Verkfærakistur

Þekkt er sú brotalöm íslenska menntakerfisins að ekki hefur tekist að beina nemendum í nægum mæli í iðn- og starfsnám. Afleiðingar þessa eru skortur á faglærðu fólki í ýmsum iðngreinum og lægra hlutfall ungs fólks sem lokið hefur formlegu prófi úr framhaldsskóla með þjálfun sem nýtist atvinnulífinu. Skortur á fagmenntun er atvinnulífinu dýr því tími, efni og tæki fara í að þjálfa upp starfsfólk. Einnig aukast líkur á að óþjálfað starfsfólk finni sig illa í starfi og hverfi því fljótt annað. Mikið hefur verið rætt um ástæður þessa og oftast beinast spjótin að framhaldsskólum landsins. Það er ómaklegt því rannsóknir sýna að náms- og starfsáhugi barna mótast mun fyrr. Það er því líklega of seint að gefa unglingum ekki kost á að kynnast iðn- og starfsnámi að neinu marki fyrr en þeir eru 16 ára.

Í ljósi þessa lagði ég fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í borgarstjórn vorið 2008 um hugmyndir til að kynna starfs- og iðnnám fyrir leik- og grunnskóla. Í kjölfarið var sett á laggirnar nefnd til að setja hugmyndirnar í framkvæmd. Sumar hugmyndanna eru kostnaðarsamar og verða að bíða. Hugmynd sem verður að veruleika í haust felur í sér að útbúnar verða verkfærakistur sem verða í förum milli leik- og grunnskóla borgarinnar. Í kistunum verða raunveruleg tæki og tól ýmissa iðngreina og er innihaldið ákveðið í samstarfi kennara og fagfólks. Fagfólk kemur síðan í heimsókn í skólana til að sýna meðferð verkfæranna, spjalla við krakkana og leyfa þeim að skoða, prófa og spyrja. Með kistunum fylgir fræðsluefni ásamt hugmyndum að verkefnum og leikjum.

Verkfærakisturnar eru gott dæmi um farsæla samvinnu stjórnvalda, skóla og atvinnulífs til að ná fram sameiginlegu markmiði sem er að tryggja að hæfir og duglegir nemendur veljist í þau fög þar sem áhugi þeirra liggur. Aukin iðnmenntun snýst ekki bara um að hjálpa nemendum að finna sér farveg í lífinu heldur einnig um að hjálpa samfélaginu á tímum þar sem nýsköpun og frumkvöðlastarf er nauðsyn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2010.