Tilkynning um þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sækist eftir fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi sveitastjórnarkosningar. Prófkjörið fer fram þann 16. nóvember næstkomandi.

Þorbjörg Helga hefur setið í borgarstjórn frá 2006 og hefur í störfum sínum einkum lagt áherslu á mikilvægi þess að efla grunnskólakerfið og auka gagnsæi og aðhald í fjármálum borgarinnar. Þorbjörg  telur að mikilvægt sé að setja málefni eldri borgara í forgrunn þar sem að þau muni verða stærri þáttur í rekstri borgarinnar næstu árin.

„Ég gef kost á mér í fyrsta sæti í Reykjavík fyrir komandi sveitastjórnarkosningar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Ég er í stjórnmálum af hugsjón og skólamálin eru forgangsmál. Helsta verkefnið í dag er að bæta skólakerfið. Ef engar breytingar eiga sér stað og að flatur niðurskurður verður áfram staðreynd endum við með skólakerfið í sömu stöðu og heilbrigðiskerfið. Það er nauðsynlegt að auka gegnsæi og aðhald í fjármálum með skýrri langtímastefnu. Ég vil lifandi og heilbrigða borg sem er full af valkostum í húsnæðismálum, samgöngukostum og skólamálum. Það er tímabært að innleiða breytingar í borginni.” segir Þorbjörg Helga.

Þorbjörg Helga er með meistaragráðu í námssálarfræði frá University of Washington í Bandaríkjunum og BA próf frá Háskóla Íslands í uppeldis- og menntunarfræði.  Áður en hún tók sæti í borgarstjórn var hún ráðgjafi menntamálaráðherra og starfaði þar áður við kennslu og verkefnastjórnun í Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. Þá hefur Þorbjörg meðal annars setið í stjórnum fyrirtækja Reykjavíkurborgar, í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga og Háskólaráði Háskóla Íslands.

Framboð Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur