu milljarðar. Þetta er áætlun meirihlutans í borginni um rekstur grunnþjónustu borgarinnar á næsta ári. Það á að sækja sjötíu milljarða í skatttekjur frá borgarbúum og það á að eyða áttatíu milljörðum til málaflokka borgarinnar. Hér er eytt um efni fram svo um munar. Reksturinn hefur verið í ólagi frá hruni, en nú er svo komið að þeim sem til þekkja líst orðið ekkert á blikuna. Aldrei í sögu Reykjavíkurborgar hefur verið lögð fram áætlun með þvílíku gapi milli skatttekna og útgjalda til grunnþjónustu. Hér hefði þurft að setja í gang yfirgripsmikla vinnu til að stemma stigu við þessari óheillaþróun. Hagræðing er hins vegar orð sem virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá Besta flokknum og Samfylkingu.

Stefna um stefnuleysi er grundvallarvandamál fjármálavanda borgarinnar. Stefnuleysið felur í sér hirðuleysi í fjármálum sem skilar sér í hallarekstri Aðalsjóðs og mikilli skuldaaukningu. Samtímis óheillaþróuninni sem talin er upp hér að ofan hafa skattar og álögur á borgarbúa hækkað jafnt og þétt. Meðalfjölskylda í Reykjavík mun á næsta ári greiða rúmlega 440 þúsund krónum meira í skatta og gjöld á hverju ári til Reykjavíkurborgar en hún gerði í upphafi yfirstandandi kjörtímabils. Útsvar er fullnýtt og gjaldskrár hækka umfram spár um verðlagshækkanir.

Árferðið sem við búum við í dag er ekki auðvelt. Þetta vita allir sem búa í Reykjavík. Fjármálastjórn Reykjavíkur er því ekki auðvelt verkefni. Það fellur greinilega ekki vel að því að spranga um í Star Wars búningi eða slíta vinasambandi við Moskvuborg. Verkefnið krefst einbeitingar og mikillar vinnu allra sem koma að rekstri borgarinnar. Þetta vita æðstu embættismenn borgarinnar. Þeir vita þetta mæta vel. Það er bara ekki þeirra verkefni að sjá um að rekstur borgarinnar sé í lagi. Það verkefni er í höndum borgarstjóra og meirihluta borgarstjórnar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. október 2013

Lesa meira

29

10 2013

Kosningaskrifstofa í Ármúla 7

Við erum komin með vinnuaðstöðu í Ármúla 7 og ég hvet ykkur til að kíkja inn hvenær sem þið viljið. Við ætlum að fagna saman í Ármúlanum og opna formlega skrifstofuna kl. 17-20 á fimmtudaginn, 31. október. Við getum spjallað og slúðrað og spáð í spilin. Þeir sem vilja geta komið í Hrekkjavökubúningunum. Barnahorn verður á staðnum.  Við verðum á skrifstofunni meira og minna alla daga til 16. nóvember en þá fer prófkjörið fram. Hægt er að kjósa frá og með föstudeginum í Valhöll á skrifstofutíma.

Með baráttukveðju,
Þorbjörg Helga

Lesa meira

28

10 2013

Minnka þarf ábyrgð Reykjavíkur

Eitt mikilvægasta verkefni Reykjavíkurborgar á næstu árum verður að draga úr þeirri áhættu sem borgin ber vegna reksturs Orkuveitu Reykjavíkur. Í dag bera Reykvíkingar einfalda ábyrgð á skuldum fyrirtækisins. Það þýðir að við sem búum í Reykjavík berum ábyrgð á yfir 90% skulda OR þar sem borgin á yfir 90% í OR. Og þar sem skuldirnar eru ríflega 200 milljarðar er eins gott að rekstur félagsins batni og standi á endanum undir skuldafjallinu.

Rekstur Orkuveitunnar hefur batnað undanfarin ár og skuldir sem hlutfall af tekjum og rekstrarhagnaði hafa lækkað, fyrst og fremst vegna gjaldskrárhækkana og fækkunar viðhaldsverkefna. Ég hef verið sammála flestum þeim ákvörðunum sem þurfti til að ná þessu fram. Annað hefur ekki gengið vel eins og eignasala sem var fyrirhuguð til að grynnka á skuldunum. Aðgerð eins og sala Perlunnar frá Orkuveitunni til Reykjavíkurborgar sjálfrar skilar að sjálfsögðu ekki neinu. Hvorki höfuðstöðvar OR né Magma-bréfið svokallaða hafa raunverulega verið seld.

Einföld ábyrgð áhættusöm

Í framtíðinni mun eitt stærsta verkefnið felast í því að borga niður skuldir og bæta reksturinn enn frekar. Nauðsynlegt verður að tryggja að frekari fjármögnun Orkuveitunnar fari fram án ábyrgðar borgarbúa. Þetta þýðir að ný verkefni sem ráðist verður í verði fjármögnuð í dótturfyrirtækjum þar sem notast verður við verkefnafjármögnun í stað þess að lánskjör Orkuveitunnar séu óeðlilega lág vegna ábyrgðar borgarbúa. Lánskjörin munu þá ráðast beint af gæðum þeirra verkefna sem fyrirtækið ræðst í en ekki getu borgarbúa til að borga brúsann ef illa fer. Þetta mun ekki gerast í einu vetfangi heldur verður nauðsynlegt að horfa til slíks fyrirkomulags eftir því sem tækifæri gefast. Að auki þarf að tryggja að tekjur séu ekki eins tengdar þáttum sem við höfum ekki stjórn á eins og nú er. Til dæmis er umtalsverður hluti tekna OR tengdur álverði. Fari svo að álverð lækki verulega gæti það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það er því mikilvægt að þessi áhættuþáttur minnki þegar fram líða stundir.

Skipan stjórnar og ný tækifæri

Af reynslu síðustu ára væri auk þess reynandi að skipa fólk í stjórn Orkuveitunnar ótengt stjórnmálum. Slíkt fyrirkomulag er sýnd veiði en ekki gefin þar sem það eru jú stjórnmálamenn sem á endanum bera ábyrgð á Orkuveitunni. Að auki hafa ýmsir flokksgæðingar ráðist í slík störf þegar þetta hefur verið reynt sem er jafnvel enn verra fyrirkomulag en að stjórnmálamennirnir sjái um þetta sjálfir. Það þyrfti því að hanna ferlið þannig að reynsla og kunnátta ráði för fremur en pólitísk tengsl.

Sala Gagnaveitunnar er verkefni sem þarf að ráðast í sem fyrst. Uppbygging hennar hefur kostað ógrynni fjár og nauðsynlegt að láta á það reyna hvort eitthvað af því fjármagni náist til baka með sölu þeirrar eignar. Sala á rafmagni fyrir rafmagnsbíla er að auki tækifæri sem gæti komið Orkuveitunni vel á næstu árum. Orkuveitan gæti þannig nýtt núverandi kerfi og fjárfestingar til sölu á meira rafmagni. Þessi möguleiki hefði verið óhugsandi fyrir örfáum misserum. Þróunin sem hefur átt sér stað í framleiðslu rafmagnsbíla breytir þessu hins vegar hratt. Að auki er bílaflotinn okkar orðinn 13 ára gamall. Hann mun endurnýjast með tímanum sem gæti skapað ágætis tækifæri fyrir Orkuveituna til frekari tekjuöflunar.

Staða Orkuveitunnar er enn varhugaverð. Það verður mikilvægt á næstu misserum að vinna að frekari hagræðingu, grynnka á skuldum fyrirtækisins og vinna markvisst að því að minnka ábyrgð borgarbúa á skuldum fyrirtækisins. Takist það geta borgarbúar loks sofið rólegir vegna vandamála Orkuveitunnar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. október 2013

Lesa meira

26

10 2013

Af Seltirningum og útlendingum

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur skotið fast á Seltirninga við misgóðar undirtektir. Það er vissulega skondið að ímynda sér tollahlið við mörk Seltjarnarness og Reykjavíkur og að sjá fyrir sér Seltirninga sem ríka frændur sem éta úr ísskápum Reykvíkinga.

Svona glens og grín virkar hugsanlega til að brydda upp á umræðu um samstarf eða sameiningu sveitarfélaga en í raun og veru eru Seltirningar alls engar afætur á Reykvíkingum. Íbúar Seltjarnarness sem nýta til að mynda þjónustu skóla í Reykjavík borga sitt eftir kúnstarinnar reglum. Reykvíkingar hafa aðgang að yndislegu útivistarsvæði Gróttu og sundlauginni á Seltjarnarnesi alveg eins og Seltirningar hafa aðgang að hjólastíganeti og söfnum borgarinnar.

Erlendur Gestur

Samlíkingar borgarstjóra vekja hins vegar upp spurningar um aðra frændur, mikinn fjölda erlendra ferðamanna sem nýta sér þjónustu og afþreyingu í Reykjavík. Erlendir ferðamenn hafa nú bjargað landsmönnum í efnahagslegu tilliti eftir áföllin 2008. Heimsóknir þeirra hafa haft jákvæð áhrif á útflutning, þjónustu og minnkað atvinnuleysi. Á síðustu fimm árum hafa heimsótt okkur rúmlega þrjár milljónir gesta.

Við tökum á móti þeim fagnandi og niðurstöður viðhorfskannana í ferðaþjónustu segja að á Íslandi búi í raun 320.000 leiðsögumenn. Það þarf sannarlega ekki að kenna Reykvíkingum kurteisi gagnvart ferðamönnum eins og borgarstjórinn í París neyddist til að gera í sinni borg! Í fyrra sögðust yfir 90% ferðamanna ætla að mæla með Reykjavík sem áfangastað.

Ekkert bendir til þess að erlendum ferðamönnum fækki. Varfærnar spár gera ráð fyrir að ferðamenn verði 36% fleiri á árinu 2015 en þeir voru 2012. Fréttir berast af mikilli uppbyggingu gistihúsa en þrátt fyrir áætlaða fjölgun þeirra er enn nokkuð í land með að eftirspurn verði fullnægt. Þessi þensla gæti hins vegar farið að nálgast þolmörk náttúru og samfélags á ákveðnum stöðum á landinu. Mögulegar lausnir vegna þessa eru nú ræddar í starfshópi iðnaðarráðherra og gætu falist í einhvers konar gjaldtöku.

Þrátt fyrir að þessi nýja atvinnugrein hafi bjargað miklu hefur neysla ferðamanna farið minnkandi á undanförnum árum að raunvirði, þegar tekið hefur verið tillit til fjölgunar ferðamanna og gistinátta. Ferðamennirnir eyða að meðaltali minna en áður. Ferðaþjónustuaðilar einbeita sér nú að því að skapa umhverfi fyrir eyðsluglaðari ferðamenn, laða að ólíka hópa og búa til verðmætari vörur. En hvað hefur þetta að gera með ríka frændann og Reykjavíkurborg?

Niðurgreidd afþreying

Útsvarsgreiðendur í Reykjavík niðurgreiða mikið af afþreyingu fyrir þennan mikla fjölda gesta. Þrjátíu prósent erlendra gesta fara í sund í Reykjavík. Miðaverðið þar stendur hins vegar einungis undir 25% af raunkostnaði við sundlaugarferðina. Reykvíkingar borga þessi 75% sem út af standa. Næstum 40% erlendra gesta skoða listasöfn borgarinnar.

Aðgangsmiðinn í okkar fallega Ásmundarsafn kostar til dæmis 20% af raunkostnaði og því greiða Reykvíkingar 80% af miðaverðinu í gegnum skattkerfið. Sama gildir um strætómiða þar sem erlendi ferðamaðurinn greiðir 30% af kostnaðinum við ferðina en útsvarsgreiðendur sjá um afganginn. Svona mætti áfram telja en samantekið niðurgreiða íbúar í Reykjavík spennandi valkosti fyrir ferðamenn um 75 prósent að meðaltali.

Finnum leiðir

Eru borgarbúar búnir að átta sig á þessari þróun? Það er löngu kominn tími á stefnumarkandi umræðu um forgangsröðun fjármuna til grunnþjónustu. Það blasir við að íbúar hafa ekki efni á að niðurgreiða þjónustu fyrir hundruð þúsunda annars ágætra gesta á ári hverju. Borgarbúar eru til dæmis óþolinmóðir gagnvart lélegu viðhaldi og styttri opnunartíma í sundlaugum borgarinnar sem stafar af þurrum sjóðum borgarinnar. Nauðsynlegt viðhald eykst vitaskuld mikið samhliða aukinni notkun.

Afþreying borgarinnar keppir að auki beint og óbeint við fjölmörg fyrirtæki í einkaeigu. Við viljum að slíkum fyrirtækjum fjölgi og að þau blómstri en samkeppni við niðurgreidda afþreyingu á vegum borgarinnar hjálpar ekki til við þá þróun.

Er ekki kominn tími á nýja hugsun? Leiðirnar eru fjölmargar en þeim verður ekki komið á án hugsunar eða frumkvæðis Reykjavíkurborgar. Það felast mikil tækifæri í ferðamennsku fyrir Reykjavíkurborg sem og fyrirtæki í borginni, sérstaklega með tengingu menningar- og ferðaþjónustu. Brandarar um tollahlið og feita frændur eru ágætir í sjálfu sér en duga skammt án skýrrar stefnu og frumkvæðis þeirra sem ráða för í Reykjavík.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. október 2013.

Lesa meira


10

10 2013

Tilkynning um þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sækist eftir fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi sveitastjórnarkosningar. Prófkjörið fer fram þann 16. nóvember næstkomandi.

Þorbjörg Helga hefur setið í borgarstjórn frá 2006 og hefur í störfum sínum einkum lagt áherslu á mikilvægi þess að efla grunnskólakerfið og auka gagnsæi og aðhald í fjármálum borgarinnar. Þorbjörg  telur að mikilvægt sé að setja málefni eldri borgara í forgrunn þar sem að þau muni verða stærri þáttur í rekstri borgarinnar næstu árin.

„Ég gef kost á mér í fyrsta sæti í Reykjavík fyrir komandi sveitastjórnarkosningar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Ég er í stjórnmálum af hugsjón og skólamálin eru forgangsmál. Helsta verkefnið í dag er að bæta skólakerfið. Ef engar breytingar eiga sér stað og að flatur niðurskurður verður áfram staðreynd endum við með skólakerfið í sömu stöðu og heilbrigðiskerfið. Það er nauðsynlegt að auka gegnsæi og aðhald í fjármálum með skýrri langtímastefnu. Ég vil lifandi og heilbrigða borg sem er full af valkostum í húsnæðismálum, samgöngukostum og skólamálum. Það er tímabært að innleiða breytingar í borginni.” segir Þorbjörg Helga.

Þorbjörg Helga er með meistaragráðu í námssálarfræði frá University of Washington í Bandaríkjunum og BA próf frá Háskóla Íslands í uppeldis- og menntunarfræði.  Áður en hún tók sæti í borgarstjórn var hún ráðgjafi menntamálaráðherra og starfaði þar áður við kennslu og verkefnastjórnun í Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. Þá hefur Þorbjörg meðal annars setið í stjórnum fyrirtækja Reykjavíkurborgar, í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga og Háskólaráði Háskóla Íslands.

Framboð Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur

Lesa meira