PISTLAR


28

03 2013

Fjármálaólæsi þjóðar

Kallað er eftir því að skólar leggi meiri áherslu á kennslu í fjármálalæsi. Sú krafa er eðlileg enda var Íslendingum gefin einkunnin 4,3 í fjármálalæsi í rannsókn Háskólans í Reykjavík 2009.

Í skýrslu nefndar skipaðri af viðskiptaráðherra kom auk þess fram að einungis 4,6% aðspurðra töldu sig hafa öðlast fjármálaskilning í skóla. Í nýrri aðalnámskrá grunnskóla er kveðið á um að kennt sé fjármálalæsi og frá því sl. haust hafa sex grunn- og framhaldsskólar tekið þátt í tilraunakennslu. Markmiðið er að fræða ungmenni um fjármál og efnahagsmál svo þau verði hæfari til að takast á við eigin fjármál og skilji betur efnahagskerfi heimsins. Skólar eru þannig að byrja að fylgja þessum kröfum eftir þó það verði seint þannig að færni í fjármálalæsi verði alfarið á ábyrgð skólakerfisins.

Áhætta og ávöxtun
Viðskiptaráðherra skipaði fyrrgreinda nefnd til að kanna frekar stöðu fjármálalæsis á Íslandi árið 2008. Þegar til kom þurfti þó að fresta útgáfu skýrslu nefndarinnar vegna hruns íslenska hlutabréfamarkaðarins sem féll um 95% frá sumrinu 2007 og til byrjunar árs 2009. Sjálf kreppan mikla í Bandaríkjunum var ekki einu sinni svona slæm, en þá lækkaði bandaríski hlutabréfamarkaðurinn um 89% á þriggja ára tímabili. 

Ástæða þess að hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi lækkaði svona skelfilega mikið var sú að flest fyrirtækin sem mynduðu íslensku hlutabréfavísitöluna lækkuðu ekki bara í virði heldur urðu gjaldþrota. Árangur áranna þar á undan var hins vegar „glæsilegur", sé horft til þeirrar ávöxtunar sem náðist á því tímabili. Vandamálið var að sá árangur náðist með gríðarlegri áhættu sem kom ekki að sök fyrr en illa áraði. Skammtímaávöxtunin var glæsileg en langtímaávöxtunin engin.

Ávöxtunarleikur sem fjármálalæsi
Áhugi almennings á hlutabréfum sem sparnaðarleið er alltaf lítill eftir miklar lækkanir hlutabréfa. Í því ljósi er skiljanlegt að Keldan, ásamt Kauphöllinni og fleiri aðilum sem hafa hag af því að íslenskur hlutabréfamarkaður blómstri, ráðist í að búa til leik sem ýtir undir áhuga almennings á hlutabréfum. Leikurinn kallast Ávöxtunarleikurinn og gengur nákvæmlega út á það og að stuðla að auknu fjármálalæsi þjóðarinnar. Leikurinn kynnir íslensk hlutabréf og skuldabréf fyrir stórum hópi fólks, þar með talið mörgu ungu fólki, sem annars liti ekki við slíkum verðbréfum í kjölfar hruns íslenska markaðarins. Í þessu ljósi er leikurinn sniðugur.

Sem kynning á verðbréfum sem leið fyrir langtímasparnað venjulegs fólks er leikurinn hins vegar varasamur. Hann ýtir undir skammtímahugsun sem ætti að kenna öllum frá blautu barnsbeini að forðast þegar kemur að fjárfestingum í hlutabréfum. Hver nær bestri ávöxtun yfir nokkurra mánaða tímabil skiptir nefnilega engu máli í raunveruleikanum! Í Ávöxtunarleiknum vinnur sá sem nær hæstri ávöxtun yfir rúmlega hálfs árs tímabil. Að auki er þeim keppendum sem standa sig best í hverjum mánuði veitt sérstök verðlaun en þeir hljóta titilinn hástökkvari mánaðarins. Þetta minnir á árin fyrir hrun þegar íslenskir fjárfestar kepptust við að ná sem mestri ávöxtun á sem skemmstum tíma. Fjölmiðlar kepptust þá við að flytja fréttir af árangrinum og birt voru viðtöl við þá sem stóðu sig best. Viðskiptamenn ársins voru oftast þeir sem höfðu tekið mestu áhættuna það árið.

Skammtímahugsun verðlaunuð
Leiðin til að vinna leik í ávöxtun þar sem aðeins er horft til nokkurra mánaða er sú að taka sem mesta áhættu. Þetta er gert með því að kaupa sem fæst hlutabréf eða skuldabréf en taka á móti stærri stöður í hverju þeirra og treysta svo á lukkuna. Í leiknum er sem betur fer sett hámark á það hversu langt er hægt að ganga í þessum efnum þar sem ekki er hægt að fjárfesta fyrir meira en 25% af heildareign í einu verðbréfi eða gjaldmiðli. Þetta er hins vegar miklu meiri samþjöppun á eignasafni en mælt er með. Slíkt getur að sjálfsögðu gengið til skemmri tíma, en sá sem hegðar sér á þennan hátt til lengri tíma fer nánast örugglega á höfuðið fyrr eða síðar. 

Mat á áhættu og langtímahugsun eru þeir þættir sem er mikilvægast að kenna þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref á hlutabréfamarkaði, kaupa sér íbúð eða ætla að tileinka sér færni í fjármálalæsi. Allir þurfa þannig að taka ábyrgð á að bæta fjármálalæsi þjóðarinnar. Leiki eins og Ávöxtunarleikinn þarf að ígrunda vel, alveg eins og námsefni grunnskóla. Ekki síður þurfa stjórnmálaflokkar, sem keppast nú við að bjóða kjósendum galdralausnir vegna vanda sem orsakaðist vegna skorts á langtímahugsun við ávöxtun fjármuna, að hugsa sinn gang. Galdralausnirnar eru ekki til, ekki frekar en gervipeningarnir í Ávöxtunarleiknum.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 28. mars 2013.

Lesa meira

15

03 2013

Hugleiðingar um spægipylsur

Besti flokkurinn kom, sá og sigraði í borgarstjórnarkosningunum fyrir þremur árum. Andrúmsloftið gagnvart stjórnmálamönnum var neikvætt og traust til þeirra í lágmarki. Kjörtímabilið á undan endurspeglaði erfiða tíma og opinberun á slæmum ákvörðunum. Besti flokkurinn naut góðs af þessu í kosningunum auk þess sem háð og brandarar um loforð sem yrðu aldrei uppfyllt tóku málefni úr samhengi. Í dag er Besti flokkurinn í samstarfi við Samfylkinguna sem hlaut einungis 19% fylgi. Þrátt fyrir það fer Samfylkingin fyrir málaflokkum sem ráðstafa 75% af skatttekjum borgarinnar og Dagur B. Eggertsson er formaður borgarráðs. Í ákvarðanatöku er Besti meira upp á punt.

Samstarfsflokkur Samfylkingarinnar í landsmálunum hefur ekki verið sama strengjabrúðan. Forsætisráðherra smalar köttum og þingmál hafa verið í uppnámi allt kjörtímabilið. Það gengur ekkert með stærsta mál Samfylkingarinnar, Evrópusambandið, og flokksmenn gagnrýna samstarfssamning ríkisstjórnarflokkanna harkalega. Ríkisstjórnin er afar óvinsæl og fylgi við Samfylkingu mælist hið minnsta í 13 ár. Samfylkingin skynjaði fyrir nokkuð löngu síðan að hún gæti þurft nýja leið út úr sínum vandræðum.

Spægipylsa í nýjum búningi
Í markaðsfræðum er fyrirbærið útvíkkun á vöru eða vörulínu vel þekkt (e. line extension). Þá er ný vara sett á markað sem byggir á eldri vöru. Viðbótin getur falist í nýjum lit, breyttu magni eða nýrri framsetningu. Ágætt dæmi er þegar kjötframleiðandinn Oscar Mayer lenti í vandræðum með sölu á spægipylsum á níunda áratug síðustu aldar sem þóttu óhollar og gamaldags. Ákveðið var að búa til nýja vörulínu með því að setja gömlu pylsurnar í nýjan búning. Öllu gumsinu var pakkað í umbúðir sem voru kallaðar „Lunchables", ýmsu óhollu raðað með í pakkann og hann markaðssettur. Nýja varan seldist grimmt þó innihaldið væri enn verra en upprunalega spægipylsan.

Samfylkingin hefur eflaust ákveðið svipaða leið. Á einhverju stigi varð til hugmyndin um að stofna nýjan flokk sem gæti hirt óánægjufylgið en væri um leið tilvalinn samstarfsflokkur eftir næstu kosningar. Besta flokks hugmyndin, þar sem popparar og vinalegt fólk laust við pólitíska árekstra, var stórgott módel. Tryggja þyrfti lítið framboð sem væri skemmtilegt og jákvætt og fengi atkvæði út á neikvæða umræðu um stjórnmálamenn sem enn virtist gegnsýra samfélagið. Málefnalega þyrfti útibú Samfylkingarinnar hins vegar að vera keimlíkt móðurfélaginu.

Minna vesen


Líklega hefur runnið upp fyrir herstjórnarfræðingunum að auðveldasta leiðin til að útbúa litla útibúið væri að fá Besta flokkinn með í ráðabruggið. Þegar nánar er að gáð eru þeir nefnilega sami flokkurinn, Bjarti og Besti, en ekki systraflokkar eins og markaðssetningin hefur gengið út á. Bæði öflin eru sett fram til höfuðs hinum „leiðinlegu stjórnmálamönnum" og boða „minna vesen", „það besta úr öllum stefnum" og „fjölbreytni og sátt". Stefnumál beggja eru fullkomlega óljós, mesta vinnan hefur farið í ímyndarvinnu og framboðslistar þeirra eru valdir af þröngum hópi fólks þar sem vesenið við lýðræðislega framkvæmd er lágmarkað. 

Að auki er þetta allt sama fólkið. Borgarstjóri, aðstoðarmaður hans, framkvæmdastjóri og allir borgarfulltrúar Besta flokksins fyrir utan einn hafa raðað sér á lista Bjartrar framtíðar. Ekki skal túlkað hér hvaða skilaboð þetta sendir borgarbúum um áhuga þeirra á málum borgarinnar en ljóst er að klíka Besta flokksins er nú með hugann við landsmálin. Þeim er kannski vorkunn þegar haft er í huga að Samfylkingin situr í bílstjórasætinu í borginni.

Stærra útibú


Björt framtíð er þannig sköpuð sem systurflokkur Samfylkingarinnar. Hressilegri, laus við ábyrgð á miklum skattahækkunum og árangursleysi í framkvæmdum og ekki brennimerkt óvinsælum ákvörðunum. Nýja afurðin virkar öðruvísi ef kjósendur sjá ekki í gegnum nýju umbúðirnar. Á landsfundi Samfylkingarinnar sagði Jóhanna Sigurðardóttir að „með öflugum jafnaðarmannaflokki eins og Samfylkingunni gætu þessir smærri flokkar lagt ríkulega af mörkum". Ekki óraði þáverandi formann Samfylkingarinnar fyrir að fylgi Bjartrar framtíðar yrði meira en fylgi Samfylkingarinnar eins og skoðanakannanir hafa sýnt fram á. Að stóra Samfylking yrði minni en litla Samfylking var líklega ófyrirséður vinkill.

Ólíkt spægipylsuframleiðandanum sem var nokk sama hvor seldist betur, gamla pylsan eða sú nýja, er ólíklegra að forysta Samfylkingarinnar kætist verði það niðurstaðan að litla Samfylkingin verði stærri en frumgerðin. Þó má vera að þeim standi alveg á sama. Þau vita jú, sé mið tekið af borginni, að þau ráða ferðinni ef til samstarfs kemur.

Lesa meira

05

03 2013

Hjólar fröken Reykjavík?

Fyrir ári síðan, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, samþykkti borgarráð að hleypa af stokkunum hjólafærniverkefni sem þeir kölluðu „Fröken Reykjavík á hjóli". Þann dag ákvað meirihlutinn að fundin yrði skýring á þeim mikla mun sem er á hjólanotkun karla og kvenna en einungis 8% kvenna hjóla að jafnaði á móti 17% karla allt árið. Ákveðið var að auka fræðslu um hjólafærni kvenna. Bæta átti aðstöðu fyrir reiðhjól á kvennavinnustöðum borgarinnar sérstaklega og skoða fleiri leiðir svo að „bæði konur og karlar" gætu nýtt sér „þennan holla, ábyrga og ódýra ferðamáta".

Lítið hefur heyrst af árangri þessa verkefnis. Samkvæmt starfsfólki borgarinnar hafa hjólafærninámskeið staðið yfir fyrir konur sem vinna í grunn- og leikskólum borgarinnar. Kennsla kvenna í hjólafærni hljómar við fyrstu sýn eins og kenna eigi konum að hjóla en svo sanngirni sé gætt er rétt að taka fram að á námskeiðunum er hjólið kynnt sem farartæki ásamt því sem fram fer fræðsla um öryggismál, hjólaleiðir og fleira.

Borgarmær í kjól og á hælum

Heiti verkefnisins vekur upp skemmtilega mynd af iðandi borgarlífi þar sem konur jafnt sem karlar hjóla í vinnuna. Fröken Reykjavík birtist sem glæsileg borgarmær í kjól og á hælum sem líður hjólandi um borgina og sinnir erindum sínum á leið í eða úr vinnu. Borgaryfirvöld hafa í nokkur ár bætt aðgengi fyrir hjólreiðafólk og fjárfest mikið í tvöföldun hjólastíga í borginni. Svo mikið hefur verið fjárfest að mörgum þykir nóg um á sama tíma og niðurskurður er mest notaða orðið í flestum málaflokkum.

Það er vandfundinn sá einstaklingur sem er á móti umhverfisvernd. Fáir mótmæla átaki sem miðar að því að borgarbúar taki sig á við að flokka rusl, minnka útblástur bifreiða eða sleppa nagladekkjum þar sem því verður við komið. Mörg verkefni standa yfir sem eiga að stuðla að breyttum venjum og hefðum svo umhverfið njóti góðs af.

En hafði meirihlutinn í Reykjavík eitthvað hugsað út í orsök þess hve fáar konur nota hjól sem farartæki miðað við karla þegar ákveðið var að ráðast í verkefni að fjölga hjólandi konum? Var ekki öllum ljóst af hverju konur hjóla minna en karlar til vinnu?

Að sjálfsögðu vilja konur hjóla

Konur, jafnt sem karlar, þekkja vel af hverju það er gott að hjóla. Þær vita að það er góður kostur fyrir umhverfið, sparar eyrinn í buddunni og er gott fyrir líkamlegt atgervi. Til þess þarf engin hjólafærninámskeið á kvennavinnustöðum. 

Konur vita jafnframt allar sem ein að þær eru í miklum meirihluta þegar kemur að því að sjá um fjölskylduna og börnin, eldri borgarana og heimilið. Þær eru líklegri til að vinna minna út af þessum verkefnum, þiggja lægri laun fyrir vikið og eru líklegri til að velja störf sem bjóða upp á þann sveigjanleika sem þarf til að þær komist í gegnum þessi verkefni. Konur eru líklegri til að sjá um innkaup, fara með börnin til læknis, í tónlist, íþróttir eða danstíma.

Konur vita að þó að þær þekki kosti hjólreiða er í langflestum tilfellum óraunhæfur kostur fyrir þær að nota hjól sem sinn aðalferðamáta. Það að karlar hjóli meira en konur er afleiðing þess kerfis sem við búum við en ekki einhver umhverfisvæn hegðun sem er á færi yfirvalda að breyta.

Byrjum í fyrsta gír

Forgangsröðunin í þessu máli er sannarlega röng og því sem næst hjákátleg. Fröken Reykjavík myndi hjóla jafnmikið ef seinni vaktinni, verkefnum og skipulagi heimilisins væri jafnar skipt.

Herra og frú Reykjavík gætu jafnvel ferðast saman hjólandi ef samþætting tómstunda og skóla væri ekki einungis fjarlægur draumur í flestum skólum. Mun fleira þyrfti þó að koma til. Hverfisstrætó þyrfti að koma krökkunum milli staða. Mörg hverfi þyrftu að þéttast verulega. Matvöruverslanir, þar með taldar lágvöruverðsverslanir, þyrftu að senda matinn heim. Læknatímar þyrftu að færast inn í skólana og eða vera utan hefðbundins vinnutíma. Eldri borgarar þyrftu að geta gengið sjálfir út í búð og apótek og náð í það sem þá vanhagar um.

Herra Reykjavík setur í vél

Mikilvægasta verkefnið af öllu væri þó að tala um hlutina eins og þeir eru. Nú rennur baráttudagur kvenna upp aftur þann 8. mars eða eftir rúma viku. Kannski meirihlutinn í Reykjavík standi í þetta skiptið að verkefni sem stuðlar að því að herra Reykjavík taki aukinn þátt í heimilisrekstrinum? Þátttaka karla í þeim rekstri er jú sannarlega umtalsvert minni en þátttaka kvenna. Svo framhald verði á „Fröken Reykjavík á hjóli" mætti setja á fót heimilisnámskeiðið „Herra Reykjavík þvær þvott". Hvað ætli borgarbúum fyndist um slíkt námskeið?

Lesa meira