Siglfirðingar framhald

Ég fékk tölvupóst í gegnum föður minn frá áhugamanni um ættfræði Siglfirðinga.   Það hefur einhver tekið að sér að skoða borgarfulltrúana líka, kannski vegna færslu minnar um daginn.  Birti tölvupóstinn hér að neðan en enn vantar upplýsingar um Sóleyju Tómasdóttur.

Pabbi er að vísu fæddur í Reykjavík en flutti nokkurra vikna norður.  Afi er ættaður úr Fljótunum en amma var frá Vestmannaeyjum og hitti afa fyrir norðan.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og borgarstjóri, er sonur Eggerts Gunnarssonar dýralæknis og Bergþóru Jónsdóttur lífefnafræðings. Bergþóra er fædd á Siglufirði, dóttir Jóns Hjaltalíns Gunnlaugssonar, sem var heimilislæknir þar frá 1947 til 1955.

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er dóttir Þórunnar Jensen og Frímanns Gústafssonar trésmiðs, sem er fæddur og uppalinn á Siglufirði, sonur Gústafs Guðnasonar olíubifreiðastjóra og Jórunnar Frímannsdóttur sem býr á Siglufirði.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er dóttir Vigfúsar Árnasonar endurskoðanda, sem er fæddur og uppalinn á Siglufirði, sonur Helgu Hjálmarsdóttur og Árna Friðjónssonar síldarsaltanda (bróður Vigfúsar Friðjónssonar). Móðir Þorbjargar Helgu er Ólöf G. Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur. Afi hennar var Sveinbjörn Jónsson byggingameistari, framkvæmdastjóri Ofnasmiðjunnar, en hann var oft á Siglufirði á fyrri hluta tuttugustu aldar.

 

Þá má geta þess að Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, á mikið af skyldfólki á Siglufirði. Afi hennar í móðurætt er Benedikt Kristinn Franklínsson, bróðir Guðbjargar, Guðborgar, Margrétar og Nönnu Franklínsdætra. Afabróðir Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, var Ólafur Ragnars síldarsaltandi á Siglufirði.